Sunday, June 11, 2017

"Stríð gegn terrorisma" - sáning terrorisma

(birtist á Fésbók SHA 6. júní 2017)

Af hverju stafar sú bylgja hryðjuverka sem geysar í Miðausturlöndum og teygir sig þaðan inn í Evrópu? Hún stafar af hernaðarútrás USA/NATO sem hófst 2001 undir merkjum „hnattræns stríðs gegn terrorisma“. En réttnefnið væri „sáning terrorisma“. Sáðvöllurinn er Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland. Seríustríð. Vestrænir heimsvaldasinnar hafa kynt undir terrorismanum á a.m.k þrennan hátt: A) Í fyrsta lagi með beinum innrásum og meðfylgjandi samfélagsupplausn. Íslamska ríkið varð til í Íraksstríðinu, hét fyrst Al-Kaída í Írak, færði þaðan út kvíar og sérstaklega til Sýrlands. B) Í öðru lagi með því að vopna og manna hryðjuverkahópa beint. Dæmi: NATO-veldin vopnuðu og beittu fyrir sig hryðjuverkahópum í Líbíu 2011 (út frá Benghazi), m.a. hópnum LIFG sem varð hluti af Al-Kaída. LIFG starfaði líka líflega í Bretlandi, m.a. í Manchester. Faðir sprengjumannsins í Manchester, Salmans Abedi, gekk í LIFG. Árið 2011 var fjöldi líbísk-ættaðra jíhadista sendur af bresku leyniþjónustunni MI6 til Líbíu til að berjast við Gaddafí. C) Í þriðja lagi með því að „siga“ svæðisbundnum bandamönnum sínum á „skúrkana“. Þessir bandamenn – Sádar, Katar, Ísrael, Tyrkir mikilvægastir – að sínu leyti fjármagna, vopna og styrkja terrorista. Ekkert þessara svæðisvelda gæti þó ráðist þannig á nágranna sína nema hafa til þess grænt ljós og öruggan stuðning (vopnastuðning) frá USA og NATO. En samanlögð áhrif af þessu eru rokvöxtur hryðjuverkanna og um leið hafa USA/NATO skapað sér margfalda átyllu til að auka hnattrænan hernað sinn, „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Djöfullinn bítur í skottið á sér og – bingó! Ég bendi á eigin grein, ársgamla, nokkuð ítarlega um einmitt þetta á Friðarvef.

No comments:

Post a Comment