Thursday, May 25, 2017

Trump auðmýktur og hnattvæðingaröflin ráða förinni

(birtist á Fésbók SHA 24. maí 2017)
                                          Bandarísku forsetahjónin í Rýadh

Heimsókn Trumps til Sáda er dæmisaga, skrifuð í skýin. Trump náði kjöri með því að hamast gegn hnattvæðingunni og hernaðarævintýrum USA, þessum "6 billjónum dollara [sem er] sólundað í Miðausturlöndum". Hann ætlaði almennt að hætta "valdaskipta"-æði fyrirrennara sinna, hann sagði "ekkert forgangsatriði" að losna við Assad Sýrlandsforseta og vildi samvinnu við Rússa í því að berjast við ISIS (og á fleiri sviðum). Fyrir skömmu sagði hann líka að Sádar væru "heimsmeistarar í fjármögnun hryðjuverka". Ég hygg að Trump hafi meint alveg slatta af þessu. En bandaríska djúpríkisvaldið ekki. Því ráða hnattvæðingarsinnar. Þeir völdu að berja hann til hlýðni. Og eftir barsmíð í 5-6 mánuði beygði hann sig djúpt í duftið. Þann 7. apríl var Trump kominn í yfirlýstan hernað við Assadstjórnina, og þar með við Rússa. Þegar hann svo skyldi í sína fyrstu utanlandsför var hann sendur einmitt til Sádi-Arabíu (og til Ísraels sem hann gerði líklega af eigin hvötum). Þar gerði hann einn stærsta vopnasölusamning sögunnar og tók þátt í að opna miðstöð gegn terrorisma! Í þakkarræðu sinni hlóð hann lofi á stjórnvöld í Rýadh en réðst á Írani fyrir að "kosta og þjálfa terrorista um heim allan". Umræddum vopnum er einmitt beint gegn Íran og Sýrlandi. Dæmisagan er saga um mikla auðmýkingu og sýnir um leið hverjir ráða í Hvíta húsinu.


Bandaríska hnattvæðingarelítan fyrirlítur Trump og lætur berja á honum. Trump tekur síðan 180 gráðu beygjur þar sem þess er krafist. Hann er bersýnilega ekki sá prinsippmaður að hann taki prinsipp sín fram yfir valdasetu. Mergur málsins er að Trump var einkum kosinn til að hafna stefnu hnattvæðingar og efnahagslegrar frjálshyggju (ekki rasistar að kjósa rasista eins og meginstraumspressan heldur fram) -  en hnattvæðingarsinnarnir sem ráða keyra sitt spor alveg án tillits til þess hver er "maðurinn í brúnni".

No comments:

Post a Comment