Monday, June 12, 2017

Stríð 21. aldar og íslenska sjónarhornið

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 12. júní 2017

RÚV hafði í samvinnu við UNICEF á „Degi rauða nefsins“ (9. júní) þátt til að styrkja söfnun fyrir þjáð og snauð heimsins börn. Safnað var vegna hungursneyðar í Suður-Súdan, Jemen, Sómalíu og Nígeríu. Ekki var minnst á að vestræn stórveldi hafa staðið á bak við hernað í þremur þessara landa, sem ræður líklega mestu um hungrið. Svo kom „yfirlitsmynd yfir hörmungarnar í Sýrlandi“.

Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
Fókusinn var á Aleppó – og spurningin um  sökina var auðveld: Einn aðili var fundinn sekur, Sýrlandsstjórn/her, sem stundað hefði fjöldamorð á borgarbúum. Lyginni er dælt í okkur með sprautum. Yfirlitsmyndin var dæmigerð fyrir túlkun íslenskra fjölmiðla á styrjöldum okkar daga. Helstu fjölmiðlar Íslands – RÚV og dagblöðin tvö – eru alveg samstíga í túlkun á helstu styrjöldum 21. aldar. Skýringarmunstrið er u.þ.b. svona:

a) Stríðið í  Sýrlandi er kallað „borgarastríð“ en sagt stafa af réttlátri „uppreisn“ gegn miskunnarlausum harðstjóra. Af ytri afskipum af stríðinu er einkum talað um þátt Rússa. Þagað er um peningana frá Sádi-Arabíu sem fjármagna „uppreisnina“ eða endalausa aðflutninga og þjónustu við hana frá Tyrklandi. Og fátt sagt um um þátt Bandaríkjanna allt frá viðskiptabanni á Sýrland til þjálfunar og vopnasendinga til „uppreisnarinnar“.

b) Stríðið í Jemen er kallað „borgarastríð“ og er þá alveg horft framhjá því að fyrir tveimur árum (júlí 2015) breyttist stríðið í innrásarstríð þegar Sádi-Arabía réðist á þetta fátæka land með 100 sprengjuflugvélum og her sem taldi 150 þúsund hermenn, aðallega málaliða. USA og NATO-veldin sjá Sádum fyrir vopnum, sbr. spánnýjan samning Trumps við Sáda, stærsta einstaka vopnasölusamning sem gerður hefur verið. Sl. haust hófu Bandaríkin svo beinan hernað gegn Jemen við hlið Sáda.

c) Stríðið í Írak er í íslenskum fjölmiðlum skilgreint sem „stríð gegn ISIS“ og „stríð gegn hryðjuverkum“. Góðu gæjarnir berjast við að „frelsa“ Mósúl. En „stríðið gegn ISIS“ í Mósúl og víðar í Írak er einfaldlega framhald Íraksstríðsins 2003-2011, innrásar og hernáms sem kostað hefur milljón Íraka lífið, og skóp m.a. fyrirbærið ISIS. Bandaríkin eru aldeilis ekki frelsandi afl heldur hernámsafl í Írak sem hefur enn sama markmið, að sundurlima landið og komast yfir auðlindir þess.

d) Stríðið í Úkraínu er kallað borgarastríð. Aldrei þessu vant er gert mikið úr utanaðkomandi íhlutun, þ.e.a.s. íhlutun og yfirgangi Rússa. Hins vegar er kyrfilega þagað um þátt CIA sem stjórnaði valdaráninu í Kiev 2014 eða um hernaðarlega innikróun Rússlands, af hálfu NATO-velda, fyrir og enn frekar eftir það valdarán.

Sem sagt, þessum helstu styrjöldum sem nú geysa lýsa fjölmiðlarnir okkar sem borgarastyrjöldum og/eða „stríði gegn hryðjuverkum“. Skipulega er horft framhjá hinum vestrænu afskiptum. Fjölmiðlarnir íslensku bergmála þær túlkanir sem stóru fréttastofurnar vestan hafs gefa en þær aftur tjá einfaldlega hagsmuni bandarískrar heimsvaldastefnu og hergagnaiðnaðar. Svo muldra menn gjarnan í skeggið eitthvað um það böl sem hlýst af „óumburðarlyndi“ og „trúarofstæki“.

Ofantaldar styrjaldir hanga saman. Stríðin eru öll betur skilin sem árásarstríð en sem borgarastríð. Yfirstjórn þeirra er í Washington. Árið 2001 lýstu USA og NATO yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ (áður en þeir réðust inn í Afganistan). Það var yfirskrift og réttlæting hnattræns hernaðar og síðan hafa þeir  stundað látlausar valdaskiptaaðgerðir, ýmist beint eða með hjálp svæðisbundinna bandamanna. Helsta þungamiðja stríðsrekstursins hefur verið í Miðausturlöndum og önnur þungamiðja á fyrrum yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Um er að ræða samhangandi íhlutunarstefnu Vestursins til að steypa „óþóknanlegum“ stjórnvöldum og koma að öðrum „þóknanlegum“. Svæðisbundnir bandamenn með eigin valdahagsmuni koma hér við sögu, og Sádi-Arabía er mikilvægasti bandamaður NATO í múslimaheiminum, í því verkefni Vestursins að ná yfirráðum í Miðausturlöndum. Og framan talin stríð öll eru liðir í heimsyfirráðastefnu þar sem aðalmeðulin eru hernaðarleg. Aðeins einn aðili rekur slíka stefnu í nútímanum: Vesturblokkin (NATO-blokkin) undir forustu Bandaríkjanna.

Þáttur íslenskrar utanríkisstefnu í þessu samhengi er hvorki saklaus né friðsamlegur. Ísland tekur þátt í valdaskipta- og yfirráðastefnu NATO-veldanna, eftir getu sinni. Alltaf. Óháð því hverjir skipa ríkisstjórn, enda heyrist engin andstaða við þá stefnu á Alþingi. Ísland var í bandalagi hinna viljugu þjóða gegn Írak (við það var reyndar andstaða á Alþingi). Ísland studdi árásarstríð NATO gegn Afganistan og gegn  Líbíu. Íslenska vinstri stjórnin viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa í Sýrlandi – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands, og stillti sér þannig á bak við „uppreisn“ (kostaða, vopnaða og mannaða utanlands frá) gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Ísland tekur þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi, mótatkvæðalaust í utanríkismálanefnd og á Alþingi.  Í málefnum stríðs og friðar fylgir Ísland þeirri línu sem lögð er í Washington, punktur. Og röklegt framhald þess: íslenskar fréttastofur eru í þeim málum endurvarpsstöðvar stóru fréttastofanna vestra sem eru hluti af stríðsvélinni.

No comments:

Post a Comment