Saturday, July 27, 2013

Langur slóði Snowdens


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 26.7.2013

Mál Edwards Snowdens dregur langan slóða. Afhjúpanir hans sýna að bandarískar öryggisstofnanir njósna um allan almenning í eigin landi. Þær brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns og sýna frelsi fólks og mannréttindum fulla fyrirlitningu.
Snowden-008
Dr. Paul Craig Roberts var varafjármálaráðherra Bandaríkjanna í tíð Reagans en hefur síðar gerst mjög gagnrýninn á kerfið vestur þar. Hann skrifar á vefsíðu sína:
Stjórnvöldin í Washington skortir stjórnarskrárlegt og lagalegt lögmæti. Bandaríkjunum er stjórnað af valdaræningjum sem láta eins og framkvæmdastofnanir þeirra séu hafnar yfir lög og bandaríska stjórnarskráin sé „pappírsrusl" (...) Obamastjórnin líkt og Bush/Cheneystjórnin áður hefur ekkert lögmæti. Bandaríkjamenn eru kúgaðir af ólögmætum stjórnvöldum sem stjórna ekki með lögum og stjórnarskrá heldur með lygum og nöktu valdi (...) Viðbrögð Washington við þeim sönnunum Snowdens að Washington - í fullum blóra við bæði innlendan og alþjóðlegan rétt - njósni um allan heiminn hefur sýnt og sannað hverju landi að Washington setur hefndarþorstann ofar lögum og mannréttindum (...) Ef Bandaríkjamenn sætta sig við valdaránið hafa þeir kyrfilega komið sér fyrir í greipum harðstjórnar.

Ein bomban í uppljóstrunum Snowdens eru vítækar njósnir NSA og bandarískra öryggisstofnana um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess o.s.frv. Þannig líta Bnadaríkin berlega á bandamennina sem sína undirdánugu þjóna sem þarf að hafa eftirlit með.  http://www.guardian.co.uk/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies
En hvað með Evrópustórveldin? Stunda þau hliðstæðar njósnir? Frá byrjun uppljóstrana Snowdens lá það fyrir að sams konar starfsemi er stunduð af breskum öryggisstofnunum í náinni samvinnu við stóra bróður handan hafsins. Hvað um hin ESB-stórveldin? Á fimmtudag sagði Ríkisútvarpið af nýjum uppljóstrunum Der Spiegel sem sýna fram á nána „vestræna samvinnu" á þessu sviði:
„Allt bendir til þess að þýsk stjórnvöld hafi vitað af njósnum bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA. Þá er einnig talið líklegt að NSA og þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað saman við njósnir.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikur vegna persónunjósna bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar. Hefur hún verið gagnrýnd harðlega af jafnt stjórnarandstæðingum, fjölmiðlum og almenningi, fyrir að sýna bandarískum yfirvöldum linkind í málinu.
Blaðamenn þýska fréttatímiritsins Der Spiegel hafa komist yfir gögn sem sýna fram á að þýsk yfirvöld hafi líklegast vitað af njósnakerfi NSA, sem ber nafnið PRISM, og þá er einnig talið líklegt að þýska leyniþjónustan, BND, hafi starfað með NSA við njósnir.
Ljóst er að starfsmenn BND fóru síðast í aprílmánuði til Virginíuríkis í Bandaríkjunum til að sækja námskeið í notkun njósnaforritsins XKeyScore, sem safnar rafrænum gögnum á svipaðan hátt og PRISM. Komi í ljós að þýsk yfirvöld hafi stundað njósnir á sínum eigin ríkisborgurum er það brot á þýsku stjórnarskránni..."
Við sklum draga af þessu þrjár ályktanir. 1) Vestræna blokkin er ein órofa heild. 2) Vestræna blokkin er að verða eða orðin lögregluríki. 3) Edward Snowden er þess vegna andspyrnuhetja í lögregluríki, ekki föðurlandssvikari, og ríki sem virðir mannréttindi (Ísland?) ber að veita honum pólitískt hæli. /ÞH

No comments:

Post a Comment