(Birtist á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 19. apríl 2017)
Vestrænir stuðningsmenn „uppreinsarinnar“ í Sýrlandi vilja einkum ræða það hvort Bashar al-Assad sé góður eða vondur forseti, og vestræn pressa hefur frá 2011 lýst Assad sem mikilli og afbrigðilega kaldrifjaðri skepnu. Ýmsir vinstri hópar og friðarsinnar gangast inn á þessar forsendur og segjast aldrei geta stutt „harðstjóra“ á nokkurn hátt. Slík rökfærsla afvegaleiðir umræðuna. Það er að vísu full ástæða til að benda á að skrýmslismyndin af Assad er pólitískt lituð. Bandaríkin settu Sýrlandsstjórn á listann yfir „Öxulveldi hins illa“ árið 2001, settu viðskiptabann á landið 2003 og studdu við „uppreisn“ frá 2011 af því stjórnvöld þar voru ekki „vestrænt sinnuð“, ekki með þeim í liði. Nýbirt leyniskjöl sýna raunar að CIA vann að valdaskiptum í Sýrlandi þegar árið 1986. Það má þó fullyrða að Assadstjórnin hefur meira lýðræðislegt umboð en flestar eða allar stjórnir olíufurstanna við Persaflóa sem eru fylgiríki Vestursins í Sýrlandsdeilunni.
Þetta er samt ekki mergurinn málsins. Það er ekkert aðalatriði hvort Assad forseti er mildur eða harður. Aðalatriðið er íhlutun utanaðkomandi afla í málefni Sýrlands. Sérlega alvarlegt er síðasta skref Bandaríkjanna til stigmögnunar Sýrlandsstríðsins þegar þau hafa beint hernaði sínum opinskátt gegn stjórnvöldum Sýrlands. Alþýðufylkingin hlýtur að mótmæla þessu kröftuglega:
Við fordæmum eldflaugaárás Bandaríkjanna á Shayrat flugvöllinn 6. apríl sem inniber stórfellda stigmögnun stríðsins í átt að beinum átökum helstu kjarnorkuvelda heims.
Við mótmælum allri hernaðaríhlutun erlendra ríkja í Sýrland án samþykkis löglegra stjórnvalda landsins, og styðjum rétt Sýrlandsstjórnar til að verja landið fyrir innrásum og einnig staðgengilsherjum studdum utanlands frá.
Nokkrar helstu röksemdir:
a) Þjóðarréttur og sáttmálar SÞ banna ríkjum að hlutast til um innri málefni annars lands. Undantekning á því er aðeins ef um sjálfsvörn er að ræða eða ef til kemur samhljóða ákvörðun Öryggisráðs SÞ um íhlutun. Hvorugt gildir um Sýrland. Þetta bann við íhlutunum bannar hins vegar ekki löglegum stjórnvöldum að biðja um hernaðaraðstoð gegn innri og ytri hættu. Það á við um aðstoð Rússa og Írana við Sýrlandsher.
b) Fordæma verður skefjalausar, síendurteknar valdaskiptaaðgerðir Bandaríkjanna og NATO-ríkja í þessum heimshluta sem vísa til „verndarskyldu“ gegn „harðstjórn“ en valda aðeins ómældri þjáningu, dauða og eyðileggingu.
c) Valkosturinn við Assadstjórnina er ekki lýðræðisleg stjórn heldur kaos og sundurlimun landsins. A.m.k. 2/3 hlutar uppreisnaraflanna í Sýrlandi eru ofstækisfullir íslamistar og örlög Afganistans, Íraks og Líbíu tala skýru máli.
d) Ekki er hægt að berjast gegn Íslamska ríkinu (sem er yfirvarp hernaðar „Alþjóðlega bandalagsins gegn ISIS“ í landinu) og samtímis gegn Assadstjórninni sem er höfuðaflið gegn ISIS. ISIS að sínu leyti er afurð hinnar vestrænu innrásar í Írak sem braut niður samfélagið þar.
e) Það að veikja Sýrland og helst lima það sundur er einnig liður í stórveldaáætlunum Ísraels og Sádi-Arabíu um Miðausturlönd og uppskrift að áframhaldandi stríði og upplausn.
No comments:
Post a Comment