Saturday, September 28, 2013

Listin að selja stríð


(Birtist á vef SHA fridur.is 17. sept 2013)
(Þessi grein var send Fréttablaðinu 24. ágúst, þremur dögum eftir efnavopnaárásina í Damaskus, en blaðið hefur ekki áhuga. Efnið hefur þó ekki úrelst á nokkurn hátt.)
Markaðssetning stríðs er háþróuð list innan heimsvaldasinnaðra herfræða. Vesturveldin hafa í tvö ár reynt að skapa sér grundvöll til hernaðaríhlutunar í Sýrland. Í fyrra drógu Bandaríkin, Bretar og Frakkar upp rautt strik: Ef annar hvor aðilinn (!) í borgarastríðinu beitir efnavopnum er það tilefni til íhlutunar „alþjóðasamfélagsins“.  Uppreisnaröflin hafa því allt að vinna af beitingu efnavopna en Sýrlandsstjórn öllu að tapa svo það er óhugsandi að hún standi að eiturgasárásinni í úthverfi Damaskus, framan við nefið á eftirlitsnefnd SÞ.
Vestræn hernaðarstefna á sér blóðuga sögu og árásarhneigðin vex nú í takt við dýpkandi kreppu. En almenningur Vesturlanda er tregari til að styðja stríðsrekstur en í nýlendusókn 19. aldar. Altént verður að selja stríðin undir öðrum vörumerkjum en þá. Ekki hægt að segja hið sanna: að stríðin snúist um að viðhalda arðránskerfinu mikla, að þau snúist um olíu, olíuflutninga, auðlindir og samkeppni um markaði og áhrifasvæði. Ekki dugir lengur að segja að þau snúist um siðun og kristnun óæðri kynstofna – né baráttuna gegn hinum voðalega heimskommúnisma.
Stríðin verður að markaðssetja af klókindum. Ný vörumerki þeirra eru: uppræting gjöreyðingarvopna, uppræting harðstjóra (nema þeir séu vestrænt sinnaðir!), mannúð, kvenfrelsi, stríð gegn hryðjuverkum…
Þegar ráðast skal á land er vestræn pressa látin auglýsa vörumerki stríðsins. Laura Bush forsetafrú hélt sína fyrstu útvarpsræðu rétt eftir innrásina í Afganistan 2001. Erindið var að hvetja til alþjóðlegrar fordæmingar á  kúgun afganskra kvenna. Og sendiherra Bushstjórnarinnar á Íslandi fagnaði því sérstaklega að fá hér femínískan utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu, til að tala máli stríðsins hér heima og erlendis (sjá Grapevine nr. 12 2013).
Væntanleg íhlutun í Sýrland – eins stríðið í Írak og umsátrið um Íran – er sögð snúast um „upprætingu gjöreyðingavopna“. Í Líbíu, eins og í Júgóslavíu var auglýst „mannúðarinnrás“ gegn skrímsli. Þá var það verkefni vestrænnar pressu að gera Milosevic og Gaddafi að nægilega miklum skrímslum svo hægt yrði að siga NATO á þá. Enn fremur var frjálsum félagasamtökum beitt hugvitsamlega fyrir stríðsvagninn. Í aðdraganda Líbíustríðs var bænaskrá um hernaðaríhlutun undirrituð af 70 „mannréttindasamtökum“ send Ban-ki Moon og átti hún mikinn þátt í að SÞ samþykkti loftferðabannið á Líbíu.
Jafnvel heilaþvottur vestrænu fréttastöðvanna nægir ekki til að æsa almenning til að styðja stríð.  Hið svokallaða „stríð gegn hryðjuverkum“, allt frá 11. september til eiturgasárasarinnar við Damaskus einkennist af röð atburða sviðssettum af vestrænum leyniþjónustum, atburðum sem skapa mynd af stöðugri ytri ógn sem réttlætir hernaðinn út á við og lögregluríkið heima fyrir. Eitt dæmi: Núna í ágúst lét USA um tíma loka 19 sendiráðum og ræðismannsskrifstofum í Miðausturlöndum til að viðhalda ímyndinni af hryðjuverkaógn, og vísaði til símasamtals tveggja Al Kída-manna í Jemen.
Í þessu mikla leikverki gegna hópar íslamista lykilhlutverki. Það er í góðu samræmi við allan þennan djöflapóker að virkja  yfirlýsta andstæðinga Vesturlanda fyrir hagsmuni Vesturlanda. Al Kaída – verkfæri og sköpunarverk CIA – gegnir lykilhlutverki í þessu tilliti. Hlutverk vígahópsins hefur einkum verið að gefa Bandaríkjunum og NATO-ríkjum tilefni til íhlutana á útvöldum svæðum (sbr. Afganistan, Jemen, Sómalíu, Malí…). Stundum beita heimsvaldasinnar hins vegar „trúardeilutrompinu“ og vopna ákveðna trúarhópa (eða þjóðernishópa) gegn öðrum og gegn stjórnvöldum sem losna þarf við. Þá birtist Al Kaída einfaldlega sem vígasveitir í uppreisn og borgarastyrjöld sem Vesturveldin og arabísk fylgiríki þeirra standa á bak við. Í Sýrlandi heita þeir Al Nusra. Þessi aðferð tókst vel í Líbíu – samstarf innlendra vígahópa og NATO hafði sigur. En taktíkin hefur mistekist í Sýrlandi, Assadstjórnin hefur staðið af sér atlöguna og aftur náð tökum á ástandinu. Þegar trúradeilutrompið virkar ekki má einmitt búast við sviðsettum hamfaraatburði til að réttlæta vestræna íhlutun. Gasárásin við Damaskus ber öll merki örþrifaráða, falsið skín í gegn.

Streð að heimsyfirráðum skýrir árásarhneigðina

(Birtist á vef SHA, fridur.is 6.sept 2013)
Árásarhneigð Vesturveldanna – með Bandaríkin í fararbroddi – eftir fall múrs og Sovéts verður ekki skýrð og skilin nema sem streð eftir heimsyfirráðum. Það þarf orðið meira en meðalheimsku til að trúa á hina vestrænu vísun til „mannúðar og mannréttinda“ í árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak, Líbíu og nú Sýrland, enda eru æ færri sem trúa. Dreifing fórnarlandanna í og kringum hin olíuríku Miðasuturlönd er ekki tilviljun. Einbeitt árasárhneigðin er  meira en bara almenn keppni um áhrifasvæði. Hún verður ekki skýrð nema sem keppni um óskert yfirráð Vesturveldanna í Miðausturlöndum – sem aftur er lykilhlekkur í streði að heimsyfirráðum.

Ef leita skal að sögulegri hliðstæðu þess sem nú fer fram er eðlilegast að fara aftur á 4. áratuginn. Öxulveldin hófu þá hernaðarlega útþenslu með innrás Japana í Mansjúríu 1931, síðan inn í Kína og svo koll af kolli en fasistaríkin í Evrópu tóku Abbisiníu 1935, steyptu spænska lýðveldinu, tóku Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku, Noreg, Frakkland… Í áratug horfði Þjóðabandalagið á þetta og gerði ekkert.

Eftir fall múrs og Sovéts varð heimurinn pólitískt og hernaðarlega einpóla. Yfirþyrmandi vald safnaðist við þennan eina pól þar sem var risaveldið eina, Bandaríkin, og bandamenn þess í NATO. Í krafti þess á sú blokk í flullu tré við alla hugsanlega andstæðinga sína og notfærir sér það óspart.

Efnahagslega – hins vegar – eru aðrir pólar í vexti sem sauma að gömlu heimsveldunum. Það eru „nýmarkaðslöndin“ með Kína þar fremst í flokki. Landið er m.a. stærsti  iðnaðarframleiðandi heims og aðild þess að heimsmarkaði vex stöðugt á kostnað iðnríkja Vesturlanda. Kína er þess vegna strategískur höfuðandstæðingur Vesturveldanna. Efnahagslegt undanhald USA og ESB verður enn greinilegra í yfirstandandi kreppu. Hins vegar getur Kína ekki mælt sig við Bandaríkin í pólitískum, diplómatískum og hernaðarlegum styrk (á sínum tíma tóku Bandaríkin einnig efnahagslega forustu á heimsvísu miklu fyrr en hina pólitísku og hernaðarlegu forustu). Það er þessi blanda efnahagslegs undanhalds og pólitísk-hernaðarlegrar útþenslu sem veldur nýjum og nýjum styrjöldum og afar dapurlegu útliti fyrir heimsfriðinn.

Hernaðartrompið er síðasta stóra tromp Vesturveldanna og þau beita því óspart í heimsvaldataflinu. Útþensluaðferð þeirra er að stórum hluta hernaðarleg. Ekki síst gerist hún með útþenslu og endursköpun eina hernaðarbandalagsins, NATO. NATO hefur fjöldgað aðildarlöndum úr 16 í 28 og rúmlega annar eins fjöldi hefur sk. bandalagsaðild (partnership). Þetta hefur til dæmis leitt af sér að öll lönd við Miðjarðarhaf nema tvö, Sýrland og Líbanon, hafa nú hernaðarlega samvinnu við NATO (fyrir rúmum 2 árum var Líbía þriðja óháða ríkið). Hvert ríki sem bætist við NATO-samstarfið verður hernaðarlegur stökkpallur gegn þeim ríkjum sem eftir eru utan við.

Önnur aðferð í útþenslunni er einmitt sú að ráðast með her á þau ríki sem reka sjálfstæða og óháða utanríkisstefnu. Það gerist alltaf á svipaðan hátt. Vesturveldin setja á dagskrá (í heimspressunni) nauðsyn „valdaskipta“ í viðkomandi landi, beitt er pólitískri og diplómatískri einangrun og leitað að mögulegum misklíðaefnum innan lands, einn trúar- eða þjóðernishópur styrktur gegn öðrum o.s.frv. Jafnframt hefst skrímslisgering (demónisering) stjórnvalda viðkomandi lands gegnum heimspressuna. Ef þetta nægir ekki er leitað að yfirvarpi til íhlutunar. Ef illa tekst til og ekkert heppilegt yfirvarp gefst er það einfaldlega búið til með leyniþjónustuaðferðum og auglýst í heimspressunni (sbr. Sýrland í  dag)

Sem áður segir varð heimurinn einpóla eftir fall múrsins. Á seinni árum hefur vaxið fram nýr pólitískur og hernaðarlegur mótpóll. Lönd sem helst girða fyrir full heimsyfirráð NATO-veldanna eru annars vegar Rússland (f.o.m. Pútin) og hins vegar Kína. Þriðji aðilinn í andstöðuhópnum er Íran og svo eru minni lönd eins og Sýrland, Venezúela og Kúba. Það blasir við að miðað við NATO-blokkina stóru og pólitísk fylgiríki hennar er þessi blokk lítil og minni háttar að pólitískum styrk. Á móti sér hefur hún t.d. nær alla heimspressuna.

Í Miðausturlöndum er staðan sú að Sýrland er eini bandamaður Írans ásamt Hizollasamtökunum í Líbanon. Ef Vesturveldunum tekst að kyrkja Sýrlandsstjórn og ná um leið kverkataki á Hizbolla er augljóst hver er næstur í röðinni: Íran. Leiðin til Teheran liggur um Damaskus. Og – takist síðan að steypa Íransstjórn standa Rússland og Kína einangruð á heimsvísu, og full heimsyfirráð eru þá innan seilingar hjá Vesturblokkinni, a.m.k. raunverulegri hjá nokkru heimsveldi áður.

Það er þetta sem er í húfi. Árásirnar á hin einstöku lönd byggir á herfræðilegri heildarhugsun. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessum djöfulskap. Þess vegna er Bandaríkjaforseti (friðarverlaunahafinn) tilbúinn að setja þennan heimshluta á annan endan með stórstyrjöld. Þess vegna er hann tilbúinn að ráðast á Sýrland þó hann þurfi að fara einn. Hann þykist sjá að mikið hangi á spýtunni. Annars væri háttarlag hans óskiljanlegt.

Ég nefndi í upphafi máls samanburð við 4. áratuginn. Eitt af öðru eru óþæg ríki kyrkt. Heimurinn horfir á. Og nú gildir hið sama um Sameinuðu þjóðirnar eins og Þjóðabandalagið þá: Þær standa ekki gegn þeirri nöktu árásarhneigð sem hér er til umræðu. Þær hafa ýmist  (t.d. í Írak 1991 og Líbíu 2011) beinlínis verið verkfæri hernaðarstefnunnar eða þá setið aðgerðarlausar, og þegjandi látið NATO eða Bandalag viljugra fara sínu fram.

Hafi nokkurn tíma verið tilefni til að andæfa þessum morðingjum heimsins þá er það nú. Kurteisleg tilmæli Sigmundar Davíðs til Obama um að „leita friðsamlegra lausna“ er miklu betri en stuðningur við hernaðaraðgerðirnar en missir samt marks af því talað er við ásrásaraðila. Stríðið í Sýrlandi hefur frá upphafi verið stríð vestrænt studdra innrásaafla gegn Sýrlandi. Krafan til Obama og bandamanna hans er: Burt með býfurnar af sýrlandi. Og ef/er árás hefst er skylda okkar: fullur stuðningur við Sýrland.

Saturday, July 27, 2013

Langur slóði Snowdens


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 26.7.2013

Mál Edwards Snowdens dregur langan slóða. Afhjúpanir hans sýna að bandarískar öryggisstofnanir njósna um allan almenning í eigin landi. Þær brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns og sýna frelsi fólks og mannréttindum fulla fyrirlitningu.
Snowden-008
Dr. Paul Craig Roberts var varafjármálaráðherra Bandaríkjanna í tíð Reagans en hefur síðar gerst mjög gagnrýninn á kerfið vestur þar. Hann skrifar á vefsíðu sína:
Stjórnvöldin í Washington skortir stjórnarskrárlegt og lagalegt lögmæti. Bandaríkjunum er stjórnað af valdaræningjum sem láta eins og framkvæmdastofnanir þeirra séu hafnar yfir lög og bandaríska stjórnarskráin sé „pappírsrusl" (...) Obamastjórnin líkt og Bush/Cheneystjórnin áður hefur ekkert lögmæti. Bandaríkjamenn eru kúgaðir af ólögmætum stjórnvöldum sem stjórna ekki með lögum og stjórnarskrá heldur með lygum og nöktu valdi (...) Viðbrögð Washington við þeim sönnunum Snowdens að Washington - í fullum blóra við bæði innlendan og alþjóðlegan rétt - njósni um allan heiminn hefur sýnt og sannað hverju landi að Washington setur hefndarþorstann ofar lögum og mannréttindum (...) Ef Bandaríkjamenn sætta sig við valdaránið hafa þeir kyrfilega komið sér fyrir í greipum harðstjórnar.

Ein bomban í uppljóstrunum Snowdens eru vítækar njósnir NSA og bandarískra öryggisstofnana um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess o.s.frv. Þannig líta Bnadaríkin berlega á bandamennina sem sína undirdánugu þjóna sem þarf að hafa eftirlit með.  http://www.guardian.co.uk/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies
En hvað með Evrópustórveldin? Stunda þau hliðstæðar njósnir? Frá byrjun uppljóstrana Snowdens lá það fyrir að sams konar starfsemi er stunduð af breskum öryggisstofnunum í náinni samvinnu við stóra bróður handan hafsins. Hvað um hin ESB-stórveldin? Á fimmtudag sagði Ríkisútvarpið af nýjum uppljóstrunum Der Spiegel sem sýna fram á nána „vestræna samvinnu" á þessu sviði:
„Allt bendir til þess að þýsk stjórnvöld hafi vitað af njósnum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA. Þá er einnig talið líklegt að NSA og þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað saman við njósnir.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur vegna persónunjósna bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar. Hefur hún verið gagnrýnd harðlega af jafnt stjórnarandstæðingum, fjölmiðlum og almenningi, fyrir að sýna bandarískum yfirvöldum linkind í málinu.
Blaðamenn þýska fréttatímiritsins Der Spiegel hafa komist yfir gögn sem sýna fram á að þýsk yfirvöld hafi líklegast vitað af njósnakerfi NSA, sem ber nafnið PRISM, og þá er einnig talið líklegt að þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað með NSA við njósnir.
Ljóst er að starfsmenn BND fóru síðast í aprílmánuði til Virginíuríkis í Bandaríkjunum til að sækja námskeið í notkun njósnaforritsins XKeyScore, sem safnar rafrænum gögnum á svipaðan hátt og PRISM. Komi í ljós að þýsk yfirvöld hafi stundað njósnir á sínum eigin ríkisborgurum er það brot á þýsku stjórnarskránni..."
Við sklum draga af þessu þrjár ályktanir. 1) Vestræna blokkin er ein órofa heild. 2) Vestræna blokkin er að verða eða orðin lögregluríki. 3) Edward Snowden er þess vegna andspyrnuhetja í lögregluríki, ekki föðurlandssvikari, og ríki sem virðir mannréttindi (Ísland?) ber að veita honum pólitískt hæli. /ÞH

Friday, July 26, 2013

Vinnufélagi minn frá Rúmeníu


Birtist á Vinstri vaktin geng ESB 29.6.2013

Starfsliðið á vinnustaðnum mínum er fjölþjóðlegt. Sem stendur er þar u.þ.b. tugur Pólverja, einn Lithái og einn Rúmeni. Þetta eru ESB-lönd. Svo er þar einn Rússi sem komst hingað eftir krókaleiðum á bólutímanum. Sumir eru með fjölskyldu og komnir til að vera. Aðrir eru bara í tímabundnum vinnutúr. Enn aðrir reyna að vinna sér inn sem flesta aura og senda þá heim. Sem sagt nokkrar tegundir af hinu frjálsa flæði „evrópusamvinnunnar".
Rúmeninn er af síðustu tegundinni. Nýlega spjallaði ég dálítið við hann og spurði um hans hagi. Hann er ekkert of ánægður. Hann er einmana. Hann fótbraut sig fyrir skemmstu í vinnunni en mætti aftur rúmri viku síðar og hefur svo harkað af sér. Hann vill ekki vera baggi á fyrirtækinu né eiga á hættu að missa vinnuna.
Hann er tæplega fertugur, einn og ógiftur, en hefur miklar og stöðugar áhyggjur af foreldrum sínum heima sem eru um sjötugt og heilsulaus. Hann sendir þeim alla umframpeninga sem hann vinnur inn, sem eru engin ósköp. Hann yfirgaf þó land sitt vegna lágra launa heima. Þar eru laun verkafólks um einn fimmti af íslenskum launum. Heilbrigðiskerfið í Rúmeníu er ömurlegt, nema læknum sé greitt undir borðið. Faðir þessa kunningja míns fékk heilablóðfall fyrir nokkru og lamaðist miki til öðrum megin. Hann var sendur heim af spítalanum samdægurs, enda er þetta bara verkafólk.
ESB er byggt kringum markaðsfrelsið/fjórfrelsið á fjölþjóðlegum evrópskum markaði. Hinn sameiginlegi evrópski markaður er náttúrlega frjálshyggjan og markaðshyggjan í verki  - fjármagn og vinnuafl flýtur nú frjálst um álfuna, fjármagnið þangað sem hagnaðar er von og vinnuaflið á eftir þangað sem góðra launa er von. Samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar skapar frjálsi markaðurinn ekki aðeins hámarkshagvöxt heldur miðlar líka gæðunum jafnast til allra.
Í orði já, en ekki á borði. Eftir að Rúmenía opnaðist fyrir  vesturevrópsku fjármagni á 10. áratug og gekk svo í ESB með öðrum austantjaldsríkjum um áramótin 2006/2007 var atvinnulífið einkavætt í stórum skrefum sem vænta mátti. Ný dæmi eru úr járnbrautarsamgöngum og orkuiðnaði svo að orkuverð til húsahitunar hefur rokið upp. Meirihluti fjármálastofnana voru seld vesturevrópskum bönkum kringum aldamót. Þar með buðust næg lán til einstaklinga og fyrirtækja. Þau voru ekki notuð til að byggja upp framleiðslu- og stoðkerfi heldur fremur til kaupa á innfluttum vörum. Þýska útflutningsmaskínan græðir. Svo kom kreppan.
Rúmenía hefur afiðnvæðst fremur en hitt. Í takt við það að innlendur iðnaður lagðist af leitaði vinnuaflið út úr landinu. Svo mjög að á árunum 2002-2011 fækkaði landsmönnum um nærri 15%! Vinnufélaginn minn segir að flestir vinir sínir og kunningjar búi nú og starfi í öðrum löndum Evrópu.
Sameiginlegur markaður ESB er stór tilraunareitur frjálshyggju og markaðsvæðingar. Það er fjarri því að markaðsfrelsið virki jafnandi milli landa. Laun í Rúmeníu eru áfram bara 1/5 af íslenskum launum. Hið frjálsa fjölþjóðlega flæði vinnuafls þýðir einkum það að launafólk verður að elta auðmagnið og atvinnuna milli landa. Sá „sveigjanleiki" er mjög hagstæður fyrir auðhringana en þýðir óöryggi, útlegð og oft hvíldarlaust flakk fyrir launafólk.
Kunningi minn hikar ekki við að segja að ástandið í Rúmeníu hafi verið betra fyrir almenning undir Sjáseskú (1965-89). Einkum tíminn aðeins fram yfir 1980. Lífskjör voru almennt betri, öryggið miklu meira og heilbrigðiskerfið miklu, miklu betra. Sjáseskú var þó einræðisherra og samfélagshættir á stjórnartíma hans hreint ekki til fyrirmyndar. En svona óhagstæður samanburður við gamla „Drakúla" sýnir fyrst og fremst hve grátt hið frjálsa markaðskerfi ESB hefur leikið hagkerfi fátækra Austur- og Suður-Evrópulanda.

Monday, June 24, 2013

ESB og hið stóra samhengi


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 22.6.2013

Auðmagnið hefur innbyggða tilhneigingu til að hlaðast upp. Kapítalískar efnahagseiningar éta hver aðra og þenjast út. Kapítalisminn á 21. öld er þess vegna heimur einokunar, risaauðhringa og fjármálafáveldis sem mergsýgur alþýðu og þjóðir um heim allan. Arðránið er hnattrænt, frá jaðarsvæðum til kjarnsvæða. Jaðarsvæðin eru efnahagslega vanþróaðri og lúta oftar en ekki yfirráðum landa úr kjarnanum. Hnötturinn okkar er nú heimur heimsvaldasinnaðra auðvaldsblokka sem takast á sín á milli um yfirráð svæða og markaði.
Þróun ESB endurspeglar þróun kapítalismans. ESB er ein af auðvaldsblokkunum stóru, og með bandalagi þess við Bandaríkin verður svo til miklu stærri valdablokk - Vesturblokkin/NATO-blokkin - sem ræður mestu í heimsmálum nú um stundir og beitir auk þess óspart hernaðarstefnu fyrir hagsmuni sína.
Samrunaferlið í ESB er knúið áfram af gróðasókn stórauðvalds sem ætlar sér að keppa við hina risana - eins og Bandaríkin og Kína. Auðhringar ESB stunda arðrán á þjóðum heims auk þess sem ESB skiptist sjálft í kjarna og jaðar, sem birtist m.a. í því hvernig fjármálavald kjarnalandanna sýgur þróttinn úr jaðarsvæðum Evrópu.
ESB er sem sagt ekkert einstætt, heldur aðeins ein blokkin í efnahagskerfi sem oft er kennt við „hnattvæðingu auðhringanna". Kapítalisminn er orðinn að risavöxnu afætukerfi, skaðlegu og hættulegu bæði mannkyninu og jörðinni.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera baráttuna fyrir fullveldi og þjóðlegum sjálfsákvörðunarrétti svo brýna. Sú barátta horfir til frelsis og framfara en er í andstöðu við ríkjandi þróun hins hnattvædda kapítalisma. Þeir sem styðja hnattvæðingu auðhringanna stimpla gjarnan þessa þjóðvarnarbaráttu sem „þjóðernisafturhald". Taka verður fram að þessi þjóðvarnarbarátta felur EKKI í sér þá afstöðu að ein þjóð sé merkilegri en önnur.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera það ekki síður brýnt að vinna að samstöðu alþýðu þvert á landamæri. Verkalýðhreyfingin þarf enn frekar en áður að ala með sér alþjóðahyggju byggða á stéttarsamstöðu. Liður í því er að tryggja að erlent vinnuafl búi við sömu kjör og innlent.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR kalla ennfremur á þrotlausa baráttu gegn hernaðarlegum yfirgangi heimsvaldasinna. Nú um stundir er það fyrst og fremst VESTURBLOKKIN áðurnefnd sem stundar þann yfirgang - í Afganistan, Miðausturlöndum, Afríku og víðar - og ógnar hvaða landi sem ekki lýtur vilja hennar í efnahags- eða utanríkismálum.

Sunday, June 9, 2013

Bandaríkin eru fyrirmynd ESB



Bandaríkin eru vont samfélag. Gjáin milli fáækra og ríkra er óbrúandi og breikkar stöðugt. Í þessu ríkasta landi heims lifir sjötti hver þegn nú á matargjöfum. Sex milljónir Bandaríkjamanna eru í fanglesi, og FBI og Þjóðaröryggisstofnunin stunda æ víðtækari persónunjósnir á þegnunum. Í utanríkismálum reka Bandaríkin kolgrimma hernaðarstefnu til að tryggja hagsmuni auðhringa sinna.

Bandaríkin eru draumaland frjálshyggjunnar, f.o.m. Reagan enn frekar en áður. Þar er afar „hreyfanlegt“ vinnuafl, má flytja það langar leiðir þangað sem auðmagnið þarf á því að halda. Launamunur er óskaplegur, ekkert „gólf“ á vinnumarkaðnum og ekkert „þak“ heldur, stór hluti launþega er ólöglegur og réttlaus. Sétt launamanna er sundruð og verkalýðshreyfingin tjóðruð, vængstífð og áhrifalítil. Auðmagnið og pólitísk elíta því tengd ráða lögum og lofum.

Bandaríkin eru ekki bara nánasti bandamaður ESB í utanríkismálum, þau eru hin mikla fyrirmynd ESB sem samfélag. Sú breyting sem orðið hefur á ESB-ríkjunum síðustu 2-3 áratugi er öll í sömu átt, í átt að fyrirmyndinni.  Hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar („fjórfrelsið“) er ígildi boðorðanna tíu og kom m.a. inn í Lissabonsáttmálann (2007) sem nánast stjórnarskrárbundin lög. Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims“ fyrir árið 2020. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki“, sem byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að gera efnahagskerfið samkeppnishæfara og auka hagvöxt. Svo kemur hagkvæmni stærðarinnar: að gera ESB að risaríki með risarekstur og risamarkað –líkt og fyrirmyndin, Bandaríkin.

Sama þróun heldur áfram. Eftir stækkun ESB í austur er ódýrt vinnuafl flutt inn á vinnumarkað ESB í stórum stíl. Síðastliðið haust lagði Framkvæmdastjórn ESB fram tillögur um „skipulagsumbætur“ á vinnumarkaðnum. Þær ganga út á lækkun lágmarkslauna, minna vægi heildarkjarasamninga og sveigjanlegri vinnumarkað. http://eldmessa.blogspot.com/2012_12_01_archive.html  Hefðbundin réttindi launafólks og velferðarkerfið eru rifin niður.

Þetta er frjálshyggjuþróun að bandarískri fyrirmynd. Frjálshyggjan er stríðspólitík auðvaldsins gegn verkafólki. Ein ástæða þess að evrópska stórauðvaldið getur keyrt í gegn frjálshyggju sína er að verkalýðshreyfingin er þar orðin mjög veik.

Okkur verkalýðssinnum finnst verkalýðshreyfingin veik á Íslandi. En á evrópskan mælikvarða er hún mjög sterk. Á Íslandi er í reynd við lýði skylduaðild launafólks að stéttarfélögum. Í ESB-löndunum hefur hins vegar hlutfall þess launafólks sem er skipulagt og félagsbundið farið dramatískt lækkandi undanfarin 30 ár. Á vinnumarkaði ESB í heild er hlutfallið 23%. Í Þýskalandi er hlutfallið 19%, Spáni og Póllandi um 15% og í Frakklandi er það komið niður í 8%. Þetta líkist orðið mjög Bandaríkjunum. Auk þess sem verkalýðshreyfingin er víðast undir forustu krata sem sjálfir hafa gengið hafa frjálshyggjunni á hönd eins og við þekkjum á Íslandi. Sjá þetta hér um hlutfall félagsbundinna:
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Across-Europe/Trade-Unions2 

Svo bætist það við að sjálfskipað herforingjaráð elítunnar – Þríeykið: Framkvæmdastjórnin, Evrópubankinn og AGS – keyrir nú í gegn vægðarlausa niðurskurðarstefnu og víkur öllu lýðræði til hliðar í aðþrengdum löndum Suður-Evrópu. Og meira en það, herforingjaráðið stefnir stöðugt að miklu meiri valdasamþjöppun inna ESB, þótt meirihluti almennings í nánast öllum aðildarríkjum sé því andvígur.

Evrópa kallar sig vöggu bæði lýðræðis og verkalýðshreyfingar en er orðin að sjúkrabeði beggja – líkt og Bandaríkin – þökk sé ESB.

Hin sívaxandi ólga í suðurríkjum ESB gefur von um að alþýðan muni senn rísa upp og snúa þessari voluðu þróun við.
ÞH
                                                                                                                                  

Wednesday, June 5, 2013

Hægri öfgastefna - mesta ógn við lýðræðið nú?


(Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 1.6.2013)

Brusselvaldið og Evrópuelítan vilja gera Evrópu að yfirþjóðlegri efnahagsblokk og risaríki sem getur keppt við Bandaríkin og Kína. Til þess þarf vægðarlausa samþjöppun efnahagslífs og stjórnmála. Til þess þarf útþurrkun landamæra. Til þess er allt efnahagslíf álfunnar sveigt að hagsmunum risaauðhringanna en atvinnullíf sem sniðið hefur verið að staðbundnum samfélögum og þörfum er rifið niður. Til þess er álfunni breytti í kjarna og jaðar, lánadrottna og skuldara. Til þess eru reglur hnattvæðingarinnar leiddar í lög - hjá ESB heita þær „fjórfrelsi".
Þegar kapítalísk kreppa sverfur að og endurreisa þarf gróða auðhringanna er öllu lýðræði vikið til hliðar. Þá tekur skrifræðisleg miðstjórn völdin, hin erópska elíta. Hún er ekki þjóðkjörin, hún er fulltrúi fjölþjóðlegs fjármaálavalds, hún er ópersónuleg, andlitslaus. Fremst í þeim flokki fer „Þríeykið", Framkvæmdastjórn ESB og Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS. Þríeykið setur sig nú ofar bæði þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Í stuttu máli: þessi auðræðiselíta afnemur þingræðið.
Við lærðum það upp úr 1930 að auðvaldskreppa er lýðræðinu æði háskasamleg. Svar auðvaldsins við innri átökum lýðræðis var þá víða að afnema lýðræðið. Og það er einmitt það sem við sjáum aftur í hinni dýpkandi kreppu okkar daga. En nú sem stendur stafar lýðræðinu í okkar heimshluta MEIRI ÓGN AF UMRÆDDRI AUÐRÆÐISELÍTU en af krúnurökuðum og svartstökkuðum öfgahægrimönnum.
Þetta er veruleikinn. Umræðan er allt annað. Í hinni ríkjandi umræðu er þetta afnám lýðræðis kallað „sparnaðaraðgerðir", „ögunaraðgerðir" „björgunarpakki", „samábyrgð um yfirþjóðlegan vanda" o.s.frv. Umrædd elíta stjórnar nefnilega umræðunni líka, alveg sérstaklega umræðunni um „evrópumálin".
Andstaðan við Evrópusamrunann er mikil, á Íslandi sem annars staðar. Grundvöllur hennar er alla jafna óskir um þjóðlegan sjálfsákvörðunarrétt, oft einhverjar tegundir þjóðernis- og þjóðfrelsishyggju, andstaða við markaðshyggju ESB eða bara óskir um vald nálægt fólkinu. Andstaðan við Evrópusamrunann hefur alltaf verið meiri meðal almennings en hjá samfélagselítunni.
Hinu skal ekki neitað að til eru einnig hægrimenn sem sjá í ESB ný Sovétríki og eitthvað sem þeir kalla sósíalisma, og eru þá oftar en ekki mjög langt til hægri. Evrópskir fasistar og fólk yst til hægri snýst gegn því hvernig kapítalísk hnattvæðing eyðir landamærum í Evrópu - en það hugsar órökrétt og kallar þetta sósíalsima.  
Evrópuelítan grípur þessa síðustu tilhneigingu á lofti og notar hana í stjórnun sinni á „evrópuumræðunni". Það er nefnilega eitt meginviðkvæði Brusselvaldsins í þeirri umræðu að skilgreina alla andstöðu við hinn skrifræðislega Evrópusamruna sem HÆGRI ÖFGASTEFNU. Þetta er ákveðin umræðutækni og ákveðin drottnunartækni um leið. Aðferðin er oftast sú að nota stimpilinn „þjóðernishyggja" á andstöðuna. Í þessari stimpilgjöf er öll þjóðernishyggja lögð að jöfnu, til dæmis er enginn greinarmunur gerður á herraþjóðarhyggju og þjóðfrelsishyggju, á Hitler og Ho Chi Minh.
Endurómur af þessari einkunnagjöf heyrist mjög hér á landi. Árni Þór Sigurðsson, þá þingflokksformaður VG, sagði vefmiðilinn Evrópuvaktina einkennast af„áróðri og árásum hægri öfgamanna undir forystu þeirra Björns Bjarnasonar og Styrmis Gunnarssonar. http://smugan.1984.is/?p=18215 Eftir að Framsóknarflokkurinn hvarf af Evrópubraut Halldórs og Valgerðar hafa Evrópusinnar fundið þénanlegt að kenna flokkinn við þjóðernishyggju. Eiríkur Bergmann, Evrópuprófessor á Bifröst, skrifaði:
„Í allra síðustu tíð hefur Framsóknarflokkurinn svo eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna. Breytingar á merki flokksins vísar til að mynda í klassísk fasísk minni og áhersla hefur verið á að sýna þjóðleg gildi á fundum flokksins, svo sem glímusýningu undir blaktandi þjóðfánanum."
Vigdís Hauksdóttir, sá þingmaður Framsóknarflokksins sem mest hefur látið til sín taka í andstöðu við ESB-umsókn Íslands, er lögð í einelti sem kunnugt er. Stimplarnir eru eins og við er að búast úr þessari átt, „þjóðernissinni og afturhaldspíka" er hún kölluð af manni sem notar skáldanafnið „Eirikur Magnússon". Taktu það ekki nærri þér, Vigdís, þessir stimplar eru bara endurómur þeirra tóna sem gefnir eru í Brussel.

Tuesday, May 28, 2013

Vestræn hernaðarstefna og við


syria_uprising_2013-03-08.png

Sýrland sem eitt af "öxulveldum hins illa"

Heitustu stríðsátök undanfarinna tveggja ára eru í Sýrlandi. Talið er að 100 þúsund manns séu dauðir í Sýrlandsstríðinu og 1-3 milljónir á flótta. Ásakanir eru nú settar fram um beitingu efnavopna í landinu auk sprengjutilræða og hermdaraðgerða, og áður hefur Obama sagt að einmitt beiting efnavopna sé það "rauða strik" sem - ef farið væri yfir - geti réttlætt íhlutun s.k.. "alþjóðasamfélags" í landið.
Jafnhliða á sér stað mikill vígbúnaður kringum Íran, viðskiptabann og stríðshótanir í garð íranskra stjórnvalda. Það er réttlætt með kjarnorkuáætlun Írana. Ísrael talar einmitt um "rautt strik" sem Íran sé nálægt að fara yfir og megi þá búast við að verða fyrir árás.
Fréttaflutningurinn af efnavopnum í Sýrlandi og kjarnorkuvopnin í Íran gefur sterkadejavutilfinningu. Við höfum heyrt mjög líkar fréttir áður. Þarna eru Vestrænar fréttastofur og vestrænir þjóðarleiðtogar komnir af stað með sama yfirvarp og það sem réttlætti innrásina á Írak árið 2003, en reyndist vera upplýsingar og fréttir framleiddar hjá vestrænum hermálayfirvöldum og leyniþjónustum.
Svíinn Hans Blix fór þá fyrir vopnaeftirliti SÞ og bað alltaf um lengri frest til að kanna málið, en var svo alveg hundsaður. Hann segir nú hiklaust að innrásin hafi byggst á fölsuðum forsendum og verið brot gegn þjóðarrétti.
Nú er starfandi á vegum Mannréttindanefndar SÞ rannsóknarnefnd um stríðsglæpi í Sýrlandsstríðinu. Ein leiðandi kona í nefndinni er hin svissneska Carla del Ponte. Fyrir 10 dögum sagði hún eftirfarandi við blaðið The Independent, "það eru sterkar vísbendingar um að uppreisnarmenn hafi notað efnavopn, en það eru ekki vísbendingar um að stjórnvöld hafi notað slík vopn." (The Independent 6. Maí 2013).
Ef vel er leitað í fréttum má finna upplýsingar um meginatriði eins og þetta, en fréttaflutningur í þveröfuga átt er hins vegar miklu fyrirferðarmeiri og háværari. Sá fréttaflutningur lýsir átökunum í Sýrlandi sem hluta af "arabíska vorinu" þar sem friðsamir mótmælendur mæta þungvopnuðum her landsins og lögreglu. Það rímar hins vegar illa við þá staðreynd - sem líka heyrist stöku sinnum - að uppreisnaröflin hafa drepið þúsundir, jafnvel tugþúsundir sýrlenskra hermanna.
Spurning: Hverjir BERA UPPI UPPREISNINA Í SÝRLANDI? Það hefur lengi verið kunnugt að kjarninn í hersveitum uppreisnaraflanna, bæði herskáustu og árangursríkustu sveitirnar, tilheyra íslamísku samtökunum al Nusra.
Ein mikilvæg staðreynd í málinu sem hefur lengi heyrst á litlum hliðarfjölmiðlum birtist svo í apríl sl. í ýmsum meginstraumsfjölmiðlum, nefnilega að þessi samtök, AL NUSRA, ERU HLUTI AF AL KAÍDA. Ég nefni í því sambandi einn helsta sérfræðing CNN í málefnum Miðausturlanda, Peter Bergen, og einnig franska blaðið Le Monde sem er ein mikilvægasta málpípa frönsku ríkisstjórnarinnar.
Þetta hljómar ólíkindalega í eyru sem lengi hafa verið fóðruð á því að Bandaríkin og NATO hafi farið í sitt heimsstríð, stríðið gegn hryðjuverkum, með samtökin Al Kaída sem helsta skotmark. Það að Al Kaída skuli bera uppi uppreisnina gegn Assad á samt ekki að koma alveg á óvart þeim sem hafa fylgst sæmilega með átökum við Miðjarðarhaf undafarið. Það rifjar upp Líbíustríðið. Einnig þar voru það íslamistar, og m.a. hópar tengdir Al Kaída, sem báru uppi uppreisnina gegn Gaddafí og fengu vopnastuðning frá helstu fylgiríkjum Vesturveldanna meðal araba, Saudi Arabíu og Qatar og síðan þann stuðning úr lofti frá NATO sem reið baggamuninn.
Þetta er sem sagt sú uppreisn í Sýrlandi sem lýst er í fréttum sem uppreisn lýðræðissinna en eru skærur og hermdarverk íslamskra trúarhópa sem eru tilbúnir að beita vopnum fyrir málstað sinn. Þetta er uppreisn innan gæsalappa. Taka verður fram að mjög mikilvægur þáttur í þessari s.k.. uppreisn er útlendingar. Það kemur fram á ýmsum fréttastofum að þúsundir erlendra jihadista munu vera í Sýrlandi til að berjast við Assad-stjórnina, flestir frá Mið-Austurlöndum og Norður Afríku en einnig eru nokkur hundruð frá Evrópu1.
Önnur spurning: Hverjir STANDA Á BAK VIÐ uppreisnaröflin í Sýrlandi? Það er á allra vitorði að uppreisnaröflin eru vopnuð af traustustu fylgiríkjum Bandaríkjanna meðal araba, Qatar og Saudi Arabíu, rétt eins og var í Líbíustríðinu. Uppreisnarsveitirnar eiga sér ennfremur bækistöðvar og aðstöðu í eina fullgilda NATO-landinu við landamæri Sýrlands, Tyrklandi. Þann 19. mars mátti lesa eftirfarandi á CBS-news:
[Stavridis] yfirmaður bandarísku herstjórnarinnar í Evrópu sagði að NATO stæði að áætlun um mögulega hernaðaraðgerð í Sýrlandi og að bandarískar hersveitir væru undirbúnar ef kall kæmi frá SÞ og aðildarlöndum NATO… og ennfremur að mögulegar leiðir til að styðja andspyrnuöflin í Sýrlandi, leiðir sem gætu bundið enda á þráteflið í landinu væru nú kannaðar af aðildarríkjum.
Bakhjarl uppreisnarinnar er sem sagt tvíeykið Bandaríkin og NATO. Þriðji aðilinn er Ísrael sem hefur nú um hríð gert beinar loftárásir á Sýrland. Af þessu samanlögðu sést að það er meira en hæpið að tala um stríðið í Sýrlandi sem uppreisn eða borgarastríð. Þetta er ein tegund innrásarstríðs, stríð vestrænna stórvelda gegn fátæku þjóðríki, innrás sem ennþá er aðallega háð gegnum leiguhermenn og staðgengla.
Eftir lok kalda stríðsins er aðeins eitt risaveldi í heiminum, risaveldi sem fyrir vikið fer mjög sínu fram. Bandaríkin og NATO hafa farið með æðsta vald í alþjóðastjórmálum. Þetta er enn fremur sú tvíeining sem staðið hefur á bak við öll helstu stríðsátök í verölinni eftir lok kalda stríðsins, ég endurtek, ÖLL HELSTU STRÍÐSÁTÖK í veröldinni. Og í Mið-Austurlöndum er svo óhætt að bæta við þriðja aðilanum, Ísrael, svo úr verður æðstráðandi þríeining í málefnum þessa svæðis: USA NATO og Ísrael.
Það var George W Bush sem kom með heitið "öxulveldi hins illa" í framhaldi af atburðunum 11. September, og nefndi Írak, Íran og N-Kóreu. Hann sagði orðrétt: "States like these constitute an axis of evil". Sendiherra hans hjá SÞ, John Bolton, bætti skömmu síðar við þremur ríkjum til viðbótar á listann: Kúbu, Líbíu og Sýrlandi. Í þessum 6 landa hópi eru sem sagt 4 lönd í M-Austurlöndum: Írak, Íran, Líbía og Sýrland. Hvernig svo sem atburðirnir 11. september eru til komnir skópu þeir ný skilyrði í alþjóðastjórnmálum. Með þeim bjuggu Bandaríkin sér til aðstæður sem gerðu mögulega stóraukna hörku í viðskiptum við þessi "illu öxulveldi" og öll óhlýðin ríki.
Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var nýhafin, var Wesley Clark - sem hafði verið yfirhershöfðingi NATO í Kosovo-stríðinu - staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifaði nokkrum árum síðar:
"...í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan." (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)
Wesley Clark áleit að með 11. september hefði átt sér stað valdarán í Bandaríkjunum sem og þetta valdarán snéri herforingjanum fyrrverandi til ákveðinnar andstöðu við Bush-stjórnina. Í ræðu í október 2007 sagði hann um þessa áætlun að markmið hennar væri að SKAPA UPPLAUSNARÁSTAND (destabilize) í umræddum löndum og gegnum það ætlaði risaveldið að ná þar yfirráðastöðu.
Hvort sem hér var um valdarán að ræða eða ekki er ljóst að Obamastjórnin hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var undir Bush. Munurinn var einkum sá að Obama tókst betur - m.a. í Afganistan og Líbíu - að fylkja Vesturveldunum á bak við sig en Bush hafði tekist. Í stjórnatíð Obama hefur samstaða Bandaríkjanna og ESB-veldanna styrkst og hlutverk NATO í stríðsrekstrinum aukist mjög á kostnað einhliða aðgerða Bandaríkjanna.
Stjórnlistin sem NATO fylgir er einfaldlega sú að viðhalda og styrkja hnattræna stöðu Bandaríkjanna og Vesturveldanna. Baráttan fer fram í öllum heimshlutum, og hún minnkaði ekki heldur harðnaði mikið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins. Eftir kalda stríðið hefur ákveðin brennipunktur þessara átaka verið í Miðausturlöndum, að hluta til er það vegna hinna miklu olíuauðæva þess svæðis. Önnur ástæða er sú að þetta var svæði þar sem áhrif gömlu Sovétríkjanna voru veruleg, og við brottfall þeirra skapaðist þar valdatóm og ný færi sóknar fyrir Vesturveldin.
Málið er afskaplega einfalt á teikniborðinu, búinn er til listi og krossað yfir nöfn þeirra ríkja þar sem ekki sitja ásættanlegar ríkisstjórnir að áliti Vesturveldanna. Krossinn þýðir "valdaskipti nauðsynleg", valdaskipti með illu eða góðu. Þegar Clark heimsótti Pentagon 2001 var krossinn yfir 7 ríkjum. Framkvæmdin er auðvitað flóknari. Hún hefur falist í því að þjarma að þessum ríkjum jafnt og þétt - með diplómatískri einangrun, með viðskiptaþvingunum, með því að kynda undir innri ólgu - ekki síst með því að beita trúardeilutrompinu svokallaða - og loks með beinum innrásum í löndin.

Taflið um heimsyfirráð

"Hernaðarstefnan er tímaskekkja, leifar af kaldastríðshugsun" er nokkuð sem friðarsinnar segja oft. Það er mikill og hættulegur misskilningur. Hernaðarstefnan er grundvallarþáttur í keppni heimsveldanna um áhrifasvæði, hún er grundvallarþáttur kapítalískra stjórnmála.
Eftir lok kalda stríðsins hafa USA og NATO eignast nýja andstæðinga. Eftir aldamótin hefur það orðið æ skýrara að strategískur höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og NATO er hið nýja efnahagsveldi, Kína. Kína á sér nokkra mikilvæga bandamenn. Sá mikilvægasti er Rússland og Íran er líklega númer tvö. Bandarísk herstjórnarlist beinist að því að einangra og veikja þessa andstæðinga. Bandaríkin og bandamenn þeirra leggja slíka megináherslu á að kyrkja stjórn Assads í Sýrlandi af því sú stjórn er nú orðið eini bandamaður Írana (og þar með Kínverja) í Miðausturlöndum. Til að einangra Íran og koma þar á valdaskiptum er nauðsynlegt að losa sig við Sýrland fyrst.
Herskáasti gerandi á vettvangi alþjóðastjórnmála nútímans er NATO-blokkin, sem er jafnframt langsterkasta hernaðarblokk okkar daga. Ástæða árásarhneigðarinnar er einkum sú að þessi blokk er efnahagslega á undanhaldi. Hernaðarlegir yfirburðir eru þess vegna hennar helsta tromp. Stríðin í Írak, Afganistan og Líbíu og umsátrið um Íran snúast ekki um lýðræði og harðstjórn. Þau snúast um olíu. Ekki bara það, einnig um að tryggja vestræn yfirtök á mikilvægum svæðum og halda andstæðingunum frá. Stærsti olíuseljandi til Kína er Íran. Og í Líbíu hafði fjöldi kínverskra fyrirtækja fjárfest, ekki síst í gjöfulum olíuiðnaði landsins. NATO gerði innrás og þar með urðu Kínverjarnir að draga sig út úr því landi. Kína er orðinn stærsti viðskiptaaðili Afríku á meðan markaðsaðild vestrænna auðhringa dregst þar saman. Kína fjárfestir þar líka meira en nokkurt annað heimsveldi. Svarið við því er AFRICOM, sem er skammstöfun fyrir Afríkuherstjórn Bandaríkjahers. Obama ætlar að senda 3000 hermenn til Afríku á þessu ári og áformar að senda herlið inn í 35 Afríkulönd á næstu árum. Sem sagt eins og ég sagði: efnahagslegt undanhald er vegið upp með hernaðarlegri sókn.
En heimsvaldastefnan fer óhjákvæmilega fram undir FÖLSKU FLAGGI. Hún getur ómögulega sagt opinskátt að hún heyi stríð vegna olíuhagsmuna og til að tryggja aðgang að auðlindum vítt um lönd eða að hún berjist um markaði og áhrifasvæði við Kína og önnur heimsveldi. Ekki er heldur hægt með góðu móti að segja að andstæðingurinn sé af óæðri kynstofni eins og í nýlenduhernaði 19. aldar.
Á 20. öld var kommúnisminn hið stóra skálkaskjól. Hann var gerður að grýlu sem réttlætti íhlutanir heimsvaldasinna um allan heim. Í upphafi 21. aldar var kommúnisminn nær horfinn um sinn og nú varð að tilreiða boðskap heimsvaldastefnunnar öðru vísi.
Yfirskriftir hernaðaraðgerða Bandaríkjanna og NATO hafa undanfarna tvo áratugi einkum verið tvenns konar. Annars vegar s.k.. "stríð gegn hryðjuverkjum". Hins vegar eitthvað sem kallast "mannúðarinnrásir" í einstök þjóðríki undir yfirskyni "skyldunnar til að vernda" borgara þess ríkis. Í tengslum við þetta beitir heimsvaldastefnan flóknum aðferðum til að vinna jarðveginn fyrir innrásir. Ég ætla að nefna þrennt í því sambandi 1) sívaxandi hlutverk vestræns leyniþjónustunets, 2) beiting s.k.. "hryðjuverkaógnar" sem er skipulega notuð og skipulega ræktuð af heimsvaldasinnum 3) trúardeilutrompið sem hefur reynst árangursríkt gagnvart því markmiði sem Wesley Clark nefndi að skapa upplausnarástand í ríkjum sem eru í ónáð, 4) hin mikla spunavél ráðandi vestrænna fréttastofa sem heimsvaldasinnar hafa full yfirráð yfir og býr hún til þá heimsmynd sem réttlætir hernaðarstefnuna.
Ekki er tóm til að fara skipulega í þessi atriði. Ég vil þó staldra aðeins við fyrirbærið Al Kaída. Þetta er dularfullur og herskár flokkur íslamista, nánar tiltekið hreyfing af grein salafista á meginstofni sunnímúslima. Flokkur þessi varð til í leynilegum en afgerandi tengslum við bandaríska leyniþjónustu í stríði Afgana við Sovétmenn á 9. áratugnum. Síðan þá hafa samtök þeirra verið gegnumsmogin af vestrænum flugumönnum og komið afar víða við.
Al Kaída hafa í sannleika reynst fjölnota verkfæri fyrir heimsvaldastefnuna, hálfgert undratæki. Það er ýmist þannig að starfsemi þessara vígahópa - skærur þeirra og hermdarverk - skapa heimsvaldasinnum tilefni og YFIRVARP TIL VOPNAÐRAR ÍHLUTUNAR í ákveðnu landi eða þá að vígahóparnir eru þvert á móti STAÐGENGLAR OG HANDLANGARAR vestrænna heimsvaldasinna í því að skapa upplausn og grafa undan stjórnvöldum í ákveðnu landi sem heimsvaldasinnar hafa sigtað út til "valdaskipta". Hryðjuverkamaður Al Kaída er sem sagt ýmist skotmaður heimsvaldasinna eða skotmark þeirra - og jafn nytsamlegur í báðum hlutverkjum.
Í framhaldi af 11. september var fyrri útgáfan mest notuð, innrás gerð í lönd til að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Dæmi um það voru Afganistan og að nokkru leyti Írak. Í Afríku er þessi útgáfa t.d. notuð í Sómalíu og nú síðast í Malí. Seinni árin hefur þó hin útgáfan verið stöðugt meira notuð, þar sem hinir herskáu jihadistar vinna sjálft verkið fyrir heimsvaldasinna sem þurfa bara að sjá þeim fyrir vopnum og e.t.v. aðstoða þá úr lofti. Þannig var það í Líbíu þar sem íslamistar, m.a. Al Kaída, báru uppi landhernaðinn og voru óspart studdir af NATO-ríkjunum. Eldra dæmi er úr Kosovostríðinu þar sem hryðjuverkaher íslamista, s.k.. Frelsisher Kosovo, var í svipuðu hlutverki sem framlengdur armur CIA og NATO.
Í Sýrlandi stendur sterk arabísk þjóðernis- og þjóðfrelsishyggja gegn heimsvaldastefnunni. Samt eru aðstæður þar að sumu leyti heppilegar fyrir utanaðkomandi heimsveldi sem vilja skapa upplausnarástand. Konungsfjölskyldan er af trúarhópi alavíta sem standa nær síamúslimum en sunní og eru auk þess í bandalagi við síamúslimana í Íran, á meðan meirihluti þjóðarinnar er sunnímúslimar sem á margan hátt hafa verið kúgaðir. Við þessi skilyrði er rökrétt aðferð heimsvaldasinna að beita TRÚARDEILUTROMPINU eins og mögulegt er. Það er hluti af nýjum áherslum heimsvaldasinna og sést m.a. á óvæntum en greinilegum vinskap Bandaríkjanna og Múslimabandalagsins í Egyptalandi. Múslimabandalagið hefur t.d. beðið NATO og "alþjóðasamfélagið" um íhlutun í Sýrlandi.
Trúardeilutrompinu í Sýrlandi er beitt á þann hátt að hópum herskárra sunnímúslima eru fengin vopn og aðrir slíkir eru kallaðir til frá öðrum múslimalöndum. Útkoman er alla vega sú að helsta haldreipi Bandaríkjanna og NATO á vígvöllunum Sýrlands er Al Kaída. Sú nöturlega staðreynd sýnir svo ekki verður um villst að hin vestrænu afskipti snúast ekkert um lýðræði og mannréttindaást. Öll meðul sem stuðla að "valdaskiptum" eru jafngóð, öll meðul sem þjóna gráðugum vilja heimsvaldasinna eru jafn góð.
Kostnaðurinn af stríðsrekstri Vesturveldanna er ógurlegur svo ekki sé meira sagt. Samt er hann alls engin sigurganga. Stríð þeirra í Afganistan virðist ekki ætla að vinnast þrátt fyrir þátttöku flestra Evrópuríkja í því auk Bandaríkjanna. Og stríðið í Sýrlandi, háð af íslamískum staðgenglum og leigugerjum studdum af Vesturveldunum, hefur sömu leiðis gengið illa upp á síðkastið með dvínandi bjartsýni um skjótan sigur.
Þessi beiting trúardeilutrompsins hefur ennfremur ýmsar ófyrirséðar hliðarverkanir. Dæmi um það er hvernig stríðið í Sýrlandi flæðir nú aftur yfir landamærin til Íraks og veldur leppstjórn Vesturveldanna þar ómældum vandræðum.
Sem sagt: Eins og oft áður er það samkeppni heimsvaldablokka sem veldur stríðshættunni. Rétt eins og á 4. áratug síðustu aldar er það þó fyrst og fremst ein blokkin sem beitir hernaðarstefnu til að ná markmiðum sínum. Nú er það blokkin USA/NATO.
Ef Assadstjórnin tapar Sýrlandsstríðinu og fellur innan skamms segir öll reynsla okkur að þá verði ekki langt í árás á Íran. Þess vegna er það svo að von friðarins í Miðausturlöndum er nú helst bundin vopnuðum sveitum Assads. Fyrir marga friðarsinna er það of beiskur sannleikur til að kyngja.

Stuðningur Íslands við vestrænan stríðsrekstur

Ísland hefur almennt enga eigin stefnu í málefnum stríðs og friðar, aða en þá að fylgja NATO. Stefna NATO hefur hins vegar tekið afgerandi breytingum hin síðari ár. NATO er nú hnattrænt bandalag, mjög árásarhneigt bandalag og miklu umsvifameira en nokkru sinni áður. Það er tilbúið til íhlutana hvar á hnettinum sem er.
En frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda er málið einfalt. Herir NATO eru okkar menn. Íslensk stjórnvöld hafa stutt ÖLL helstu stríð Bandaríkjanna og NATO frá lokum kalda stríðsins: Bosníustríð, Kosovostríð, stríðið í Afganistan, bæði Íraksstríðin, Líbíustríðið og nú stríðið í Sýrlandi. Það hefur engu máli skipt hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn Íslands. Auðvitað hefur beint framlag Íslendinga til viðkomandi aðgerða ekki breytt miklu til eða frá. Samt hefur það verið umtalsvert í mannskap og sérfræðistörfum í Kosovo og síðar í Kabúl, m.a. við að annast flugvelli. Það stendur enn, a.m.k. í Kabúl. Mikilvægari er þó pólitíski stuðningurinn.
Þessi lýsing á ósjálfstæði Íslands á hermálasviðinu á reyndar við um miklu fleiri lönd. Hún á m.a. við um ESB-löndin sem nú hafa ÖLL tengst NATO (ýmist með fullri aðild eða aukaaðild). Það kemur fram í Afganistanstríðinu og kom fram í Líbíustríðinu, í báðum tilfellum hefur öll NATO-blokkin komið fram sem ein órofa fylking, sem vissulega er afgerandi breyting frá því sem var kringum innrásina í Írak 2003.

Íslenska friðarhreyfingin

Nú ætla ég að segja ofurlítið um íslenska friðarsinna. Ég held því fram að íslenskir friðarsinnar hafi haldið vöku sinni, látið óspart í sér heyra og sýnt mikinn styrk í baráttunni kringum Íraksstríðið, en framgöngu þeirra í kringum Líbíustríðið og aftur nú í staðgengilsstríði Vesturveldanna gegn Sýrlandi verður helst lýst sem ærandi þögn.
Lof mér að rifja skjótlega upp mótmælin vegna Íraksstríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust á Írak 20. mars 2003. Það voru stórir mótmælafundir í Reykjavík í janúar og 14. febrúar og svo á innrásardaginn. Á fundinn 14. febrúar mættu 4000 manns. Einnig voru fundir á Akureyri og Ísafirði. Þá var líka mótmælastaða við bandaríska sendiráðið og síðar við stjórnarráðið á hverjum laugardegi frá janúar og fram í maí. Samhliða þessu voru skrif gegn stríðinu á prenti daglega fyrir augum manna mánuðina fyrir og eftir innrásina.
Svo komu stríðin í Líbíu og í Sýrlandi. Enn hafa engar mótmælaaðgerðir sést vegna þeirra á Íslandi. Skrif og ályktanir SHA vegna Líbíu voru alla vega í lágmarki og engar ályktanir hafa enn birst vegna Sýrlandsstríðsins. Það er freistandi að álykta í þá veru að þetta snerti eitthvað þá staðreynd að á Íslandi hefur setið við völd vinstri stjórn, hvar í eiga sæti nokkrir kunnir herstöðva- og hernaðarandstæðingar. Vinstri stjórnin hefur samt með hefðbundnum hætti íslenskra ríkisstjórna stutt stefnu NATO-veldanna í stríðum þessum. Líklega er óhætt að bæta því á afrekaskrá hennar að hún hafi með samböndum sínum inn í friðarhreyfinguna náð að svæfa hina virku andstríðsbaráttu í landinu.
Rétt er að taka fram að þetta er líka hluti af alþjóðlegu fyrirbæri. Skipuleg andstríðsmótmæli voru gífurleg kringum innrásina í Írak. Í Bandaríkjunum og um gjörvalla Evrópu, og auðvitað víðar. En nú er þessi friðarhreyfing afskaplega veik og víða alveg óvirk. T.d. í Bandaríkjunum veslaðist hún fljótt upp með tilkomu Obama-stjórnarinnar. Hefur þó Obama aukið framlögin til hermála, aukið hernaðarbrölt Bandaríkjanna vítt um heim enn frekar, þó víða sé það gegnum hernaðarráðgjafa og staðgengilsheri frekar en fjölmennt bandarískt herlið.
Af hverju lyppast friðarhreyfingin niður? Skýringin er væntanlega sú að bandaríska auðvaldið setti upp nýtt andlit og nýjan talanda með nýjum forseta. Eftir það tókst því miklu betur en áður að matreiða og bera á borð hernaðarstefnu sína. Nú heita stríðin "mannúðaríhlutanir". Obama fær friðarverðlaun Nóbels fyrir. Eining Vesturlanda að baki honum er órofa, og eftir að ESB-ríkin hafa stóraukið stríðsþátttöku sína innan NATO fær ESB friðarverðlaun líka. En svo er að sjá að þessi lystaukandi framreiðsla stríðanna hafi dugað til að margar friðarhreyfingar ætu hana líka.
Ég slæ því fram í lokin að öll friðarbarátta verður ómarkviss og raunar marklítil ef hún tengist ekki skipulegri og upplýstri andstöðu gegn heimsvaldastefnunni.

(flutt á fundi MFÍK 17. maí)