Molotov undirritar griðarsamninginn. Ribbentrop og Stalín fyrir aftan.
Í september 2019 voru 80 ár liðin frá upphafi seinna stríðs.
Af því tilefni
samþykkti Evrópuþingið í
Brussel þann 19. september „Ályktun um mikilvægi evrópskra minninga fyrir
framtíð Evrópu.“
http://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-0021_EN.pdf Í ályktuninni eru aðildarlöndin hvött til að
halda hátíðlegan dag griðarsamnings Hitlers og Stalíns, 23. ágúst sem
„sameiginlegan minningardag um fórnarlömb nasisma og kommúnisma“.
Söguendurskoðun ESB gefur griðarsáttmálanum gríðarlegt sögulegt vægi en horfir skipulega
framhjá aðdraganda hans.
Söguendurskoðunin er ekki alveg ný af nálinni þar sem
Evrópuþingið samþykkti árið 2008 að lýsa 23. ágúst „evrópskan dag minninga um
fórnarlömb stalínisma og nasisma“ og hefur síðan gert nokkrar almennari
samþykktir um „evrópska samvisku og kommúnisma“ og „evrópska samvisku og
alræðisstefnu“. En þessi síðasta ályktun gengur skrefi lengra en áður í því að
gera Sovétríkin og Þýskaland Hitlers sameiginlega ábyrg fyrir heimsstyrjöldinni
síðari.
Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í
aðildarríkjunum öll minnismerki sem heiðra alræðisstjórnir, þ.á.m. þau sem helguð
eru Rauða hernum.
Í íslensku samhengi má segja að sögutúlkanir Þórs
Whitehead og Hannesar Hólmsteins
Gissurarsonar ráði nú ríkjum í Brussel. Söguendurskoðunin er gamaldags
andkommúnismi en gegnir jafnframt nýju hlutverki í nútímanum: í því að djöfulgera
Rússland og endurnýjað rússahatur gegnir einmitt meginhlutverki í herskárri
liðssöfnun BNA og Vestursins gegn keppinautunum í kalda stríðinu nýja.
ESB
endurskoðar sögu síðari heimsstyrjaldar
Lennart Palm
Þann 19. sptember 2019 samþykkti Evrópuþingið með miklum
meirihluta ályktunina „Mikilvægi evrópsksra
minninga fyrir framtíð Evrópu“. Tilgangurinn með henni var sagður vera að
þjóðir evrópu læri af stórslysum sögunnar til að forðast þau í framtíðinni. En
minni er vandmeðfarið. Mennirnir vilja gjarnan hagræða og lagfæra söguna, oft
af hugmyndafræðilegum orsökum. Stjórnmálamenn Evrópuþingsins reyna að búa til
sameiginlegar minningar en sams konar hagræðingar-gangverk sýnir sig þar eins
og hjá einstaklingum. Pólitískt viðkvæmum staðreyndum er ýtt út og hlutir
teknir úr samhengi. Með orðum Harolds Pinter frá Nóbelsræðunni 2005: „Það hefur
aldrei gerst. Ekkert hefur gerst. Ekki einu sinni meðan það gerðist gerðist það.
Það hefur enga þýðingu.“ Hin umrædda ályktun hefur naumast verið nefnd í stóru
fjölmiðlunum okkar.
Meginhugsun ályktunarinnar er að Hitlers-Þýskaland og
Sovétríkin hafi í sameiningu hafið seinni heimsstyrjöldina: „Evrópuþingið leggur áherslu á að seinni
heimsstyrjöldin, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, byrjaði sem bein
afleiðing af hinum alræmda nasistþýska-sovéska griðarsamningi frá 23. ágúst
1939, einnig nefndur Mólotoff-Ribbentropsamningurinn, og leynilegri bókun hans
en með henni skiptu tvö alræðisríki, sem stefndu að því að leggja undir sig
heiminn, Evrópu í tvö áhrifasvæði.“ Svo auðveldlega rugla menn spilunum –
án neinna nýrra upplýsinga ganga menn í berhögg við viðtekið viðhorf í
sagnfræðirannsóknum um Þýskaland sem upphafsaðila stríðsins.
Nokkur gleymd efnisatriði: Seinni heimsstyrjöl var að miklu
leyti framhald þeirrar fyrri. Í baráttu sinni um nýlendur og markaði öttu
pólitískar elítur Evrópu árið 1914 þjóðum sínum út í mestu slátrun fram til
þess tíma. Sigurvegararnir, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Bandaríkin og
Belgar útnefndu Þýskaland sem eitt ábyrgt fyrir stríðinu og kröfðust grimmúðlegra
stríðsskaðabóta. Landið var rænt gömlum þýskum svæðum eins og Elsass og
Lotringen og Vestur-Prússlandi. Rínarhéruðin voru sett undir erlenda stjórn.
Í austri féll rússneska keisaradæmið saman og í staðinn komu
sjálfstæð ríki, verðandi Sovétríkin, Finnland, Eystrasaltslönd, Pólland m.m. Í
Sovét-Rússlandi hélt borgarastríð milli rauðra og hvítra áfram til 1922. Hinir
hvítu fengu hjálp frá hundruðum þúsunda
hermanna frá ríkjum í Vestrinu: Þýskalandi, Bretlandi, Tékkoslóvakíu,
Bandaríkjunum, Finnlandi og öðrum. Í viðbót við það kom að Pólland réðst á og
hernam stóra hluta af núverandi Hvítrússlandi og Úkraínu (hluta sem Stalín tók
svo tilbaka 1939). Þessar innrásir skildu ekki bara eftir sig eyðingu, þær áttu
líka þátt í að skapa andrúmsloft umsáturs í Sovétríkjunum. Einnig hér gleymir
Evópuþingið illu sáðkorni Vestur-Evrópu í jörð hins ókomna.
Sovétmenn voru sannfærðir um að þeir lifðu í fjandsamlegu
umhverfi. Sovétforustan óttaðist fyrst mest Breta en fór með valdaatöku Hitlers
að líta á hið nasíska Þýskaland sem helstu ógn. Áform Hitlers um að skapa sér
„lebensraum“ og að gera hinn „óæðri lýð“ í austri að nýlendum voru vel þekkt úr
Mein Kampf sem og þýska vígvæðingin (sem Sovétmenn vissu vel um gegnum
hernaðarsamvinnuna við Weimarlýðveldið). Hernám Rínarhéraða og og íhlutunin
gegn spænska lýðveldinu gerðu hættuna ljósari.
Árið 1934 áleit utanríkisráðherra Sovétríkjanna að það væri
„aðeins hægt að berjast gegn metnaðrgirnd Þýskalands af skjaldborg ákveðinna
granna“. Sovétríkin beittu sér því fyrir „sameiginlegu öryggi“. En hversu
„ákveðnir“ voru grannarnir? Íhaldssamir og frjálslyndir flokkar Þýskalands
gerðu Hitler kleift að taka völdin og greiddu samhljóða atkvæði með umboðslögum
hans 1933 [lög sem veittu honum stjórnarumboð, þýð.]. Lýðræðisstjórnir Evrópu
höfðu staðið aðgerðarlausar gagnvart hernámi Rínarhéraða og uppreisn fasista á
Spáni. Þrátt fyrir það gerðu Sovétríkin á 4. áratugnum ákafar tillögur um
varnarbandalög við Frakka, Breta, Bandaríkin, Rúmeníu, Pólland, Júgóslavíu, já
m.a.s. hina fasísku Ítalíu. Allstaðar var tillögunum hafnað, Pólland vann
beinlínis gegn tillögum Sovétríkjanna alveg fram að stríði. Og enn átti það
eftir að versna.
Þann 29. September 1938 hittu breski forsætisráðherrann
Chamberlain og Dadalier forseti Frakklands Hitler og Mússólíni í München.
Þýskaland heimtaði að Tékkóslóvakía skilaði Súdetahéruðum með þýskmælandi
íbúum. Hitler fékk grænt ljós frá Bretum og Frökkum að ráðast inn í Tékkóslóvakíu,
og hann lét sem kunnugt er ekki staðar numið við Súdetahéruðin.
Einnig Pólland, sem árið 1934 varð fyrst til að gera
griðarsamning við Hitler, sendi inn hermenn sína sem hertóku slésíska hluta
Tékkóslóvakíu. Sovétfoustan sá nú hvert stefndi, þ.e.a.s. að Vestrið vildi fá
Hitler til að stefna í austur. Stríðið virtist stöðugt nálgast, en svo seint
sem í apríl 1939 hafnaði Frakkland nýju tilboði frá Sovétríkjunum. Í maí
leitaði nýi utanríkisráðherran Mólotoff eftir samningi við Pólland en var strax
hafnað. Það fóru þó fram samningaviðræður við Englendinga. Þeir áttu þó einnig
í leynilegum samningaviðræðum við Þjóðverja og ákváðu að „fara sér hægt“. Þeir
sendu sendinefnd með farþegaskipi (á 14 hnúta hraða) sem náði til Sovétríkjanna
á 5 dögum, og þar sýndi sig að sendinefndin hafði ekki umboð til að undirrita
neinn samning.
Nú gaf Moskva upp alla von um samninga við Vesturveldin.
Mólotoff-Rippentroppsamningurinn var undirritaður 23. ágúst 1939. Samningurinn
gaf Sovétríkjunum nokkra ávinninga. Þau fengu tóm til að byggja frekar upp
varnir sínar fyrir þýsku árásina sem menn vissu að kæmi fyrr eða síðar. Gegnum
hina (vissulega siðlausu) leynilegu bókun fékkst „áhrifasvæði“ sem virka skyldi
sem stór höggdeyfir.
Öllu þessu samhengi hlutanna er vandlega ruglað og eytt í
söguritun Evrópuþingsins. Einna furðulegast er að München-samkomulagið er þar
ekki nefnt einu orði.
En þetta er ekki nóg. Þann 22. júní 1941 kom svo árásin
mikla á Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa. Þar tóku þátt auk Þýskalands einnig
Austurríki, Rúmenía, Finnland, Ítalía, Ungverjaland, Slóvakía og Króatía. Það
er frá nokkrum þessara landa sem eldsálirnar að baki ályktun Evrópuþingsins
eru. Í hinni herteknu Evrópu lagaði borgarastéttin sig gjarnan að Þjóðverjum.
Það voru reyndar Sovétríkin sem stóðu fyrir stærstum hluta andspyrnunnar gegn
nasismanum (kostaði 27 milljónir sovétborgara lífið), og í
andspyrnuhreyfingunum gegndu kommúnistar oft leiðandi hlutverki. Hvaða
„minningar“ um þetta eigum við að varðveita, skv. Evrópuþinginu? Augljóslega
engar!
Hvaða afleiðingar fær svona ályktun? Í framhaldinu er
tjáningarfrelsinu hótað. Við megum búast við stöðugt þrengra tómi til umræðu,
og nýjum, pólitískt leiðréttum skólabókum. Í ályktuninni eru aðildarlönd ESB
hvött til að halda hátíðlegan 23. ágúst, dag þýsk-sovéska griðarsamningsins,
sem sameiginlegan minningadag um
fórnarlömb um nasisma og kommúnisma, að forðast „lágkúru“ í umræðu og
fjölmiðlum, að efla sameiginlega sögumenningu og veita meira fé til
ESB-áróðurs. Rússneska samfélagaið er hvatt til að gera upp við sína sorglegu
sögu og hætta meintu upplýsingastríði, háðu til að kljúfa hina lýðræðislegu
Evrópu. Án þess að spá í grjótkast úr glerhúsi skrifar Evrópuþingið einnig að
Rússland verði að hætta að rangsnúa sögulegum staðreyndum.
Þessi rússaandúð frá Brussel hefur verið ákaft gripin af
stærsta blaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, af Michael Winiarski utanríkisskriffinna
og af leiðarasíðu blaðsins. Við munum því miður sjá meira af slíku í fjölmiðlum
okkar, miklu meira. En er það ekki viðvörunarmerki að pólitísk samkunda eins og
Evrópuþingið fyrirskipi hvað er sögulegur sannleikur? Það leiðir hugann óneitanlega
að alræðislegum forskriftum.
(Höfundur er prófessor emerítus við Gautaborgarháskóla)