Monday, June 24, 2013

ESB og hið stóra samhengi


Birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 22.6.2013

Auðmagnið hefur innbyggða tilhneigingu til að hlaðast upp. Kapítalískar efnahagseiningar éta hver aðra og þenjast út. Kapítalisminn á 21. öld er þess vegna heimur einokunar, risaauðhringa og fjármálafáveldis sem mergsýgur alþýðu og þjóðir um heim allan. Arðránið er hnattrænt, frá jaðarsvæðum til kjarnsvæða. Jaðarsvæðin eru efnahagslega vanþróaðri og lúta oftar en ekki yfirráðum landa úr kjarnanum. Hnötturinn okkar er nú heimur heimsvaldasinnaðra auðvaldsblokka sem takast á sín á milli um yfirráð svæða og markaði.
Þróun ESB endurspeglar þróun kapítalismans. ESB er ein af auðvaldsblokkunum stóru, og með bandalagi þess við Bandaríkin verður svo til miklu stærri valdablokk - Vesturblokkin/NATO-blokkin - sem ræður mestu í heimsmálum nú um stundir og beitir auk þess óspart hernaðarstefnu fyrir hagsmuni sína.
Samrunaferlið í ESB er knúið áfram af gróðasókn stórauðvalds sem ætlar sér að keppa við hina risana - eins og Bandaríkin og Kína. Auðhringar ESB stunda arðrán á þjóðum heims auk þess sem ESB skiptist sjálft í kjarna og jaðar, sem birtist m.a. í því hvernig fjármálavald kjarnalandanna sýgur þróttinn úr jaðarsvæðum Evrópu.
ESB er sem sagt ekkert einstætt, heldur aðeins ein blokkin í efnahagskerfi sem oft er kennt við „hnattvæðingu auðhringanna". Kapítalisminn er orðinn að risavöxnu afætukerfi, skaðlegu og hættulegu bæði mannkyninu og jörðinni.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera baráttuna fyrir fullveldi og þjóðlegum sjálfsákvörðunarrétti svo brýna. Sú barátta horfir til frelsis og framfara en er í andstöðu við ríkjandi þróun hins hnattvædda kapítalisma. Þeir sem styðja hnattvæðingu auðhringanna stimpla gjarnan þessa þjóðvarnarbaráttu sem „þjóðernisafturhald". Taka verður fram að þessi þjóðvarnarbarátta felur EKKI í sér þá afstöðu að ein þjóð sé merkilegri en önnur.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR gera það ekki síður brýnt að vinna að samstöðu alþýðu þvert á landamæri. Verkalýðhreyfingin þarf enn frekar en áður að ala með sér alþjóðahyggju byggða á stéttarsamstöðu. Liður í því er að tryggja að erlent vinnuafl búi við sömu kjör og innlent.
ÞESSAR AÐSTÆÐUR kalla ennfremur á þrotlausa baráttu gegn hernaðarlegum yfirgangi heimsvaldasinna. Nú um stundir er það fyrst og fremst VESTURBLOKKIN áðurnefnd sem stundar þann yfirgang - í Afganistan, Miðausturlöndum, Afríku og víðar - og ógnar hvaða landi sem ekki lýtur vilja hennar í efnahags- eða utanríkismálum.

No comments:

Post a Comment