Monday, June 26, 2017

Seymour Hersh og sarínið í Sýrlandsstríðinu

Stefán Pálsson deildi á fésbókarsíðu SHS grein eftir Seymour Hersh sem birtist á Welt am Sonntag 25. júní (2017). Hér að neðan er athugasemd mín eftir lestur greinarinnar.

Gott. Hraðlas greinina. Hersh hefur mikil tengsl inn í CIA. Heimildarmenn hans þar hallast að fyrstu tilgátu Rússa, að sýrlensk hefðbundin sprengja hefði hitt eiturefni í Khan Sheikhoum. Næsti liður í skýringunni sem Hersh gefur er gríðarleg hvatvísi Donalds Trump. Þriðji liður er svo bandaríska pressan sem skellti auðvitað skuldinni á Assad einum rómi. Þar með er dómurinn fallinn a.m.k. um allan hinn vestræna heim, „Sýrlandsher kastaði sarínsprengju“, og mönnum þykir forsetinn loksins sanna sig með hröðum og snöggum viðbrögðum!

Hefðbundin sprengja sem sagt, sjálfstýrandi reyndar. Og CIA vissi það allan tímann. Henni var beint á hús í Khan Sheikhoum þar sem fór fram fundur toppmanna úr al-Nusra og Ahrar al-Sham en verslunarlager var á neðri hæð. Bendir ákveðið til að þar hafi eiturefnin verið. Ennfremur: Rússar höfðu látið bandaríska herstjórn í Doha vita af skotmarkinu og tegund árásar fyrirfram.


Neðanmáls: Seymour Hersh er með virtari rannsóknarblaðamönnum Bandaríkjanna og Pulitzer-verlaunahafi. Hersh varð heimsfrægur er hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Víetnam 1969. Árið 2007 skrifaði hann grein í The New Yorker um stefnubreytingu bandarískra strategista í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“, að styðja hernað súnní múslima gegn sjía múslimum. Þetta var ekki breyting á markmiðum strategistanna, meinti Hersh, heldur ný taktík þeirra Hann reyndist algjörlega sannspár. Sjá greinina í The New Yorker. Í desember 2013 gerði Hersh í London Review of Books úttekt á gasárásinni í Ghouta nærri Damaskus í ágúst sama ár sem nærri nærri hafði sett af stað stórstríð Vestursins og bandamanna gegn Sýrlandsstjórn. Hann færði öflug rök að því að sarínið hefði komið frá "uppreisnarmönnum" og hefði borist þeim frá Tyrklandi. 

Saturday, June 24, 2017

Kafbátaheræfing og Rússahættan.

(bistist á fésbókarsíðu SHA 23. júní 2017)

                                Kafbáta-flotaæfingin Dynamic Mongoose 2016 við Noreg


Nú á mánudaginn 28. júní hefst tveggja vikna NATO flotaæfing, við Ísland með áherslu á kafbátahernað, nefnd Dynamic Mongoose. Talað er um 2000-3000 manns sem tekur þátt í æfingunni, frá 9 NATO ríkjum. Ótilgreindur fjöldi herskipa og kafbáta tekur þátt. RÚV talaði í kvöld við NATO-herforingja sem sagði að ástæðan sé vaxandi umsvif Rússneskra kafbáta sem geti farið að laumast gegnum GIUK-hliðið (línan Skotland, Ísland, Hvarf á Grænlandi) – og benti á að nú fari aftur hraðvaxandi hernaðarlegt mikilvægi Íslands, og loftrýmiseftirlitsins. Hættumatið í íslenskum fréttum er allt á eina bók.
Rússar standa fyrir 4-5% af herútgjöldum heimsins. Það er alveg gífurlegur voði. USA stendur fyrir 37%, það er í lagi. NATO og nánustu bandamenn (Ísrael, Japan, Sádar..) standa fyrir svona 85%. Það er í lagi. Vel á minnst Sádar einir eru komnir upp fyrir Rússa, gott.
Rússar hernema herstöð sína til 234 ára á Krímskaga og heimsbyggðin formyrkvast. En USA og NATO ástunda samfellda og æ hraðari hernaðaruppbyggingu við vesturglugga Rússlands með eldflaugakerfum, þungavopnum og tvöföldum mannaflans á hverju einasta ári, guði sé lof!
Rússland hefur eina herstöð utan eigin lands, nefnilega í Sýrlandi. Voðalegt! Bandaríkin hafa 700 herstöðvar utan lands dreifðar um heim, ekki síst í hring um Rússland. Það er í góðu lagi.
Sagt er fyrir vestan haf að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar sl haust. Þetta er alveg hræðilegt, þó sannanir hafi enn ekki fundist. En árið 1996 fóru menn Clintons forseta massíft inn í kosningabaráttuna í Rússlandi til að tryggja Boris Jetsin sigur. 

                                                            Forsíða TIME í júlí 1996

Ritið TIME fjallaði um málið og aðalgreinin fjallaði um: „The secret story of how four U.S. advisers used polls, focus groups, negative ads and all the other techniques of American campaigning to help Boris Yeltsin win.“ Svo veifaði Jeltsin risaláni frá vini sínum Clinton sem fengist, ef sigur ynnist. Ja, göfugur tilgangur helgaði alla vega meðalið.
Ætlar SHA ekki að álykta um málið?

Thursday, June 22, 2017

Katardeilan og klofningur innan sýrlensku "uppreisnarinnar"

(birtist á fésbókarsíðu SHA 22. júní 2017)


Hér er grein frá REUTERS sem greinir erlenda stuðninginn við sýrlensku "uppreisnina" og hvernig Katardeilan virkar kljúfandi á hann. Stuðningur Katar hefur farið á hópa sem standa nálægt Múslimska bræðralaginu og al-Kaida/Nusra, sem kalla sig nú Tahir al-Sham. Þessir aðilar tengjast jafnframt Tyrkjum og starfa mest í Norður-Sýrlandi. Sádar styðja aðallega sömu aðila og CIA (Jaish al-Islam o.fl) sem eru sterkari á suðursvæðinu. Það er ljóst að slæmt stríðsgengi veldur vaxandi klofningi meðal leiguherjanna - nokkuð sem hjálpar Sýrlandsher. Hins vegar stuðlar þetta líklega að auknum beinum hernaði USA-bandalagsins og um leið skýrist æ betur hver er hans raunverulegi andstæðingur.


Í pistli í febrúar sl.vísaði ég í uppfærð plön (eftir „fall“ Aleppo) strategistanna í bandaríska stjórnkerfinu um sundurlimun Sýrlands (í alavíta- tyrkneskan- kúrdískan og súnní- hluta) sem kljúfi allan austurhluta landsins undan yfirráðum Damaskus. Ofannefnd skipting er mjög í samræmi við það. Nýleg fleygsókn Sýrlandshers austur að landamærum Íraks ógnar hins plönum strategistanna. 

Monday, June 19, 2017

Gróteskt þjófélagslegt raunsæi?

Hér leyfi ég mér að byrta ljósmynd af tveimur málverkum til upplífgunar síðunni. Án leyfis og í takmörkuðum ljósmyndagæðum. Ekki eru myndirnar eftir mig (!) heldur son minn, Þránd. Leyfi mér jafnframt að vísa í vefsíðu Þrándar . Myndirnar að neðan eru hluti af sýningunni Gustukaverk sem er í Galleríi Porti Laugavegi 23 b. Reykjavík nú seinni hluta júnímánaðar. Hér kveður við pólitískan tón hjá Þrándi. Kannski má kenna myndirnar við gróteskt þjóðfélagslegt raunsæi. 

                                     Titill: Aryan banki
                                  Titill: Gamma

Thursday, June 15, 2017

Efnavopnaárásin var beiðni um "mannúðaríhlutun“

(greinin birtist í Fréttablaðinu 15. júní 2017)

                    Helstu fréttamyndir frá Khan Sheikhoun komu frá "Hvítu hjálmunum"

Þann 4. apríl fórust um 100 manns af völdum efnavopna í bænum Khan Shaykhoun í Idlib, Sýrlandi. Daginn eftir fordæmdi Trump þessa „svívirðilegu aðgerð af hálfu Assadstjórnarinnar“ og sama gerðu allar vestrænar meginfréttastofur – án allrar rannsóknar á vettvangi.
Þann 11. apríl birti New York Times 4 bls. skýrslu frá CIA um málið. Þar komu fram vísbendingar um tvennt: a) að fórnarlömbin hefðu orðið fyrir sarín-eitrun og b) að flugvélar Sýrlandshers hefðu á sama tíma gert sprengjuárásir á bæinn. Því fylgdi svo fullyrðing um að Sýrlandsher stæði á bak við efnaárásina, byggð einna helst á umsögn Amnesty International sem vísaði til „sérfræðinga“ á staðnum án þess að tilgreina það neitt nánar. Hvorki CIA né Amnesty höfðu gert neina rannsókn á vettvangi, og hún hefur ekki enn farið fram. Þann 12. apríl gerði bandarískt herskip svo eldflaugaárás á sýrlenskan flugvöll „í hefndarskyni“ og sneri stríðinu í fyrsta sinn opinskátt gegn Sýrlandsstjórn.

Þetta er að miklu leyti endurtekin atburðarás frá 2013 þegar Vestrið var á barmi lofthernaðar gegn Sýrlandi, einnig þá eftir eiturgasárás, í Ghouta, nærri Damaskus. Ekki heldur þá komu neinar sannanir um geranda. Eftir aðra eiturárás skömmu áður sagði Carla del Ponte, formaður eftirlitsnefndar SÞ, um efnavopn í Sýrlandi að „sterkar grunsemdir“ um beitingu saríns beindust að uppreisnarmönnum fremur en Assadstjórninni. Seinna leiddu Seymour Hersh o.fl. líkur að því að sarínið kæmi frá Tyrklandi til uppreisnarmanna. Obama mat það svo að sönnunarfærsla um sekt Assads væri veik og andrúmsloft bæði í Bandaríkjum og Bretlandi var greinilega andsnúið stríði svo hætt var við á síðustu stundu. En hér hætti endurtekningin og Trump tók skrefið alla leið.

Monday, June 12, 2017

Stríð 21. aldar og íslenska sjónarhornið

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 12. júní 2017

RÚV hafði í samvinnu við UNICEF á „Degi rauða nefsins“ (9. júní) þátt til að styrkja söfnun fyrir þjáð og snauð heimsins börn. Safnað var vegna hungursneyðar í Suður-Súdan, Jemen, Sómalíu og Nígeríu. Ekki var minnst á að vestræn stórveldi hafa staðið á bak við hernað í þremur þessara landa, sem ræður líklega mestu um hungrið. Svo kom „yfirlitsmynd yfir hörmungarnar í Sýrlandi“.

Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
Fókusinn var á Aleppó – og spurningin um  sökina var auðveld: Einn aðili var fundinn sekur, Sýrlandsstjórn/her, sem stundað hefði fjöldamorð á borgarbúum. Lyginni er dælt í okkur með sprautum. Yfirlitsmyndin var dæmigerð fyrir túlkun íslenskra fjölmiðla á styrjöldum okkar daga. Helstu fjölmiðlar Íslands – RÚV og dagblöðin tvö – eru alveg samstíga í túlkun á helstu styrjöldum 21. aldar. Skýringarmunstrið er u.þ.b. svona:

a) Stríðið í  Sýrlandi er kallað „borgarastríð“ en sagt stafa af réttlátri „uppreisn“ gegn miskunnarlausum harðstjóra. Af ytri afskipum af stríðinu er einkum talað um þátt Rússa. Þagað er um peningana frá Sádi-Arabíu sem fjármagna „uppreisnina“ eða endalausa aðflutninga og þjónustu við hana frá Tyrklandi. Og fátt sagt um um þátt Bandaríkjanna allt frá viðskiptabanni á Sýrland til þjálfunar og vopnasendinga til „uppreisnarinnar“.

b) Stríðið í Jemen er kallað „borgarastríð“ og er þá alveg horft framhjá því að fyrir tveimur árum (júlí 2015) breyttist stríðið í innrásarstríð þegar Sádi-Arabía réðist á þetta fátæka land með 100 sprengjuflugvélum og her sem taldi 150 þúsund hermenn, aðallega málaliða. USA og NATO-veldin sjá Sádum fyrir vopnum, sbr. spánnýjan samning Trumps við Sáda, stærsta einstaka vopnasölusamning sem gerður hefur verið. Sl. haust hófu Bandaríkin svo beinan hernað gegn Jemen við hlið Sáda.

c) Stríðið í Írak er í íslenskum fjölmiðlum skilgreint sem „stríð gegn ISIS“ og „stríð gegn hryðjuverkum“. Góðu gæjarnir berjast við að „frelsa“ Mósúl. En „stríðið gegn ISIS“ í Mósúl og víðar í Írak er einfaldlega framhald Íraksstríðsins 2003-2011, innrásar og hernáms sem kostað hefur milljón Íraka lífið, og skóp m.a. fyrirbærið ISIS. Bandaríkin eru aldeilis ekki frelsandi afl heldur hernámsafl í Írak sem hefur enn sama markmið, að sundurlima landið og komast yfir auðlindir þess.

d) Stríðið í Úkraínu er kallað borgarastríð. Aldrei þessu vant er gert mikið úr utanaðkomandi íhlutun, þ.e.a.s. íhlutun og yfirgangi Rússa. Hins vegar er kyrfilega þagað um þátt CIA sem stjórnaði valdaráninu í Kiev 2014 eða um hernaðarlega innikróun Rússlands, af hálfu NATO-velda, fyrir og enn frekar eftir það valdarán.

Sem sagt, þessum helstu styrjöldum sem nú geysa lýsa fjölmiðlarnir okkar sem borgarastyrjöldum og/eða „stríði gegn hryðjuverkum“. Skipulega er horft framhjá hinum vestrænu afskiptum. Fjölmiðlarnir íslensku bergmála þær túlkanir sem stóru fréttastofurnar vestan hafs gefa en þær aftur tjá einfaldlega hagsmuni bandarískrar heimsvaldastefnu og hergagnaiðnaðar. Svo muldra menn gjarnan í skeggið eitthvað um það böl sem hlýst af „óumburðarlyndi“ og „trúarofstæki“.

Ofantaldar styrjaldir hanga saman. Stríðin eru öll betur skilin sem árásarstríð en sem borgarastríð. Yfirstjórn þeirra er í Washington. Árið 2001 lýstu USA og NATO yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ (áður en þeir réðust inn í Afganistan). Það var yfirskrift og réttlæting hnattræns hernaðar og síðan hafa þeir  stundað látlausar valdaskiptaaðgerðir, ýmist beint eða með hjálp svæðisbundinna bandamanna. Helsta þungamiðja stríðsrekstursins hefur verið í Miðausturlöndum og önnur þungamiðja á fyrrum yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Um er að ræða samhangandi íhlutunarstefnu Vestursins til að steypa „óþóknanlegum“ stjórnvöldum og koma að öðrum „þóknanlegum“. Svæðisbundnir bandamenn með eigin valdahagsmuni koma hér við sögu, og Sádi-Arabía er mikilvægasti bandamaður NATO í múslimaheiminum, í því verkefni Vestursins að ná yfirráðum í Miðausturlöndum. Og framan talin stríð öll eru liðir í heimsyfirráðastefnu þar sem aðalmeðulin eru hernaðarleg. Aðeins einn aðili rekur slíka stefnu í nútímanum: Vesturblokkin (NATO-blokkin) undir forustu Bandaríkjanna.

Þáttur íslenskrar utanríkisstefnu í þessu samhengi er hvorki saklaus né friðsamlegur. Ísland tekur þátt í valdaskipta- og yfirráðastefnu NATO-veldanna, eftir getu sinni. Alltaf. Óháð því hverjir skipa ríkisstjórn, enda heyrist engin andstaða við þá stefnu á Alþingi. Ísland var í bandalagi hinna viljugu þjóða gegn Írak (við það var reyndar andstaða á Alþingi). Ísland studdi árásarstríð NATO gegn Afganistan og gegn  Líbíu. Íslenska vinstri stjórnin viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa í Sýrlandi – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands, og stillti sér þannig á bak við „uppreisn“ (kostaða, vopnaða og mannaða utanlands frá) gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Ísland tekur þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi, mótatkvæðalaust í utanríkismálanefnd og á Alþingi.  Í málefnum stríðs og friðar fylgir Ísland þeirri línu sem lögð er í Washington, punktur. Og röklegt framhald þess: íslenskar fréttastofur eru í þeim málum endurvarpsstöðvar stóru fréttastofanna vestra sem eru hluti af stríðsvélinni.

Sunday, June 11, 2017

Eldsmatur í "Katar-krísunni"

(Ég deili hér viðtali við Juniad Ahmad sem birtist á The Real News Network 9. Júní 2017 um „Katar-krísuna“. Úr umræðu á fésbók SHA sama dag)


Samkvæmt Junaid Ahmad vakir fyrir þessu bandalagi sem hann kallar „US-Saudi-Israeli-UAE nexus“ að magna deiluna við Írani og vill það þvinga Katar til að slíta sinni orkumálasamvinnu við þá. Og í þinginu í Washington er hafin umræða um að setja aftur refsiaðgerðirnar á Íran. En eldsmaturinn í deilunni sést á því að Tyrkir taka afstöðu með Katar og bjóða þeim bæði mat og hernaðaraðstoð. Þarna er þá samtímis alvarleg deila risin innan NATO (Innan sviga sjást önnur merki um alvarlegar sprungur innan NATO þegar Þjóðverjar draga 260 manna her sinn fráIncirlik-herstöðinni í Tyrklandi)


Ég hef ákveðið á tilfinningunni að þessi klofningur innan fylgiríkja Vestursins í Miðausturlöndum tengist mikið því að stríðin þeirra þar ganga mjög illa. Líbíustríðið gekk „vel“ og varð til að þétta raðirnar og menn fylktu sér fullir bjartsýni á bak við valdaskipta-"uppreisn" í Sýrlandi. En lengi hefur allt gengið á afturfótum í Sýrlandi og líka í Jemen og þá fer samstaðan að bila.

"Stríð gegn terrorisma" - sáning terrorisma

(birtist á Fésbók SHA 6. júní 2017)

Af hverju stafar sú bylgja hryðjuverka sem geysar í Miðausturlöndum og teygir sig þaðan inn í Evrópu? Hún stafar af hernaðarútrás USA/NATO sem hófst 2001 undir merkjum „hnattræns stríðs gegn terrorisma“. En réttnefnið væri „sáning terrorisma“. Sáðvöllurinn er Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland. Seríustríð. Vestrænir heimsvaldasinnar hafa kynt undir terrorismanum á a.m.k þrennan hátt: A) Í fyrsta lagi með beinum innrásum og meðfylgjandi samfélagsupplausn. Íslamska ríkið varð til í Íraksstríðinu, hét fyrst Al-Kaída í Írak, færði þaðan út kvíar og sérstaklega til Sýrlands. B) Í öðru lagi með því að vopna og manna hryðjuverkahópa beint. Dæmi: NATO-veldin vopnuðu og beittu fyrir sig hryðjuverkahópum í Líbíu 2011 (út frá Benghazi), m.a. hópnum LIFG sem varð hluti af Al-Kaída. LIFG starfaði líka líflega í Bretlandi, m.a. í Manchester. Faðir sprengjumannsins í Manchester, Salmans Abedi, gekk í LIFG. Árið 2011 var fjöldi líbísk-ættaðra jíhadista sendur af bresku leyniþjónustunni MI6 til Líbíu til að berjast við Gaddafí. C) Í þriðja lagi með því að „siga“ svæðisbundnum bandamönnum sínum á „skúrkana“. Þessir bandamenn – Sádar, Katar, Ísrael, Tyrkir mikilvægastir – að sínu leyti fjármagna, vopna og styrkja terrorista. Ekkert þessara svæðisvelda gæti þó ráðist þannig á nágranna sína nema hafa til þess grænt ljós og öruggan stuðning (vopnastuðning) frá USA og NATO. En samanlögð áhrif af þessu eru rokvöxtur hryðjuverkanna og um leið hafa USA/NATO skapað sér margfalda átyllu til að auka hnattrænan hernað sinn, „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Djöfullinn bítur í skottið á sér og – bingó! Ég bendi á eigin grein, ársgamla, nokkuð ítarlega um einmitt þetta á Friðarvef.