Monday, September 22, 2014

Skilningshamlandi skrif Þórs Whitehead um upphaf seinna stríðs

[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]

(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?

"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs

Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.

En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir: 

"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).

Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu: 

"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).

Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar ­ en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.


Þjóðviljinn á dögum griða- sáttmálans: stefnuskrið

Sögufróðir menn vita að veruleg breyting varð á pólitík kommúnista eftir griðasáttmála Hitlers og Stalíns, einnig hér á Íslandi. En myndin sem blasir við ef skoðuð eru málgögn kommúnista og Sósíalistaflokksins á umræddu tímabili er samt talsvert önnur en Þór dregur upp. Og það þarf býsna sterk "pólitísk gleraugu" til að lesa þau eins og hann gerir. Ég fór að fletta Verklýðsblaðinu, Þjóðviljanum og Rétti. Á tímabilinu frá 1934 og fram að griðasáttmálanum í ágúst 1939 vitna blöðin um harðskeytta baráttu gegn fasisma og stríðshættu. "Samfylking gegn fasisma" varð eitt helsta kjörorð kommúnista og málflutningur þeirra þar virðist hafa haft breiða skírskotun því baráttan fæddi af sér öfluga hreyfingu, með kröfugöngum og tíðum fjöldafundum gegn fasisma, ekki síst meðal verkamanna. Sá hópur rithöfunda og menntamanna sem hrærðist kringum Mál og menningu var líka mjög meðvitaður og virkur í baráttu gegn fasisma og stríðshættu. Í Þjóðviljanum er það frá byrjun meginstef í utanríkismálum að berjast gegn undanláts- og "friðkaupastefnunni" gagnvart yfirgangi Þýskalands, Ítalíu og Japans, þeirri stefnu sem birtist síðan í Münchensamkomulaginu 1938.

Eftir griðasáttmálann í ágúst 1939 verður áróður gegn Hitler vissulega minni en fyrr og áróður gegn Bretum meiri en áður. En stefnubreytingin verður þó ekki skyndilega. Þór Whitehead gefur í skyn, að flokkurinn hætti að berjast gegn fasismanum, jafnvel styðji hann, og túlkar afstöðu hans m.a. svona: "Þjóðviljinn taldi, að það yrði til mestu ógæfu ef Hitler tapaði fyrir Vesturveldunum ... Nasistar voru hæglætismenn, þá þurfti ekki að óttast ..." (69) Hann ýjar að ýmsu sem gefur hugmynd um sálufélag fasista og kommúnista, án þess þó að birta heimildir. Gott væri að fá heimildir fyrir því að þýski ræðismaðurinn hafi haft "velþóknun á Þjóðviljanum" og hafi á fundum talað "eins og hann væri blaðafulltrúi Stalíns á Íslandi" (bls. 192 og 41).

Málflutningur Þjóðviljans gagnvart stríðinu þessi tæpu tvö ár eftir ágúst 1939 gekk gegnum þróun. Segja má að spurningin hafi snúist um eðli stríðsins og svarið við þeirri spurningu skipti mestu um afstöðu kommúnista til stríðsins, hér sem annars staðar. Tvenns konar afstaða til stríðsins kom til álita. Væri þetta hreint "heimsvaldastríð" þ.e.a.s. stríð heimsvaldasinna um enduruppskiptingu áhrifasvæða, eins og kommúnistar höfðu skilgreint fyrri heimsstyrjöldina, þá bæri alþýðu allra landa að hundsa þátttöku í slíku stríði. Svar alþýðu við slíku stríði var sóknarbarátta fyrir sósíalisma eftir leiðum stéttabaráttu í hverju landi fyrir sig. Ef hins vegar hið yfirvofandi stríð var stríð með og móti fasisma, afturhaldi í sókn og sérlega árásarhneigðri og hættulegri tegund af heimsvaldastefnu, þá bar alþýðunni að taka afstöðu. Þá var svarið varnarbarátta, samfylking allra sem sameina mætti til varnar friðinum og áunnu lýðræði.

Hvernig túlkaði Þjóðviljinn griðasáttmálann fyrst eftir undirritun hans? Vissulega ekki þannig að fasisminn væri orðinn hættulaus. Heldur þannig að undangengnar samningatilraunir Sovétmanna við Breta og Frakka hefðu siglt í strand, og "friðkaupastefnan" ætti sök á því. Griðasáttmálinn væri eðlileg afleiðing af "svikunum í München" (sjá Þjv. 29. ág.) og afleiðing af "veikleika og sundrungu lýðræðisaflanna í Vestur-Evrópu". (27. ág) Daginn eftir innrás Þjóðverja í Pólland kallar Þjóðviljinn hana "árásarstríð nasismans á Pólland" og skrifar að Bretum og Frökkum beri að standa við loforð sín um að verja Pólverja (1. sept). Blaðið lýsir vasklegri vörn Pólverja og hvetur til baráttu fyrir "friði og sjálfstæði Austurríkis, Tékkóslóvakíu og Póllands" (4. sept). Ekki var fullur samhljómur milli eigin skrifa Þjóðviljamanna og Moskvu. Blaðið birti yfirlýsingar frá Moskvu sem þá voru orðnar mun harðorðari í garð Breta en Þjóðverja. Þjóðviljinn tekur reyndar undir þann nýja tón frá Moskvu að stríðið sé "heimsveldastríð" en sagði jafnframt að þýska auðvaldið ætti höfuðsök á þessu stríði, óvinur númer tvö væri ensk/franska auðvaldið (sjá 5. sept).

Halldór Kiljan Laxness ritaði tvær greinar í blaðið um stríðið, 9. og 27. september. Túlkun hans á griðasáttmálanum var mörkuð byltingarbjartsýni. Hann túlkar hann sem vitnisburð um að Hitler leggi ekki í Sovétmenn vegna herstyrks þeirra. Samningurinn ónýti "fasismann sem fagnaðarboðskap gegn bolsévisma" (hann nefndi ekki að bolsévisminn sem fagnaðarboðskapur gegn fasisma væri að sama skapi torveldaður). En hann bendir réttilega á, að hið nýhafna stríð sé váleg tíðindi fyrir auðvaldið, þ.e. "tvær meginstoðir auðvaldsins taka upp skilyrðislausa útþurkunarstefnu hvor gagnvart annarri". Í því samhengi metur hann það svo að með stríðinu hafi bolsévisminn fengið "lyklavöldin að Evrópu" og muni "ekki láta staðar numið við ána Veiksel" (sem nú var markalína milli þýskra og sovéskra herja í Póllandi). Þetta var einhliða túlkun á stríðinu sem "heimsvaldastríði". Í stríðsfréttunum þykist hann heyra feigðarspá kapítalismans og svarið er að hans áliti sókndjörf barátta fyrir sósíalismanum. En áðurnefnd útlegging Þórs Whitehead á greinum Halldórs sýnir að með allan sinn lærdóm um kommúnisma er hann illa læs á málflutning kommúnista og róttæklinga þessara ára. Það er afar ólíklegt að Halldór hugsi sér sókn sósíalismans sem skriðdrekaárás Sovétmanna í vestur. Hins vegar var hin byltingarbjartsýna túlkun Halldórs á samningnum ekki dæmigerð fyrir skrif Þjóðviljans þessar vikur. Blaðið hafði t.d. talað sem minnst um hernám sovéskra herja á austurhéruðum Póllands, sem hófst 17. september. En Halldór sér ljósu hliðarnar og telur það hernám af því góða m.a. af því það þýði landvinninga bolsévismans.

Næsti kafli hefst 30. september. Þá birtir Þjóðviljinn sameiginlega yfirlýsingu Þjóðverja og Rússa eftir skiptingu Póllands. Þar er hvatt til friðar og Bretar og Frakkar gerðir ábyrgir ef þeir haldi ófriðinum til streitu. Þetta var líklega erfiður biti að kyngja og Þjóðviljamenn sögðu eiginlega ekkert frá eigin brjósti um stríðið lengi á eftir. Ekki fyrr en Brynjólfur Bjarnason birtir langa stefnumarkandi grein um stríðið 22. október. Hann túlkar griðasamninginn ekki sem neinn sigur fyrir sósíalismann heldur afleiðingu þess að "baráttan fyrir sameiginlegu öryggi mistókst". Þess vegna "reyna Sovétríkin að styrkja taflstöðu sína sem kostur er." Hann segir fasismann vera stefnu útþenslusinnaðs auðvalds sem sé innstillt á landvinningastríð. Hann segir Breta og Frakka bera mikla ábyrgð vegna linkindar sinnar við Hitler. Münchenarpólitík þeirra hafi sýnt að þeir hafi talið baráttuna við Sovétríkin brýnni en baráttuna við Hitler. "Þó þýski fasisminn sé erkióvinurinn á núverandi tímabili má ekki gleyma hinu að breska auðvaldið er sterkasti óvinurinn." Eftir það segir hann að stríðið sé "imperíalistísk styrjöld landvinningaþyrstra stórvelda". Þarna vegur salt greining á stríðinu sem fasískri útþenslustyrjöld og sem "klassísku" heimsveldastríði.

Nýja línan frá Moskvu var áréttuð í Þjóðviljanum á byltingarafmælinu 7. nóvember, nú frá Framkvæmdanefnd Kominterns, í greininni "Niður með stórveldastyrjöldina!" Þar segir að Evrópustríðið sé stríð Englands og Þýskalands um heimsyfirráð og alþýða hvött til að hundsa þátttöku, sósíaldemókratar eru m.a. mjög gagnrýndir fyrir að "styðja stríð" landa sinna í nafni þjóðareiningar. Í raun er höfuðábyrgð á framhaldi stríðsins lýst á hendur Bretum og Frökkum vegna stríðsyfirlýsinga þeirra. Eftir þetta verður sú stefna loksins alveg ofan á í blaðinu að skilgreina stríðið sem "heimsveldastríð".

Lýsandi dæmi um hægfara breytingu á málflutningi Þjóðviljans að þar sem talað var um "innrás nasista" á Pólland haustið áður skrifaði blaðið 10. apríl 1940 um "innrás imperíalismans" á Noreg og Danmörku. En nú tók við ný jafnvægislist: Að styðja fórnarlömb árása fasistaherjanna án þess að styðja Breta um leið. Eftir innrásina í Noreg gerir Þjóðviljinn mikið úr hetjulegri vörn Norðmanna og hvetur til stuðnings við þá, en fordæmir jafnframt allt brölt Breta í Noregi fyrir og eftir innrásina. Sama jafnvægislist var stunduð við innrásina í Holland, Belgíu og Frakkland, stuðningur við báttu þessara landa en þess gætt um leið að styðja ekki heimsvaldabrölt Breta.

Stefnubreyting aftur 1940

En í kjölfar þróunarinnar á vesturvígstöðvunum fer tónninn greinilega að þyngjast verulega í garð Þjóðverja, þótt ekki komi nýir tónar frá Moskvu þaraðlútandi, a.m.k. ekki opinberlega. Í stórri, stefnumarkandi grein í Rétti "Veraldarstríð og verkalýðshreyfing" sumarið 1940 segir:

Ef Þýskaland gengur sigri hrósandi út úr þessu stríði gerir það alla Evrópu að nýlendu sinni. Það mun fara ránshendi um eignir og menningu Evrópu, afnema þær fátæklegu leifar almennra og pólitískra mannréttinda, sem þar hafa verið, halda áfram vígbúnaði sínum til frekari landvinninga og þrotlausra mannvíga. Framundan verður glórulaust svartnætti fasistískrar villimennsku og þýzks herradóms í miklum hluta heims (25. árg. bls. 17).

Bretum eru ekki gefnar neinar viðlíka einkunnir í greininni heldur aðeins varað við að sigur Englands geti leitt af sér nýjan Versalafrið. Á þessum tíma voru stórar, pólitískt þungvægar (oft ómerktar) greinar í ritinu yfirleitt ritaðar af Einari Olgeirssyni eða Brynjólfi Bjarnasyni og líklega á það við þarna. Vissulega voru þessi skrif víðsfjarri öllu sem þá birtist frá Moskvu, ári fyrir innrásina í Sovét, og vandséð að kommúnistar séu þarna "helstu talsmenn nasista".

Framanskráð úttekt mín á málflutningi íslenskra kommúnista eftir griðasáttmála Hitlers og Stalíns sýnir vissulega að hann sveigir sig að hinni nýju pólitík í Moskvu. Það gerist þó eins og með nokkurri tregðu og eftirgangsmunum, og það er alls ekki svo að málflutningurinn "bergmáli" nokkurn tíma opinbera utanríkisstefnu Stalíns.

Breska hernámið

Sósíalistaflokkurinn tók afstöðu gegn hernámi Breta og hvatti mjög til árvekni gegn hernámsáhrifunum. En sú afstaða byggðist varla á þjónkun við Þjóðverja, heldur á greiningunni á "heimsvaldastríði". Haustið 1940 skrifar Einar Olgeirsson í Rétt:

Þjóðfrelsisbarátta Íslendinga mun í hinni nýju mynd sinni óhjákvæmilega tengjast bræðraböndum við frelsisöfl í öðrum löndum, sem beina baráttu sinni gegn sama drottni og hún ... frelsisbaráttu Indverja, Egypta, Búa og breska verkalýðsins ... Væru Íslendingar undir oki þýzka nazistíska auðvaldsins, væri frelsisbarátta vor fyrst og fremst tengd frelsisstríði Norðmanna, Dana, Hollendinga, Belgíubúa, Frakka, Austurríkismanna, Tékka, Slóvaka, Pólverja og hinnar þýzku alþýðu (25. árg. bls. 151).

Það er vert að benda á að greining íslenskra kommúnista á Bretum sem helsta andstæðingi meðal heimsvaldasinna var ekki ný. Jafnvel á 7. þingi Komintern í Moskvu 1935, þar sem samfylking gegn fasisma var gerð að aðalatriði, hélt Brynjólfur Bjarnason ræðu um "breska imperíalismann sem væri aðalarðræningi og drottnari gagnvart íslenskri þjóð" (sjá Einar Olgeirsson: Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar, bls. 76).

Allt frá hernámi Breta fluttist pólitíska þungamiðjan í baráttu sósíslista til, frá hreinni stéttapólitík með vaxandi áherslu á "þjóðlega baráttu". Haustið 1940 skrifaði Einar Olgeirsson í Rétt að þótt Sósíalistaflokkurinn telji sigur sósíalimans í heiminum vera skilyrði fyrir fullkomnu þjóðfrelsi "þá vill hann jafnt fyrir það vinna að þjóðfrelsinu með öllum þeim, sem af heilum hug vilja hönd á plóginn leggja, hvaða lífsskoðun sem þeir hafa" (25. árg. bls. 153). Þetta markaði ákveðin tímamót í baráttu vinstri sósíalista. Segja má að þeir hafi endanlega lagt á hilluna kjörorð Kommúnistaávarpsins "verkalýðurinn á ekkert föðurland" og skipað sér í fylkingarbrjóst í "þjóðvarnarbaráttunni".

Komintern og fasisminn

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði afar lofsamlega grein um bók Þórs Whitehead í Helgarpóstinn 14. desember og taldi einna athygliverðasta í henni "afhjúpun á eðli hins nýstofnaða Sósíalistaflokks sem fimmtu herdeildar Komintern á Íslandi." Fimmta herdeild þýðir landráðamenn, menn sem hjálpa innrásarliði. Hvað skyldi Jón Baldvin eiga hér við? Var þessi að sögn Jóns "Moskvustýrði kommúnistaflokkur", Sósíalistaflokkurinn, að undirbúa sovéska innrás hér árið 1939? (kannski þýska innrás vegna vináttu sinnar við Hitler?) Mér er spurn: hvaða nýjar upplýsingar hefur Þór Whitehead komið með sem réttlæta nafngiftina "fimmta herdeild"?

Athugum aðeins "Moskvustýringuna". Alþjóðasmband kommúnista, Komintern, var annars vegar hugsað, og virkaði líka, sem eins konar skóli í byltingarsinnuðum marxisma sem hélt á loft hinum byltingarsinnuðu lærdómum. Sem slíkt átti það mikinn þátt í útbreiðslu og afli hins róttæka sósíalisma milli stríða. Að hinu leytinu var það skipulagt sem miðstýrður heimsflokkur, með höfuðstöðvar í Moskvu. Þannig var miðstýringin prinsipp en ekki merki um úrkynjun. Hins vegar er það ljóst að miðstýringin gat af sér þjónkun heimsflokksins við sovésk sjónarmið. Hún batt aðildarflokkana við sovéska ríkishagsmuni og ól á ósjálfstæði þeirra í hugsun og starfi, eins og best kom í ljós 1939.

Lítum þá á stefnu Kominterns gagnvart fasismanum. Stefnan var alltaf tekin m.t.t. þróunarstefnu kapítalismans og sóknarmöguleikum sósíalismans. Sókndjörf stefna mótaði mjög "vinstri-tímabilið" 27-34. Hættan af fasismanum var þá mjög vanmetin. Fasisminn var greindur sem veikleikamerki kapítalismans, eins konar krampadrættir, dauðateygjur. Á 7. þingi Kominterns 1935 var staðan hins vegar greind sem meiri varnarstaða verkalýðs og sósíalismans, bæði gagnvart fasismanum í stéttabaráttunni og gagnvart fasísku ríkjunum á alþjóðavettvangi. Þar lagði Komintern áherslu á að greina milli auðvaldsríkja sem sýndu árásarhneigð og hinna (jafnvel heimsvaldasinna) sem vildu varðveita frið og status quo. Kommúnistum bæri að hvetja ríkisstjórnir til harðlínu gagnvart fasistaríkjunum. En staðan í Evrópu var flókin og jafnvægisgangan erfið. Það var t.d. mjög erfitt fyrir vinstri sósíalista, sem höfðu barist gegn hervél borgarastéttarinnar, að fara skyndilega að styðja her síns lands.

Sovétríkin og "sameiginlegt öryggi"

Eftir valdatöku Hitlers reyndu Sovétríkin mjög að rjúfa einangrun sína í utanríkismálum og reyndu að koma á skuldbindandi samningum um "sameiginlegt öryggi" í Evrópu. Þau voru eina ríkið sem beitti sér fyrir samstilltum og harkalegum aðgerðum gegn yfirgangi fasistaherjanna, m.a. veittu þau spænska lýðveldinu verulega aðstoð gegn árás fasistanna 1936 og Kína gegn innrás Japana 1937. Einkum reyndu Sovétmenn að samfylkja með Bretum og Frökkum en þar var "friðkaupastefnan" ráðandi og tilraunirnar báru lítinn árangur. Í München sömdu Vesturveldin um stóra hluta Tékkóslóvakíu til handa Hitler. Það jók ugg Sovétmanna um að Vesturveldin vildu gefa Hitler frjálsar hendur til austurs. Sá uggur jókst enn þegar Hitler án mótstöðu hertók afganginn af Tékkóslóvakíu í mars 1939. Sovétmenn reyndu hvað þeir gátu að fá Vesturveldin með sér til samstilltra hernaðaraðgerða og standa við varnarsamninginn við Tékka, en án árangurs. Og strax á eftir hóf Hitler hótanir á hendur Pólverjum. Eftir þetta gátu Sovétmenn komið á viðræðum við Breta og Frakka um handfastar hernaðarlegar skuldbindingar til varnar Austur-Evrópuríkjum (Póllandi, Rúmeníu, Eystrasaltslöndum) gagnvart þýskri árás. En þær viðræður voru ósköp kraftlitlar af hálfu Vesturveldanna (t.d. tóku aðeins lágt settir embættismenn þátt í þeim) og bentu ekki til viðbragða sem að haldi kæmu ef Hitler réðist lengra austur.

Stalín kaupir tíma

Hinn 23. ágúst 1939 kom sjokkið. Sovétmenn sneru skyndilega við blaðinu og tóku að tryggja eigið öryggi með skjótum aðgerðum. Þeir sömdu við Hitler um "ekki- árás" og gagnkvæmt hlutleysi ef til hernaðarátaka kæmi við þriðja aðila. Í framhaldi af því tóku Sovétmenn sér bessaleyfi stórveldis til að skipa málum í næsta nágrenni að eigin þörfum (skv. leynilegum hluta samningsins). Eftir ósigur Póllands fyrir Hitler réðust þeir á og innlimuðu austurhéruð Póllands, tóku Moldavíu frá Rúmenum, tryggðu sér herstöðvar í Eystrasaltslöndum og fóru litlu síðar fram á landamærabreytingar við Finnland, sem svo leiddi til Vetrarstríðsins við Finna. Þeir horfðu nú aðgerðarlausir á hernað Hitlers og gættu þess afar vandlega að halla ekki orði gegn honum opinberlega. Eftir skiptingu Póllands gáfu ríkin út sameiginlega yfirlýsingu og lýstu ábyrgð á hendur Vesturveldunum ef þau ryfu nú "friðinn".

En hvaða augum litu Sovétmenn þennan samning og hvernig ber að meta hann þegar horft er til baka? Var það svo að "ráðstjórnin og Komintern ... fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu"," eins og Þór orðar það? Fátt bendir til að Stalín hafi nokkurn tíma haft tálsýnir um vinsemd Hitlers í sinn garð, hvað þá litið á hann sem bandamann. Hann var illa búinn til stríðs og var að kaupa sér tíma. Iðnvæðingarherferð Sovétmanna var bara rúmra tíu ára og hervæðingin raunar enn skemmra komin. Eftir valdatöku Hitlers breyttu Rússar þeirri 5 ára áætlun sem þá var nýsamþykkt (númer tvö). M.a. var skotið á frest vélvæðingu landbúnaðarins. Nýju dráttarvélaverksmiðjunum var breytt í skriðdrekaverksmiðjur. Af heildarmagni járns og stáls sem fór í sovéska vélaiðnaðinn árið 1932 runnu 46 prósent til hergagnaframleiðslu, var komið í heil 94 prósent árið 1938. Og 1940 var tekin upp 7 daga vinnuvika í vopnaverksmiðjunum. Það bendir ekki til að Mólotoff hafi vænt sér neins góðs af Ribbentropp þótt þeir föðmuðust fallega eftir undirritun.

Hvaða línu lagði Komintern aðildarflokkum sínum og venslamönnum? Þór Whitehead skrifar að Komintern hafi að skipun Stalíns verið "virkjað gegn Bandamönnum", en "á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga". Stalín lagði vissulega ofuráherslu á að halda stranglega samning sinn við Hitler, t.d. með því að endursenda til Þýskalands fjölda pólitískra flóttamanna. Utanríkishagsmunir Sovétmanna hafa öðru fremur ráðið því að Komintern tók út á við líka diplómatíska afstöðu og þeir gagnvart stríðinu. En gaf Alþjóðasambandið einhverjar aðrar bendingar á laun? Það var örugglega ekki auðvelt að leyna því fyrir þýsku leyniþjónustunni ef Komintern ræki aðra stefnu innávið til aðildarflokka sinna en útávið. Og Stalín var í bili hættur pólitískri liðssöfnun en tekinn að spila póker á taflborði heimsveldanna. Og þá gildir að láta sem minnst uppi. Óneitanlega voru það einmitt aðildarflokkar Kominterns sem helst voru fórnarlömb pókersins. Nú urðu þeir óvænt að bregðast við þeim vanda að móta stefnu óháð því sem virtist vera stefnan í Moskvu. Flokkarnir reyndust misvel vandanum vaxnir. Og þarna kom berlega í ljós akkillesarhæll Kominterns sem miðstýrðs flokks. En hvað segja heimildirnar?

Fréttir úr skjalasafni Kominterns

Skjalasafn Kominterns í Moskvu hefur nú verið opnað. Þar mun fátt að finna um skipanir til íslenskra kommúnista 1939-40 enda Sósíalistaflokkurinn ekki aðildarflokkur. Ég hef ekki komist í það skjalasafn en mér finnst margt benda til að línan frá Komintern (í Moskvu) í orðsendingum til kommúnistaflokka Evrópu á fyrstu vikum og mánuðum stríðsins hafi verið óskýr og fálmkennd. Griðasáttmálinn og Finnlandsstríðið klufu forystu Sósíalistaflokksins. Í æviminningum sínum gerir Einar Olgeirsson þó ekki mikið úr því hugarvíli og ringulreið sem sáttmálinn hafi valdið sér og sálufélögum sínum í hópi íslenskra kommúnista. En það sem ég áður hef rakið af skrifum Þjóðviljans og Réttar bendir til mikilla erfiðleika við stefnumörkunina. Og það er kunnugt frá öðrum löndum að samningurinn drap víða á dreif öflugri baráttu kommúnista gegn nasistum og olli oft innri kreppu.

Mér finnst líka margt benda til að í Moskvu hafi menn raunverulega greint stríðið fyrstu mánuði þess, sem "klassískt" heimsveldastríð, hliðstætt fyrri heimsstyrjöldinni, þótt þeir sjálfir óttuðust auðvitað fyrst og fremst Þjóðverja. Alþýðan ætti því alls ekki að styðja stríðsrekstur Vesturveldanna neitt fremur en Þjóðverja. Það lítur út fyrir að flokksforystan í Moskvu, eftir að hafa gefist upp við að mynda samfylkingu gegn fasistaríkjunum, þar sem hún taldi sig mæta höfnun, hafi endurskoðað mat sitt á Bretlandi sem "friðsömu" heimsvaldaríki. Sú afstaða styrktist líklega af brölti Breta og Frakka í Finnlandsstríðinu þegar þeir undirbjuggu hernaðaraðerðir til hjálpar Finnum gegnum Noreg og Svíþjóð. Og diplómatískar þarfir réðu því svo að málflutningurinn varð meira andbreskur en andþýskur.

Þetta á í grófum dráttum við fyrsta ár griðasáttmálans. En hvað um seinna árið? Terje Halvorsen er norskur sagnfræðingur sem ritar grein í Jahrbuch für Historische Kommunismusforschung (Mannheim 1995). Hann hefur rannsakað málgögn Kominterns á tíma griðasáttmálans og sömuleiðis farið gegnum skjalasafn Kominterns í Moskvu. Hann segir um blaðið Die Welt , hálfopinbert Málgagn Kominterns, gefið út í Svíþjóð (eina beinlínis opinbera málgagn framkvæmdanefndar Komintern kom út í Moskvu og sveigði sig að diplómatískum þörfum þar á bæ), að ósigur Frakka í júní 1940 hafi breytt mjög tóninum í blaðinu: "...yfirgnæfandi andbreskur málflutningur varð fyrst blandaður andþýskum málflutningi og vék svo smám saman fyrir honum."

Komintern gagnrýnir "aðlögunarstefnu"

Það hefur lengi verið kunnugt að ýmsir kommúnistaflokkar á hernámssvæði nasista, t.d. sá austurríski, tékkneski og hollenski, háðu allt frá hernámi landa sinna1940 harða þjóðfrelsisbaráttu, en hingað til hefur það oft verið skilgreint sem frávik frá reglunni. En ýmsir aðrir kommúnistaflokkar ráku einhverja tegund af "aðlögunarstefnu". Þar hafa oft verið nefndir til sá norski og sá franski. Eftir hernámið 9. apríl tók norski flokkurinn þá stefnu að hvetja ekki til vopnaðrar andstöðu. Raunar var í norsku verkalýðshreyfingunni sem heild tekin upp stefna eftir hernámið sem byggðist á aðlögun að "löglegum" baráttuaðferðum. Skjölin sýna að þetta var nánast strax gagnrýnt harkalega af Komintern og gagnrýni þessi varð harðari þegar leið á árið 1940 og í ársbyrjun 1941. Þær uppálögðu flokknum að vinna að því að "gera verkalýsstéttina að leiðandi afli í hinni þjóðlegu frelsisbaráttu", koma þyrfti á fót "ólöglegum og hálflöglegum baráttusamtökum" og samfylkja þyrfti með "öllum öðrum öflum andstöðunnar". Þó var áfram varað við að styðja þau öfl sem þjónuðu Bretum.

Þróun mála í hinum öfluga Kommúnistaflokki Frakklands fékk eðlilega stærra pláss og athygli hjá Komintern. Þar gerðist það eftir ósigur Frakka að fulltrúar flokksins reyndu að semja við harnámsöflin um löglega starfsemi flokksins og einkum löglega útkomu málgagns. Ýmsir sagnfræðingar hafa talið þetta vera að frumkvæði Kominterns. En könnun Halvorsens sýnir annað. Samband frá Moskvu til Parísar var stopult en í bréfum frá Komintern í júlí og ágúst 1940 er farið fram á að viðræðum um löglegt málgagn verði srax hætt. Meðal annars stendur þar: "Að okkar áliti er það algjör grundvallarregla að endurreisn atvinnuvega og þjóðlífs í þessum löndum geti aldrei risið af samvinnu, málamiðlunum eða samstöðu með hernámsöflunum." Sagt er að flokkurinn skuli fyrst um sinn hlýðnast reglum herstjórnarinnar út á við en samtímis skara eld að óánægjunni "til að vekja upp óvirka óánægju fjöldans í öllum myndum hennar gegn hinum óboðnu gestum". Þar er mönnum m.a.s. í fyrsta sinn ráðið gegn því að reka mikinn áróður gegn Bretum og de Gaulle því það þjóni fyrst og fremst þýsku hernámsöflunum og leppum þeirra. Afstaðan til Breta hélt þó áfram að vera tvíbent og nokkuð á reiki. En flokkurinn fór að hinum nýju bendingum frá Moskvu. Skjöl frá Gestapó í desember 1940 segja: "...í taktík kommúnista er nú aftur upp tekin sú afstaða sem kommúnistar höfðu fyrir undirritun þýsk-rússneska sáttmálans."

Það sem blasir við í skjölum Kominterns eftir sigra Þjóðverja á Vesturvígstöðvunum er að menn horfast í augu við staðreyndir. Stríðið er ekki "klassískt" heimsveldastríð. Þýskaland er sýnilega miklu hættulegra heimsvaldaríki en önnur og er í stórkostlegri sókn. Stefnubreyting Kominterns í innra starfi sínu er viðurkenning á þessu. Opinber utanríkisstefna Sovét var þó óbreytt að mestu. Fyrstu merki um breytingu á henni var að Sovétstjórnin tók afstöðu gegn þýsku innrásunum í Júgóslavíu og Grikkland í apríl 1941.

Bandamenn eða banamenn Hitlers?

Stríðið milli Breta og Þjóðverja eftir ósigur Frakka var ósköp takmarkað stríð, og hafði í sér sterka þætti "klassísks" heimsveldastríðs. Það fór aðallega fram á höfunum, og í Afríku. Með innrásinni í Sovét í júní 1941 gjörbreyttist stríðið að umfangi og allri gerð. Mætti halda fram að önnur heimsstyrjöldin hafi þá fyrst hafist. Þá fyrst varð hún verulega blóðug. Og landhernaðurinn fór nær allur fram á austurvígstöðvunum. Frá ársbyrjun 1941 og fram að innrásinni í Normandí í júní 1944 batt allur herstyrkur breska samveldisins frá tveimur til átta af herfylkjum Þjóðverja. En þessi þrjú ár, frá júní 1941 til júní 1944, börðust Sovétmenn við að meðaltali hundrað og áttatíu þýsk herfylki. Og þegar loksins hin langþráða "önnur víglína" kom til voru Sovétmenn langt komnir með að brjóta þýsku vígvélina niður. Þeir höfðu notað vel frestinn sem þeir keyptu af Hitler.

Koma Sovétríkjanna inn í styrjöldina olli líka straumhvörfum á hernámssvæðum Öxulveldanna. Þjóðverjar voru sýnilega ekki ósigrandi. Andspyrnuhreyfingar tóku þá fyrst að láta verulega á sér kræla. Þar munaði mest um að kommúnistar tóku hraustlega við sér og höfðu forgöngu að því að skipuleggja stóra hópa meðal alþýðu. Stríðið varð að raunverulegu þjóðfrelsisstríði en um leið var þetta orðin spurning um átök sósíalismans og illvígustu fulltrúa auðvalds, heimsvaldastefnu og afturhalds. Fasisminn hafði vaxið fram sem andsvar við róttækri verkalýðshreyfingu. Auðstéttin notaði hann sem verkfæri fyrir sig, einkum ef önnur meðöl dugðu ekki. Verkalýðsstéttin var hins vegar sú stétt sem sýndi sig ónæmasta fyrir fasískum áhrifum.

Fyrir kommúnista var samhengi hlutanna aftur orðið "eðilegt" frá júní 1941 og þeir sýndu mikla hæfni til að leiða baráttuna gegn fasismanum. Þar við bættist vaxandi orstír Sovétríkjanna. Rétt eins og kommúnistar á 4. áratugnum fengu víðtæka samúð og stuðning fyrir að vera skeleggastir í baráttu við fasismann margfölduðust nú áhrif kommúnista og eftir stríðið stóðu þeir víða uppi með mikla fjöldaflokka. Í Júgóslavíu, Tékkóslóvakíu, Albaníu, Ítalíu, Frakklandi voru það langstærstu flokkarnir.

Þess vegna er það svo að sú mynd sem Þór bregður upp af kommúnistum, sem hálfgerðum sálufélögum nasista sem gerðust bandamenn þeirra ef svo bar undir, er mynd sem byggist á mikilli hagræðingu sannleikans.

Réttmætt stríð Rússa í Finnlandi?

Þór fjallar mjög um Finnlandsstríðið og þá stemmningu sem það skóp hér á landi. Hann leggur sig fram um að lýsa hernaði Þjóðverja og Sovétmanna þessa mánuði eins og um hliðstæður væri að ræða: "Nú horfðu þeir [Íslendingar] á það álengdar, að Hitler og Stalín brytu þessi lönd undir sig með þeim aðferðum sem þeir dáðu hvor annan fyrir og dregið höfðu þá saman að lokum." Er þetta "sagnfræði eins og hún gerist best", eins og einn ritdómurinn hljóðaði? Nei, þetta er forheimskandi sagnfræði (því miður fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin). Hernaði Stalíns í Póllandi og Finnlandi 1939 ber ekki að líkja við hernað Hitlers. Miklu frekar er hann sambærilegur við hernám Breta á Íslandi, þó reyndar mun einhlítari varnaraðgerðir. Að aðferðirnar voru grófari skýrist e.t.v. eitthvað af stalínískri aðferðafræði en þó ekki síður af því að Stalín átti ekki pólitískum bandamönnum að mæta meðal stjórnvalda eins og Bretar á Íslandi.

Á Íslandi urðu viðbrögðin við Finnlandsstríðinu margfalt harðari en við innrás Hitlers í Pólland. Rétt eins og stjórnvöld Vesturveldanna voru menn hér slegnir blindu á það hvaðan raunverulega hættan kom. Í Bretlandi var það bara Loyd George sem benti á að aðgerðir Stalíns í Finnlandi, Eystrasaltslöndum og víðar beindust auðvitað fyrst og fremst gegn Þjóðverjum, og Þjóðviljinn vitnaði talsvert í viðhorf hans.

Þór daðrar við "orðróm" haustið 1939 um að Hitler og Stalín hefðu í sáttmálanum skipt með sér Norðurlöndum, án þess hann leggi nokkurn dóm á þetta. Það ásamt tali um áðurnefndan "dulinn tilgang" Stalíns með griðasáttmálanum virkar til að sveipa sögusviðið þoku fremur en skýra það. Tal um sovésk áform um landvinningastríð til vesturs held ég að sé tal gegn betri vitund. Sem sósíalísk eyja í veröldinni áttu Sovétmenn allt undir því að forðast átök við granna sína. Enda höfðu þeir alls ekki uppi neinar landakröfur, ekki einu sinni um svæðin innan Póllands sem áður tilheyrðu keisaradæminu en "töpuðust" eftir byltingu.

Það er ekki aðalatriði hvort griðasáttmáli eða Finnlandsstríð Stalíns var illa þokkað á Íslandi. Sagnfræðingurinn verður að leggja á atburðina sögulegt mat. Ef það dæmist rétt í ljósi sögunnar að Stalín hafi með griðasáttmálanum keypt þann tíma sem dugði til að verjast Hitler (og losa Evrópu við hann um leið) þá er það atriði sem skiptir höfuðmáli.

Á dögum Finnlandsstíðsins má sjá að afstaða íslenskra kommúnista til Sovétríkjanna var bláeyg og bernsk. En ég leyfi mér að halda fram að aðgerðir Rússa í Póllandi, krafa þeirra um herstöðvar í Eystrasaltslöndum, krafan um herstöð og breytt landamæri í Finnlandi, allt átti þetta sér býsna vel grundaða réttlætingu og var alls ekki óverjandi. Innlimun pólsku héraðanna (morðin í Katynskógi og tilheyrandi) og Eystrasaltsríkjanna til frambúðar í Sovét að þjóðunum forspurðum er hins vegar alls ekki verjandi. Að þetta var upphaf að stórrússneskri útþenslu og seinna rússneskri heimsvaldastefnu gátu kommúnistar á Íslandi ekki vitað. Um hitt má svo endalaust deila að hve miklu haldi þessar öryggisráðstafanir Stalíns urðu.

Lærdómar

Fyrir og eftir tíma griðasáttmálans voru kommúnistar manna skeleggastir í baráttu við fasismann. Eftir 23. ágúst 1939 kom hlé í baráttunni, sem þó var hvorki svo langt né einhlítt sem ríkjandi sagnfræði hefur sagt.

Það er naumast rétt hjá Þór Whitehead að "dulinn tilgangur" Stalíns með griðasáttmálanum hafi verið stórkostleg skriðdrekasókn heimsbyltingarinnar eftir að auðvaldsríkin hefðu lamað hvert annað. Í reynd markar samningurinn tímamót í þveröfuga átt. Með samningnum gerði Sovétforystan evrópskum kommúnistum mjög erfitt fyrir og fórnaði hagsmunum þeirra fyrir hagsmuni stórveldisins. Samningurinn markar í raun þau tímamót að Sovétforystan hættir að líta á byltingu sína sem hlekk í evrópskri byltingu, að hún hættir að reyna að hafa áhrif á evrópsk stjórnmál með pólitískri liðssöfnun. Komintern var lagt niður 1943. Um þetta leyti voru Sovétmenn að kveðja hinn byltingarsinnaða sósíalisma.

Með griðasáttmálanum tóku Sovétmenn upp einangrunarstefnu, þá stefnu að bjarga sér af eigin rammleik, en um leið stórveldisstefnu, að "dansa með úlfunum" í keppninni um áhrifasvæði og byggja sér vígi. Í styrjöldinni unnu þeir mikla landsigra og færðu út vígi sín, en efnahagskerfi þeirra var í rúst, og hinn "hreini rauði" arfur byltingarinnar lét mjög á sjá.

Fyrir íslenska sósíalista er margt að læra af tímabilinu 1939-41. Það er réttmæt gagnrýni að íslenskir sósíalistar og "sósíalistar" hafi lítið "gert upp við fortíðina" til að læra af henni. En þeir ættu ekki að láta Þór Whitehead um að tilreiða kennsluefnið.

1 comment: