Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn. 

No comments:

Post a Comment