Friday, February 15, 2019

„Valdaskiptaaðgerðir“ – Venesúela og Líbía

("Birtist á Neistar.is og Kvennablaðinu 12. febrúar 2019)
                                               Merkt við þá til "valdaskipta": Gaddafí og Madúró

Aðferðir við „valdaskiptaaðgerð“ (regime change) eru svolítið breytilegar í ólíkum löndum, en munstrið sem birtist í Venesúela er orðið mjög kunnuglegt, auðþekkjanlegt frá Stór-Miðausturlöndum. Munstrið er eftirfarandi: Efnahagslega og hernaðarlega mikilvægt ríki „gengur ekki í takt“, valdaskipti eru sett á dagskrá, hliðarríkisstjórn sett á fót og viðurkennd, efnahagslegar refsiaðgerðir, fjölmiðlaherferð byggð á mannréttinda-mælskulist og loks hernaðarárás „í mannúðarskyni“. Af breytilegum styrjöldum í Stór-Miðausturlöndum frá 2001 sýnast líkindi Venesúela við Líbíu 2011 vera einna mest, en þetta munstur birtist líka í Írak, Afganistan og Sýrlandi. Pólitískt landslag landanna er ólíkt, í Venesúela er harðvítug deila milli stétta eftir hægri/vinstri línum en Líbía skiptist meira skv. ættbálkum og trúarhópum. Samt er sama munstri fylgt.

1 HLIÐARSTJÓRN. „Valdaskiptamenn“ frá Bandaríkjunum og NATO koma sér upp hliðarríkisstjórn og leita eftir diplómatískri viðurkenningu á henni, veita henni fjárstuðning og hernaðaraðstoð. Í Líbíu hét það National Transitional Council (NTC), stofnað í Benghazi í febrúar 2011. BNA, Frakkland o.fl. gengust þá fyrir fjölþjóðlegri viðurkenningu (Ísland viðurkenndi NTC mánuði áður en Gaddafí féll). Svokölluð „Þjóðareining uppreisnarhópa í Sýrlandi“ var stofnuð í Katar í nóv. 2012 og viðurkennd m.a. af Íslandi sem „hinn lögmæti fulltrúi Sýrlands“ mánuði síðar. Í Venesúela riðu Bandaríkin á vaðið og viðurkenndu Juan Guaido sem forseta, og bandamennirnir fylgdu þeim í halarófu, þ.á.m. Ísland.

2 EFNAHAGSLEGAR REFSIAÐGERÐIR. Þær eru alltaf undanfari beinnar íhlutunar. Formlega beinast þær ýmist gegn einstaklingum eða ríkisstjórn landsins. Þeim var beitt óspart í Líbíu og í enn meiri mæli í Írak og Sýrlandi (Chile 1973 er annað dæmi). Þetta vopn bítur vel af því svo kallað „alþjóðasamfélag“ (frá 1990) er samhangandi heimsvaldakerfi undir „einpóla“ bandarískri drottnun – með bæði dómsvald og refsivald.

3 FJÖLMIÐLAHERFERÐ er sett af stað þar sem dregin er upp mynd af ríki í kaldakoli („failed state“). Í gríðarlegri fjölmiðlaorðræðu um „harðstjórn“, „mannréttindi“ og „lýðræði“ eru viðkomandi stjórnvöld „skrímslisgerð“ (demóníseruð) , jafnframt gefin mynd af almenningi í uppreisn gegn skrímslinu. Myndum sem sýna stuðning við stjórnvöld er skipulega haldið frá. Sagan er sögð í CNN, CBS, BBC og hún svo bergmáluð í þúsundum endurvarpsstöðva vítt um heiminn (RÚV er ein slík).

4 RAUNVERULEGAR ÁSTÆÐUR íhlutunar eru náskyldar og líkar. Olía er lykilorðið. Líbía er olíuauðugasta land Afríku. Venesúela er olíuauðugasta land allrar Ameríku (og heimsins). Heimsvaldasinnar leyna ekki alltaf ástæðum gerða sinna. Donald Trump var spurður um afstöðu sína til Líbíustríðsins árið 2011 (í viðtali við Kelly Ivans á Wall Street Journal): “I’m only interested in Libya if we take the oil. If we don’t take the oil, I have no interest in Libya.” Og í lok janúar sl. sagði John Bolton öryggisráðgjafi Trumps á Fox News: “Það munar miklu fyrir Bandaríkin efnahagslega ef við fáum bandarísk olíufyrirtæki til fjárfestingar og framleiðslu í olíumöguleikum Venesúela.“ Þetta eru blessunarlega bersöglir menn. Þess vegna er bágt að þau Guðlaugur Þór og Katrín skuli komast upp með að babla um „lýðræði“ í þessu samhengi. Stjórnaðist sprengjukastið á Líbíu af lýðræðisást? Fyrir Bandaríkin snýst málið auk þess um yfirráðin í heimshlutanum, Suður-Ameríku og Karíbahafi, eins og Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum (eða var það lýðræði?).

5 GEGN ÞJÓÐNÝTINGARSTEFNU. Þjóðnýtingarstefnan í Líbíu er gömul. Stefna Gaddafí-stjórnarinnar, kennd við sósíalisma, fól í sér þjóðnýtingu olíunnar. Allt frá 8. áratug var þeirri stefnu mætt með ýmiss konar refsiaðgerðum BNA og Vestursins gegn Líbíu, og loks með stríði. Í Venesúela eiga olíurisarnir (t.d. Chevron, ExxonMobil og Halliburton) sér langa sögu en endurteknar þjóðnýtingar í olíuiðnaði landsins hafa dregið mjög úr gróða þeirra þar. Því fer þó fjarri að um fulla þjóðnýtingu sé að ræða í Venesúela. Landið er enn háð helsta andstæðingi sínum um olíuhreinsun og fjármál, olíuviðskiptin fara fram gegnum Texas, og olíukapítalistar Venesúela eru flestir á bandi stjórnarandstöðunnar. Nú getur Bandaríkjastjórn með refsiaðgerðum hindrað að greiðslur fyrir olíuna renni til stjórnvalda í Caracas (hún mun beina þeim til Juan Guaido). En olíurisarnir vilja auðvitað greiðara aðgengi – og „hliðarstjórnin“ lofar slíku, Independent skrifaði 5. febrúar: „Væntanleg ríkisstjórn Venesúela mun leyfa erlendum einkaolíufyrirtækjum meiri hlutdeild í sameignarrekstri með ríkisrekna olíurisanum, segir útsendari Juan Guaidos til Bandaríkjanna.“

6 OLÍUDOLLARINN SEM VOPN. Á velmektardögum sínum byggði BNA upp olíudollarakerfið. Heimsviðskipti með olíu skyldu fara fram í dollurum. Punktur! Kerfið stendur en, en er mjög ógnað. Það skapar enn endalausa eftirspurn eftir dollurum. En Gaddafí og Madúró eiga það sameiginlegt að hafa stefnt á að færa olíuviðskipti sín yfir í annan gjaldmiðil (Íran og Írak hótuðu hinu sama). Slíkri stefnu svara BNA og bandamenn þeirra jafnan með efnahagsþvingunum og – ef það nægir ekki – með stríði.

7 HERNAÐARÍHLUTUN. Eðlilega kjósa heimsvaldasinnar friðsamleg „valdaskipti“, t.d. í formi „litabyltingar“ frekar en hernaðaríhlutun. Það er ákjósanlegt fyrir auðhringana að geta gengið að olíuiðnaði Venesúela óskemmdum. En reynslan frá Miðausturlöndum sýnir að þeir víkja sér aldeilis ekki undan hernaðaríhlutun ef „nauðsyn krefur“. Innrásin er alltaf (Líbíu, Sýrlandi, Júgóslavíu, Afganistan...) dulbúin sem „mannúðaríhlutun“. Hún er nú í bígerð í Venesúela. Eftir að hafa í nokkur ár þjarmað að almenningi með refsiaðgerðum bjóða Bandaríkin nú með hinni hendinni miklar matarsendingar til Venesúela. Mike Pompeo utanríkisráðherra tísti 6. febrúar: „The Maduro regime must LET THE AID REACH THE STARVING PEOPLE.“ Þetta bragð er sótt pólitíska herfræði íhlutunarsinna, í kaflann „Uppreisn alþýðu“. Seint mundi þó RÚV láta sér detta í hug að benda á svo óviðeigandi tengingar. Í þessu efni er þó staða Madúrós ósambærileg við stöðu t.d. Assads í Sýrlandi: Madúró er djúpt inni á hernaðarlegu yfirráðasvæði óvinarins.

8 VALDASKIPTABANDALAGIÐ. Á bak við kröfuna um „valdaskipti“ í Venesúela standa BNA + ESB = NATO, studd af svæðisbundnum fylgiríkjum Bandaríkjanna, „Líma-hópnum“ svonefnda með Kólumbíu fremsta í flokki en einnig Brasilíu og Perú. Munstrið var það sama í tilfelli Líbíu. Svæðisbundnu fylgiríkin þá voru Katar og Persaflóaríkin sem sendu heri og peninga til „uppreisnarinnar“. Eftir að BNA reið á vaðið með að viðurkenna Juan Guaido 23. janúar sl. settu Þýskaland, Frakkland og Spánn fram úrslitakosti fyrir Madúró sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

9 LÖND Í RÚST. Líbía, Írak, Sýrland voru öll lönd með tiltölulega mikla velferð áður en valdaskiptaaðgerðir hófust. Eftir á standa þau stórlega miklu verr, Írak og Líbía eru brotin og mikið til í upplausn, Sýrland stóð af sér árásina en verður lengi að gróa sára sinna.

10 ÍSLAND ER MEÐ. Ísland má sín lítils en er þó alltaf tilbúið að lýsa yfir stuðningi við eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðir húsbændanna í BNA og NATO. Þar sem aðgerðirnar gagnvart Líbíu og Venesúela eru hér sérstaklega til umræðu þá er einn stjórmálaflokkur sem á aðild að ríkisstjórnarstuðningi Íslands við þær aðgerðir báðar: VG. Og finnst sumum hart.

No comments:

Post a Comment