Monday, February 27, 2017

Uppfærð áætlun um skiptingu Sýrlands

(Birt á fésbók SHA 26. febrúar 2017)



Strategistarnir vestra áforma óháð hávaðanum kringum Hvíta húsið. Hugveitan RAND Corporation er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn. Hún hafði birt „Peace plan for Syria“ 2015 og 2016 og birti nú í febrúar „Peace plan III“. Hún viðurkennir nýleg áföll í Sýrlandsstríði, tapaða orustu í Aleppo, en aðlagar strategíu heildarstríðsins að því. Það tekst ekki að fella Assad í bráð, en strategían um skiptingu landsins (oft kölluð plan B) blífur: „ Aleppo’s fall thus effectively ends any realistic threat the opposition posed to Assad’s grip on power and consolidates the regime’s control over most of western Syria, with the exception of much of Idlib province, the Damascus suburb of Eastern Ghouta, and some isolated pockets elsewhere... it is likely that the sort of outcome we propose would develop as a hybrid of broad, top-down agreements negotiated by diplomats and local understandings reached by parties on the ground. In this sense, like in Bosnia in the mid-1990s, peace will have been facilitated by demographic changes on the ground, external agreement to those changes, and the exhaustion of the fighting parties.“ RAND birtir þarna kort sem sýnir hvernig menn sjá fyrir sér stórveldalausn þar sem Tyrkir ráða norðlægum landamærasvæðum Sýrlands en öðrum svæðum austar haldi Syrian Democratic Forces þar sem kúrdneska YPG sé ráðandi afl og njóti vestrænnar verndar og loks komi súnní-ráðandi belti niður suðaustur Sýrland, kringum Raqqa og Deir Ezzor, nú undir ISIS, sem verði undir „alþjóðlegri stjórn“: ...We therefore recommend that the United States propose to put Raqqa province, once liberated, under an interim international administration, thereby creating a neutral area held by neither the regime nor the opposition, pending the ultimate resolution of the civil war.“ Þetta er einmitt svæðið þar sem leyniþjónustan DIA sá 2012 fyrir sér framtíðar „furstadæmi salafista“ og sá það „jákvæðum augum“. Ofanskráð sundurlimun Sýrlands er er uppfærsla á áætluninni frá 2012.

Thursday, February 23, 2017

Reaganstjórn áformar - Obamastjórnin framkvæmir

(birt á fésbók SHA 22.2. 2017)


                                          Feðgarnir Bashar og Hafiz al-Assad
Brad Hoff, fyrrv. bandarískur hermaður, birti nýlega hjá The Libertarian Institute grein, vel studda rökum og heimildum, um leynileg bandarísk áform um valdaskipti í Sýrlandi. Greinin sýnir að slík áform urðu ekki til í „arabíska vorinu“ 2011. Áformin hafa haldið sér lítið breytt frá Reagan-tímanum.

Hoff birtir CIA-skjal frá 1986 sem nefnist „Syria: Scenarios of Dramatic Political Change“. Í inngangsorðum segir að skjalið fjalli um “a number of possible scenarios that could lead to the ouster of President Assad or other dramatic change in Syria.” Í skjalinu vonast menn eftir að trúarórói í hernum geti leitt til að súnníar snúist gegn stjórninni: „Although we judge that fear of reprisals and organizational problems make a second Sunni challenge unlikely, an excessive government reaction to minor outbreaks of Sunni dissidence might trigger large-scale unrest... we believe widespread violence among the populace could stimulate large numbers of Sunni officers and conscripts to desert or mutiny, setting the stage for civil war“. Sem sagt trú á að trúardeila gæti valdið ólgu (liðhlaupi eða uppreisn) 
sem mætti nýta. Er þetta ekki í ætt við það sem gerðist 2011? Ennfremur segir skjalið að Múslimska bræðralagið ætti að geta „með réttri forystu“ sameinað ólíka hópa til baráttu fyrir valdaskiptum. Sjá grein Hoffs.

Svo leið tíminn og helsti voldugi bandamaður Sýrlands, Sovétríkin, féll. Áform USA urðu þá raunhæfari. Í leynilegu símskeyti frá USA-sendiráðinu í Damaskus 2006 stendur m.a. þetta: „We believe Bashar’s [Assad] weaknesses are in how he chooses to react to looming issues, both perceived and real, such as... potential threat to the regime from the increasing presence of transiting Islamist extremists... The following provides our summary of potential vulnerabilities and possible means to exploit them…“ (Wikileaks)


Við vitum að bandarískar, breskar, franskar m.m. sérsveitir (og öryggisfyrirtæki) voru komin til Sýrlands 2011 til að þjálfa uppreisnaröfl (Wikileaks).


Árið 2012 sendi bandaríska leyniþjónustan DIA frá sér skýrslu um Sýrland. Þar segir: „salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI (Al-Qaeda í Írak) eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi... ISI [Islamic State of Iraq] gæti líka lýst yfir íslömsku ríki... Ástandið sýnir að það er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja.“ Hvað líka varð.


Opinberlega hafði USA engin afskipti. Erlendur stuðningur við uppreisn er óhjákvæmilega leynilegur. Skjalið frá 1986 er aðgengilegt vegna aldurs (31 ár). Skjalið frá DIA fékkst birt eftir dómsmál frá íhaldssömum bandarískum lögmannasamtökum, Jurdical Watch. Aðrar upplýsingarnar um gjörðir USA að tjaldabaki á fyrri stigum Sýrlandsstríðsins koma helst frá Wikileaks.

Monday, February 20, 2017

Sprungan í bandaríska stjórnkerfinu

(birtist á fésbókarsíðu SHA 20. febr 2017)

                                                     Öryggisráðgjafi Trumps, Michael Flynn,neyddur til að segja af sér 

Bandaríska stjórnkerfið er klofið og átökin harðna. Annars vegar er forsetinn og hans lið og hins vegar a.m.k. stórir hlutar stjórnkerfisins, m.a. CIA. Það sýnist æ greinilegra að Trump tilheyrir valdaminni hlutanum í hinni klofnu elítu. Og nú er þjarmað að honum, alvarlegasta höggið er að öryggisráðgjafinn Michael Flynn er neyddur til að segja af sér. 

 Trump skarar glóðum elds að höfði sér með framgöngu sinni. Femínistar, múslimar og ólöglegir innflytjendur hafa ærna ástæðu til að andæfa honum. Eins 7 útvaldar þjóðir í ferðabanni (en USA var reyndar fyrirfram í nokkurs konar stríði við þær). Láti menn sér þó ekki til hugar koma að það sé raunveruleg ástæða fyrir klofningnum í elítunni. Formlegar ákærur gegn Flynn og Trump varða daður við Rússa, áhrif „rússneskra hakkara“ á kosningarnar og síðast samtal Michael Flynns við rússneska sendiherrann, áður en hann tók við embætti. Á báðum stöðum er Rússagrýlunni beitt að hætti MacCarthyismans. Ekki trúum við því að leyniþjónustan sé raunverulega hrædd við rússnesk áhrif í USA. Um hvað snýst þá deilan?

Ein hlið málsins er að Trump vill endurreisa þjóðlegan kapítalisma og hverfa frá efnahagslegri hnattvæðingu, sem hafi afbyggt bandarískan iðnað o.fl. sem ekki skal rætt hér.

Önnur hlið málsins er utanríkisstefnan. Það er ljóst að gjáin liggur ekki milli demókrata og repúblikana sbr repúblikanaforingjann og stríðshaukinn McCain sem kallar Trump verðandi „einræðisherra“. Í grein sinni „Making Russia „The Enemy““ skrifar hinn virti blaðamaður Robert Perry: „The rising hysteria about Russia is best understood as fulfilling two needs for Official Washington: the Military Industrial Complex’s transitioning from the “war on terror” to a more lucrative “new cold war” – and blunting the threat that a President Trump poses to the neoconservative/liberal-interventionist foreign-policy establishment.“

Þetta ber að skilja sem svo að „Official Washington“ hafi á seinni árum verið að breyta kúrsinum frá „stríði gegn hryðjuverkum“ og yfir í stefnu „íhlutana og valdaskipta“. Að Trump reyni að snúa þeirri stefnubreytingu til baka og lendi þá í átökum við The Military Industrial Complex. Þetta eru auðvitað ekki átök milli heimsvaldasinna og andheimsvaldasinna, heldur er það frekar tvenns konar hugmyndalegur búningur bandarískrar heimsvaldastefnu sem báðir eiga að þjóna hagsmunum risaveldisins en rekast að hluta til hvor á annars horn. 

 USA letraði „stríð gegn hryðjuverkum“ á fána sinn eftir 11. sept. En það var raunar aðeins innrásin í Afganistan 2001 sem gerð var undir þeim merkjum. Stríðin í Írak, Líbíu og Sýrlandi hafa einkum verið háð undir merkjum „valdaskipta“, og óvinurinn hefur þá verið „grimmur harðstjóri“, ekki „öfgaíslam“. Hugmyndafræðin um „stríð gegn hryðjuverkum“ í Írak, Líbíu eða Sýrlandi (og Afganistan raunar líka) er þverstæðufull og hangir engan veginn saman. Við hvern er eiginlega barist og hverjir eru „andspyrnuöflin“ sem kostuð eru til að heyja stríðið?

Donald Trump styður stríðsreksturinn í Afganistan. Ennfremur kallar hann Íran „hryðjuverkaríki númer eitt“. Sem nær auðvitað engri átt en fylgir þeirri gömlu línu USA að höfuðóvinurinn sé öfgaíslam. Hins vegar hefur hann fordæmt árásarstríðin í Írak og Líbíu og farið ýmsum niðrandi orðum um bandaríska utanríkisstefnu síðustu áratuga, m.a. í Sýrlandi og Úkraínu.

Það er ljóst að stefna Obama/Clintons (og Bush áður) felur í sér umfangsmeiri stríðsrekstur en stefnan sem Trump túlkar, ekki síst stigmögnun átaka gagnvart Rússum (og Kínverjum). Popúlistinn Trump sjálfur er stórorður og lendir í mótsögnum. Michael Flynn telst hins vegar þungaviktarmaður. En hann hefur talað opinskátt gegn CIA, sagt að árásirnar á Írak og Líbíu hafi verið „risamistök“ og að Bandaríkin hafi „sleppt lausum“ ISIS og Al Kaída í Írak og Sýrlandi. Utanríkisstefna síðustu áratuga, og gríðarlegir hagsmunir henni tengdir, geta verið í húfi. Það er því umtalsverður sigur fyrir „Official Washington“ og Military Industrial Complex að losa sig við Michael Flynn og veikja þannig Trump. En það er hætt við að það sé ekki, a.m.k. fyrst um sinn, sigur fyrir heimsfriðinn. Friðsamlegri tónar Trumps eru einmitt hans versti „glæpur“.

Wednesday, February 15, 2017

Lög á sjómenn og SALEK – blikur á lofti

(bistist á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 15. febr 2017)

Þrýstingur vex jafnt og þétt kringum sjómannaverkfallið, og krafa um stjórnvaldsaðgerðir verða 
háværari. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið gefur út svarta skýrslu, „Mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna“ (*) Útgerðarmenn reikna greinilega með lögum á verkfallið – að fenginni reynslu af því á síðustu 30 árum hafa 15 sinnum verið sett lög á vinnudeilur og þar af sjö sinnum á sjómenn! (farmenn eða fiskimenn). Aðrir binda vonir við skattaafslátt, að láta þannig niðurgreiðslur ríkisins til sjávarútvegsins leysa útgerðina undan launahækkunum.

Deilan dregst á langinn og sýnir góða samstöðu og stéttvísi meðal sjómanna. Jafnframt sýnir hún enn einu sinni þá miklu samstöðu sem ríkir meðal íslenskra atvinnurekenda um að hindra að verkfallsaðgerðir skili árangri. Viðbrögð þeirra við verkföllum eru alltaf prinsippmál og í þeirra röðum ríkir í raun bann við því að beygja sig fyrir verkfalli, þar sem slíkt myndi skapa hættulegt fordæmi meðal launþegahópa. Stéttasamstaða atvinnurekenda snýst mjög um það að sýna að verkföll borgi sig ekki.  

Önnur stéttarleg viðbrögð eignastéttarinnar eru sama eðlis, og jafnvel alvarlegri. Atvinnurekendavald og ríkisvald nota neikvæða umræðu um verkfallið til að ráðast að samningsréttinum. Þar fer Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir. Í Silfrinu um daginn (5/2) sagði hann orðrétt: „Það sem mér finnst að við eigum að spyrja okkur, svona í ljósi þessa verkfalls,  sem kemur á eftir mörgum öðrum verkföllum sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum, er einfaldlega það hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða þennan ramma vinnumarkaðarins, sem virðist ekki hafa fram að færa neinar leiðir til þess að höggva á hnútinn þegar það er stál í stál.“  Sem sagt, breyta þarf „vinnumarkaðsmódelinu“. Bjarni vísar þarna líka í launadeilurnar 2015, sem urðu tiltölulega víðtækar. Viðbrögð fulltrúa atvinnurekenda og ríkisvalds – og ASÍ-forustu – við þeim verkföllum voru þau að þetta mætti helst aldrei endurtaka sig. Til að hindra það yrði að setja kraft í SALEK-viðræður milli aðila vinnumarkaðar. Í viðtalinu í Silfrinu bætti Bjarni við: „Í því sambandi er oftast talað um að við gætum stóraukið vald ríkissáttasemjara, að við gætum þvingað menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana, ef menn ná ekki niðurstöðu í samningum... þetta er í raun kjarni þess samtals sem hefur verið í gangi undanfarin ár undir merkjum SALEK, milli almenna og opinbera markaðarins og stjórnvalda... það miðar að því að við færum okkur nær norræna módelinu og að þróa og þroska leiðir til að komast út úr svona öngstræti.“ (*)

Ágreiningur hefur verið verulegur innan verkalýðshreyfingarinnar um SALEK-viðræðurnar. Verkalýðsfélag Akraness ásamt nokkrum öðrum verkalýðsforingjum hefur staðið fast gegn því vinnumarkaðslíkani sem SALEK hefur byggt á, af því það sé til þess fallið – og til þess hugsað – að stórskerða samningsrétt stéttarfélaga. ASÍ-forustan hefur mótmælt því kröftuglega: „Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga“ (*) En orð Bjarna forsætisráðherra segja það sem segja þarf: Markmiðið er að „þvinga menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana“ og að „stórauka vald ríkissáttasemjara“, segir hann. Sem kunnugt er er eitt meginatariði í SALEK-viðræðunum stofnun Þjóðhagsráðs sem greina skuli stöðuna í efnahagsmálum í aðdraganda kjarasamninga og leggja línu um „svigrúm til launahækkana“.

Nú ríður á að verjast tvöfaldri hættu: hindra það að enn ein lög verði sett á kjaradeilu sjómanna og eins að „skaðinn“ sem vinnudeilan veldur verði síðan notaður til að þvinga upp á okkur nýjum ramma um vinnudeilur skv. óskum atvinnurekenda.

Wednesday, February 8, 2017

Hvað messar hann í Eldmessu?


Ykkur, lesendum síðunnar Eldmessa, fjölgar með öruggum stíganda. Bloggsíðan var stofnuð síðla árs 2012. Í janúar 2016 fór heildarfjöldi heimsókna yfir 5000. En nú, þegar vika er liðin af febrúar 2017, eru heimsóknir í heild orðnar 10 284. Þær hafa því tvöfaldast og vel það á rúmu ári. 5000 heimsóknir á ári þýðir ca. 13,7 á dag eða 415 á mánuði. Það er vel viðunanleg athygli. Greinarnar eru alls orðnar um 130, stuttar og langar. Reglan er sú að birta hér greinar eftir mig sem áður hafa birst, í blöðum eða á netinu.

Hvað messar Þórarinn Hjartarson í Eldmessu sinni? Svar: það sem honum liggur á hjarta. Þórarinn er stálsmiður sem vinnur fullan vinnudag í Slippnum á Akureyri. Skrif hans á bloggsíðuna eru þess vegna óskipuleg, slitrótt og koma dálítið í gusum. Síðan er hvorki með ritstjórn né ritstjórnarstefnu. En hægt er að efnistaka greinarnar og sjá af því hvað þar er helst á döfinni (með því að klikka á einstök orð í dálkinum „Stikkorð“ fáið þið í runu greinar mínar um viðkomandi efni).

Ef þetta er gert sést að fókusinn er mestur á heimsvaldayfirgang og hina glæpsamlegu hernaðarstefnu, einkum vestrænna NATO-ríkja, sem og baráttuna gegn sömu fyrirbærum. Ekkert atriðisorð kemur eins oft fyrir og „Sýrland“, í 43 greinum alls. Önnur mikilvæg atriðisorð eru NATO, ESB, Bandaríkin, Rússland, Miðausturlönd, ISIS...

Reynt er að andæfa hinni ríkjandi skoðanamötun um alþjóðamál, sem er skoðanamötun sömu heimsvaldaafla. Þess vegna eru fréttaskýringar hér á síðunni oftar en ekki með öfugum formerkjum miðað við fréttir á RÚV eða í Fréttablaðinu. Lesendur hafa einnig tekið eftir að boðskapur Eldmessu er t.d. ólíkur því sem Samtök hernaðarandstæðinga (SHA) láta frá sér fara. Það breytir því ekki að meirihluti greina minna hafa fyrst birst á heimasíðu SHA (http://fridur.is/) eða Fésbókarsíðu samtakanna. En meginstraumur í íslenskri friðarhreyfingu, sem og evrópskri, aðhyllist einhvers konar kristilega, ópólitíska friðarhyggju sem gengur helst út á það að það sé „synd að drepa mann“ og gerir henni ómögulegt að taka afstöðu „í stormum sinna tíða“.  

Annað efni á síðunni: Um fjölþjóðlegan og hnattvæddan kapítalisma. Dálítið um kreppu kapítalismans, en þó verð ég að játa á mig of stopula hagfræðiþekkingu. Um aðkallandi verkefni verkalýðshreyfingarinnar og íslenskrar stéttabaráttu. Nokkrar greinar hafa birst um sögu sósíalismans og stundum er ýjað að sósíalískum og kommúnískum svörum við vandamálum samtímans. Í þeim efnum á ég oftar en ekki samleið með Alþýðufylkingunni.


Að mati þess sem hér ritar er það nokkur veikleiki þessarar síðu að hún virkar lítt á gagnvirkan hátt sem væri þó mjög æskilegt, t.d. í því knýjandi verkefni að vekja og örva andkapítalíska umræðu. Að einhverju leyti hafa komment eða umræða þegar orðið (á Fésbókinni eða t.d. á Pressunni hafi ég birt grein í Fréttablaðinu) áður en greinin kemur hér á Eldmessu. En á Eldmessu er umræðan nánast engin, sem tæknin býður þó upp á. Fyrir vikið veit ég ekki einu sinni hver þið eruð, kæru lesendur. Sú staðreynd að lesendum fjölgar jafnt og þétt tek ég sem vitnisburð um að slæðingur er af fólki sem telur þessa rödd þess virði að heyrast, og ég  beini til ykkar ósk um að þið hjálpið mér að þróa þá rödd. 

24/2 Viðbót 16 dögum síðar. Nú eru heimsóknir á Eldmessu orðnar 11 197, eða 913 síðan þessi grein birtist. Frá jólum hafa þær verið 1700 og 1800 á mánuði. Stígandinn er því enn góður.

Thursday, February 2, 2017

Trump og Obama - ferðabann og sprengjuregn

(birtist sem almennur fésbókarstatus 1. febrúar 2017)

Tilskipun Trumps um ferðabann 7 þjóða til USA í 3 mán. er eðlilega fordæmd innan og utan USA. En lof mér benda á að það er SAMFELLA í bandarískum stjórnmálum. Nefna ber að Obamastjórnin setti nákvæmlega sömu 7 lönd á lista yfir "countries of concern" gagnvart vegabrésfáritun til USA í fyrra vegna "hryðjuverkahættu". Fjögur þessara landa (Írak, Íran, Líbía, Sýrland) voru á lista Bush yngra yfir "öxulveldi hins illa" og Bandaríkin eru að vinna sig niður þann lista með styrjöldum. Á alls 5 (Sýrland Írak, Jemen, Líbíu, Sómalíu) af 7 þessara múslimalanda var varpað sprengjum í stjórnartíð Obama, af USA og bandamönnum. Sjá hér. Kannski er verra fyrir þjóð að fá á sig sprengjuregn en svona ferðabann? Pólitíski jarðskjálftinn í USA núna stafar að hluta af réttmætri hneykslun almennings, en hitt ræður meiru að við sjáum nú alvarlegan klofning í bandarísku elítunni þar sem þungvægasti hlutinn, hergagnaiðnaðurinn, tækniiðnaðurinn og fjármálaelítan (sem ráða stærstu fjölmiðlum), blæs til orustu gegn forsetanum sem er fulltrúi léttvægari hluta elítunnar. Alvarlegasti glæpur Trumps í augum þungavigtarmanna er líklega friðartal hans gagnvart Rússum og Sýrlandi. Lýðræðið í USA stendur ekki sterkt, en ef valdarán er í uppsiglingu er líklegra að það verði gegn Trump en með honum.

Obama talar í austur, Hillary í suður en Trump í vestur en það eru sömu klíkur og peningaöfl sem ráða mestu á bak við þessar fígúrur og af því stafar samfellan. Valdið í skugganum verður hins vegar herskárra með hverju ári svo vísast munu skammir Trumps gegn hernaðarstefnunni og NATO brátt hljóðna. En þessi djúpi klofningur og stympingar Trumps við að yfirvinna viðnám stjórnkerfisins gerir USA líklega erfiðara en áður að beita sér út á við. Útkoman gæti því orðið aukin einangrunarhyggja vestur þar. Theresa May sagði eftir fund þeirra tveggja: "US and UK will no longer invade foreign countries 'to remake the world in their own image'" Eigum við ekki bara að vona að það gæti orðið þróunin?