Sunday, January 14, 2018

Truman og Churchill

(birtist á fésbók SHA 14. janúar 2017)
Harry Truman og Winston Curchill

Talandi um Kalda stríðið. Fáeinum mánuðum eftir stríðslok, í mars 1946, stóðu þeir Winston Churchill og Harry Truman Bandaríkjaforseti saman á fundi í Fulton í Missouri USA. Þeir tóku stöðuna og Churchill meitlaði hana í fræga setningu: “Frá Stéttin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur fallið niður járntjald yfir þvera álfuna“.
Hvað gaurar voru þetta, nýkomnir úr stríði við fasismann? Ja. Winston Curchill hafði hitt Mússólíni 1927. Eftir fundinn sagði hann við ítalska blaðamenn: „Hefði ég verið Ítali er ég viss um að ég hefði staðið heilshugar með ykkur frá upphafi til enda í árangursríkri baráttu ykkar gegn villimannlegri græðgi og ofstæki lenínismans." (sjá R.M.Langworth 2017, Winston Churchill, Myth and Reality, bls. 106). Síðar, í stríðssögu sinni staðfesti Churchill þetta þegar hann rifjaði upp: „Ennfremur, í átökunum milli fasisma og bolsévisma var enginn vafi hvar samúð mín og sannfæring lá“ (sjá Churchill 1949, Their Finest Hour, 106). Harry Truman var litlu betri. Daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 mælti hann: „Ef við sjáum að Þýskaland er að sigra ættum við að hjálpa Rússum, en ef Rússland er sigursælt ættum við að hjálpa Þýskalandi og á þann hátt láta þá drepa eins marga og mögulegt er.“
Hvorugur þessara manna var andfasisti þó ekki væru þeir fasistar. Þeir voru fyrst og síðast auðvalds- og heimsvaldasinnar, og þeir höguðu seglum á alþjóðavettvangi eftir því sem kom þeirra eigin heimsveldi best. Og fyrir þeirra eigin heimsveldi voru fasistaríkin augljóslega helsta ógnin árið 1941. Fyrrnefnd ummæli Trumans þetta ár um Þýskaland og Rússland má þó ekki skilja svo að hann hafi lagt fasisma og kommúnisma að jöfnu. Eftir að hann varð forseti var andkommúnismi einna sterkasti þáttur í stjórnarstefnunni. Í utanríkismálum fylgdi hann Truman-kenningunni um að koma böndum á kommúnisma hvar í heimi sem væri, í samvinnu við m.a. fjölmargar fasista- og herforingjaklíkur – og í hans forsetatíð náði  McCarthyisminn hámarki heima fyrir. En þarna árið 1946 voru sem sagt þessi helstu forustumenn og spámenn hins „frjálsa heims“ að leggja línuna fyrir Kalda stríðið. Það var ekki von á góðu.

No comments:

Post a Comment