Monday, November 30, 2015

Erdóganfjölskyldan, ISIS og smyglolían

Hér hafa Rússara kveikt í smyglolíu

(athugasemdir mínar á fésbókarsíðu SHA 24. nóvember 2015)
Hér hafa Rússar bombarderað röð 500 olíubíla með smyglolíu fyrir ISIS. Sprengjuvélar hinna vestrænu "Bandamanna gegn ISIS" hafa alltaf látið þessar olíusölulestar alveg í friði! ISIS ræður (réð til skamms tíma) 70% af olíu Sýrlands. Olíusala er stærsta tekjulind þeirra, og enn meiri frá Írak en Sýrlandi. Mest gegnum Tyrkland. Rússar hafa farið að sýna myndir af rosa röðum olíubíla í smyglflutingi við tryknesku landamærin, sem þeir svo bombardea. Þetta hafa ekki Vestur-bandamenn gert undanfarið stríðsár, fyrr en nú aðeins eftir Parísaródæðin og eftir að hernaður Rússa fór á fullt. 

Ekki aðeins hafa "Bandamenn", og Tyrkir sjálfir, umborið að ISIS fái lífskraftinn gegnum þessa æð. Sonur forsetans, Bilal Erdogan, stórútgerðarmaður m.m. er á kafi í olíuviðskiptunum við hryðjuverkamennina, tengdasonur Erdogans er svo olíumálaráðherra og kemur að frekari meðferð olíunnar. Á samfélagsmiðlum í Tyrklandi gangamyndir af Bilal Erdogan í innilegum félagsskap með þekktum jíhadforingjum. Systir hans rekur leynilegt hersjúkrahús sem annast særða ISISmenn. Sjá hér:

Forsetinn um Sáda og ISIS - mjög gott og minna gott

(birtist í Fréttablaðinu og Vísi 27. nóvember 2015)
Ólafur Ragnar Grímsson hefur eftir ódæðin í París varað við afskiptum Sádi-Arabíu af trúmálum á Íslandi, „ríki sem fóstrað hefur öfgakennt íslam og þær sveitir sem hafa lagt til atlögu gegn vestrænni siðmenningu… Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breitt um veröldina… er áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu“ og barnalegt sé að leysa megi málið með „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta.“ 

Hann nefndi þó nafn ríkisins fyrst nokkrum dögum síðar: „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktuð hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“
Ýmis viðbrögð við þessum viðtölum eru fróðleg. Baldur Þórhallsson prófessor segir að orð forsetans „ali á andúð í garð múslima“. Guðmundur Andri Thorsson skrifar að: „Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna… Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra.“ Um þetta segi ég tvennt.
A) Forsetinn er algjörlega maður orða sinna í því sem hann segir um stefnu Sádi-Arabíu. Þá stefnu má kenna við olíuimperíalisma, sambrædda efnahagslega og trúarpólitíska heimsvaldastefnu. Sádar heyja nú blóðugt innrásarstríð gegn Jemen, þeir hafa – ásamt fleiri Persaflóaríkjum, og Tyrklandi – verið helsti bakhjarl hryðjuverkaherja í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi. Þeir eru helstu kostunaraðilar, og líka hið hugmyndafræðilega bakland, bæði við ISIS og Al Kaída og þeir standa á bak við hryðjuverkahreyfingar í Keníu, Nígeríu og Malí. 

Þeir ausa peningum á báðar hendur til að styrkja eigin útgáfu af bókstafstrú, loforðið um 135 milljónir til moskubyggingar í Reykjavík er bara lítið en lýsandi dæmi um þetta ágenga „trúboð“: moskur, kóranskólar, bækur og bæklingar sem eiga að treysta efnahagsveldið. 

Ólafur Ragnar gerði skýran greinarmun á íslam og „hinni öfgafullu útgáfu af íslam“ og það er mikilvægt. Ríkistrú Sáda er gjarnan kennd við Wahhabisma eða Salafisma. Sá mannsskilningur og samfélagssýn fótum treður allt það besta í húmanisma síðari tíma, ekki síst í menningu múslima. Hann er eins konar fasismi á trúargrunni sem kallar á alræðislegt, ofbeldisfullt ríkisvald. Hann er blettur á íslam. Það er hættuleg og „barnaleg einfeldni“ að láta hann fylgja með í því sem við eigum að undirgangast í nafni „fjölmenningar“. Heiður sé Ólafi Ragnari að tala skorinort um þetta.

B) En Ólafur sleppti mikilvægri hlið málsins: Að tengja ISIS við vestræna hernaðarútrás til Miðausturlanda, og eins hitt að Sádi-Arabar (þar með ISIS) eru bandamenn USA/NATO og þar með bandamenn okkar. Hann benti á það sem ráð í stöðunni að Bandaríkin, Frakkland og Rússland fari saman í einhvers konar herför gegn ISIS, sem er dauð óskhyggja. Bandaríkin (Bretar áður) og Sádi-Arabía hafa lengi myndað gagnvirkt bandalag: Sádar tryggja Sam aðgang að olíusvæðinu mikla, Sam tryggir Sádum vernd og aðgang að hinum góða félagsskap. Sádi-Arabía er tannhjól í valdakerfi Vestursins, sérstaklega mikilvægt handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu. 

Rússnesk vél skotin niður - til að ögra Rússum eða NATO?



Erdogan
(athugasemdir mínar af fésbókarsíðu SHA 24. nóvember)
Hér bendi ég á tvær greinar frá vefritinu Counter Punch um þá stríðsaðgerð Tyrkja að skjóta niður rússneska sprengiflugvél. Fyrri greinin nefnist: „An Invisible US Hand Leading to War? Turkey´s Downing of a Russian Jet was an act of Madness." Greinin talar ekki aðeins um brjálæði af hendi Tyrkja heldur bandaríska vitneskju og stuðning: "Turkey’s action, using US-supplied F-16 planes, was taken with the full knowledge and advance support of the US." Samkvæmt því er þetta sennilegast örvæntingaraðgerð. Rússar eru langt komnir með að eyðileggja stríðið þeirra. Sýrlenski herinn gerir sig líklegan að skera á aðfangalínur ISIS frá Tyrklandi á Alepposvæðinu og m.a.s. Öryggisráðið samþykkti að nú ættu allir að snúa bökum saman gegn ISIS og þá eru okkar menn í vondum málum. Stoltenberg segir að NATO standi staðfast með Tyrkjum. En fyrstu viðbröð Rússa benda til yfirvegunar. Sjá hér: 


Mike Whitney skrifar vel grundaða grein, líka á Counter Punch, Hann gengur, ólíkt Lindorff, ekki út frá að Erdogan hafi fengið græna ljósið frá Sam frænda, heldur að hann reyni að draga USA/NATO dýpra inn í stríðið með þessari ögrunaraðgerð. Lakatíu-hérað (mikið byggt Túrkmenum) sem rússnesku vélarnar voru að fara inn í hugsar hann sem eitt af sínum "öryggissvæðum" inni í Sýrlandi en Sýrlandsher með hjálp Rússa sækir hratt að og getur afskorið Lakatíu að norðan. 

Tuesday, November 24, 2015

CIA flytur stríð laumulega frá einu landi til annars

Vestræn leyniþjónusta og fylgiríki Vestursins standa á bak við ISIS. Fyrst samtökin sjálf: Þau voru stofnuð 2006, í Íraksstríðinu, kölluð Al-Kaída í Írak (AQI), voru þá studd af Sádum en ekki Vesturveldum. Þegar uppreisn hófst í Sýrlandi fluttu þau sig yfir landamærin og sameinuðust Al Kaída í Sýrlandi, Al Nusra, a.m.k. um nokkur ár, og náðu nú skyndilega undraverðum árangri. Sjá hér: Svo víkur sögunni að vopnaaðstoðinni við sýrlensku uppreisnina. Upreisnin kom í beinu framhaldi af NATO-studdu stríði og valdaskiptum í Líbíu. Miðstöð uppreisnarinnar í Líbíu – og um leið miðstöð Al Kaída í Líbíu – var Bengazi. Þar var bandaríska sendiráðið – og höfuðstöðvar CIA í landinu. Meðfylgjandi grein í Business Insider (meginstraumspressa) fjallar um miklar vopnasendingar fyrir tilstilli CIA frá Líbíu til Sýrlands gegnum Tyrkland 2012 þegar opnuð höfðu verið vopnabúr Gaddafístjórnarinnar. Nefnd eru 20 000 flugskeyti og önnur vopn upp á 40 000 tonn. Munar um minna. Fram kemur að Chris Stevens – sendiherra USA sem myrtur var í Bengazi – hafi verið þar mikið innviklaður. Liður í því að frú Clinton gæti vopnað uppreisnina beint var annars vegar að viðurkenna Bandalag uppeisnarhópa sem lögmætt stjórnvald Sýrlands (Vestrið gerði það í nóvember og desember 2012) og jafnframt stimpla Al Nusra og ISI formlega sem hryðjuverkahópa (líka gert í desember). Þar með var var gulltryggt að styðja uppreisninga, og hún varð opinberlega uppreisn Vestursins. Sjá nánar:

Wednesday, November 18, 2015

Tólf tesur um ISIS

(Birtist á fésbók Samtaka hernaðarandstæðinga 17. nóv 2015)

Tólf tesur um ISIS: 1) Innrásarstríðið í Írak 2003-2011 tókst illa. Þess vegna ákváðu vestrænir strategistar og hugveitur að dulbúa komandi innrásir og taka vígin frekar „innan frá“. 2) Í Miðausturlöndum þýddi nýja aðferðin að styðja ákveðnar fylkingar herskárra íslamista (af súnní-meiði) til uppreisnar gegn óæskilegum stjórnvöldum, út frá trúarbragðalínum. 3) Heimsvaldasinnar beittu fyrir sig uppreisnaröflum fjandsamlegum Vestrinu – sem fullkomnaði dulbúninginn, en reyndar eru herskáir íslamistar sjaldnast vestrænt sinnaðir. 4) Áður hafði CIA beitt svipaðri taktík í Afganistan gegn Sovétmönnum og þá skapað m.a. Al Kaída. 5) Eftir það höfðu Washington og NATO einkum notað Al Kaída sem yfirvarp „stríðs gegn hryðjuverkum“. 6) En í Líbíu 2011 þótti nýja aðferðin sanna sig með glans. 7) Sýrland var næsta lota og uppþotin þar í „arabíska vorinu“ 2011 urðu strax afar blóðug. Ári síðar var „Þjóðareining“ uppreisnaraflanna stofnuð og USA og Vesturlönd viðurkenndu hana strax sem hið „lögmæta stjórnvald“ Sýrlands. 8) ISIS byrjaði sem „Al Kaída í Írak“ sem barðist gegn innrás USA þar. Hópurinn naut ekki stuðnings utanlands frá og óx því ekki neitt. 9) Hins vegar þegar uppreisnin hófst í Sýrlandi 2011 fór hreyfingin yfir landamærin frá Írak, blandaðist þarlendum Al Kaída-hópi (Al Nusra) og spratt nú sem arfi á mykjuhaug. 10) Í leyniskýrslu bandarísku Leyniþjónustu hermála (DIA) frá 2012 segir um hreyfinguna sem nú kallaði sig ISI: „Ástandið sýnir að það er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja.“ 11) Árið 2014 stökk ISIS fullskapað inn á sviðið sem stórveldi í krafti gríðarlegs vopnavalds, lýsti yfir kalífati og lagði undir sig sístækkandi huta Sýrlands og Íraks. Af því hún naut nú massífs stuðnings utanlands frá. 12) ISIS er skilgetið barn vestrænnar heimsvaldastefnu. Það er hinn forboðni sannleikur sem ekki má nefna, og enginn nefndi heldur í umræðunni um Parísarhryðjuverkin á Alþingi í dag.

Sunday, November 15, 2015

Heimsvaldastefnan er týndi hlekkurinn

Vera Illugadóttir skoðaði „Líf og dauða í Sýrlandi“ í tveimur útvarpsþáttum. Sérstaklega fyrri þátturinn var upplýsandi. Jóhanna Kristjánsdóttir og Finnbogi Rútur Finnbogason lýstu opnu, gestrisnu samfélagi einkenndu af trúarlegu umburðarlyndi og bjartsýni, „léttur þægilegur andi eins og í Istanbúl eða París“. Svo kemur þáttur tvö um „rætur borgarastyrjaldar“. „Arabíska vorið“ 2011 kemur til Sýrlands eins og sprenging og samfélagið tortímir sér skyndilega í trúardeilu svo hálf þjóðin lendir á vergangi og flótta. Ekki upplýsandi! Vera dettur í heilaþvottavélina, endurtekur tuggu væstrænna fréttastofa um friðasamleg mótmæli sem stjórnvöld siguðu hernum á, ekki orð um stuðning vestrænnar leyniþjónustu eða Persaflóaríkja við uppreisnina frá fyrsta degi í Daraa eða stöðugan straum birgaðflutninga til uppreisnarmanna yfir landamæri Tyrklands og olíustrauminn hina leiðina. Líkt og vestrænar fréttastofur nefnir hún aldrei þátt vestrænnar heimsvaldastefnu. Það er tapaði hlekkurinn í þróunarkeðju atburðanna. 

Heimsvaldastefnan, þjóðríkið og Sýrlandsstríðið

(Ræða lesin á málþingi Rauðs vettvangs um marxisma í Friðarhúsi 7. nóv 2015)

Heimsvaldastig kapítalismans inniber átök milli efnahagslegra/pólitískra blokka sem bítast um markað og áhrifasvæði. Út úr slíkum átökum hafa sprottið mörg staðbundin stríð sem og báðar heimsstyrjaldir 20. aldar. Lenín skrifaði eftirfarandi um eðli heimsvaldastefnunnar: „Þeir [kapítlistarnir] skipta heiminum „í hlutfalli við fjármagan“, „í hlutfalli við styrkleik“. Um aðra aðferð getur ekki verið að ræða við skilyrði vöruframleiðslu og auðvalds. En styrkleikahlutföllin raskast með þróun efnahags- og stjórnmála... hvort sem sú röskun er „hrein“-efnahagsleg eða af öðrum rótum runnin (t.d. hernaðarlegum).“ (Lenín, Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls 97-98)
Útþenslan er hreyfiafal og sál kapítalismans. Þegar í lok 19. aldar var heiminum fullskipt upp milli auðvaldsblokka. Heimsvaldastefnan þolir hvergi neitt „tómarúm“ því útþensluhneigt auðmagnið flæðir þá inn í viðkomandi tómarúm. Stundum gerist það með verslun og hreinni fjármagnsútrás ( sbr. „hnattvæðingu auðhringanna“) en stundum með hernaðarútrás, jafnvel þar sem blokkirnar bítast með vopnum.
Það hefur sýnt sig að á hverjum tíma eru hinar ólíku efnahags- og stjórnmálablokkir misjafnlega árásarhneigðar, mishneigðar til að beita herstyrk. Af mismunandi ástæðum. Fyrir fyrri heimsstyrjöld og þó enn frekar á 4. áratugnum var Þýskaland mjög árásarhneigt ríki. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og hins tiltölulega litla olnbogarýmis (hér er fylgt greiningu Leníns).
Krafa nasismans um „lífsrými“ skýrist af þessu og einnig stuðningur þýska stórauðvaldsins við nasismann og áform hans um hervæðingu efnahagslífsins og landvinninga. Lenín hafði skrifað: „Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og áhrifasvæða hins vegar?“ (Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls. 130)