Árásarhneigð Vesturveldanna – með Bandaríkin í fararbroddi – eftir fall múrs og Sovéts verður ekki skýrð og skilin nema sem streð eftir heimsyfirráðum. Það þarf orðið meira en meðalheimsku til að trúa á hina vestrænu vísun til „mannúðar og mannréttinda“ í árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak, Líbíu og nú Sýrland, enda eru æ færri sem trúa. Dreifing fórnarlandanna í og kringum hin olíuríku Miðasuturlönd er ekki tilviljun. Einbeitt árasárhneigðin er meira en bara almenn keppni um áhrifasvæði. Hún verður ekki skýrð nema sem keppni um óskert yfirráð Vesturveldanna í Miðausturlöndum – sem aftur er lykilhlekkur í streði að heimsyfirráðum.
Ef leita skal að sögulegri hliðstæðu þess sem nú fer fram er eðlilegast að fara aftur á 4. áratuginn. Öxulveldin hófu þá hernaðarlega útþenslu með innrás Japana í Mansjúríu 1931, síðan inn í Kína og svo koll af kolli en fasistaríkin í Evrópu tóku Abbisiníu 1935, steyptu spænska lýðveldinu, tóku Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku, Noreg, Frakkland… Í áratug horfði Þjóðabandalagið á þetta og gerði ekkert.
Eftir fall múrs og Sovéts varð heimurinn pólitískt og hernaðarlega einpóla. Yfirþyrmandi vald safnaðist við þennan eina pól þar sem var risaveldið eina, Bandaríkin, og bandamenn þess í NATO. Í krafti þess á sú blokk í flullu tré við alla hugsanlega andstæðinga sína og notfærir sér það óspart.
Efnahagslega – hins vegar – eru aðrir pólar í vexti sem sauma að gömlu heimsveldunum. Það eru „nýmarkaðslöndin“ með Kína þar fremst í flokki. Landið er m.a. stærsti iðnaðarframleiðandi heims og aðild þess að heimsmarkaði vex stöðugt á kostnað iðnríkja Vesturlanda. Kína er þess vegna strategískur höfuðandstæðingur Vesturveldanna. Efnahagslegt undanhald USA og ESB verður enn greinilegra í yfirstandandi kreppu. Hins vegar getur Kína ekki mælt sig við Bandaríkin í pólitískum, diplómatískum og hernaðarlegum styrk (á sínum tíma tóku Bandaríkin einnig efnahagslega forustu á heimsvísu miklu fyrr en hina pólitísku og hernaðarlegu forustu). Það er þessi blanda efnahagslegs undanhalds og pólitísk-hernaðarlegrar útþenslu sem veldur nýjum og nýjum styrjöldum og afar dapurlegu útliti fyrir heimsfriðinn.
Hernaðartrompið er síðasta stóra tromp Vesturveldanna og þau beita því óspart í heimsvaldataflinu. Útþensluaðferð þeirra er að stórum hluta hernaðarleg. Ekki síst gerist hún með útþenslu og endursköpun eina hernaðarbandalagsins, NATO. NATO hefur fjöldgað aðildarlöndum úr 16 í 28 og rúmlega annar eins fjöldi hefur sk. bandalagsaðild (partnership). Þetta hefur til dæmis leitt af sér að öll lönd við Miðjarðarhaf nema tvö, Sýrland og Líbanon, hafa nú hernaðarlega samvinnu við NATO (fyrir rúmum 2 árum var Líbía þriðja óháða ríkið). Hvert ríki sem bætist við NATO-samstarfið verður hernaðarlegur stökkpallur gegn þeim ríkjum sem eftir eru utan við.
Önnur aðferð í útþenslunni er einmitt sú að ráðast með her á þau ríki sem reka sjálfstæða og óháða utanríkisstefnu. Það gerist alltaf á svipaðan hátt. Vesturveldin setja á dagskrá (í heimspressunni) nauðsyn „valdaskipta“ í viðkomandi landi, beitt er pólitískri og diplómatískri einangrun og leitað að mögulegum misklíðaefnum innan lands, einn trúar- eða þjóðernishópur styrktur gegn öðrum o.s.frv. Jafnframt hefst skrímslisgering (demónisering) stjórnvalda viðkomandi lands gegnum heimspressuna. Ef þetta nægir ekki er leitað að yfirvarpi til íhlutunar. Ef illa tekst til og ekkert heppilegt yfirvarp gefst er það einfaldlega búið til með leyniþjónustuaðferðum og auglýst í heimspressunni (sbr. Sýrland í dag)
Sem áður segir varð heimurinn einpóla eftir fall múrsins. Á seinni árum hefur vaxið fram nýr pólitískur og hernaðarlegur mótpóll. Lönd sem helst girða fyrir full heimsyfirráð NATO-veldanna eru annars vegar Rússland (f.o.m. Pútin) og hins vegar Kína. Þriðji aðilinn í andstöðuhópnum er Íran og svo eru minni lönd eins og Sýrland, Venezúela og Kúba. Það blasir við að miðað við NATO-blokkina stóru og pólitísk fylgiríki hennar er þessi blokk lítil og minni háttar að pólitískum styrk. Á móti sér hefur hún t.d. nær alla heimspressuna.
Í Miðausturlöndum er staðan sú að Sýrland er eini bandamaður Írans ásamt Hizollasamtökunum í Líbanon. Ef Vesturveldunum tekst að kyrkja Sýrlandsstjórn og ná um leið kverkataki á Hizbolla er augljóst hver er næstur í röðinni: Íran. Leiðin til Teheran liggur um Damaskus. Og – takist síðan að steypa Íransstjórn standa Rússland og Kína einangruð á heimsvísu, og full heimsyfirráð eru þá innan seilingar hjá Vesturblokkinni, a.m.k. raunverulegri hjá nokkru heimsveldi áður.
Það er þetta sem er í húfi. Árásirnar á hin einstöku lönd byggir á herfræðilegri heildarhugsun. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessum djöfulskap. Þess vegna er Bandaríkjaforseti (friðarverlaunahafinn) tilbúinn að setja þennan heimshluta á annan endan með stórstyrjöld. Þess vegna er hann tilbúinn að ráðast á Sýrland þó hann þurfi að fara einn. Hann þykist sjá að mikið hangi á spýtunni. Annars væri háttarlag hans óskiljanlegt.
Ég nefndi í upphafi máls samanburð við 4. áratuginn. Eitt af öðru eru óþæg ríki kyrkt. Heimurinn horfir á. Og nú gildir hið sama um Sameinuðu þjóðirnar eins og Þjóðabandalagið þá: Þær standa ekki gegn þeirri nöktu árásarhneigð sem hér er til umræðu. Þær hafa ýmist (t.d. í Írak 1991 og Líbíu 2011) beinlínis verið verkfæri hernaðarstefnunnar eða þá setið aðgerðarlausar, og þegjandi látið NATO eða Bandalag viljugra fara sínu fram.
Hafi nokkurn tíma verið tilefni til að andæfa þessum morðingjum heimsins þá er það nú. Kurteisleg tilmæli Sigmundar Davíðs til Obama um að „leita friðsamlegra lausna“ er miklu betri en stuðningur við hernaðaraðgerðirnar en missir samt marks af því talað er við ásrásaraðila. Stríðið í Sýrlandi hefur frá upphafi verið stríð vestrænt studdra innrásaafla gegn Sýrlandi. Krafan til Obama og bandamanna hans er: Burt með býfurnar af sýrlandi. Og ef/er árás hefst er skylda okkar: fullur stuðningur við Sýrland.
No comments:
Post a Comment