Monday, February 20, 2017

Sprungan í bandaríska stjórnkerfinu

(birtist á fésbókarsíðu SHA 20. febr 2017)

                                                     Öryggisráðgjafi Trumps, Michael Flynn,neyddur til að segja af sér 

Bandaríska stjórnkerfið er klofið og átökin harðna. Annars vegar er forsetinn og hans lið og hins vegar a.m.k. stórir hlutar stjórnkerfisins, m.a. CIA. Það sýnist æ greinilegra að Trump tilheyrir valdaminni hlutanum í hinni klofnu elítu. Og nú er þjarmað að honum, alvarlegasta höggið er að öryggisráðgjafinn Michael Flynn er neyddur til að segja af sér. 

 Trump skarar glóðum elds að höfði sér með framgöngu sinni. Femínistar, múslimar og ólöglegir innflytjendur hafa ærna ástæðu til að andæfa honum. Eins 7 útvaldar þjóðir í ferðabanni (en USA var reyndar fyrirfram í nokkurs konar stríði við þær). Láti menn sér þó ekki til hugar koma að það sé raunveruleg ástæða fyrir klofningnum í elítunni. Formlegar ákærur gegn Flynn og Trump varða daður við Rússa, áhrif „rússneskra hakkara“ á kosningarnar og síðast samtal Michael Flynns við rússneska sendiherrann, áður en hann tók við embætti. Á báðum stöðum er Rússagrýlunni beitt að hætti MacCarthyismans. Ekki trúum við því að leyniþjónustan sé raunverulega hrædd við rússnesk áhrif í USA. Um hvað snýst þá deilan?

Ein hlið málsins er að Trump vill endurreisa þjóðlegan kapítalisma og hverfa frá efnahagslegri hnattvæðingu, sem hafi afbyggt bandarískan iðnað o.fl. sem ekki skal rætt hér.

Önnur hlið málsins er utanríkisstefnan. Það er ljóst að gjáin liggur ekki milli demókrata og repúblikana sbr repúblikanaforingjann og stríðshaukinn McCain sem kallar Trump verðandi „einræðisherra“. Í grein sinni „Making Russia „The Enemy““ skrifar hinn virti blaðamaður Robert Perry: „The rising hysteria about Russia is best understood as fulfilling two needs for Official Washington: the Military Industrial Complex’s transitioning from the “war on terror” to a more lucrative “new cold war” – and blunting the threat that a President Trump poses to the neoconservative/liberal-interventionist foreign-policy establishment.“

Þetta ber að skilja sem svo að „Official Washington“ hafi á seinni árum verið að breyta kúrsinum frá „stríði gegn hryðjuverkum“ og yfir í stefnu „íhlutana og valdaskipta“. Að Trump reyni að snúa þeirri stefnubreytingu til baka og lendi þá í átökum við The Military Industrial Complex. Þetta eru auðvitað ekki átök milli heimsvaldasinna og andheimsvaldasinna, heldur er það frekar tvenns konar hugmyndalegur búningur bandarískrar heimsvaldastefnu sem báðir eiga að þjóna hagsmunum risaveldisins en rekast að hluta til hvor á annars horn. 

 USA letraði „stríð gegn hryðjuverkum“ á fána sinn eftir 11. sept. En það var raunar aðeins innrásin í Afganistan 2001 sem gerð var undir þeim merkjum. Stríðin í Írak, Líbíu og Sýrlandi hafa einkum verið háð undir merkjum „valdaskipta“, og óvinurinn hefur þá verið „grimmur harðstjóri“, ekki „öfgaíslam“. Hugmyndafræðin um „stríð gegn hryðjuverkum“ í Írak, Líbíu eða Sýrlandi (og Afganistan raunar líka) er þverstæðufull og hangir engan veginn saman. Við hvern er eiginlega barist og hverjir eru „andspyrnuöflin“ sem kostuð eru til að heyja stríðið?

Donald Trump styður stríðsreksturinn í Afganistan. Ennfremur kallar hann Íran „hryðjuverkaríki númer eitt“. Sem nær auðvitað engri átt en fylgir þeirri gömlu línu USA að höfuðóvinurinn sé öfgaíslam. Hins vegar hefur hann fordæmt árásarstríðin í Írak og Líbíu og farið ýmsum niðrandi orðum um bandaríska utanríkisstefnu síðustu áratuga, m.a. í Sýrlandi og Úkraínu.

Það er ljóst að stefna Obama/Clintons (og Bush áður) felur í sér umfangsmeiri stríðsrekstur en stefnan sem Trump túlkar, ekki síst stigmögnun átaka gagnvart Rússum (og Kínverjum). Popúlistinn Trump sjálfur er stórorður og lendir í mótsögnum. Michael Flynn telst hins vegar þungaviktarmaður. En hann hefur talað opinskátt gegn CIA, sagt að árásirnar á Írak og Líbíu hafi verið „risamistök“ og að Bandaríkin hafi „sleppt lausum“ ISIS og Al Kaída í Írak og Sýrlandi. Utanríkisstefna síðustu áratuga, og gríðarlegir hagsmunir henni tengdir, geta verið í húfi. Það er því umtalsverður sigur fyrir „Official Washington“ og Military Industrial Complex að losa sig við Michael Flynn og veikja þannig Trump. En það er hætt við að það sé ekki, a.m.k. fyrst um sinn, sigur fyrir heimsfriðinn. Friðsamlegri tónar Trumps eru einmitt hans versti „glæpur“.

No comments:

Post a Comment