Friday, July 26, 2013

Vinnufélagi minn frá Rúmeníu


Birtist á Vinstri vaktin geng ESB 29.6.2013

Starfsliðið á vinnustaðnum mínum er fjölþjóðlegt. Sem stendur er þar u.þ.b. tugur Pólverja, einn Lithái og einn Rúmeni. Þetta eru ESB-lönd. Svo er þar einn Rússi sem komst hingað eftir krókaleiðum á bólutímanum. Sumir eru með fjölskyldu og komnir til að vera. Aðrir eru bara í tímabundnum vinnutúr. Enn aðrir reyna að vinna sér inn sem flesta aura og senda þá heim. Sem sagt nokkrar tegundir af hinu frjálsa flæði „evrópusamvinnunnar".
Rúmeninn er af síðustu tegundinni. Nýlega spjallaði ég dálítið við hann og spurði um hans hagi. Hann er ekkert of ánægður. Hann er einmana. Hann fótbraut sig fyrir skemmstu í vinnunni en mætti aftur rúmri viku síðar og hefur svo harkað af sér. Hann vill ekki vera baggi á fyrirtækinu né eiga á hættu að missa vinnuna.
Hann er tæplega fertugur, einn og ógiftur, en hefur miklar og stöðugar áhyggjur af foreldrum sínum heima sem eru um sjötugt og heilsulaus. Hann sendir þeim alla umframpeninga sem hann vinnur inn, sem eru engin ósköp. Hann yfirgaf þó land sitt vegna lágra launa heima. Þar eru laun verkafólks um einn fimmti af íslenskum launum. Heilbrigðiskerfið í Rúmeníu er ömurlegt, nema læknum sé greitt undir borðið. Faðir þessa kunningja míns fékk heilablóðfall fyrir nokkru og lamaðist miki til öðrum megin. Hann var sendur heim af spítalanum samdægurs, enda er þetta bara verkafólk.
ESB er byggt kringum markaðsfrelsið/fjórfrelsið á fjölþjóðlegum evrópskum markaði. Hinn sameiginlegi evrópski markaður er náttúrlega frjálshyggjan og markaðshyggjan í verki  - fjármagn og vinnuafl flýtur nú frjálst um álfuna, fjármagnið þangað sem hagnaðar er von og vinnuaflið á eftir þangað sem góðra launa er von. Samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar skapar frjálsi markaðurinn ekki aðeins hámarkshagvöxt heldur miðlar líka gæðunum jafnast til allra.
Í orði já, en ekki á borði. Eftir að Rúmenía opnaðist fyrir  vesturevrópsku fjármagni á 10. áratug og gekk svo í ESB með öðrum austantjaldsríkjum um áramótin 2006/2007 var atvinnulífið einkavætt í stórum skrefum sem vænta mátti. Ný dæmi eru úr járnbrautarsamgöngum og orkuiðnaði svo að orkuverð til húsahitunar hefur rokið upp. Meirihluti fjármálastofnana voru seld vesturevrópskum bönkum kringum aldamót. Þar með buðust næg lán til einstaklinga og fyrirtækja. Þau voru ekki notuð til að byggja upp framleiðslu- og stoðkerfi heldur fremur til kaupa á innfluttum vörum. Þýska útflutningsmaskínan græðir. Svo kom kreppan.
Rúmenía hefur afiðnvæðst fremur en hitt. Í takt við það að innlendur iðnaður lagðist af leitaði vinnuaflið út úr landinu. Svo mjög að á árunum 2002-2011 fækkaði landsmönnum um nærri 15%! Vinnufélaginn minn segir að flestir vinir sínir og kunningjar búi nú og starfi í öðrum löndum Evrópu.
Sameiginlegur markaður ESB er stór tilraunareitur frjálshyggju og markaðsvæðingar. Það er fjarri því að markaðsfrelsið virki jafnandi milli landa. Laun í Rúmeníu eru áfram bara 1/5 af íslenskum launum. Hið frjálsa fjölþjóðlega flæði vinnuafls þýðir einkum það að launafólk verður að elta auðmagnið og atvinnuna milli landa. Sá „sveigjanleiki" er mjög hagstæður fyrir auðhringana en þýðir óöryggi, útlegð og oft hvíldarlaust flakk fyrir launafólk.
Kunningi minn hikar ekki við að segja að ástandið í Rúmeníu hafi verið betra fyrir almenning undir Sjáseskú (1965-89). Einkum tíminn aðeins fram yfir 1980. Lífskjör voru almennt betri, öryggið miklu meira og heilbrigðiskerfið miklu, miklu betra. Sjáseskú var þó einræðisherra og samfélagshættir á stjórnartíma hans hreint ekki til fyrirmyndar. En svona óhagstæður samanburður við gamla „Drakúla" sýnir fyrst og fremst hve grátt hið frjálsa markaðskerfi ESB hefur leikið hagkerfi fátækra Austur- og Suður-Evrópulanda.

No comments:

Post a Comment