Friday, September 30, 2016

Loftferðabann í Sýrlandi? (og umræða um gagnsemi SHA)

(birt á fésbókarsíðu SHA 26. september 2016)
Yfirmaður bandaríska herráðsins, Joseph Dunford, mælir með svæðisbundnu "loftferðabanni" yfir Sýrlandi, að kyrrsetja sýrlenskar og rússneskar flugvélar: “I do agree that Syrian regime aircraft and Russian aircraft should be grounded.” Og Kerry segir: "We must move forward to try to immediately ground all aircraft flying in those key areas..." Hverjir eru "we" sem eiga að framfylgja því? Jú Bandaríkin og bandamenn þeirra, enda tekur Dunford fram: “I would not agree that coalition aircraft ought to be grounded.” Fordæmin um "loftferðabann" eru ófögur. Bandaríkin, Bretar og Frakkar settu loftferðabann á Írak 1991 - sem var meginforsenda fyrir árangursríku árásarstríði gegn landinu - og héldu því svo til streitu allt fram að seinna Íraksstríði. Öryggisráðið setti á loftferðabann yfir Bosníu-Herzegóvínu 1993-95 gegn Bosníuserbum og flugher Serbíu. Því var framfylgt af NATO. NATO setti loftferðabann yfir Kosovo 1999 til að geta gert loftárásir á her Serba og síðan fullt stríð úr lofti gegn Serbíu. Meirihluti Öryggisráðsins samþykkti ályktun nr. 1973 um loftferðabann yfir Líbíu, sem NATO framfylgdi með fullu stríði úr lofti sem sprengdi Líbíu í tætlur. Dunford gerir sér grein fyrir að loftferðabann yfir Sýrlandi er alvörumál: “Right now… for us to control all of the airspace in Syria would require us to go to war against Syria and Russia.” Segir hann, án þess að flökra né ropa. Hvað þarf stríð Vestursins gegn Sýrlandi að ganga langt áður en t.d. SHA sjá ástæðu til að hreyfa legg eða lið?



Sölvi Jónsson SHA eru allt of lin samtök rétt eins og Rússar. Þeir samþykktu að draga sig að mestu út úr Sýrlandi þegar þeir áttu nánast bara eftir að greiða uppreisnaröflunum náðarhöggið. Ég veit ekki hvað þeir voru að spá. Þeir eru alltof dipló.

Halldor Carlsson SHA eru takmörkuð, eins og Kata (sem við viljum samt sem næsta forsætisráðherra): skilja hvað við erum að tala um, en þora að viðurkenna sirka helminginn.
hinir eru ekki hætishót betri, rússadindlarnir (Chossoudovsky td), bakka alltupp sem rússar gera, td gagnvart smáþjóðum. öh. same shit, take yr pick..

Björgvin Rúnar Leifsson SHA eru handónýt samtök, því miður

Sunday, September 25, 2016

"Hvítu hjálmarnir" bera börn úr rústum og biðja um loftferðabann

(birt á fésbókarsíðu SHA 24 september 2016)



Áróðursstríðið er grundvallarþáttur stríðsins, m.a. Sýrlandsstríðsins. Um skeið hefur í heimspressunni borið mjög á myndum tengdum samtökunum Syrian Civil Defence sk „Hvítu hjálmunum“. Einkum eru þar bjargvættirnir með hvítu hjálmana sýndir bjarga börnum úr rústum í Aleppó. Öll stærstu blöð og fréttastofurnar USA og Vestursins birta um þá lofgreinar. Holliwood tekur þátt í þessu enda þyrlast sterkar og hjartnæmar áróðursmyndir út um heimsbyggðina, hannaðar til að hitta fólk í hjartastað og mikil áhersla á barnamyndirnar. Ein slík var af Orman litla, „drengnum í sjúkrabílnum“ (sjá hér að ofan), sem „Hvítu hjálmarnir“ „björguðu“. Fréttastofan NBC News kallar „Hvítu hjálmana“ "Angels on the Front Line" og rekin er sterk herferð vestan hafs fyrir því að veita samtökunum friðarverðlaun Nóbels.
Samtökin kalla sig „frjáls félagasamtök" (non governmental, NGO) en fá samt opinbert fé frá a.m.k. fjórum NATO-löndum, USA, Bretlandi, Hollandi, Danmörku. Wikipedia skrifar að ein mikilvæg stofnun á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins „USAID now appears to be the largest donor, having contributed at least $23 million since 2013“
Það er mikilvægt er að gera sér grein fyrir að samtökin starfa bara á svæðum uppreisnarmanna (jíhadista) og birtar hafa verið myndir af hvíthjálmamönnum í bland við Al Nusramenn. Samtökin hafa sér líka pólitíska stefnu og foringjar þeirra krefjast „loftferðabanns“ gegn Assadstjórninni, sem þýðir fullan lofthernað Vestursins gegn Sýrlandi. Þetta minnir mjög á stúlkuna Nayira sem vitnaði um það 1991 hvernig hermenn Saddams Húseins hefðu ráðist á „súrefniskassabörnin“ í Kúvaít og svo hjartnæman vitnisburð Colins Powel hjá Öryggisráðinu 2003 um gjöreyðingarvopn Saddams, sem sagt hluti af stríðsæsingaáróðrinum.

Obama friðardúfa í andsnúnu stjórnkerfi?

(Birt á fésbókarsíðu SHA 14. september 2016)
Ekki þarf að búast við að Bandaríkin standi heil á bak við vopnahléssamkomulagið (um Sýrland) sem þeir gerðu við Rússa um daginn. Að einhverju leyti vegna mótsagna í stjórnkerfinu (hermálaráðuneytið virkar herskárra en utanríkisráðuneytið) en ennþá frekar af því allt stríðið er blekkingarleikur af þeirra hálfu. Það er fyrir hendi ákveðin býsna algeng tilhneiging til að gera Obama að friðelskandi manni í andsnúnu stjórnkerfi. Þrátt fyrir allt hans mjúka orðfæri er hann herskár heimsvaldasinni. Það þýðir þó ekki að vont geti ekki versnað, og endurkoma Hillary Clinton í Hvíta húsið verður vissulega enn eitt skref bandaríska stjórnkerfisins inn í sívaxandi hernaðarstefnu.

Það eru ýmsir í USA miklu herskárri í tali en Obama, rétt er það. Obama hefur annan talsmáta en Bush og nýhægrimenn (og Hillary), Hann hefur lært "soft power" af því það þjónar heimsvaldastefnunni betur. Stefnuna sjáum við ekki af orðum hans heldur gerðum. Stjórn hans hefur smíðað fleiri atómsprengjur en fyrirrennararnir og staðið að meiri hernaðaruppbyggingu í Austur-Evrópu en nokkur þeirra sem og miklu meira hernaðarumsátri um Kína en þeir... Og Sýrlandsstríðið er enn eitt valdaskiptastríð Bandaríkjanna, gangsett í valdatíð hans, dulbúið sem uppreisn. Markmið USA er valdaskipti/sundurlimun landsins, ekki friður. Fordæming á al-Nusra er orð (sem Assad vissulega getur nýtt sér), en gjörðirnar eru vopnun (leynd eða ljós) þessara samtaka og vopnabræðra þeirra með önnur nöfn (Jabhat al-Sham, Jays al-Islam..). Samningur við Rússa er auðvitað bara ný friðsamleg orð, ný taktík Obama/Kerrys, líka taktík af Rússlands hálfu. Raunveruleikinn verður ekki eins friðsamlegur.

Sunday, September 4, 2016

Í staðgengilsstríði þarf að ríða mörgum stríðshestum í einu

(Birt á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 4. sept 2016)
Langtímamarkmið USA – og bandamanna þeirra – er að steypa Sýrlandsstjórn (og Íranstjórn) og yfirvinna áhrif Rússa (og Kínverja) í Miðausturlöndum. Til þess þarf staðgöngu-stríðsmenn, og taktíkin gagnvart þeim er mjög flókin. Aðra vikuna hvetja þeir heri Kúrda til að sækja fram á Alepposvæðinu og hina vikuna skipa þeir Kúrdaherjum að hlýða kröfu Tyrkja að hverfa „austur fyrir Efrat“, enda styður USA tyrknesku innrásina sem beinist að stórum hluta gegn Kúrdum. Taktíkin gagnvart herskáum íslamistum er ennþá flóknari. USA og „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ senda sprengjur á stöðvar ISIS og drepa forystumenn þeirra fyrir framan fréttamyndavélar, en láta bandamenn sína fóðra og vopna ISIS bak við tjöldin og halda aðflutningsleiðunum frá Tyrklandi opnum. Formlega fordæma Bandaríkin Al Nusra fylkinguna, sem opinbera Al Kaída-deild, en styðja (ásamt Sádum, Tyrkjum...) „hófsama íslamista“ t.d. Faylaq Al-Sham sem er vopnabróðir Al Nusra og raunar nýtt vörumerki á sama liði eða hópinn Nour al-Din al-Zinki sem skemmdi „hófsömu“ myndina í sumar með því að dreifa mynd af sér hálshöggvandi palestískt barn. Í öðru orðinu greina þeir á milli hinna vondu „hryðjuverkamanna“ (ISIS...) og „uppreisnarmanna“ eða „hófsamra uppreisnarmanna“ en viðurkenna í hinu orðinu að hófsamir uppreisnarmenn séu ekki til í Sýrlandi. Íslensku fréttamiðlarnir hafa eðlilega ekki undan að útskýra þessa flóknu stöðu eins og hún er dregin upp af vestrænu fréttastofunum.

Innrás Tyrkja sýnir: óhaggað stríðsbandalag og mögnun stríðs

Birt á fésbókarsíðu SHA 1. sept 2016
Tyrkland fótum treður þjóðarétt og sendir her sinn óboðinn inn í Sýrland. Þetta felur í sér grafalvarlega mögnun stríðsins og miklar nýjar hættur. Bandaríski flugherinn verndar innrásina úr lofti og tilkynnir að hann muni skjóta niður sýrlenskar flugvélar sem mögulega veitist að innrásarhernum! Bandarísk stjórnvöld halda á loft þeirri mynd að andstæðingur þeirra sé ISIS. En lífæðar ISIS liggja gegnum Tyrkland. Og m.a.s. NY Times skrifar að ISIS sé ekki aðalskotmark innrásarinnar: “Turkish officials made little secret that the main purpose of the operation was to ensure that Kurdish militias did not consolidate control over an area west of the Euphrates River.” Tyrkneska innrásin sýnir eftirfarandi:
A) NATO-tenging og bandalag Tyrklands við Bandaríkin standa óhögguð þrátt fyrir getgátur manna (m.a. mínar) um annað eftir valdaránstilraunina. Sú „tilraun“ leiddi af sér þær hreinsanir sem gerðu Erdogan kleift að fara í stríð, svo líklegast er að valdaránstiraunin hafi verið „framkölluð“.
B) Bæði Tyrkland og Bandaríkin eru staðföst í stríðsstefnu sinni gegn Sýrlandi, tilbúin að magna átökin, tilbúin að storka Rússum, tilbúin að hætta á stórstríð.
C) Stríðsmarkmið árásarlandsins og volduga bakmannsins eru ólík. Báðir vilja „valdaskipti“, steypa Sýrlandsstjórn. En á meðan Bandaríkin stefna á sundurlimun Sýrlands í þrennt eftir trúar- og þjóðernalínum – og nýta þjóðernishreyfingu Kúrda í því skyni – er fremsta markmið Tyrkja að stöðva framgang Kúrda. Strategískt mat Pentagon er að í núverandi stöðu sé framlag Tyrkja mikilvægara en framlag Kúrda

Vilja Tyrkir skipta um lið?

Birt á fésbókarsíðu SHA 3. ágúst 2016
Hreinsanir Erdógans hafa verið helstu fréttir frá Tyrklandi undanfarið. Valdaránstilraunin kom eins og „sending frá himnum“ sagði Erdógan og varð honum tilefni til að herða tök og berja niður andstöðu. Það sem hefur fengið minni athygli er að bandarísk-tyrknesk samskipti hafa snarversnað í kjölfarið. Föstudaginn 29 júlí sagði Reuter: „The director of US national intelligence, James Clapper, said on Thursday the purges were harming the fight against Islamic State in Syria and Iraq by sweeping away Turkish officers who had worked closely with the United States.“ Eitt af því sem mun hafa einkennt upphlaupið var að NATO-flugvöllurinn Incirlik (með helling af kjarnorkuvopnum) virðist hafa verið miðlægur. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar var vellinum lokað um skeið af miklum lögregluher og mótmælendur í kringum völlinn kölluðu „dauða yfir USA“. Ásakanir Tyrkja að USA hafi staðið þarna á bak við (og gegnum Gullen-hreyfinguna) hafa ekki þagnað síðan, og spor liggja líka til Sáda og Persaflóaríkja. Ástæða upplausnarástands í Tyrklandi er umfram allt að landið hefur gert sig að verkfæri í stríði gegn Sýrlandi sem er að tapast. Helsta niðurstaða hins mislukkaða valdaráns getur orðið sú að Tyrkir skipti um lið og nálgist nú Rússa, sem mun sjálfsagt leiða af sér nýjar valdaránstilraunir.