Saturday, December 22, 2012

Nýjar skýrslur ESB boða harkalegan Thatcherisma


Kreppan í Evrópu dýpkar. Skoðum hvernig ESB-valdið bregst við henni. Í áranna rás hafa komið fram tvær meginaðferðir til að fást við auðvaldskreppu. Annars vegar er það aðferð frjálshyggju og nýklassíkur sem vill „spara sig út úr kreppunni", svara samdrætti í framleiðslu með sparnaði á eftirspurnarhliðinni, þ.e.a.s. með kjaraskerðingum og niðurskurði. Gegn þessu setti Bretinn J.M. Keynes fram stefnu um virkt ríkisvald sem skyldi vinna gegn hagsveiflum: með niðurskurði útgjalda og niðurkælingu hagkerfis á þenslutímum en hallarekstri ríkissjóðs og auknum ríkisumsvifum (skapar aukna eftirspurn) á samdráttartímum og í kreppu.
Þessi seinni stefna er oft kennd við kreppupólitík Roosevelts, en í Evrópu er hún einkum tengd sósíaldemókrötum sem töldu að með hjálp hennar mætti temja óstjórn kapítalísks markaðar og hindra ofþenslu jafnt sem kreppu. Sósíaldemókratar hafa á tímabilum staðið mjög sterkt í ESB. Til dæmis sátu þeir árið 1999  í 13 af 15 ríkisstjórnum sambandsins. Það kom ekki í veg fyrir ofþenslu og svo kreppu í ESB. Ekki nóg með það, nú ber lítið sem ekkert á Keynesisma í kreppuviðbrögðum innan ESB.
Þvert á móti. Þann 2.mars 2012 undirrituðu 25 af 27 leiðtogum ESB-ríkja svokallaðan ríkisfjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi helst ekki fara yfir 0.5%, og fari hann eitthvert ár yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Þegar sú stefna var samþykkt dró danska Information þessa ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu..." (information.dk 30. jan 2012).  Sáttmáli þessi sem bannar Keynesisma er nú lög í aðildarríkjum ESB.
Vegna áhrifa hægri krata hefur verkalýðshreyfingin lengi stutt samrunaferlið í Evrópu  og stefnuna og stofnanirnar í Brussel. En það er að breytast. Aðgerðir verkalýðssamtakanna gegn hinum blóðuga niðurskurði fara vaxandi, einkum í Suður-Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Sláandi dæmi um breytta tíma er allsherjarverkfall í sex ESB-löndum samtímis - Spáni, Portúgal, Ítalíu, Grikklandi, Kýpur og Möltu - þann 14. nóvember sl.
Ekki sitja menn aðgerðarlausir í hinum herbúðunum. Í september í haust sendi Framkvæmdastjórn ESB frá sér tvær skýrslur sem hafa vakið reiði og óhug í evrópskri verkalýðshreyfingu. Önnur þeirra fjallaði um ástandið á evrópskum vinnumarkaði ásamt tillögum um „skipulagsumbætur" á honum. Tillögurnar mynda heildstætt kerfi, meðal þess sem lagt er til er að lækka lágmarkslaun, draga úr vægi heildarkjarasamninga, vinnumarkaðurinn verði sveigjanlegri með sveigjanlegri vinnutíma, fyrirtæki geti sagt upp samningum, meira verði um staðbundna samninga, atvinnuleysisbætur verði lækkaðar en eftirlaunaaldur hækkaður. Í skýrslunni er almennt lagt til „almenn takmörkun á áhrifum stéttarfélaganna á ákvörðun launa."
Tillögur Framkvæmdastjórnarinnar varðandi vinnumarkaðinn eru ekki eru misskilin kreppuviðbrögð. Þau eru í anda frjálshyggju, það er rétt. Alveg eins og ríkisfjármálasáttmálinn. En það er meðvitað. Tillögurnar fela einfaldlega í sér stríðsyfirlýsingu gegn verkalýðshreyfingunni í því augnamiði að brjóta hana á bak aftur, í anda Margrétar Thatcher.  Evrópska stórauðvaldið undir forustu „Þríeykisins" (Troika) Framkvæmdastjórnar, Evrópska seðlabankans og AGS mætir hinni dýpkandi kreppu með stéttastríði. Veður gerast nú válynd.
Að þessu sögðu þarf að geta þess að sk. Keynesismi eftirstríðsáranna - með virku ríkisvaldi, m.a. útgjöldum til velferðarmála - varð ekki til í fílabeinsturni hagspekinnar. Hann var útkoma sterkrar verkalýðshreyfingar, stéttaátaka og síðan málamiðlana. Og aðeins þannig má vænta hans aftur, á Íslandi, í ESB eða annar staðar. Ekkert fæst ókeypis, sérhvern ávinning þarf að knýja fram. En í ESB nú um stundir  ber þó meira á sókn auðvaldsaflanna. / ÞH

Saturday, December 8, 2012

Friðarverðlaun – ESB mótvægi við Bandaríkin?


(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 8. desember 2012

Hvað skyldi ráða gerðum Nóbelsnefndar norska Stórþingsins? Nú á mánudaginn veitir nefndin Evrópusambandinu friðarverðlaunin þ­remur árum eftir að hafa hengt orðuna á Barak Obama.

Erfitt er að mótmæla þeirri fullyrðingu að allar helstu styrjaldir sem geysað hafa í heiminum síðustu tvo áratugi séu afleiðingar af hernaðaríhlutunum Bandaríkjanna og NATO. Og hvað er NATO? Jú, hernaðarbandalag byggt á tveimur súlum, sameiginlegt bandalag Bandaríkjanna og Evrópuríkja, fyrst og fremst ESB-ríkja. Fyrir tveimur áratugum féllu Sovétríkin, árið 1991. Þá blésu Bandaríkin og Vesturblokkin til hnattrænnar sóknar og NATO var nokkru síðar gert að hnattrænu herbandalagi. Stiklum lauslega á þessum styrjaldaferli – og höfum friðarverðlaunin í huga.

a)    Bandaríkin höfðu frumkvæði að tveimur árásarstyrjöldum  gegn Júgóslavíu á 10 áratugnum. Ekki tókst að koma þeim íhlutunum í kring á vegum Sameinuðu þjóðanna, en í staðinn var ráðist á landið undir merkjum NATO.  Bandaríkin unnu verkið en öll ESB-veldin stóðu þétt að baki og studdu gjörninginn.
b)    Árið 2001 réðust Bandaríkin á Afganistan. Innrásin var sögð liður í stríði þeirra „gegn hryðjuverkum“. Bandaríkjaher bar uppi innrásina frá byrjun en frá 2003 hefur meginheraflinn formlega verið undir stjórn NATO, enda þótt stríðið  sé inni í miðri Asíu. Þetta var fyrsti stríðsrekstur NATO eftir að það hnattvæddist. Auk Bandaríkjanna eru það fyrst og fremst Evrópuríki sem berjast í Afganistan, m.a. öll aðildarríki ESB. Þátttaka ríkja utan N-Ameríku og Evrópu er hverfandi.
c)     Stríðið í Írak sem hófst 2003 er viss undantekning. Þýskaland og Frakkland tóku afstöðu gegn þeirri innrás nema Öryggisráðið legði blessun þar á. Ekkert slíkt skilyrði hafði verið sett fyrir stríðsrekstri í Júgóslavíu, svo málið snérist ekki um hlýðni við alþjóðalög. Að nokkru leyti brugðust Evrópu-stórveldin svona við af því innrásin skaðaði þeirra hagsmuni, þau höfðu ríka olíuhagsmuni í Írak og góð sambönd við Saddam Hússein. En öðru fremur voru þetta mótmæli gegn Bush-kenningunni (frá haustinu 2002) um að Bandaríkin áskiluðu sér rétt til að fara í stríð á eigin spýtur – ekki bara án samþykkis SÞ heldur líka án samþykkis bandamannanna í NATO – gegn hvaða landi sem þau skilgreindu sem ógnun. Með þessu voru ESB-veldin niðurlægð og það olli klofningi. Klofningurinn veikti innrásina pólitískt og hernaðarlega. Bandaríkin létu það ekki henda sig aftur og kappkostuðu að efla samstöðuna um utanríkisstefnu sína, m.a. um hernaðinn í Afganistan. Og hvert skyldi leitað eftir samstöðu nema til nánustu bandamannanna – NATO-veldanna í Evrópu.
d)    Árásin á Líbíu þótti til fyrirmyndar. Málatilbúnaðurinn fyrir „mannúðarinnrás“ þótti vel borinn á borð í vestrænu pressunni, enda var samstaðan meðal vestrænna bandamanna órofa. Til að sjá voru t.d. Frakkar og Bretar ennþá ákafari um árás en Bandaríkin. Samstaðan innan NATO var breið, ráðist var úr lofti og fáir innrásarmenn féllu. Bingó!
e)     Taktík Vesturveldanna gegn Sýrlandi byggist að svo komnu máli á því að styðja uppreisn í landinu og heyja stríð í gegnum staðgengla: íslamista frá arabalöndum, vopnaða og styrkta utanlands frá, gegnum fylgiríki Vestsurvelda meðal araba, einkum Sádi-Arabíu og Katar og svo gegnum NATO-landið Tyrkland sem fær nú mikla vopnaaðstoð frá NATO. Síðan er allri sök komið á Sýrlandsstjórn og krafist „valdaskipta“. Aðgerðirnar í Sýrlandi – sem og vopnaskakið gegn Íran – beinast mjög opinskátt gegn keppinautum Vesturveldanna í taflinu um heimsyfirráð, Kína og Rússlandi, nokkuð sem greinilega virkar vel til að sameina stórveldi Vesturlanda.

Klisjan um að ESB sé mótvægi við Bandaríkin er fölsk í gegn. Meginþáttur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna er að beita pólitísku og  hernaðarlegu valdi þau ríki sem ekki opna sig fyrir hnattvæðingu vestræns auðmagns, og/eða eru í vitlausu liði. Stefna ESB-veldanna er einfaldlega að standa fast við hlið stóra bróður. Bandaríkin þurfa bandamenn í taflinu um heimsyfirráð, ekki síst til að borga hinn dýra hernað. Sá mikilvægasti er ESB. En stuðningur Bandaríkjanna er þó ESB sínu mikilvægari, enda ræður bandaríska vígvélin úrslitum á alþjóðavettvangi, enn sem áður.

Nóbelsnefnd norska Stórþingsins keppist við að rýja sig ærunni. Orðan hengd fyrst á Obama, svo á ESB. Til að þrenningin verði heilög er fullkomlega eðlilegt hengja hana næst á NATO.               

Saturday, November 24, 2012

Þjóðernishyggja og alþjóðahyggja


(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 25. nóv. 2012)

Fullveldissinnar eru oft stimplaðir þjóðernissinnar sem í munni þess sem stimplar er þá jafnan niðrandi, ekki sama sem „nazistar“ en í þá átt. Hugrenningatengsl verða, ekki kannski við Hitler en við hægripopúlista eins og Le Pen, Pia Kjærsgaard eða þá Benjamin Netanyahu.

Fyrir hrun – meðan útrásin blómstraði – voru samtökin Heimssýn og þess háttar fólk einkum bendlað við einangrunarhyggju, sveitamennsku og nesjamennsku. Eftir að útrásin hrundi tóku áðurnefndir stipilgjafar upp nýja baráttuaðferð: að kenna íslenskri „þjóðernishyggju“ um útrásina, sögðu að íslensk þjóðremba hefði verið virkjuð í þágu glæfralegrar útrásar, jafnvel komið henni af stað. Ekki gengur þó vel að finna þessu stað. Það er nefnilega ómótmælanlegt að nánast allar útrásarhetjurnar voru ESB- og evrusinnaðar (vildu kasta krónunni), fullar af „evrópuhugsjón“.  Það er líka rökrétt.

Spurningin um þjóðernishyggju/-stefnu er stórt mál. Stefnan varð til á 19. öld og snerti afstöðuna til þjóðríkisins. Meginstef þjóðernishyggju var og er að ríki skuli fylgja þjóðernislínum og vera fullvalda. Þjóð sem samfélagsheild með sameiginlega menningu sé eðlilegasta uppspretta ríkisvalds og grundvöllur stjórnmála. Á 19. öld var borgarastéttin þjóðernissinnuð og skipulagði atvinnuhætti sína á grunni þjóðríkjanna sem mörg hver urðu til á þeirri öld. Gegn hugmyndinni um „sameinaða þjóð“ tefldu sósíalistar fram alþjóðahyggju verkalýðsins, „öreigar allra landa sameinist!“. Engu að síður þróaðist lýðræði einmitt á grunni þjóðríkja, þar sem almenningur í gegnum samtök sín hafði möguleg áhrif á gang stjórnmála.

Á 20.öld, á tíma voldugra auðhringa og heimsvaldastefnu, óx kapítalískt hagkerfi hins vegar út fyrir ramma þjóðríkjanna. Auðmagnið leitaði yfir landamærin að auðlindum, mörkuðum og fjárfestingum (mætti því kenna það við „útrásar“auðvald). Stórauðvald vestrænna iðnríkja snérist smám saman gegn þjóðernishyggju og leit nú á fullveldi þjóðríkja sem alvarlegan hemil á athafnafrelsið. „Alþjóðahyggja“ auðvaldsins hefur í seinni tíð verið kennd við  „hnattvæðingu“, en á henni herti mjög á síðustu áratugum 20. aldar (tengt m.a. falli Austurblokkar) með hjálp samtaka eins og AGS, ESB, NAFTA, GATT, WTO. Þessar stofnanir eru allar byggðar utan um hnattvæðingarreglu nr. 1: óheft flæði og athafnafrelsi fjármagnins um lönd og álfur. EES-reglurnar um athafnafrelsi fjármálastofnana innan alls hins sameiginlega markaðar – og þar með íslenska fjármálaútrásin – er mjög bein afleiðing af því prinsippi.

Þegar svo er komið þróun mála er það þess vegna afar mikilvægt hagsmunamál alþýðu í löndum sem ekki eru efnahagsstórveldi að verja fullveldið og þjóðlegt sjálfsforræði á sem flestum sviðum. Hið „frjálsa flæði“ er knúið fram af gróðahagsmunum. Það er andstætt kröfum lýðræðisins og setur sig þess vegna yfir þær. Boðskapur hnattvæðingarinnar sló óðara í gegn hjá efnahagselítu, hagfræðingum og stjórnmálamönnum á Vesturlöndum. Í Evrópskum stjórnmálum eru það einkum tveir hópar sem fremstir fara og hafa leitt bæði markaðsvæðingu og samrunaferlið í ESB: hægrifrjálshyggjumenn og svo markaðskratar, þ.e.a.s. markaðssinnar til vinstri.

Á Íslandi urðu línurnar dálítið flóknari vegna spurningarinnar um yfirráð yfir fiskimiðunum. Svarið við þeirri spurningu ræður því að íslensk borgarastétt (viðskiptalífið) er miklu klofnari í afstöðu sinni til Evrópusamrunans en systur hennar í nálægum löndum. Fyrir LÍÚ og tengda hagsmuni er EES æskileg  millistaða. Fyrir vikið varð þróunin sú að markaðskratar urðu helstu málpípur ESB á Íslandi.

Lofum ESB-sinnum að hneykslast á samstöðu okkar með fullveldissinuðum hægri mönnum gagnvart ESB. Það skaðar ekki málstaðinn neitt. Hrökkvum ekki hátt heldur þótt einhverjir kalli okkur þjóðernissinna. Í almennri orðræðu er þjóðernisstefna margt og misjafnt. Eitt er a.m.k. víst: Sú þjóðernisstefna sem hugsanlega mætti kenna okkur við ber hvorki ábyrgð á útrás né hruni. 

Wednesday, November 21, 2012

Andstæður hins evrópska markaðar


(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 17. nóv. 2012)

Þróun ESB var og er prófsteinn á hugmyndina um fríverslun og opnar gáttir: að óheft samkeppni á fjölþjóðlegum markaði, fjölþjóðleg verkaskipting og óheft viðskipti leiði til mesta hagvaxtar fyrir alla aðila. Þetta var ein grunnhugmynd frjálshyggjunnar á dögum Adams Smith og hún er það enn í hnattvæðingarbylgju undanfarinna tveggja áratuga. Það má kalla hana hnattvæðingarreglu nr. 1.  Helstu múrbrjótar þeirrar hugmyndafræði á heimsvísu hafa verið AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnunin (WTO), stofnanir sem ganga erinda vestræns stórauðvalds. Með hjálp þeirra hafa hagkerfi byggð á grunni sjálfstæðra (smárra og meðalstórra) þjóðríkja verið brotin upp og þvinguð til að sveigja sig að hnattvæddum markaði. Í því umhverfi er leið landa til sjálfstyrkjandi þróunar torfærari en nokkru sinni.  

Í okkar heimshluta er múrbrjótur hnattvæðingarreglunnar ESB og hefur gengið hreint til verks: hin óhefta samkeppni ræður nú ríkjum innan sambandsins. ESB er einn helsti tilraunareiturinn fyrir aðferðir frjálshyggju og hnattvæðingar. Með frjálsu flæði vöru og fjármagns milli landa – og þegar við bætist sameiginlegur gjaldmiðill – er markaðurinn orðinn einn og öll vernd horfin. Þetta gildir um allt EES-svæðið (vissar atvinnugreinar þó teknar út fyrir sviga í EFTA-ríkjunum).

Samkvæmt kenningunni ætti allt svæðið jafnt að njóta góðs af þessu frelsi. Á þenslutímum má telja fólki trú um að hinar opnu gáttir skapi öllum svæðum hagvöxt en á samdráttartímum sést veruleikinn skýrar. Hinn sameiginlegi markaður skiptist nefnilega í tvennt: í kjarnasvæði norðan og vestanvert í Evrópu og svo jaðarsvæði í austri og suðri (auk Írlands). Efnahagskerfi jaðarsins verður undir í samkeppninni meðan kjarninn, einkum Þýskaland, blæs út sem útflutningshagkerfi. Jaðarlöndin verða efnahagslegar hjálendur, nálægt stöðu nýlendunnar. Hin ójafna samkeppni virkar sem tæki til eignatilfærslu og arðráns. Virðisaukinn lendir allur í kjarnalandinu en dregur þróttinn úr hinu. Dæmigerð, harkaleg auðvaldssamþjöppun. Það segir t.d. sína sögu að nánast allt fjármálakerfi ESB-ríkja í Austur-Evrópu er nú í eigu vestrænna banka.

Bæði fyrir og eftir kreppu hefur þessi breikkandi gjá milli sterkra og veikra verið brúuð með miklu flæði lánsfjármagns frá kjarna til jaðars (svo kaupa megi fleiri þýskar vörur). Sem aðeins frestar hinum félagslega vanda. Þegar ríkisstjórnir hjálendnanna ráða ekki við lýðinn er því svarað með aukinni miðstýringu og fullveldið er framselt enn frekar. Pólitísk valdasamþjöppun er hið sérstæða við þetta ríkjasamband, og er það sem mestan óhug vekur.

Kreppan í Grikklandi og Suður-Evrópu er gjarnast skýrð sem staðbundin óstjórn. Við fáum að heyra í útvarpinu að Grikkir vinni lítið, taki ellistyrkinn snemma og skuldir þeirra stafi af rándýru, „sósíalísku“ velferðarkerfi. En þetta stenst ekki. Vinnutími Grikkja er víst sá lengsti á Evrusvæðinu (og Þjóðverja sá næststysti). Eftirlaunaaldur þeirra (virkur) er um meðaltal á evrusvæðinu og einnig útgjöld hins opinbera til trygginga- og heilbrigðismála. Nei. Ef greina á meinsemdir ESB-kerfisins, hvað þá lækna það, verður þess vegna að reiða miklu hærra til höggs.

Vinstri vaktin gegn ESB

Saturday, November 10, 2012

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla



Voðaleg slagsíða er í fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla frá átaka- og styrjaldarsvæðum. Túlkun átakanna í Líbíu og Sýrlandi undanfarið eitt og hálft ár minnir hastarlega á upphaf stríðsins í Írak 2003.  Þá löptu íslensku fjölmiðlarnir upp lygasúpuna frá Bush og Blair um hættuna sem stafaði af Saddam Hússein og útheimti vestræn afskipti. Sjónvarpsstöðvarnar tvær sendu svo fall Bagdad í beinni með því að tengja sig inn á CNN og BBC World (líkt og gert var í Persaflóastríðinu 1991). 

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar


(Birtist á Eggin.is 1. október 2012)

Nýlega voru nokkri róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í „Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins“) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þinræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, emættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:
1.     Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.

2.     Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.

3.     Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andastaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15 000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.

4.     Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa sjálfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

Sýrland og vestræn hernaðarstefna


(Birtist á Smugan.is og fridur.is 13. ágúst 2012)

Afmælisdagar kjarnorkusprenginganna í Hírosíma og Nagasaki eru okkur tilefni til að koma saman, minnast þess sem þar gerðist, heita því að slíkt gerist aldrei aftur – og setja fram óskir og kröfur um frið.

Ekki þarf þó djúpa greiningu á erlendum fréttum til að sjá að það er allt annað en friðvænlegt í heiminum nú um stundir. Enn eitt stríð í Miðausturlöndum sýnist vera í uppsiglingu, líklega það stærsta og versta.

Undanfarin 20 ár hefur stríðum í heiminum fjölgað mjög, æ styttra verður  á milli þeirra. Um hvað snúast þessi stríð? Ríkjandi fréttamiðlar á Vesturlöndum gefa okkur þá mynd að stríðin séu háð til að koma böndum á „vonda kalla“, rudda sem vanvirði lýðræði og mannéttindi og ógni líka öryggi nágranna sinna.

Þegar ég var ungur voru „vondu kallarnir“ sem útvarpið talaði um nær alltaf sk. „kommúnistar“. Heitasta stríðið í þá daga var stríðið í Víetnam og öllu Indó-Kína. Eftir að kommúnisminn í Sovétríkjunum og Kína féll, tóku „NÝJU STRÍÐIN“ við, í fyrsta lagi hið undarlega stríð sem George Bush setti á dagskrá – heimsstríð við hryðjuverkamenn – og einnig var hafin sería af stríðum við „vonda kalla“ meðal þjóðhöfðingja: Milosévits, Saddam, Talíbana, Gaddafí, Bashar Al-Assad. Þetta eru sk. „mannúðarstríð“ til að vernda þegna þessara landa gegn vondu körlunum sem þar stjórna.

Ef segja skal hvað þessir „vondu kallar“ eigi sameiginlegt vandast málið. Það er raunar erfitt að halda því fram að þeir séu merktir af meiri ruddaskap en fjöldinn allur af þjóðhöfðingjum heimsins sem fær þó að sitja í friði.

Ef nánar er að gáð koma þó sameiginlegir þættir í ljós. Þessir aðilar sitja eða sátu á svæðum sem eru EFNAHAGSLEG OG HERNAÐARLEG LYKILSVÆÐI, ekki síst hvað snertir vinnslu og flutning á jarðolíu. Ennfremur eiga þessir aðilar gjarnan vingott við önnur stórveldi en þau vestrænu. Þeir eru sem sagt ekki í RÉTTU LIÐI.

Það getur skýrt það að það eru einmitt VESTRÆN STÓRVELDI sem standa á bak við ÖLL ÞESSI NÝJU STRÍÐ. Alla mína 60 ára löngu ævi hefur sama blokkin ráðið mestu á vettvangi alþjóðamála: sú ensk-ameríska með evrópsku bandamönnum sínum, sameinuð í NATO. Um 1990 féll helsti andstæðingur Vesturblokkarinnar, Sovétríkin, og þá fékk hún yfirþyrmandi vald á heimsvísu, bæði pólitískt og hernaðarlegt. Síðan þá hafa valdbeiting hennar og hernaðarumsvif aukist stig af stigi gegnum NATO, og hún setur vægðarlaust á dagskrá VALDASKIPTI í löndum þar sem stjórnvöld eru henni ekki að skapi.  

Hins vegar hafa NÝJAR valdablokkir vaxið fram eftir aldamótin 2000 með tilkomu nýrra efnahagsstórvelda sem sækja hart að Vesturlöndum og taka af þeim stækkandi sneiðar af heimsmarkaðnum. Helstu keppinautar Vesturblokkarinnar, Kína og Rússland, mynda jafnframt pólitíska mótstöðublokk eða mótstöðumöndul gegn forræði vesturblokkarinnar á vettvangi alþjóðamála. Skyldi nú ekki þetta tvennt vera samtengt: Annars vegar sívaxandi hernaðarstefna vesturveldanna og hins vegar undanhald þeirra á efnahagassviðinu fyrir skæðum keppinautum? Ég bara spyr. Alla vega er þetta staðreynd: Vesturblokkin hefur hernmaðaryfirburði og hún BRÚKAR þá. Það er hún sem undanfarna tvo áratugi hefur staðið afyrir öllum meiri háttar styrjöldum í heiminum. Í Miðausturlöndum eru liðsmenn í mótstöðublokkinni nú tveir: Íran og Sýrland. Vesturveldin hafa báða í sikti

Um hvað er barist? Mannréttindi og mannréttindabrot segja vestrænar fréttastofur? Hver sem vill má trúa því. Ég segi: Eins og 1914, eins og 1939 takast nú stóru auðvaldsblokkirnar á um áhrifasvæði, auðlindir og markaði. Stríðin snúast EKKERT um „Vonda kalla“ sem vanvirða mannréttindi. Af hverju er okkur þá sagt að þau snúist um „vonda kalla“ og mannréttindi? Jú, fyrsta regla þess sem vill hefja stríð er að gefa því göfuga yfirskrift til að vinna því fylgi meðal almennings. Og svo heppilega vill til að það eru sömu auðvaldseiningar sem STANDA Á BAK VIÐ helstu stríðin og eiga stóru sjónvarpsstöðvarnar sem ÚTSKÝRA stríðin.

Stríðin eru nauðsynlegur hluti af gangverki auðvaldsmaskínunnar, þessu efnahagskerfi sem hefur gróðasóknina sem drifkraft. Stríðin eru ekki knúin fram af sérstökum illmennum, þau eru knúin fram af venjulegum gróðapungum – og framkvæmdastjórum þeirra.

SÁL kapítalismans er gróðasóknin. En VERÖLD hans er frumskógurinn, veröld vægðarlausrar samkeppni milli efnahagseininga, ríkja og ríkjablokka. Þetta tvennt – gróðasóknin og samkeppnin – skapar stríðin. Það er hin einfaldi sannleikur um stríðin. Sagan um vondu kallana er hins vegar skáldskapur, ætlaður almenningi sem er annars frábitinn stríði..

Hvers eðlis eru átökin í Sýrlandi? Ráðandi fjölmiðlar Vesturlanda hafa gert sitt besta til að lýsa þeim sem slátrun stjórnvalda á saklausum mótmælendum. Það hefur þó smám saman komið í ljós, jafnvel í mörgum þeim fjölmiðlum sem venjulega fylgja meginstraumnum, að sú mynd hangir ekki saman. Inn á milli hafa alltaf heyrst fréttir sem sýna t.d. að uppreisnaröflin, hinn sk. Frjálsi sýrlenski her, hefur frá upphafi átaka í mars 2011, verið þungvopnaður. Suðningur Vessturveldanna við hann er ennþá aðallega gegnum leyniþjónustur, en Saudi Arabía og Qatar – traustustu vinir Vesturveldanna í Arabalöndum – hafa vopnað hann opinskátt, og herbækistöðvar á hann í Tyrklandi. Enda kemur fram hjá uppreisnaröflunum sjálfum að um fjórðungur fallinna í stríðinu, yfir 5000 manns, eru sýrlenskir stjórnarhermenn.

Inn á milli meginstraumsfréttanna heyrum við líka um voðaverk – svo sem fjöldamorð í borgunum Homs og Aleppo –sem framin eru af uppreisnarmönnum. Hinir svokölluðu uppreisnarhópar eru að uppistöðu íslamistar enda er ríkisstjórn Assads ein fárra austur þar sem starfar á veraldlegum grundvelli. Þessir vopnuðu íslamistar eru að verulegu leyti komnir frá öðrum araba- og múslimalöndum, en hins vegar ber mjög lítið fjöldamótmælum meðal almennings í Sýrlandi, nema þá helst til stuðnings stjórnvöldum. Það hljómar líka undarlega að heyra um al-Kaídasveitir í fremstu röð þeirrar uppreisnar sem studd er af Vesturlöndum. Hins vegar ná vestrænir leiðtogar og fréttastofur jafnan að snúa því þannig að öll voðaverk í Sýrlandi sýni fram á nauðsyn utanaðkomandi íhlutunar – í nafni mannúðar.

Stríðið í Sýrlandi er ekki valdbeiting stjórnvalda gegn mótmælahreyfingu, Það er ekki heldur hefðbundin borgarastyrjöld. Þetta er UTANAÐKOMANDI ÍHLUTUN og FORLEIKUR AÐ INNRÁSARSTRÍÐI sem stutt er af vestrænum stórveldum og bandamönnum þeirra í arabaheiminum. Þetta er endurtekning á dæminu frá Líbíu, Írak og Afganistan með lítillega breyttum leikurum og  leiktjöldum.

Ísland tilheyrir Vesturblokkinni. Ísland hefur stutt öll stríð hennar eftir fall Múrsins: Írak 1, Bosníustríð, í Kosovo, Afganistan, Írak 2, Líbíu. Og Össur okkar Skarphéðinsson hefur fyrirfram óskað eftir aðgerðum svokallaðs „alþjóðasamfélags“ í Sýrlandi – eins og hann studdi þær í Líbíu í fyrra. Það er línan frá NATO.

Össur er þó engin sérstakur hernaðarsinni, og hann hefur m.a.s sýnt réttlætiskennd og visst sjálfstæði í stuðningi við málstað Palestínu.
Nú er þó miklu meira í húfi að sýnt sé sjálfstæði – og línunni frá NATO hafnað. Ef það gerist ekki munu átökin í Sýrlandi þróast stig af stigi yfir í nýtt stríð í Miðausturlöndum – stríð sem tekur a.m.k. til Írans og verður þar með að miklum hildarleik. Aðgerðarleysi fjölmargra friðarhreyfinga og vinstri stjórnmálasamtaka varðandi átökin í Líbíu og nú Sýrland benda til að þau hafi, illu heilli, innbyrt hugmyndafræðina um ÍHLUTANIR Í NAFNI MANNÚÐAR.

En verkefni okkar er að skapa þrýsting á íslensk stjórnvöld að þau HAFNI STRÍÐSLEIÐINNI, að skapa þrýsting sem er meiri en þrýstingurinn frá NATO. Með því mundum við líka minnast fórnarlambanna í Hirosima og Nagasaki á verðugan hátt. Stríðsöflin sækja fram. Stríðsandstæðingar: Heyrið þið hverjum klukkan glymur?

Sýrland og Íran eru peð í tafli um heimsyfirráð



Brennuvargar þinga um brunavarnir. Enn og aftur gerist það: Blóðug uppreisn studd af vestrænum stórveldum er notuð af þeim sjálfum sem tilefni til íhlutunar í viðkomandi land. Mikil diplómatísk herferð er nú farin gegn Sýrlandi, afar lík þeirri sem var undanfari árásarinnar á Líbíu í fyrra. Þann 30. júní var ráðstefna í Genf og önnur í París 6. júlí til að beita Sýrlandsstjórn þrýstingi. Frú Clinton beindi spjótum að Rússum og Kínverjum fyrir að vinna gegn herferðinni og hótaði að „þeir muni gjalda fyrir þetta“.  Fremstir í flokki á fundum þessum voru fulltrúar þeirra ríkja (einkum vesturvelda og arabískra stuðningsríkja þeirra) sem stutt hafa vopnaða uppreisn í Sýrlandi á annað ár með því m.a. að veita straumi vopna og erlendra leiguhermanna inn í landið.

ESB og kreppan: Keynes úthýst


(Birtist á Eggin.is og Heimssyn.is 9. maí og 12. maí)

Kosningarnar í Frakklandi og  og óljós loforð sósíalistans Francois Hollande um að auka skuli umsvif hins opinbera hefur glætt umræðuna um kreppuviðbrögð Evrópusambandsins.
Vinstrisinnaðir ESB-sinnar hafa löngum stillt evrópsku efnahagskerfi  upp sem skynsamlegum kapítalisma og „velferðarkapítalisma“, eðlisólíkum hinum ameríska, stjórnlausa. Í upphafi fjármálakreppunnar 2008 hældust þeir yfir hinu stýrða markaðskerfi með ríkisafskiptum hér austanhafs. Töldu að það myndi ekki lenda í forarvilpum frjálshyggjunnar í  „villta vestrinu“.
            Sú trú brást. Það er ekki Atlantshafið sem skilur að „velferðarkapítalisma “ og frjálshyggjukapítalisma. Sú tvískipting er á milli tveggja tímaskeiða. Keynesismi óx fram í fyrri heimskreppu og gerði það reyndar óháð Keynes. Stefnan var afleiðing af stéttabaráttu, umbótabaráttu lýðsins. Síðan var það Keynes sem setti hana í kerfi, stefnu um virkt ríkisvald sem vinnur gegn hagsveiflum: hallarekstur ríkissjóðs og aukin ríkisumsvif á samdráttartímum en niðurskurður útgjalda og niðurkæling hagkerfis á þenslutímum. Þessi hugsun var andstæð frjálshyggjuhugsuninni um sjálfstýrðan markað sem jafnan býr til sína eigin eftirspurn.
            Sérstaklega á fyrstu áratugum eftir stríð varð keynesismi ríkjandi hagstjórnarskipan vestrænna auðvaldsríkja. Hún var fast studd af evrópskum mið-vinstriflokkum og bandarískum demókrötum, og allra dyggast af sósíaldemókrötum og verkalýðshreyfingu sem laut þeirra stjórn og hafði eflst í kreppunni. Þessi „gullöld kapítalismans“ bauð þannig upp á stéttasamvinnu og sveiflujöfunarstefnu á Vesturlöndum. Auðvaldið hafði „efni á“ umbótum enda hótaði lýðurinn annars byltingu. Farið var að skrifa í sögubækur að Keynes hefði fundið meðalið við stjórnleysi markaðarins.
            En upp úr 1970 náði kreppa auðvaldskerfisins aftur vestrænum hagkerfum. Bandaríska kerfið fór enn fremur að mæta vaxandi samkeppni. Þá fann auðvaldið út að keynesismi svaraði ekki lengur hagsmunum þess. Og sósíalisminn var á undanhaldi. Við tók stórsókn markaðshyggjunnar, fyrst undir forustu Tatchers og Reagans, gegn „velferðarkapítalismanum“. Boðað var afskiptaleysi ríkisvaldsins og markaðslausnir. Smám saman fylkti stjórnmálastéttin sér um frjálshyggjuna, ekki síst kratarnir – og keynesisminn hvarf.
            Allt frá Rómarsáttmálanum 1957 og þó enn frekar frá Maastrichtsamkomulaginu 1993 hefur markaðshyggjan verið grundvöllur Evrópusamrunans. Í fyrsta lagi: markaðslausnir í samfélagsmálum, allt sem hindraði samkeppni varð illa séð, t.d. ríkisumsvif eða ströng vinnulöggjöf. Í öðru lagi: alþjóðleg verkaskipting (hnattvæðing), þ.e.a.s. frjálst flæði fjármagnsins vöru, vinnuafls og þjónustu milli landa. ESB varð verkfæri frjálshyggjubyltingar í Evrópu, líkt og GATT og Heimsviðskiptastofnunin voru það á heimsvísu.
            Svo kom kreppan yfir hinn markaðsvædda heim 2007-8 eins og syndaflóð, byrjaði í fjármálageiranum og færðist þaðan til framleiðslunnar. Þá risu upp kratar og formæltu frjálshyggjunni. Steingrímur J Sigfússon skrifaði seint í September 2008: „Hvað erum við að upplifa þessa dagana? Eru það ekki ragnarök nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta græðgiskapítalisma sem á endanum er að kollsigla sjálfan sig?“ („Ragnarök nýfrjálshyggjunnar“ Mbl. 18. sept 2008).
            Vinstri menn trúðu á „nýtt upphaf“. Björgun fjármálakerfisins og efnahagskerfisins sat þó fyrir. Kreppu bankanna var svarað með miklum ríkisframlögum til að bjarga þeim. Af því hlaust mikill skuldavandi þjóðríkja, og í framhaldinu niðurskurður ríkisútgjalda. Vægðarlaus. Kreppuviðbrögðin endurspegla núverandi styrkleikahlutföll stéttanna. Kreppunni er velt á alþýðu. Evrópskir kratar eiga engin ný ráð, né demókratarnir vestan hafs. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvort við völd sitja hægri eða svonefndar vinstri stjórnir. Auðvaldið ræður.
            Sem stendur er enginn keynesismi í augsýn. Bandaríski keynesistinn Paul Krugman andvarpaði í New York Times í júlí sl.: „Hugsið um það: Hvar eru hin stóru opinberu vinnuverkefni? Hvar eru herskarar opinberra starfsmanna? Í reynd eru opinberir starfsmenn hálfri milljón færri nú en þegar Obama komst til valda“ („No, we can´t? Or Won´t?“, NYT, 10 júlí 2011). Og hvað þá um Evrópu? Leiðtogafundir ESB 30. jan. og 2. mars samþykktu sem lög nýjan fjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi ekki fara yfir 0.5%. Fari hann yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Danska Information dró rétta ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu… Fjármálasáttmálinn útilokar ríkisstjórnirnar frá því að fjármagna fjárfestingar með ríkishalla og þvingar þær til að finna aðrar leiðir.“ („Finanspagt: Forfatningsforbud mod fornuft“, information.dk 30. jan 2012).
            Þetta er aldeilis ekki kreppa frjálshyggjunnar. Það er auðvaldskerfið sjálft sem er í kreppu. Frjálshyggjan hefur hins vegar styrkt sig fremur en hitt, og í Evrópu alveg sérstaklega. AGS og ESB eru samstíga. Steingrímur og Jóhanna ganga í þeim takti. Munurinn á bandaríska efnahagskerfinu og því evrópska er lítill og óðum að hverfa. Auðvaldið fer sínu fram, eins í kreppum. Draumur evrópuvinstursins á sér enga stoð og er í eðli sínu tragískur.

Nokkurs konar kommúnistaávarp 1. maí


(Birtist á Eggin.is 1. maí 2012)

Kreppan byrjaði sem sprungin fjármálabóla sem hefur þróast yfir í skuldakreppu æ fleiri ríkja eftir að þau ábyrgðust skuldir banka. Orsakir hennar eru þó innri andstæður framleiðslukerfisins. Hún er í eðli sínu kapítalísk offramleiðslukreppa. Marx skilgreindi á sínum tíma hvernig þenslueðli kapítalismans rekst óhjákvæmilega á arðránseðli hans. Sú móthverfa er þar enn jafn óleyst.
Undanfarna áratugi hefur stöðnun kapítalismans sagt meira og meira til sín. Núverandi kreppa er sú dýpsta eftir stríð og dýpkar enn. Atvinnuleysistölurnar hækka, árásirnar á kjör almennings harðna, velferðin er skorin og skorin meira. Kreppan gerir heimsvaldasinna enn herskárri. Þeir reyna að tryggja með valdbeitingu það sem ekki vinnst með peningavaldinu einu. Fremst í þeim flokki standa Bandaríkin og evrópskir bandamenn þeirra.
Kreppan skall snemma og harkalega á Íslandi vegna ofvaxtar fjármálakerfisins. Sá ofvöxtur átti rætur í sömu andstæðum framleiðslukerfisins og í samdrætti í innlendum frumframleiðslugreinum og iðnaði. Vinstri flokkarnir nýttu sér kreppuna – til að taka við stjórnartaumum. Fyrsta „hreina vinstristjórn“ lýðveldistímans varð til.
Margur maðurinn taldi að nú yrði gagnger breyting á efnahags- og valdakerfinu á Íslandi. Fyrst eftir fjármálahrunið var það útbreidd skoðun vinstri manna að frjálshyggjan væri á leiðinni á öskuhaug sögunnar og „félagsleg gildi“ yrðu leidd til öndvegis. Það gerðist ekki. Í staðinn var endurreisninni stýrt af helsta fánabera frjálshyggjunnar á heimsvísu, AGS, sem þótti reyndar framganga íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar, enda forgangsverkefnin í anda sjóðsins: endurreisn fjármálakerfisins og mikill niðurskurður ríkisútgjalda. Ekki var ráðist gegn ríkjandi eignarhaldi eða rekstrarháttum á neinu sviði. Þvert á móti. Einkavæðingin heldur áfram.
Samfylkingin var í „hrunstjórninni“ og reyndar alla tíð mjög bendluð við kratíska markaðshyggju og einkavæðingu, svo ímynd hennar var löskuð. VG var hins vegar talinn róttækur hugsjónaflokkur, og ómengaður. Ekki lengur. Forusta hans samsamar sig nú íslenska efnahags- og valdakerfinu svo rækilega að vandlæting hennar beinist einkum að þeim sem keyrðu kerfið „út af sporinu“. Í þeim anda hafði VG umfram aðra flokka frumkvæði að því að kæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn fyrir Landsdómi.  Með tilvísun til „ráðherraábyrgðar“ er bankakreppan skoðuð sem „klúður“ og „mistök“.
Þessi kerfis-samsömun „vinstri foringjanna“ er til þess gerð að fá alþýðu til að samsama sig kerfinu líka. Endurreisn kerfisins, umfram allt fjármálakerfisins, er kölluð endurreisn „samfélagsins okkar“. Og nú hafa stjórnvöld öfluga píska á hendi. Þau vísa til „ástandsins“. „Ástandið“ er því miður svona slæmt. Engir peningar til. Allir verða að axla sinn skerf af „ástandinu“. Það er jafnaðarmennska! Það er fullkomið ábyrgðarleysi fyrir almenning að gera nú kröfu um eitt né neitt.
Kúgunarkerfi auðvaldsins er orðið mjög fullkomið þegar gamlir verkalýðsforingjar eins og Jóhanna Sigurðardóttir (áður formaður Flugfreyjufélagsins) og Ögmundur Jónasson (áður formaður BSRB) fá þessar „ástands“-svipur í hönd og láta þær ganga á bökum alþýðu – og taka síðan niðurskurðarhnífana.
Auðvaldskreppan birtist fólki eins og umferðarslys eða lestarslys. Lestin er efnahagskerfið. Auðstéttin og ráðandi auðblokkir ætlast til þess að stjórnvöld velti kreppunni yfir á almenning og vinni svo að því að koma lestinni „á sporið“ aftur. Kreppan vekur reiði sem beinist að stjórnvöldum. Almenningur er til alls vís. Gömlu andlitin í stjórnkerfinu eru rúin trausti. Það er sigurstranglegt fyrir auðstéttina að fá vinstri menn og alþýðusamtök til að taka ábyrgð á kerfinu (og utanaðkomandi „fagaðila“ eins og AGS). Þá kemur alþýða síður vörnum við heldur en ef kjaraskerðingarnar eru framkvæmdar af íhaldsöflunum og hefðbundnum auðvaldssinnum.
Fátt af  þessu er í raun séríslenskt. Frá því um 1980 eða svo hafa flestir stjórnmálaflokkar kenndir við vinstrimennsku og alþýðu lagt alveg á hilluna sósíalíska baráttu og gengið efnahagskefi og stjórnmálakerfi auðvaldsins á hönd. Þegar kreppan nú ríður yfir og auðvaldskerfið sýnir grímulausan ljótleika sinn kemur í ljós algjör skortur kratismans á þjóðfélagslegum valkosti og hann fær þetta snatthlutverk fyrir auðvaldið sem hann hefur á Íslandi nú um stundir.
Í íslenskri verkalýðshreyfingu eru mestu ráðandi sömu stjórnmálaöfl og í landsstjórninni. Verkalýðsforingjarnir undirgangast leikreglur íslenska auðvaldskerfisins, sammála því að horfa verði til hins erfiða „ástands“ og ganga í það að friða almenning gagnvart hinum harkalegu kjaraskerðingum. Nöturlegur veruleikinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er í gíslingu auðstéttarinnar.
Það ástand hlýtur að vera tímabundið. Það er áhugavert að bera stöðuna nú saman við síðustu stóru kreppu, á 4. áratug 20. aldar. Þegar kreppan skall á Íslandi voru sprækir hópar kommúnista og vinstri sósíalista nýkomnir fram á sjónarsviðið og starfandi innan samtaka alþýðu. Þeir sögðu einfaldlega að kreppa auðvaldsins væri ekki þeirra kreppa. Síst af öllu mátti alþýðan draga úr kröfum og baráttu vegna hennar. Þvert á móti var kreppan tilefni til að herða baráttuna fyrir kjarabótum – og öðru þjóðskipulagi. Róttæklingarnir tóku forustu í alhliða stéttabaráttu, verkalýðshreyfingin treysti á samtakamáttinn og náði að stórefla sig á þessum kreppuárum. Forustumönnum kommúnista hefði seint dottið í hug að fara í dómsmál við Tryggva Þórhallsson og Jónas frá Hriflu fyrir að valda kreppunni.
Þörfin fyrir þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið verður æpandi í kreppunni. Eftir fall fyrstu kynslóðar sósíalsískra ríkja er margt óljóst um það hvernig sá valkostur mun líta út. Hitt er þó ljóst að ekki er lengur búandi við þjóðskipulag sem byggir á einkaeignarrétti á framleiðslutækjum og hefur gróðasóknina sem gangvél. Það leiðir okkur aðeins lengra út í afmennskun samfélagsins og hnattrænt barbarí.

Tvö meginatriði. Í fyrsta lagi: Verkalýðshreyfing sem ekki á sér þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið er og verður í gíslingu. Í öðru lagi: Launafólk og róttæk alþýða má ekki skoða núverandi vinstri flokka í landinu sem velmeinandi en skeikula bandamenn heldur það sem þeir eru, verkfæri auðvaldsins. Þeir eru meginstoðir í valdakerfi auðstéttarinnar í landinu.

Veldið stefnir á heimsyfirráð

(Birtist á Gagnauga.is 21. mars 2012)


Það má kalla hana Veldið, heimsvaldablokkina miklu sem sameinast hernaðarlega í NATO. Þetta er gamla risaveldið, USA, með nánustu bandamönnum sínum. Mikilvægasti bandamaðurinn er Evrópuvængur NATO, þ.e.a.s. ESB. Annar er Ísrael, mikilvægur af því hann er reiðubúinn til skítverka.  Alþjóðastjórmál eru nú miðstýrðari en þau hafa verið áður í sögunni. Vladimir Putin orðar það svo að  heimurinn sé einpóla.

Frá falli Sovétríkjanna, 1991, hefur Veldið fært vígstöðvar sínar fram, ár frá ári. Byrjaði á að ráðast á Írak sama ár. Næst var það Balkanskaginn, stríð í tveimur lotum, svo Afganistan, aftur Írak, Pakistan, Líbía. Framkvæmdina hefur ýmist Bandaríkjaher annast eða NATO. Veldið beinir nú sprengjuvörpunum að Sýrlandi og Íran. Ógnandi stríðsöskrin heimta „stjórnarskipti“ – rétt eins og í öllum fyrrnefndu löndunum – heimta að „alþjóðasamfélagið“ grípi inn ella. Veldið skilgreinir sjálft hvar „vandinn“ og „hættan“ liggur. Yfirskin íhlutana er breytilegt: að þessi ríki ógni heimsöryggi, hýsi „hryðjuverkamenn“, hafi gjöreyðingarvopn, skorti „lýðræði“, brjóti lýðréttindi... Sannanir eru einfaldar af því Veldið er sjálft dómarinn með yfirtökum sínum á alþjóðastofnunum og heimspressunni. Veldið ræður einnig yfir heimslögreglunni sem framfylgir svo dómnum.

Málið snýst auðvitað ekki um lýðréttindi og lýðræði heldur um það að koma árum Veldisins fyrir borð á efnahagslegum og hernaðarlegum lykilsvæðum. Þegar Sovétríkin féllu skildu þau eftir pólitískt tómarúm. Þá skapaðist afbrigðilegt ástand á vettvangi heimsvaldastefnunnar. Til að þenja sig út dugði Veldinu þá fyrst í stað að beita hreinkapítalískum aðferðum, valdi markaðarins – auk yfirþjóðlegra stofnana eins og AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnuninni til að tryggja frjálst flæði vöru og fjármagns. Síðar fór Veldið að mæta hindrunum og nýrri samkeppni – af því kapítalísk heimsvaldastefnan felur í sér stöðuga keppni um áhrifasvæði – og þá þurfti æ oní æ að beita hervaldi.


Utanríkisstefna Veldisins er jafnan vafin í málskrúð um lýðræðisást og slíkt en í reynd stjórnast hún af gróðasók. Einstaka talsmenn tala skýrt. Ralph Peters var ofursti og nokkuð áberandi maður innan bandaríska hersins, og starfaði mjög á sviði leyniþjónustu. Árið 1997 skrifaði hann í grein.

Það verður enginn friður. Á hverjum tíma um okkar daga verða átök í mismunandi formum vítt um veröldina. Hernaðarátök munu móta helstu yfirskriftirnar en menningarleg og efnahagsleg átök verða samfelldari og ráða úrslitum. Hið raunverulega hlutverk bandarískra herja er að gera veröldina öruggari fyrir efnahag okkar og opna fyrir menningarleg áhlaup okkar. Í því augnamiði hljótum við stunda allnokkur dráp. www.informationclearinghouse.info/article3011.htm

Veldið á sér nú keppinauta, það er m.a.s. að tapa áhrifasvæðum. Hlutdeild þess á mörkuðum heimsins skreppur saman. Keppinautarnir sækja á. Veldið hefur hins vegar gífurlega hernaðaryfirburði. Þessi blanda, efnahagsleg veiking en hernaðarlegir yfirburðir, skapar hina óskaplegu árásarhneigð. Efnahagskreppan magnar hana enn frekar.

Skæðasti keppinautur Veldisins er Kína, þá Rússland. Hið nýja skotflaugakerfi og herstöðvanet NATO umhverfis Rússland talar sínu máli um það, enn fremur hin mikla flota- og eldflaugauppbygging Bandaríkjanna á Kínahafi. Aðrir andstæðingar Veldisins eru í léttari vigtarflokkum. Stríð Veldisins eru öll háð til að bola keppinautum burt eða tryggja að þeir nái ekki fótfestu. Árásarhneigð  Veldisins verður aðeins skiljanleg ef okkur skilst að það keppir að heimsyfirráðum. Í því ljósi verður að skoða ofuráhersluna sem það leggur á að ná fullri stjórn á hinum olíuauðugu Miðausturlönd. Þar eru nú aðeins tvö lönd eftir – Íran og Sýrland – sem ekki hlýða, lönd sem enn standa gegn Veldinu og/eða styðja keppinauta þess. Því skal nú mætt af fullri hörku.

Aðferðin við að knésetja andstæðingana , „vandræðaríkin“, er þessi: Veldið útnefnir þau ríki sem „hættan“ stafar frá – þ.e.a.s. þau ríki sem ekki hlýða – og safnar liði sínu gegn þeim. Júgóslavía, Serbía, Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, Íran segja söguna (og listinn lengist). Beiting fjölmiðla við stríðsundirbúning og stríðsrekstur verður sífellt háþróaðri og um leið mikilvægari þáttur. Stóru fréttastofur Veldisins eru nánast einráðar um hinn vestræna heim, þær gefa tóninn sem endurómar svo vítt um veröld. Að baki hverju árásarstríði býr vel matreidd lygi. Fréttastofur Veldisins hafa verið margstaðnar að því að framleiða tilbúnar fréttir og búa til furðurlegustu sviðssetningar til að vekja réttar tilfinningar áhorfenda (slíkt hefur verið rækilega sýnt og sannað  hér á Gagnauganu). Tilgangurinn er að skapa stuðning við stríðsreksturinn meðal almennings heima fyrir.

Í aðdraganda beinnar innrásar er beitt margbreytilegum vopnum, auk fréttaflutnings. Innan viðkomandi „vandræðaríkis“ er beitt leyniþjónustu og undirróðri, ögrunar- og hryðjuverkum, vestrænt sinnuðum „frjálsum félagasamtökum“, tölvuhernaði, stuðningi við uppreisnaröfl og hagnýtingu staðbundinna misklíðaefna (dæmi: trúardeilna milli súnní og sía); í stuttu máli: samsærisaðferðum bak við tjöldin. Út á við er beitt viðskiptabanni og refsiaðgerðum auk diplómatískrar einangrunar.

Svo er ráðist á landið. Í öllum þeim stríðum sem hér hafa verið nefnd er um að ræða árásarstríð Veldisins gegn einstöku þjóðríki. Yfirlýst tilefni tengjast oftast innanlandsástandi. Í aðeins einu tilfelli var innrásin sögð vera svar við hernaðarárás, þ.e. árás Íraks á Kuwaít árið 1991, og flest bendir til að þar hafi Saddam Hussein gengið í bandaríska gildru. Í hinum löndunum skyldi innrásin bara steypa vondri ríkisstjórn, innleiða „lýðræði“ og slíkt fínerí. Svo sagði áróðurinn. Í raunheiminum standa eftir lönd í rústum, rænd, snauð og sundurtætt, þó féttastofur Veldisins forðist að tala um slíkt. Eitt fá öll löndin altént í sárabætur: herstöðvar, bandarískar herstöðvar og/eða NATO-herstöðvar. Og þau losna við stimpilinn „vandræðaríki“.

Heimsmyndin sem haldið er að okkur er fals. Ofurvald Veldisins herskáa er hið mikla öryggisvandamál okkar tíma. Ráns- og ofbeldisöflin sitja á hæstu tindum valdsins og dæma lifendur og dauða. Útlitið er því drungalegt. Vonir um heimsfrið eru bundnar því að andstöðuöflin við Veldið nái að styrkja sig frá því sem nú er. Ástandið minnir um margt á ástandið í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Hjáseta Rússa og Kínverja í Öryggisráðinu í mars 2011 varðandi aðgerðir gegn Líbíu minnir á friðkaupastefnu Breta og Frakka í München 1938, eftirgjöf til að friða úlfinn. Sem betur fer varð harðari stefna ofan á hjá Rússum og Kínverjum gagnvart Sýrlandi í febrúar sl. Alþýða og þjáðar þjóðir heims verða að tengja sig mönnum eins og Putin, Ahmadinejad og Bashar Assad – mönnum sem Veldið útnefnir sem Hitlera okkar tíma – rétt eins og andfasistar á sínum tíma þurftu að tengja sig manni eins og Churchill sem var enginn fulltrúi alþýðunnar en stóð þó uppi í hárinu á Hitler. 

Aðferðirnar gegn Íran og Sýrlandi – fyrr og nú


(Birtist á Gagnauga.is 13. febrúar 2012)

Vesturveldin fylkja nú liði sínu gegn Íran og helsta bandamanni þess, Sýrlandi, vegna „kjarnorkuvopna“ og „mannréttindabrota“. Beitt er margvíslegum alþjóðlegum refsiaðgerðum og hernaðaraðgerðir undirbúnar. Fyrirmyndin er fengin í Írak og Líbíu. Leiðtogar Íran og Sýrlands segja hins vegar að erlendur undirróður og íhlutanir kyndi undir ólgu á svæðinu í því skyni að fella þau tvenn stjórnvöld þessa svæðis sem óhlýðin eru Vesturlöndum. Þá er hollt og skilningsaukandi að vita að slík íhlutun er ekkert ný í sögunni. Miðausturlönd hafa verið á áhrifasvæði vestrænna heimsvaldaríkja frá seinni hluta 19. aldar. Áður hafði svæðið að miklu leyti tilheyrt Tyrkjaveldi en því hnignaði og það féll endanlega í fyrri heimsstyrjöldinni. Við tók heimsvaldakerfi Vesturveldanna. Undir því arðráns- og valdakerfi hafa Miðausturlönd (og aðrir heimshlutar) legið síðan. Aðeins með ógurlegum herkjum hefur einstaka ríki tekist að rísa upp og standa á eigin fótum, sum hafa reist sig upp á hné, önnur hafa risið en verið felld á nýjan leik.

Fréttaflutningur – eins og sá íslenski – sem fjallar um Miðausturlönd út frá þokukenndum hugtökum um „mannréttindi“ og „lýðræði“, án þess að horfa á hinn ytri ramma heimsvaldakerfisins sem skilorðsbindur allt stjórnmálalíf þessara landa, er afskaplega þröngsýnn og skilningshamlandi, eins og sýn þess manns sem skoðar umhverfi sitt út um þröngt rör – og umræðan eftir því forheimskandi.  

Sem lýsandi dæmi um vald og aðferðir Vesturveldanna í Miðausturlöndum fyrr og síðar má taka tvo stjórnmálaviðburði frá hinum tveimur umræddu löndum – Íran og Sýrlandi – báða frá 6. áratugnum.

I. Íran: Í upphafi 20. aldar hófst olíuvinnsla í Íran. Frá byrjun höfðu Bretar þar öll tögl og hagldir gegnum Anglo-Persian Oil Company. Pahlavi-ættin sat á keisarastóli 1925–1979 og var alla tíð handgengin heimsvaldasinnum. En á 5. áratug 20. aldar reis þjóðernis- og  þjóðfrelsisbylgja í Íran. Árið 1951 var þar kosinn til valda þjóðfrelsissinnuð stjórn undir forsæti Mohammad Mosaddegh.  Þjóðþing landsins ákvað nær einhuga að þjóðnýta olíuiðnað landsins – og svo var gert.

Þá var heimsvaldasinnum að mæta. Bretar settu olíusölubann á Íran, fylltu síðan Persaflóa af herskipum, lokuðu Hormúzsundi og tóku þannig efnahag landsins steinbítstaki. Bretar hertóku auk heldur olíuhreinsunarstöðina í Abadan, þá stærstu í heimi. Öngþveitið sem af hlaust var notað til að skipuleggja valdarán, og nú tóku Bretar og Bandaríkjamenn (Churchill og Eisenhower) höndum saman:

„Bretar og Bandaríkjamenn völdu Fazlollah Zahedi sem forsætisráðherra í herforingjastjórn sem skyldi taka við af stjórn Mosaddeghs. Því næst var gefin út tilskipun, samin af valdaránsmönnum og undirrituð af keisaranum, sem setti Mosaddegh af og skipaði Zahedi í hans stað. CIA hafði pressað hinn veika keisara til að taka þátt í valdaráninu en mútað glæpaflokkum, prestum, stjórnmálamönnum og herforingjum til að taka þátt í herferðinni gegn Mosaddegh og stjórn hans“ (Mark J. Gasiorowski, 1991, U.S. Foreign Policy and the Shah: Building a Client State in Iran, 237–39).

Í ágúst 1953 setti CIA á svið og fjármagnaði uppþot gegn Mosaddegh en til stuðnings keisaranum. Þau enduðu með því að stjórn Mosaddeghs var steypt og hann sat í fangelsi það sem eftir var. Þegar til kom varð Zahedi ekki hinn sterki maður landsins heldur keisarinn, Reza Pahlavi, sem varð „einvaldur“ leppur heimsvaldasinna allt fram að írönsku byltingunni 1979. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn sem Bandaríkin steyptu þjóðkjörinni stjórn, en meirihluti íranskra olíuvinnslusamninga gekk í framhaldinu til bandarískra fyrirtækja. 

II. Sýrland. Á heimsstyrjaldarárunum síðari vann Sýrland formlegt sjálfstæði eftir mörg og oft blóðug átök við Frakka sem höfðu landið sem „verndarsvæði“ frá friðarsamningunum 1918. Á eftirstríðsárunum voru stjórnmálin flókin en ríkjandi vindar meðal almennings voru vindar þjóðfrelsis og andstöðu gegn heimsvaldastefnunni. Sýrland var þá að verða – og hefur verið síðan – nokkurs konar holdgerfingur arabískrar þjóðernisstefnu. Sterkasti flokkur landsins var flokkur samarabískra þjóðernissinna, Bath-flokkurinn. Frá 1954 hafði hann stjórnað landinu með stuðningi Kommúnistaflokk Sýrlands og bandamanna úr hernum. Stjórnin hafði gott samband við Sovétríkin, en að auki lágu afar mikilvægar olíuleiðslur um Sýrland frá Írak til Miðjarðarhafs.

Árið 2003 fann rannsóknarstúdent í alþjóðasögu við Royal Holloway College í London skýrslu frá Sandys, breska varnarmálaráðherranum í stjórn Macmillans 1957. Innihaldið kom fram í grein í  The Guardian 27. sept. 2003 (www.guardian.co.uk/politics/2003/sep/27/uk.syria1). Þar skrifuðu Macmillan og Eisenhower Bandaríkjaforseti undir „áætlun frá CIA og bresku leyniþjónustunni MI6 um að setja á svið falska landamæraatburði sem átyllu til innrásar [í Sýrland] af vestrænt sinnuðum nágrönnum Sýrlands“ eins og segir í skýrslunni frá september 1957. Eitt meginatriði í áætluninni var launmorð þriggja manna sem taldir voru sterku mennirnir á bak við sýrlenska forsetann, Shukri al-Kuwatli. Í skýrslunni segir m.a. (tilvitnanir sóttar í grein, „SYRIA: CIA-MI6 Intel Ops and Sabotage“ eftir Felicity Arbuthnot á vefsíðunni  globalresearch.ca):

Þegar pólitísk ákvörðun er fengin um að valda innanlandstruflunum í Sýrlandi er CIA tilbúin, og SIS (MI6) mun leitast við að að setja upp minni háttar skemmdarverk og atburði í átt að skyndivaldaráni gegnum sambönd sín við einstaklinga... Aðgerðirnar ættu ekki að vera bundnar við Damaskus... nauðsynlegt óöryggi,... landamæraatburðir og átök... [myndu] skapa nauðsynlega átyllu til íhlutunar... [Sýrland skyldi] sýnast vera stuðningsaðili launráða, skemmdarverka og ofbeldis gegn nágrannastjórnvöldum... CIA og MI6 skyldu beita færni sinni bæði á sviði sálfræði og í beinum aðgerðum til að auka á spennu...

Árásir inn í Írak, Jórdaníu og Líbanon fælu í sér „skemmdarverk, samsæri og margvíslegar hernaðaraðgerðir“ og sökinni komið á Damaskusstjórnina. Og það voru Írak og Jórdanía – bæði löndin ennþá breskt „verndarsvæði“ – sem ásamt Tyrklandi skildu svo svara með hernaðaríhlutun í Sýrland.

Í Guardian-greininni segir síðan: „Áætlunin var aldrei notuð, aðallega af því að ekki tókst að sannfæra arabíska nágranna Sýrlendinga um að grípa til aðgerða og árás frá Tyrklandi einu þótti ekki ráðleg.“

Þetta var fyrir 55 árum. Heimsvaldakerfi Vesturveldanna stendur enn. Mesta breytingin á áratugunum síðan er brotthvarf Sovétríkjanna. Fyrir vikið hafa vesturveldin betri tök á stöðunni en áður. Eftir er aðeins eitt risaveldi, Bandaríkin, og mikilvægustu bandamenn þess í þessu samhengi eru Ísrael og samherjarnir í NATO, ESB-veldin. Leppríkjum og fylgiríkjum Vesturveldanna í Miðausturlöndum hefur fjölgað. Á hinn bóginn varð bylting í Íran 1979 og landið hefur síðan styrkt stöðu sína, efnahagslega og hernaðarlega, og hindrar full vestræn völd á svæðinu.

En nútíma hliðstæður við árið 1957 eru ríkulegar: Sem stendur heyja Bandaríkin og Ísrael leynilegt stríð gegn Íran með aðferðum leyniþjónustu, tölvuárásum, leynilegum áhlaupasveitum, ómönnuðum flugvélum, njósnurum, ögrunaraðgerðum, hryðjuverkum og spellvirkjum. Flest af því mikilvægasta gerist bak við tjöldin. Skýrslan um aðgerðaáætlun í Sýrlandi forðum komst í heimspressuna fyrir hreina tilviljun (og heimspressunni fannst hún ekki áhugaverð). Auðvitað kunna heimsvaldasinnar, eins og 1957, að nýta sér staðbundin vandamál og misklíð (m.a. trúardeilur) og vopna andófshópa til að hámarka öngþveiti. Verið er að búa til átyllu til NATO-innrásar, „mannúðarílutunar“. Samvinna Bandaríkjanna og Breta er áfram órofa. ESB leggur svo á olíuviðskiptabann. Þar við bætist að alveg eins og 1957 er það meginatriði í herstjórnarlist heimsvaldasinna að beita fyrir sig nágrönnum þessara ríkja og láta svo aðgerðirnar líta út sem „stuðning við heimamenn“. Þessu hlutverki gegnir Arababandalagið nú í aðgerðunum gegn Sýrlandi. Vitið þér enn eða hvað? spurði völvan.