Monday, December 14, 2020

Heimsvaldastefnan og bandarísku kosningarnar

 

(birtist á Neistar.is 12. 12. 20)


                                       Frelsisstyttan í útrás. Málverk Þrándar Þórarinssonar.

Trumpisminn sem pólitísk stefna tengist öðru fremur neikvæðri afstöðu til „hnattvæðingarstefnu“. Afstaða bandarískra stjórnvalda til þessa fyrirbæris er afgerandi hluti af stjórnmálum risaveldisins eina – og okkur hina jarðarbúana skiptir hún líka býsna miklu máli. „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þess forustuhlutverks í alþjóðamálum sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá en skyldi nú tekið upp aftur.

Það er orðin viðtekin venja að kenna heimskapítalismann eftir 1990 við „hnattvæðingu“. Þetta er jafnframt það tímabil sem nýfrjálshyggjan/markaðshyggjan hefur mótað auðvaldskerfið – hnattvæðingin ruddi sér til rúms á grundvelli markaðshyggju og er hluti af henni. Samhliða einkavæðingu og markaðsvæðingu í einstökum löndum fól hnattvæðing í sér „opnun markaðanna út á við“, frjálst flæði fjármagns milli landa og heimshluta og með tilheyrandi athafnafrelsi auðhringa. Á þessu 30 ára skeiði hefur markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefna verið ríkjandi hugmyndafræði, a.m.k. um hinn vestræna heim.

Einnig marxistar nota hugtakið hnattvæðing – og tengja hana hugtakinu HEIMSVALDASTEFNA. Marxísk fræði hafa lengi bent á þá þætti sem einkennt hafa kapítalisma á stigi heimsvaldastefnu allt frá upphafi 20. aldar: samþjöppun og einokun auðmagnsins, drottnun risaauðhringa, aukið vægi fjármálaauðmagnsins, mikill fjármagnsútflutningur, átök heimsvelda um markaði og áhrifasvæði. Þróunin þessa þrjá áratugi hnattvæðingar sýnir einmitt öll þessi efnahagslegu einkenni – í öðru veldi. Hnattvæddur kapítalismi er form heimsvaldastefnunnar í nútímanum.

Jafnframt þessum efnahagslegu einkennum kapítalismans hefur sama tímabil kapítalismans ákveðin PÓLITÍSK einkenni. Eftir fall Sovétríkjanna og Austurblokkar um 1990 hefur megineinkenni alþjóðastjórnmála verið EINPÓLA HEIMUR með Bandaríkin sem eina risaveldið, og þau nýttu þá stöðu til að reyna að leggja heiminn allan undir sig.

Eftir aldamótin 2000 urðu samt til ný viðnámsöfl innan heimsvaldakerfisins og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þau hafa styrkt sambandið sín á milli og komið fram sem mótpóll. Fremst í þessum andstöðuarmi eru Rússland og Kína, líka Íran ásamt smærri bandamönnum. En jafnframt hafa þesi lönd gengist inn á hið hnattvædda efnahagslíkan, ekki síst nýkapítalískt Kína sem kemur fram sem hratt rísandi keppinautur innan þess kerfis.

Hnattvæðingarferlið – nokkur einkenni

Skoðum fyrst nokkur einkenni hnattvæðingar sem EFNAHAGSLEGS FERLIS. Hnattvæðingaröflin leitast við að gera heiminn að einu opnu athafnasvæði auðhringa, með opnun markaða, frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshluta. Hnattvæðingarþróun felur í sér að ákvarðanavald um efnahagsmál færist í hendur á fjarlægum fjármálaelítum, burt frá almannavaldi og þjóðþingum einstakra landa, grefur undan lýðræði, grefur undan sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ríkja.

Af helstu verkfærum og múrbrjótum hnattvæðingarinnar á umræddu hnattvæðingarskeiði ber að nefna GATT, WTO, ríkjabandalög eins og ESB/EES í Maastricht-búningi, NAFTA og ASEAN, viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP og fjármálastofnanirnar AGS og Alþjóðabankinn. Ef benda skal á hugmyndalega forustu í ferlinu er eðlilegt að benda á samtökin World Economic Forum (WEF, með fundarstað í Davos í Sviss) samkundu hnattrænnar fjármálaelítu og 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims.  

Sunday, November 22, 2020

Joe Biden opinskár um Sýrlandsstríðið

(Birtist á Neistum 14. nóv 2020)



Nýr forseti sýnist hafa tryggt sér völd í Bandaríkjunum. Joe Biden var varaforseti BNA í stjórnartíð Baracks Obama. Af þessu tilefni er vert að rifja upp eitt atvik í afskiptum hans af utanríkismálum frá 2014. Nánar tiltekið fólust þau í greiningu á stríðinu í Sýrlandi sem ollu fjaðrafoki og móðguðu nokkra helstu bandamenn BNA í Miðausturlöndum.

Joe Biden var ákafur og áhrifamikill stuðningsmaður innrásar í Írak 2003. En Íraksstríðið varð Bandaríkjunum dýrt, blóðugt og óvinsælt, og erfitt yrði í Bandaríkjunum að markaðssetja slíkt stríð á ný. Næstu stríð í Miðausturlöndum hlutu að verða annars konar.

Frá byrjun Sýrlandsstríðsins 2011 hafa Washington og Pentagon, vestræn stjórnvöld og vestrænir fjölmiðlar markaðssett það stríð sem eina mikla „uppreisn gegn harðstjóra“. Sú uppreisn gegn Assad-stjórninni hafi byrjað sem „friðsamleg mótmæli“ en verið lamin niður af slíkri hörku að „borgarastríð“ hlaust af. Þessa sögu hafa RÚV Mogginn og Fréttablaðið sagt okkur 1000 sinnum.

Eftir því sem „uppreisnin“ gegn Assad varð villimannlegri varð hins vegar ekki framhjá því horft að í henni voru „slæm öfl“ sem komu óorði á málstaðinn. Fremst í þeim óþokkaflokki var Íslamska ríkið, og fleiri en eitt útibú af al-Kaída sem nokkru áður, eftir 11. september, voru sögð mesta ógn við mannkynið.

Þá var það að vestræn stjórnvöld tóku að sundurgreina uppreisnaröflin í Sýrlandi í annars vegar „öfgasinnaða“ hryðjuverkamenn og hins vegar „hófsama uppreisnarmenn“ þar sem styðja þyrfti þá síðarnefndu í baráttu við bæði þá fyrrnefndu og gegn Sýrlandsstjórn.

Það var um þessa vandasömu greiningu milli vondra og góðra afla í sýrlensku uppreisninni sem Joe Biden eitt sinn talaði furðulega glannalega. Hann lagði jafnframt fram greiningu á stríðinu sem var hreint ekki í samræmi við hina opinberu stefnu stjórnvalda. Greininguna þurfti hann þess vegna að draga til baka. Hún var hins vegar miklu nær sannleikanum en opinbera stefnan frá Washington.

Eftirfarandi texti er eftir sænska blaðamanninn Patrik Paulov og er kafli úr bókinni Syriens tystade röster sem kom út árið 2019. Sjá hér


Patrik Paulov (kafli úr bókinni Syriens tystade röster):

Vopnin fljóta inn í Sýrland

Cambridge, Boston 2. október 2014. Salurinn er þéttsetinn. Harvard Kennedy School við hinn virta Harvard University hefur boðið Joe Biden varaforseta að koma og tala um utanríkismál.

Stríðið í Sýrlandi hefur staðið í þrjú og hálft ár. Tölur um mannfall og fjölda flóttamanna hafa stöðugt hækkað og hryðjuverkaherinn Íslamska ríkið hefur á stuttum tíma hernumið stór svæði í Írak og Sýrlandi. Með Íslamska ríkið sem átyllu hafa BNA byrjað að varpa sprengjum yfir Írak og Sýrland.

Biden virkar afslappaður og í góðu skapi. Hann tekur hljóðnemann og grínast við kynninn áður en hann hefur mál sitt. Hann talar um Rússland og Pútín, um fund sinn með Xi Jinping og um það að BNA hafi ekki látið brjóta sig niður með hryðjuverkunum 11. september og sé enn fremsta hagkerfi heimsins. Hann endar með orðunum: „Guð blessi ykkur öll og megi guð vernda hermenn okkar. Takk fyrir.“

Þá tekur við lófaklapp og kominn er tími fyrir fyrstu spurningu. Stúdent spyr um þátttökuna í Sýrlandsstríðinu og af hverju rétt sé að taka þátt í því núna en ekki fyrr. Biden tekur við hljóðnemanum og kemur með svar sem brátt verður vel þekkt víða um lönd.

Varaforsetinn byrjar á að segja að í Bandaríkjunum haldi menn að í hverju því landi sem standi frammi fyrir umbyltingu sé að finna hófsama miðju í stjórnmálunum. „En möguleikinn á að finna hófsama miðju í Sýrlandi var aldrei fyrir hendi“ slær Biden föstu. Þessu fylgir síðan nokkuð sem á eftir að vekja viðbrögð:

  • „Mesta vandamál okkar í Sýrlandi fólst í bandamönnum okkar á svæðinu. Tyrkir voru góðir vinir okkar og ég er í góðu sambandi við Erdógan sem ég hef nýlega hitt, og ég er í góðu sambandi við Sáda og Sameinuðu furstadæmin o.s.frv. Hvað voru þeir að gera? Þeir voru svo ákveðnir að steypa Assad og koma af stað styrjöld súnnía við sjía gegnum staðgengla að þeir jusu inn hundruðum milljóna dollara og tugþúsundum tonna af vopnum í hverja þá sem börðust gegn Assad – nema hvað þeir sem tóku við sendingunum voru al-Nusra og al-Kaída og öfgasinnaðir jíhadistar sem koma frá öðrum svæðum heimsins. Þið haldið að ég sé að ýkja, en gáið að hvert þessar sendingar fóru.“

Ræða Bidens var fest á filmu og má finna á Youtube-vef Harvard háskólans [vandfundnari á netinu nú en áður, þýð.]. Óvænt útspil hans fékk fljótt mikla dreifingu og þeir sem þar var vísað til urðu felmtri slegnir. Erdógan krafðist opinberrar afsökunarbeiðni. Tveimur dögum eftir upptroðsluna gaf talsmaður Bidens út eftirfarandi yfirlýsingu:

  • „Varaforsetinn biðst afsökunar á öllum fullyrðingum um að Tyrkland eða aðrir bandamenn og samstarfsaðilar á svæðinu hafi vísvitandi stuðlað að eða stutt framgang Íslamska ríkisins eða annarra ofbeldis- og öfgaafla í Sýrlandi.“

Þrátt fyrir afsakanirnar gefa orð Bidens hlutaskýringu á því af hverju stríðið í Sýrlandi hefur orðið svo grimmilegt og dregist svo á langinn. Varaforsetinn staðfesti það sem yfirmaður eftirlitsmanna SÞ, Robert Mood, benti á í júní 2012 um að „það koma sendingar bæði af peningum og vopnum“ og við höfum séð „erlenda aðila stuðla að ofbeldisvítahring á allt annað en uppbyggilegan hátt“. Það sem Biden sleppir að fjalla um er eigin þáttur í að kynda undir „ofbeldisvítahringnum“ [...]

Að Bandaríkin væru beint innblönduð í að kynda undir stríðinu í Sýrlandi var afhjúpað af New York Times 21 júní 2012:

  • „Dálítill hópur CIA-foringja eru leynilega starfandi í suðurhluta Tyrklands. CIA-foringjarnir hjálpa bandamönnum Bandríkjanna að ákveða hvaða uppreisnarhópar hinum megin landamæranna skuli fá vopn til að berjast við Sýrlandsstjórn að sögn bandarískra talsmanna og arabískra upplýsingafulltrúa.
  • Vopn, m.a. sjálfvirkar byssur, sprengjukastarar, skotfæri og vopn gegn brynvörðum ökutækjum eru flutt yfir tyrknesku landamærin eftir leynilegu neti milliaðila þ.á.m. Múslimska bræðralagsins. Vopnin eru kostuð af Tyrklandi, Sádi-Arabíu og Katar.“

Meira um framgöngu Obama/Bidens í Miðausutrlöndum – og einnig fyrirrennaranna Bush/Cheney og eftirmannanna Trump og Pence – má lesa í bókinni Syriens tystade röster.

Hernaðaráætlanir gegn Rússlandi og ósk um aðstöðu á Austfjörðum

(Birtist á Neistum 1. nóvember 2020

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita í Bandaríkjunum er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Stofnunin lagði fram mikla hernaðaráætlun gegn Rússlandi á síðasta ári. Hún ber titilinn, Rússland teygt. Barist á hagstæðum grunni. (Extending Russia: Competing from Advantageous Ground) Það er ítarleg áætlun upp á rúmlega 300 bls. Hana má sjá hér.

Birting á þessu staðfestir að margt af því ráðabruggi bandarískrar utanríkiselítu sem maður hefur haft í getgátum liggur nú opinskátt fyrir.

„Að teygja Rússland“, hvað þýðir það? Í inngangi ritsins er það útskýrt sem „friðsamlegar aðgerðir [svo] sem reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands... og ber að skoða sem aðgerðir sem myndu láta Rússland keppa við Bandaríkin á sviðum og svæðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.“

Fjórði kafli ritsins heitir „Landpólitískar aðgerðir“ (Geopolitical Measures). Yfirskriftirnar tala sínu máli: Aðgerð 1: Útvega vopnaaðstoð til Úkraínu. Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn. Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi. Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum. Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu. Aðgerð 6: Standa gegn áhrifum Rússlands í Móldóvu.

Áherslurnar eru skýrar og síðan hernaðaráætlunin var lögð fram 2019 hefur orðið „uppreisn“ í Hvítarússlandi og spennan í Kákasus heldur betur hlaðist upp með stríði Asera og Armena. Bandarískir strategistar tala löngum um að gera Sýrland að „Víetnam Rússlands“. Og allar þessar aðgerðir miða að því að „teygja Rússland“ á áhrifasvæði sínu, grafa undan áhrifum þess og veikja það með hjálp álagsþreytu.

Þriðji kafli hernaðaráætlunarinnar heitir „Efnahagslegar aðgerðir“. Þær eru samkvæmt yfirskriftum: Aðgerð eitt: Hindra olíuúflutning. Aðgerð 2: Draga úr útflutningi á jarðgasi og hindra útbyggingu á gasleiðslum.

Sá hluti af hernaðaráætlun RAND er nú einnig á framkvæmdastigi. Olía og gas eru helsti útflutningur Rússa. Þýskaland er í brýnni þörf fyrir jarðgasið frá Rússlandi og Nord Stream leiðslan (sjá hér) um Eystrasalt er nærri tilbúin. Bandaríkin hafa frá byrjun lagt gríðarlega áherslu á að stöðva hana, m.a.s. hótað Þýskalandi efnahagslegum refsiaðgerðum. Aukin efnahagssamvinna Rússlands og Þýskalands er mikill þyrnir í augum Bandaríkjanna.


Vá fyrir dyrum Rússa

Í því að reka fleiga á milli Rússlands og Þýskalands gegna Eystrasaltslönd, Hvítarússland og Úkraína lykilhlutverki, landfræðinnar vegna. Litabylting tókst í Úkraínu 2014 og bandaríska utanríkiselítan hefur haft „valdaskipti“ í Hvítarússlandi á stefnuskránni síðan, samanber þessa áætlun RAND.

Í Washington og hjá NATO eru miklar vonir bundnar við uppþotin í Hvítarússlandi eftir kosningarnar umdeildu í ágúst. Þremur vikum eftir kosningarnar, og meðan uppþotin vegna þeirra voru mest í Minsk, héldu Bandarískar hersveitir æfingar í Litáen við Hvítrússnesku landamærin. Sjá nánar.

Horfurnar fyrir Nord Stream versnuðu verulega við dularfullt drápstilræði við rússneska stjórnarandstæðinginn Navalny. Þá tóku bandamenn BNA í Evrópu vel við sér. Í framhaldinu hefur Evrópuþingið a) viðurkennt stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi sem réttmætt stjórnvald landsins og b) krafist þess að lagning Nord Stream sé stöðvuð. Líkur styrkjast nú á því að þetta tvennt, uppþot í Hvítarússlandi og Navalny-málið séu verkfæri sem duga muni til að stöðva framkvæmd Nord Stream. Sjá nánar.

Svo nú tikkar í flest box og hjá RAND-corporation. Eftir litabyltinguna 2014 hefur Úkraína tekið fullan þátt í heræfingum NATO í Austu-Evrópu. Og Rússum mun þykja vá fyrir sínum dyrum ef NATO-sinnuð öfl ná völdum í Hvítarússlandi og „herskáasta þjóð í sögu mannkynsins“ (orð Jimmy Carters) með NATO-bandamönnum sínum getur þá stundað heræfingar sínar meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands.


Hvernig getur Ísland hjálpað til?

Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Mbl.is greindi frá heimsókn yfirforingja í Bandaríkjaher til Reykjavíkur sl. föstudag.

Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustu svæðum fyrir flotann við Íslands strendur. Herinn sé að kanna hvort „eitt hvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.

Á Íslandi eru nokkrar þjónustu stöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.

Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðir en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.

Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.““ Sjá grein Mbl hér.

Svo mörg voru þau orð. Á síðustu árum hefur viðvera Bandarísks herliðs á Keflavíkurvelli breyst úr stopulli viðveru í fasta viðveru með vaxandi en „hreyfanlegan herafla“, og aukningin hefur verið hröðust í stjórnartíð Katrínar og Bjarna. Fréttin af heimsókn Burkes bendir til að fleiri tíðinda geti verið að vænta.

Þrjú innlegg gegn lokunarstefnu

(Birtist á Neistum  29.október 2020)


                                                           Auð stræti á tíma kórónuveiru

(Eftirfarandi grein tjáir aðeins sjónarmið höfundar)

Alveg frá byrjun covid-19 faraldursins austur í Kína hefur ráðandi fjölmiðlaumræða talað um þetta fyrirbæri eins og plágu á borð við Spænsku veikina eða slíkar drepsóttir. Og á orðræðunni um „þriðju bylgjuna“ má enn skilja að covid sé helsta ógn og dánarorsök nú um stundir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessu, samræmd í flestum aðildarríkjum SÞ, allt frá byrjun mars sl. hafa verið samfélagslegar lokanir þar sem samfélögum, atvinnulífi, samgöngum og félagslegum samskiptum hefur verið lokað og læst að meira eða meinna leyti. Það er það sem hér er nefnt „lokunarstefna“.

Covid er ekki helsta ógnin. Ár hvert deyja milli 50 og 60 milljónir jarðarbúa. Hjartasjúkdómar drepa um 17 milljónir og krabbamein 9,6 milljónir á hverju ári. En hingað til árið 2020 eru 1.1 milljón dauðsföll í heiminum skráð sem „covidtengd“. Rannsóknir sýna að yfir 90% hinna látnu höfðu fyrirfram einn eða fleiri aðra undirliggjandi sjúkdóma sem einnig áttu þátt í viðkomandi dauðsfalli.

Covidhættan nægir samt stjórnvöldum og fjölmiðlunum til að halda almenningi í sífelldum ótta með háum tölum um smit. Fréttir RÚV nú í vikunni: „Metfjöldi smita greinist dag eftir dag í nær hálfri Evrópu. Þessi bylgja faraldursins er sú stærsta til þessa...“ „[Kórónuveirusmit] hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn braust út“.

Hópsmitið á Landakoti var alvarlegt mál. En langflestir sem látist hafa af covid-19, á Íslandi sem annars staðar, dóu í vor. Samt er samfélagið enn og aftur og áfram sett á hiðina „í sóttvarnarskyni“. Við horfum fram á annan vetur eymdar og volæðis og varanlega samfélagsbreytingu – upp rís eftirlitssamfélag í nafni sóttvarna.

„Umræðuna“ á Íslandi um viðbrögðin gagnvart covid verður að hafa innan gæsalappa. Ákvarðanir eru teknar í samráði þríeykis og ráðherra. Upplýsing og ákvarðanir ganga aðeins í eina átt, ofan frá og niður. Þar á ofan er sú sóttvarnarstefna sem framfylgt er í grófum dráttum samkeyrð á heimsvísu og óljóst hvar sú stefna var mótuð. Eiginleg umræða um hana, og eiginlegt lýðræði, eiga mjög erfitt uppdráttar.

Gagnrýnar spurningar um hina ríkjandi stefnu heyrast samt í vaxandi mæli þrátt fyrir glymjanda mötunarvélarinnar. Eðlilega koma margar þeirra úr heilbrigðisgeiranum. Erlend dæmi: Fjölþjóðlegur hópur nokkur hundruð lækna og vísindamanna á heilbrigðissviði stofnaði World Doctors Alliance á stofnfundi í Berlín nú 10. október. Meðlimir hópsins deila reynslu sinni og ganga gegn lokunarstefnunni með öllum hennar gríðarlegu hliðarverkunum. Undirskrifendur eru nú rún 30 þúsund. Læknasamband þetta kynnir sig á eigin netsíðu, sjá hér. Tveimur vikum fyrr var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki þar í landi. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og þess að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi í landinu. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Meiri athygli hefur þó vakið svonefnd Great Barrington-yfirlýsing. Það er yfirlýsing þriggja alþjóðlega viðurkenndra sérfræðinga í smitsjúkdómum sem eru prófessorar þriggja leiðandi háskóla – um stefnumótun vegna COVID-19, samin og undirrituð í Great Barrington í Bandaríkjunum 4. október 2020. Yfirlýsingin hefur fengið undirskrift yfir 10 þúsund lýðheilsusérfræðinga og yfir 30 þúsund lækna vítt um heiminn. En hópurinn hefur þó fengið krúnuna kembda og mátt þola mikla sverti-herferð á Google og ritskooðun á YouTube. Það auðveldaði andstæðingum hans leikinn að hugveitan sem stóð að fundinum i Barrington, American Institute for Economic Research, er þekkt fyrir frjálshyggjupólitík. Það breytir því þó ekki að yfirlýsing þessi er ljóst merki um faglegan ágreining um sóttvarnastefnuna, enda höfundarnir alveg leiðandi vísindamenn á sínu sviði.

Hér á eftir verða tilfærð þrjú innlegg í covidumræðuna í októbermánuði. Það fyrsta er einmitt Great Barrington yfirlýsingin. Hin innleggin tvö koma ekki frá neinum „uppreisnaröflum“ í covidumræðunni heldur birtust þau á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en þau gefa samt bendingu í öfuga átt við það sem haldið er að okkur frá morgni til kvölds. Þó innleggin séu úr ólíkum herbúðum eiga þau þó það sameiginlegt að varpa gagnrýnu ljósi á lokunarstefnuna.


I. Great Barrington-yfirlýsingin

Great Barrigton-yfirlýsingin veldur deilum og er ötuð auri. Það er ekki óvænt þar sem hún gengur gegn núgildandi aðferð í baráttunni við covid, einkum því atriði að lokunarstefna og einangrun viðkvæmra jafnt sem hraustra sé lykillinn að árangri. Sérfræðingarnir á Barringtonfundi ganga m.a. út frá þeim tölfræðilega veruleik að munur á áhættu gagnvart veirunni sé gríðarlegur milli ólíkra samfélagshópa, þúsundfaldur munur milli æskulýðs og þeirra elstu segir þar. Strategía þeirra er því aldursmiðuð. Einnig fjallar yfirlýsingin um óhemjuleg og niðurrífandi samfélagsleg – og heilsufarsleg – áhrif lokunarstefnunnar. Yfirlýsinguna má sjá hér https://gbdeclaration.org/view-signatures/ og stytt útgáfa hennar hljóðar svo í þýðingu:

Covid-19, verkfæri í stéttabaráttu

(Birtist á Neistum 30. sept 2020)

Í fréttum 22. september sagði RÚV: „Í yfir 20 Evrópuríkjum greinast nú fleiri kórónuveirutilfelli daglega en í vor.“ Og þremur dögum síðar sagði RÚV: „Aldrei hafa fleiri tilfelli [af kórónuveiru] greinst á einum degi á heimsvísu enn síðastliðinn sólarhring.“ https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8kua0d/aldrei-fleiri-greinst-med-koronuveirusmit Daginn eftir hófst fréttatími útvarps svona: „Metfjöldi Kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust bæði í Bretlandi og Frakklandi síðasta sólarhring.“ Þetta eru engin öfgadæmi heldur tilviljunarkennd dæmi. RÚV talar nú stöðugt um „fjölda smita“ en sleppir því hins vegar yfirleitt að nefna hvað margir af öllum þessum smituðu séu veikir eða deyi.

Munurinn á „tilfellum“ núna og í vor er sá að núna er skimað fyrir veirunni í mörgum löndum sem lítið var gert í vor (nema á Íslandi). Í vor þýddi „tilfelli“ yfirleitt þeir sem höfðu sjúkdómseinkenni, voru veikir, en nú þýðir það allir þeir sem hafa einhverjar agnir af veiru í öndunarvegi. Þar með margfaldast tala „smitaðra“. Dánarhlutfall smitaðra (IFR) og dánarhlutfall sýktra (CFR) er sitt hvað, en þessu tvennu er líka flækt hvoru um annað. Þetta er því skilningshamlandi fréttaflutningur hjá RÚV með þann eina sjáanlega tilgang að velja óöryggi og skelfingu. Sjá um hugtakarugl: https://drmalcolmkendrick.org/2020/09/04/covid-why-terminology-really-matters/

Þetta hefur líka verið ríkjandi stefna frá upphafi þessa sjúkdóms. Frá byrjun hafa RÚV og helstu fjölmiðlar landsins talað um kórónuveiruna sem heimsfaraldur í sérflokki. Sem einstæðan, afar mannskæðan sjúkdóm og óútreiknanlegan ekki síður. Sem ógni mannkyninu sjálfu! Með því eru fjölmiðlarnir annars vegar málpípur hinnar opinberu heilbrigðisstefnu og stunda hins vegar hreina æsifréttamennsku. Afleiðingin er almennur ótti og óöryggi.


Hin miðstýrða hnattræna „heilbrigðisstefna“

Þegar fyrst var farið að fjalla um Covid-19 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, út ógnvekjandi tölur: að dánartíðni þeirra sem smituðust væri 3,4%, allir væru í hættu, engin lækning til og sjúkrahúsin myndu yfirfyllast. Stofnun með mikið heilsufarslegt agavald, Imperial College í London (undir forustu Neil Ferguson), lýsti því yfir í mars að allt að 40 milljónum myndi líklega deyja úr Covid á heimsvísu án róttækra aðgerða, en með lokunum, rekstrarstöðvunum og slíkum varnaraðgerðum mætti lækka töluna í 20 milljónir. https://www.imperial.ac.uk/mrc-global-infectious-disease-analysis/covid-19/report-12-global-impact-covid-19/ Umfram aðra aðila varð Imperial College sá sem „sló taktinn“ um viðbrögð við Covid, a.m.k. í Evrópu. Lokunarstefnan var svo framkvæmd, vissulega með tilbrigðum, með stuttu millibili um allan heim, í nær öllum 193 aðildarríkjum SÞ.

Monday, September 14, 2020

Merkileg bók um atburðina 11. september 2001 í samhengi

 (birtist á Neistum 11. sept 2020, meðhöfundur Jón Karl Stefánsson)


Í dag er árásin á Tvíburaturnana 19 ára. Nýlega kom út (á ensku, af íslensku forlagi) ný bók um atburðina sem áttu sér stað þann 11. september 2001. Þetta er gríðarlega vel unnin og beinskeytt bók sem nær að fanga marga mikilvægustu þættina um þetta málefni. Bókin America´s Betrayal Confirmed. 9/11: Purpose, Cover-up and Impunity, er sterk bók um stórmál. Elías Davíðsson er baráttumaður mannréttinda, hefur einnig mjög fjallað um náttúruverndarmál og lýðræði en öðru fremur hefur hann sem sérsvið málefni hryðjuverka (undir fölsku flaggi sérstaklega).

Elías hefur áður fjallað um málefni tengd 11. september 2001 í bók sinni «Hijacking America´s Mind on 9/11» (Algora Publishers, New York, 2013), þar sem hann sýndi fram á að bandarísk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar sannanir um veru hryðjuverkamanna í flugvélunum. Önnur bók hans, einnig á ensku, var umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Mumbai (Indlandi) árið 2008. Bókin varð tilnefnd bók ársins af hálfu stofnunarinnar London Institute on South Asia árið 2018 og hefur verið þýdd á úrdú (landsmáli Pakistan). Auk þess gaf Elías út tvær bækur á þýsku, aðra um 11. september 2001 og hina um atburðinn á jólamarkaðinum í Berlín 2016, einu bókina sem hefur birst um þennan atburð. Sú bók hefur verið þýdd á tékknesku. Bókin sem hér er fjallað um, hefur verið þýdd á hollensku.

Bókin byggist á sjálfstæðum umræðueiningum. Hver kafli fjallar um afmarkaðan þátt þessara atburða og sýnir, óháð hinum þáttum, að bandarísk yfirvöld hafa með öllum tiltækum ráðum reynt að hylma yfir þá sem hafa skipulagt og framið fjöldamorðin. Hver eining fyrir sig myndar þannig sjálfstætt ásökunarskjal. Samanlagt mynda kaflarnir 16 að því er virðist óhagganlegt ásökunarskjal sem gæti orðið mjög erfitt að hrekja.

Bókin America´s Betrayal Confirmed sýnir fram á að opinbera kenningin um atburðarrásina stenst ekki og getur ekki staðist. Elías telur upp þau fjölmörgu atriði sem sanna að tilgáturnar sem mynda kenninguna standast enga prófun. Hann setur þessi fyrirbæri í samhengi við hegðun og viðbrögð Bandaríkjastjórnar sjálfrar við þessum atburðum. Og auðvitað felur þessi afsönnun opinberu kenningarinnar í sér rök, líkindi eða sannanir fyrir að þessir atburðir hefðu einfaldlega ekki getað gerst hefði fólk úr innsta kjarna bandaríska valdakerfisins ekki tekið þátt í þeim.


Atburðirnir 11. september í ljósi breyttrar heimsmyndar í kjölfar þeirra

Skoðum lítillega fyrsta kaflann, „The Road to 9/11 (the Decade 1990-2001)”. Það er vissulega erfitt að taka inn þann stóra skammt að hryðjuverkin 11. sept hafi verið „innanbúðarverk“ (inside job), að slíkur sögulegur stórviðburður hafi byggt á „skipulegri blekkingu“. En þá er þess að gæta að atburðurinn verður í röklegu samhengi og það er „system í galskaben“. Skoðum nokkur atriði.

„Ellefti september“ var startskot fyrir „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Sjálf hugmyndin um þetta «hnattræna stríð» var og er hugmyndafræði og yfirskrift þess stríðs sem síðan hefur geisað, einkum í Austurlöndum nær. Öll hin afmörkuðu stríð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra eftir 11. september – þau helstu í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi sem hafa kostað á aðra milljón mannslífa og sent tugmilljónir á flótta – byggja á skipulegum og kerfisbundnum blekkingum og eru glæpur gegn mannkyni. Það væri ósamræmi ef hin einstöku stríð byggðu á blekkingum en forsendan og hugmyndafræðin á bak við þau byggði á einhverju öðru, t.d. raunverulegri ógn.

Monday, September 7, 2020

Danskar upplýsingar um netógnir

 

Fréttir RÚV 3. september greindu frá óundirbúnum fyrirspurnum til utanríkisráðherra á Alþingi. Þar kom fram: „Hneykslismál sem umlykur dönsku leyniþjónustuna snertir Íslendinga með beinum hætti sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og vísaði til þess að leyniþjónusta danska hersins veitti bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum. Sæstrengir sem tengja Ísland við umheiminn fara um danskt yfirráðasvæði... „Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.“

Utanríkisráðherra taldi málið alvarlegt. Hann bætti við: „Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að mér finnst við ekki vera nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Íslendingar væru eina ríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem ekki tækju þátt í setri um netöryggismál í Tallinn og eina norræna ríkið sem ekki tæki þátt í sambærilegu setri í Helsinki.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/03/segir-danskt-njosnahneyksli-snerta-islendinga-beint?fbclid=IwAR1rSuFo4ZtutvtzBA7KCVPPOWpjFRRz6SlFmH2w_q2_inBsFw1zwPllgPE

Ekki er þetta þó eins og þruma úr heiðskýru lofti. Edward Snowden, starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, hóf árið 2013 að leka út til almennings (m.a. til Wikileaks og Julian Assange) upplýsingum frá NSA um mestu njósnir á okkar tímum, ekki síst netnjósnir. Afhjúpanir Snowdens sýndu að bandarískar leyniþjónustur og öryggisstofnanir ekki bara njósna um allan almenning í eigin landi og brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns heldur stunda þær víðtækar njósnir um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess – og raunar heiminn allan.

Snowden-gögnin bentu ennfremur til að evrópskar leyniþjónustur hefðu starfað með NSA um njósnirnar í Evrópu. Der Spiegel upplýsti m.a. um slíka samvinnu þýskrar leyniþjónustu við þá bandarísku. https://www.theguardian.com/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies Og danska Information upplýsti árið 2014 út frá Snowden-gögnum um víðtækt samstarf dönsku Leyniþjónustu hersins með NSA sem fólst einmitt í því að veita NSA aðgang að dönskum ljósleiðurum. https://www.information.dk/tema/nsas-danske-forbindelse Allt voru þetta hin neyðarlegustu mál sem endurspegluðu vel valda- og virðingarröðina innan NATO og sagði margt um raunverulegt fullveldi Evrópuríkja.

Hneykslið var þó bersýnilega ekki svo mikið að það girti fyrir að umrætt samstarf við stóra bróður vestan hafs héldi áfram. Því allt sýnist vera við það sama enn í dag. https://www.dr.dk/nyheder/indland/samarbejde-med-usa-kan-overskride-reglerne-potentielt-en-af-de-stoerste

Viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við spurningum Smára McCarthy um íslenska hliða málsins ná ekki að sefa illan grun. Hann segir að við Íslendingar séum ekki „nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki“, t.d. tækjum við ekki þátt í setri um netöryggismál í Tallin og öðru í Helsinki. Hann gefur m.ö.o. í skyn að við þyrftum að taka þar beinni þátt. Viðkomandi miðstöðvar eru NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence í Tallin og European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats í Helsinki (undir væng ESB og NATO).

Gallinn er sá að þessar NATO-tengdu stöðvar um netöryggi vernda okkur hreint ekki gegn netnjósnum Bandaríkjanna. Þær telja það ekki vera ógnir og eru sjálfar hluti af sama batteríi og NSA. Í febrúar sl. var Kveikur Ríkisútvarpsins með þátt um netógnir og falsfréttir. Sjá hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kveikur/29047/8l0e3k. Þar talaði Ingólfur Bjarni við sérfræðinginn Hanna Smith sem er einmitt yfirmaður hjá áðurnefndri stofnun gegn „blönduðum ógnum“ (hyber threats) í Helsinki. Þar kom eftirfarandi fram: „Rússar eru oftast nefndir á nafn í sambandi við tölvuárásir og upplýsingaóreiðu, og ekki að ástæðulausu... Kínverjar eru einnig nefndir í þessu sambandi, og í einhverjum tilfellum Íran.“ Þetta kemur ekkert á óvart. Þessi „setur um netöryggismál“ sem Guðlaugur þór vill að við tökum þátt í eru ekkert annað en framlægar stöðvar í hernaðinum við Rússa og í vaxandi mæli við Kína.

Fréttirnar frá Danmörku sýna rétt einu sinni að mesta ógn við netöryggi kemur frá BNA. Við vitum enn fremur að Bandaríkin láta ekki sitja við njósnirnar einar heldur eru verkin látin tala. Ekki bara eru þau mesti netnjósnari í heimi. Samkvæmt orðum Jimmy Carter í fyrra eru BNA einfaldlega „herskáasta þjóð í sögu heimsins“.

Til að enda greinina ekki á svartsýnum nótum ber að minnast á gleðilega frétt frá því fyrr í vikunni. Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað að þær miklu persónunjósnir um bandaríska borgara sem Snowden afhjúpaði í sínum mikla leka hefðu verið ólöglegar. Í kjölfarið hefur fjölgað mjög tilmælum til Trumps forseta um að fá Edward Snowden náðaðan. Sjá hér: https://news.yahoo.com/u-court-mass-surveillance-program-033648290.html

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Seinni grein

 (birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)


Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.

Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð

Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/

Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.

Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).

Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.

Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.

Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.

Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/


Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Fyrri grein

 (birt á Neistum 6. ágúst 2020)

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá glæpnum gegn mannkyni þegar bandarískri kjarnorkuspregju var varpað á Hírósíma. Glæpurinn var réttlættur með endalausum lygum og skipulegum stríðsáróðri. Sami stríðsáróður frá sama stríðsaðila beinir nú spjótum sínum skipulega að nýjum andstæðingi – Kína. Bandaríkin hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Samhliða þessari uppbyggingu hefur „stríðið langa“ í Austurlöndum nær geysað það sem af er 21 öldinni. Bandaríkin hafa (2019) einhliða sagt sig frá samningum um takmörkun kjarnorkuflauga (INF, frá 1987). Alls 30 aðildarlönd SÞ stynja nú undan bandarískum efnahagslegum refsiaðgerðum af einhverju tagi. Formlega snúast þær um „lýðræði“ en raunveruleikinn er keppnin um heimsyfirráð.

Hvað hreyfiöfl knýja slíka atburðarás? Í tveimur greinum verður hér fjallað um heimsvaldastefnuna, hæsta stig auðvaldsins – og beina þær ljósinu sérstaklega á þá bandarísku, samt alls ekki eingöngu. Fyrri greinin fjallar einkum um efnahagslega hlið málsins en sú síðari um pólitíska og hernaðarlega hlið. Hryggjarstykki greinarinnar er fyrirlestur sem fluttur var á fundi hjá Sósíalistaflokknum að Borgartúni 1, fjórða júlí sl.


Hugtak sem hvarf

Þegar Bandaríkin herjuðu í Víetnam og Indó-Kína kringum 1970 hrópuðu vinstri menn um allan heim vígorð gegn „heimsvaldastefnu Bandaríkjanna“. Árið 1970 var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Árið 1972 breyttist hún í Víetnamnefndina með víðtæku samstarfi vinstri hreyfinga. Fyrsta kjörorð hennar var: „Fullur stuðningur við Þjóðfrelsishreyfinguna (FNL)!“ og annað kjörorð var „Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni!“ Málið var stuðningur við „þjóðfrelsisbaráttu“ þjóða undan heimsvaldastefnu. Þetta var róttæk og framsækin hreyfing..

Á 9. áratug hélt stuðningsstarf við þjáðar þjóðir áfram en innihaldið breyttist. 1985 hófust „Life aid“ tónleikarnir með söfnunarstarfi vegna hungurs í Afríku. Þá fóru jafnvel róttæklingar á Vesturlöndum að syngja „We are the world.. so let´s start giving“ eða „Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín“. Andheimsvaldabaráttu var skipt út fyrir BORGARALEGT LÍKNARSTARFF sem minntist ekki á heimsvaldastefnuna.

Þegar Bandaríkin réðust á Írak 2003 með stuðningi „viljugra ríkja“, þ.á.m. Íslands, var andstaða vinstri manna mjög massíf, en hugtakinu „heimsvaldastefna“ var þá almennt sleppt. Þegar hins vegar NATO, vestrænir herir og staðbundnir bandamenn hafa ráðist á Afganistan, Líbíu eða Sýrland á 21. öldinni hafa vinstri menn vítt um heim veitt því litla mótstöðu, og vestræn friðarhreyfing sömuleiðis. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessi stríð alveg óháð því hvort ráðherrarnir eru til hægri eða vinstri.

Í inflytjendaumræðunni er sama borgaralega líknarhugsun ráðandi. Góðir og „líknsamir“ vinstri menn og andrasistar sjá nú helstu von fyrir íbúa Afríku í leyfi þeirra til að flýja til Evrópu.


Klassísk greining á heimsvaldastefnunni

Í sögulegu samhengi er áhrifamesta ritið um heimsvaldastefnuna bók Leníns frá 1917 (rituð 1915), Heimsvaldastefnan: hæsta stig auðvaldsins. Í apríl í vor voru 150 ár liðin frá fæðingu Leníns. Í þessari bók dró hann saman meginþætti heimsvaldastefnunnar/ imperíslismans í eftirfarandi skilgreiningu: „Imperíalisminn er kapítalismi á því þróunarstigi er drottinvald einokunar og fjármálavalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutningur hefur öðrast áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan... bls 117) Lenín nefndi heimsvaldastefnuna „einokunarstig auðvaldsins“ sem komin var í stað kapítalisma frjálsrar samkeppni. Annað grundvallareinkenni hennar var fjármagsútflutningurinn, erlendar fjárfestingar. Tilvitnun: „Vöruútflutningur var einkenni gamla auðvaldsins þegar frjáls samkeppni var alls ráðandi. Útflutningur fjármagns er orðið einkenni nútíma kapítalisma þar sem einokun drottnar“ (Heimsvaldastefnan.. bls. 79).

Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldssins.
Lenín 150 ára í ár. Höfundur klassísks rits um efnið.

Samkvæmt þessari greiningu var heimsvaldastefna/imperíalismi orðin ríkjandi formgerð kapítalismans um aldamótin 1900. Og samkvæmt þessum skilningi er heimsvaldastefnan í grundvallaratriðum EKKI HUGMYNDALEGS EÐA SIÐFERÐILEGS EÐLIS HELDUR ER HÚN SJÁLFT EFNAHAGSKEFI KAPÍTALISMANS á ákveðnu þróunarstigi, „it's way of life“. Og hún er skilgreind sem „HÆSTA STIG AUÐVALDSINS“ sbr. titil bókarinnar.

Þessi greining varð klassísk meðal marxista, og heimsvaldastefnan í þessari merkingu varð algert lykilhugtak í sósíalískri og andkapítalískri baráttu á 20. öld. Barátta gegn henni varð ANNAR AF TVEIMUR MEGINÞÁTTUM BYLTINGARSINNAÐS STARFS gegn kapítalismanum og fól öðru fremur í sér stuðning við baráttu í 3. heiminum til að losna úr arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Skýringarlíkan Leníns reyndist öðrum skýringum frjórra við að greina hreyfiöflin að baki heimsstyrjöldunum tveimur. Á eftirstríðsárunum og enn frekar frá og með sjöunda áratugnum var þessi klassíska greining á heimsvaldastefnunni í mikilli almennri notkun, á vinstri væng stjórnmála og ekki síður í „þriðja heiminum“ þar sem frelsisstríð og byltingar geysuðu og beindust gegn fjötrum nýlendutímans.

Friday, July 31, 2020

Stríðið gegn Sýrlandi – efnahagsvopnunum beitt


(birtist á Neistum.is 22. júlí 2020)
 

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Á meðan dregið hefur úr hernaði heimsvaldassinna gegnum málaliða og trúarlega vígamenn hefur stórlega verið hert á efnahagshernaði gegn hinu stríðshrjáða landi.

RÚV: Rússland og Kína loka á mannúðaraðstoð til Sýrlands!

Í fyrri viku kom RÚV með nokkrar fréttir um að Rússar og Kínverjar hefðu í Öryggisráðinu lokað á innflutning hjálpargagna frá Tyrklandi til Sýrlands (nema gegnum eina landamærastöð) og þeir hefðu í raun „lokað á alla utanaðkomandi mannúðaraðstoð til Sýrlands“. Haft var eftir „ónafngreindum evrópskum diplómata“ að „markmið Rússa – og Sýrlandsstjórnar - sé að herða enn grimmdartök sín á stríðshrjáðri og aðframkominni sýrlenskri þjóð.“ Sjá hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/11/lokad-a-alla-utanadkomandi-mannudaradstod-til-syrlands og hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/09/tillaga-russa-um-ad-takmarka-neydaradstod-felld
Þetta er dæmigert fyrir fréttaflutning RÚV frá Sýrlandi. Í Öryggisráðinu fyrr í júlí var tekist á um innflutning inn í Idlibhérað, eina svæði sem hryðjuverkamenn (RÚV: „uppreisnarmenn“) halda í Sýrlandi, og eina svæðið sem flest verstæn hjálparsamtök hafa starfað á. RÚV talar hins vegar ekki um hjálpargögn, og skort á þeim, til svæða í Sýrlandi þar sem 95% Sýrlendinga býr. Þar ríkir nú aukinn skortur líka – sem hvorki Rússar né Kínverjar bera ábyrgð á.

„Sesars-lög“ gegn Sýrlandi

Fyrir rúmum mánuði síðan, 17 júní, gengu í gildi í Bandaríkjunum ný lög gegn Sýrlandi. Kallast þau Caesar Syria Civilian Protection Act (Sesars-lög um verndun sýrlenskra borgara) og herða á hinu banvæna umsátri um Sýrland. Tilvísunin til „Sesars“ í þessum lögum er ekki til rómverska keisarans heldur vísar til dulnefnis landflótta Sýrlendings sem hefur frá 2014 verið miðlægur í áróðursherferðum gegn Sýrlandi. Hann var sagður hafa lagt fram þúsundir ljósmynda frá líkhúsi í Damaskus þegar Sýrlandsstríð var í hámarki. Myndirnar voru sagðar vera af fólki sem Assad hefði pyntað og drepið. Þær fengu mikla dreifingu, m.a. gegnum Human Rights Watch sem hafa þó síðar viðurkennt að a.m.k. helmingur myndanna sýni sýrlenska hermenn sem lentu í höndum terrorista. Sjá grein The Greyzone um málið: https://thegrayzone.com/2020/06/25/us-qatari-intelligence-deception-produced-the-caesar-sanctions-syria-famine/amp/

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Sú aðferð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra að styðja við hópa pólitískra vígamanna hefur ekki tekist, svo nú er veðjað á annað sóknarfæri og aðra aðferð, engu síður banvæna: að steypa efnahagnum og hindra enduruppbyggingu landsins. „Látið efnahagslífið kveina!“ (Make the economy screame!) voru skilaboð Nixons til CIA í Chile 1973. Efnahagslegt stríð til að steypa mótþróafullum ríkisstjórnum (sem þjóna ekki bandarískum hagsmunum) er ekki nýtt af hálfu Bandaríkjanna. Efnahagsþvinganir BNA gegn Norður Kóreu hafa staðið í 70 ár, gegn Kúbu í 60 ár, gegn Íran í 40 ár og Venesúela í 20 ár. Í Írak drápu efnahagsþvinganirnar milli stríðanna tveggja, 1991 og 2003, yfir milljón manns, helminginn börn.
Nýju Sesarslögin í Washington eru áþján sem bætast við 9 ára stríð gegn Sýrlandi, 9 ára harðar viðskiptaþvinganir (og minni þvinganir alveg frá 1979), hrun sýrlenska pundsins sem hefur hækkað matvöruverð í Damaskus 20-falt og nú síðast baráttu Sýrlendinga við Kovid 19. Lögin leitast við að banna Sýrlendingum allar bjargir, innflutning á nauðsynjum, meðulum eða orku, fjárfestingar, peningasendingar frá ættingju í útlöndum... Allt með þann yfirlýsta tilgang að „vernda“ þessa þjóð.
Almennur skortur sýrlensku þjóðarinnar, helst sultur, eru vopnin sem heimsvaldasinnar vona að bíti að lokum, með því að herða þumalskrúfuna og bæta nógu lengi á þjáningar þjóðarinnar svo að hún af alvöru snúist gegn ríkisstjórninni. Meðan hún snýst ekki gegn ríkisstjórn landsins skal hún heldur ekki fá að borða!

Thursday, June 18, 2020

Bandaríkin: Stéttaandstæður þungvægari en rasismi

(birtist á Neistum.is 12. júní 2020
 
Í mótmælaólgunni miklu í Bandaríkjunum eftir dráp lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis felst augljóslega gríðarmikil grasrótaruppreisn gegn ríkjandi kerfi. Sterk öfl reyna þó mjög að koma því til leiðar að broddur mótmælanna sneiði framhjá valdakerfi bandaríska auðvaldsins. Hér verða settar fram nokkrar ályktanir um mótmælahreyfinguna.

 

Rasismi – ofbeldi – misskipting

rasismi
Frá kynþátta- og stéttaátökum í Chicago 1919
  • Í Bandaríkjunum eru svartir hlutfallsega miklu oftar drepnir en hvítir.
  • Svartir íbúar í Bandaríkjunum eru að jafnaði miklu fátækari en hvítir og hafa verið það allt frá dögum þrælasölu og þrælahalds.
  • Í bandarískum fangelsum eru 33% vistmanna svartir, sem er nærri þrefalt hlutfall þeirra af þjóðinni (12%).
  • Ofbeldisglæpir í Bandaríkjunum eru mjög bundnir fátækrahverfum borganna. Þar búa hlutfallslega margir svartir.
  • Blökkumenn sem drepnir eru í BNA eru langoftast drepnir af öðrum blökkumönnum.
  • Þeir sem drepnir eru í Bandaríkjunum – af lögreglu og öðrum – eru fátækir.
Þessi tölfræði er tiltölulega óumdeild. En ef út frá henni er reiknuð sú rökrétta niðurstaða að aðalvandi Bandaríkjanna sé stéttaandstæðurnar væri slík fullyrðing fáséð í stóru fjölmiðlunum. Fátækt á þriðjaheimsstigi er útbreidd í þessu ríkasta landi heims þar sem auðurinn safnast á fáar og sífærri hendur með hverju ári. Rasisminn þar í landi er ærinn en stéttaandstæðurnar eru þó miklu þungvægari og meira böl.

Af fréttum frá BNA má skilja að grundvallarvandamál samfélagsins vestan hafs sé rasisminn og hann er skoðaður sem sjálfstætt og einangrað þjóðfélagsböl. Í því formi er kynþáttavandamálið raunar notað í stjórnmálabaráttunni í BNA.

 

Á að reyna „union busting“?

(birtist á Neistum.is 21 maí 2020)
Kjaradeila Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands heldur áfram. FFÍ beygir sig ekki og Icelandair freistar þess að sniðganga FFÍ. Þarna er brennipunktur íslenskrar stéttabaráttu í dag. ASÍ og Efling – stéttarfélag senda flugfreyjum mikilvægar stuðningsyfirlýsingar.
 
Icelandair hefur lýst yfir að það ætli að ná 20% hagræðingu í launakostnaði fyrir hluthafafund 22. maí. og gengur fram af mikilli hörku við flugstéttir. Samist hefur um skerðingar við félög flugmanna og flugvirkja, en Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafði ekki beygt sig undir tilsvarandi. FFÍ hefur ítrekað hafnað útspili Icelandair sem félagið segir að feli í sér „tugprósenta launalækkanir og skerðingu á réttindum til frambúðar.“

Icelandair breytir ekki stefnu sinni. „Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins 20. maí skoðar Icelandair möguleika á að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og samkvæmt Fréttablaðinu hyggst Icelandair láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi náist ekki samningur.“ https://www.ffi.is/ Ef þetta er rétt hermt er ljóst að Icelandair stefnir að því að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands. Atvinnulausar flugfreyjur eru nú mjög margar, íslenskar og miklu fleiri erlendar. Hvernig Icelandair ætlar að safna liði og stofna stéttarfélag vitum við hins vegar ekki, en við vitum til hvers. Og það blasir við að kjaradeila Icelandair og FFÍ er núna brennipunktur stéttabaráttunnar í landinu. Fordæmisgildið er mikið á báða bóga.

 

ASÍ: sættum okkur ekki við union busting

Drífa Snædal forseti ASÍ sendi í gær, 20. maí, frá sér skorinorða yfirlýsingu af tilefni áðurnefndrar fréttar og þar segir: „Framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hefur verið með ólíkindum og er til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð þessa rótgróna flugfélags. Þetta er ekki flugfélagið okkar allra sem býður okkur velkomin heim. Við munum ekki sætta okkur við aðferðir sem á ensku eru kallaðar union busting og ganga út á að grafa undan samstöðu launafólks og eyðileggja verkalýðsfélög. Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum.“ https://www.ffi.is/

Efling – stéttarfélag sendi líka þann 20. maí frá sér mikilvæga yfirlýsingu í tilefni af þessari deilu. Þar er þess krafist íslenska ríkið, og einnig lífeyrissjóðir, hafni því að styðja við fyrirtæki sem stundar árásir á lögvarin réttindi verkafólks.

 

Ályktun stjórnar Eflingar vegna kjaradeilu Icelandair og FFÍ:

„Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
     Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna Kórónaveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.
      Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.
     Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skiling aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.
     Verkafólk á skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur er mannréttindi og er varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk á ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.
     Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling – stéttarfélag ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust.
     Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.
     Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið heldur nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafna því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.“ Sjá hér.

Icelandair-kjaradeilan og stéttabaráttan eftir Covid

(birtist á Neistum.is 15 maí 2020)
Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert með sér nýjan kjarasamning til fimm ára (15/5). Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.“ Samningurinn tryggir m.a. verulega aukið vinnuframlag flugmanna. Bogi Nils Bogason forstjóri orðar það svo: „Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.“ Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kallar þetta „tímamótasamning“ og bætir við: „Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair.“ https://theworldnews.net/is-news/flugmenn-og-icelandair-gerdu-timamotasamning-i-nott

Björgunaraðgerðir fyrir Icelandair-group hafa verið fyrsta frétt fjölmiðla um skeið. Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, en stefnir á að safna 29 milljarða hlutafé fyrir hluthafafund 22. maí. Biðlar m.a. til lífeyrissjóða og enn frekar til ríkisins. Ennfremur: Bogi Nils forstjóri hefur sagt að unnið sé dag og nótt að því að bjarga fyrirtækinu en „að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“ Ef bjarga eigi fyrirtækinu verði starfsfólk þess að taka á sig kjaraskerðingar. Stjórn Icelandair hefur gert Flugfreyjufélagi Íslands tilboð sem félagið metur sem allt að 40 prósenta kjaraskerðingu. Samninganefnd félagsins hafnaði tilboðinu en þá sendi Bogi Nils tilboðið bara beint til einstakra félagsmanna!

Þann 11. maí sagði í frétt Morgunblaðsins: „Til að forða Icelandair frá gjaldþroti verða flugfreyjur og flugmenn félagsins að taka á sig launalækkun á bilinu 50-60%. Þá verður nýr kjarasamningur að gilda til fimm ára og vera auk þess uppsegjanlegur að hálfu Icelandair að samningstíma loknum. Þetta segir ráðgjafi eins af stóru hluthöfum Icelandair í Morgunblaðinu í dag.“ https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2020/05/11/stadan_ordin_grafalvarleg/


Hamfarakapítalismi og hnattvæðing
Stórauðvaldið lítur á Covid-kreppuna sem tækifæri til mikilla árása gegn réttindum launafólks. Sú afstaða er skýr í orðum og aðferðum hins prúðmannlega Boga Nils Bogasonar. Aðferðir Icelandair eru í góðum samhljómi við þá „sjokkmeðferð“ sem Naomi Klein hefur lýst best í bókum sínum um aðferðir stórkapítalsins á heimsvísu, einkum við innleiðingu nýfrjálshyggju/markaðshyggju: „Ég nota hugtakið „sjokkkenningin“ til að lýsa hinum ruddalegu aðferðum að nýta sér ráðaleysi almennings eftir sameiginlegt áfall – styrjöld, valdarán, hryðjuverkaárás, markaðshrun eða náttúruhamfarir – til að knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja, oft kallaðar „sjokkmeðferð“ [shock therapy]... Þessi hernaðaraðferð hefur verið þegjandi fylginautur innleiðingar á nýfrjálshyggju í yfir 40 ár.“ https://www.theguardian.com/us-news/2017/jul/06/naomi-klein-how-power-profits-from-disaster

Talskonur flugfreyja benda á að kjaraskerðingarstefna Icelandair sé ekki alveg ný: „þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir að ekki hefur verið samið.“ En með tilkomu Covid-19 getur Icelandair sett margfalt afl á bak við kjaraskerðingakröfur sínar. Nákvæmlega eins og Naomi Klein lýsir er það til að „knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja“. Markmiðið er að sjokkera fólk til undirgefni, Covid-19 er verkfærið.

Friday, May 8, 2020

Donald Trump, haukurinn og dúfan

(birtist á Heimsvaldastefnan - Umræður 7. maí 2020)

Trump sagði í gær "kórónuveirufaraldurinn verra högg fyrir Bandaríkin en árásin á Pearl Harbor og hryðjuverkaárásin á Tvíburaturnana" og bætti strax við að "Kínverjar hafi haft möguleikann á að stöðva veiruna" (sjá RÚV). Þetta fer langt í átt að stríðsyfirlýsingu gegn Kína. Tveimur dögumn áður sagði Trump í viðtali við New York Post um ákvörðun George W. Bush um að ráðast á Írak 2001: "..við notuðum 8 trilljónir dollara á verstu ákvörðun sem tekin hefur verið þegar við fórum inn í Miðausturlönd, líklega verstu ákvörðun í sögu landsins. Milljónir manna drepnar frá báðum hliðum." Hann hælir sér fyrir að vera friðarins maður. Það er hann augljóslega ekki en mögulega hefur hann hreinskilnina sér til tekna á dómsdegi.

Thursday, May 7, 2020

Covid-faraldur og kreppa. Skoðun

(birt á Neistum 5. maí 2020)

Ísland er nú á miðjum skala yfir dánartíðni vegna Covid-19 í heiminum. Dánartíðnin á heimsvísu sýnist sambærileg við árstíðabundna inflúensu, en viðbrögðin eru alveg ósambærileg. „Aukaverkanir“ heilbrigðisstefnunnar eru kreppa sem er líkleg til að valda miklu meiri þjáningu en veikin sjálf.


Ísland nálægt heimsmeðaltali
Íslensk stjórnvöld stæra sig af glæstum árangri í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19. Aðeins 10 eru dánir af veikinni á Íslandi (af Covid-19 og öðrum undirliggjandi sjúkdómum), af 357 þúsund manna þjóð. Dánartíðni vegna sjúkdóma er gjarnan mæld sem sem hlutfall af milljón, og íslenska dánartalan tilsvarar 28 eða 29 af milljón.

Our World in Data er rannsóknarstofnun tengd háskólanum í Oxford og ástundar útreikninga um hnattræn vandamál, fátækt, sjúkdóma, hungur, loftslagsbreytingar, stríð m.m. og byggir á gögnum frá European Centre for Disease Prevention and Control. Hún dekkar m.a. Covid-19 frá degi til dags. Skoðum fyrst nokkrar tölur þaðan.

Dánarhlutfall af milljón íbúum vegna Covid-19, staðan 4. maí 2020:
Belgía : 676
Spánn : 540
Ítalía : 477
Svíþjóð : 265
Írland : 263
Bandaríkin : 204
Danmörk : 83
Þýskaland : 80
Íran : 73
Finnland : 41
Brasilía : 33
Allur heimurinn : 31,5
Ísland : 29
Japan : 4,0
Kína : 3,2
Indland : 0,1
Eþíópía : 0,03

Á heimsvísu þann 4. maí voru dáin af veirunni 245 þúsund af 7,8 milljörðum sem þýðir 31,5 af milljón. Ísland er því mjög nærri heimsmeðaltali með 29, en stendur hins vegar mjög vel í samhengi Vestur-Evrópu þar sem dánarhlutfallið er langhæst í heiminum (ásamt Bandaríkjunum) sem sakir standa. https://ourworldindata.org/grapher/rate-confirmed-cases-vs-rate-confirmed-deaths

Þá er þess að geta að Ísland og Vestur-Evrópa eru komin yfir hápunkt sýkingar meðan hún er enn í sókn í sumum heimshlutum. Því má reikna með að Ísland eigi eftir að færast eitthvað hærra upp fyrir heimsmeðaltalið. En Ísland á langt í hjarðónæmi fyrir veirunni, og það veikir árangurinn. Lægri dánartala hér en í öðrum Vestur-Evrópulöndum tengist m.a. því hvað landið er strjálbýlt.


Samanburður við inflúensu
Það eru sem sagt 245 þúsund staðfest dauðsföll úr COVID-19 í heiminum 4.maí. Sjúkdómurinn er skæður og hraðsmitandi en tölurnar verður samt að skoða í samhengi til að skiljast, t.d. í samanburði við aðra sjúkdóma. Samanburður við árstíðabundna inflúensu er nærtækur.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO gaf í desember 2017 út tölur um árstíðabundnar inflúensur fyrir heiminn í heild síðustu áratugi: „Allt að 650 þúsund manns deyr árlega af öndunarfærasjúkdómum tengdum árstíðabundinni inflúensu,“ segir þar.Í þessari skýrslu WHO segir að tölur um árleg dauðsföll fyrir undangenginn áratug sveiflist á bilinu 290-650 þúsund. Inflúensan er nokkuð breytileg frá ári til árs en samkvæmt þessu er Covid-19 ekki mjög fjarri meðalflensu m.t.t. dauðsfalla það sem af er árinu.

Hugleiðingar um Covid-kreppu

(birtist á Neistum 16. apríl 2020)



                                                    Mynd: Shutterstock
Neistar eru kraftasmár fjölmiðill. Af því Neistar mátu það svo nokkrar fyrstu vikur COVID-tímans að veiki þessi þessi væri fremur heilsufarslegt vandamál en hápólitískt sagði ritið fátt um faraldur þann hinn mikla. En þar sem faraldurinn, og enn frekar viðbrögðin við honum, hefur með undaraskjótum hætti orðið þjóðfélagsmál af slíkri stærðargráðu að yfirskyggir allt annað – og af því að þetta hefðu Neistar mátt láta sér skiljast fyrr – þá gerir ritið sjálfsgagnrýni fyrir (næstum) þögn sína um málið.
Og þar sem Neistar búa ekki yfir (og ekki Alþýðufylkingin heldur) neinni samhæfðri stefnu gagnvart COVID-faraldri eða afleiðingum hans verða hér aðeins settar fram nokkrar lausar athugasemdir, á ábyrgð höfundar, og alls engin alhliða úttekt.


Varð skjótt að djúpri kreppu
Bandaríski seðlabankinn (FED) spáði í marslok allt að 32% atvinnuleysi þar í landi eða 47 milljónum atvinnuleysingja á örðum ársfjórðungi 2020. https://www.cnbc.com/2020/03/30/coronavirus-job-losses-could-total-47-million-unemployment-rate-of-32percent-fed-says.html Til að skilja dramatíkina í þeirri tölu má nefna að atvinnuleysið í Bandaríkjunum á 4. áratugnum – í upphafslandi kreppunnar miklu – varð aldrei meira en um 25%. Haft er nú eftir hagstofum OECD að atvinnustarfsemi í næstum öllum hagkerfum heims dragist saman um 25% á meðan hinar víðtæku rekstrarstöðvanir (lockdown) gilda. Tekjutap í tvo til þrjá mánuði hjá smáfyrirtækjum eða sprotafyrirtækjum leiðir af sér neikvæða spírala gjaldþrota og atvinnuleysis. Og eftir þvísem rekstrarstöðvanir og lokanir dragast á langinn verða slíkar afleiðingar meiri.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu að reikna megi með að 6,3 prósent vinnustunda í heiminum tapist á öðrum ársfjórðungi 2020, sem tilsvarar 195 milljón heilsdagsstörfum. Framkvæmdastjóri ILO, Guy Ryder, segir kórónukreppuna verstu kreppu í 75 ár https://www.ilo.org/global/about-the-ilo/newsroom/news/WCMS_740893/lang--en/index.htm
Samkvæmt svartsýnustu spá sinni fyrir árið 2020 á Íslandi gerir Seðlabankinn ráð fyrir allt að 4,8% samdrætti. Nú þegar hefur Vinnumálastofnun gefið út spá um 14% atvinnuleysi í apríl sem er talsvert hærra hlutfall en var í kreppunni hér á landi á 4. áratug og miklu meira en mesta mánaðaratvinnuleysi eftir fjármálahrunið 2008 (hæst í febrúar 2009, 9,3%). Og nú gerist einmitt það að samfélagslegar lokanir framlengjast með hverri viku sem líður, og neikvæðir spíralar þar með. Að öllum líkindum verður atvinnuleysi í maí verra en í apríl. Og mikið af þessum störfum verður þá varanlega horfið.

Sigur Eflingar

(birtist á Neistum 13. mars 2020)

„Við lítum á þessa umframhækkun sem viðurkenningu á okkar málflutningi og kröfum um að sögulega vanmetin kvennastörf þurfi einfaldlega á þessari leiðréttingu að halda." Í viðtali við RÚV var Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarkona fegin og ánægð eftir undirritun kjarasamnings Eflingar – stéttarfélags og Reykjavíkurborgar þann 10. mars, eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna.

Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Sem er umtalsverður ávinningur miðað við þau 90 þúsund á lægstu laun sem um var samið í Lífskjarasamningunum. Efling hélt því alla tíð stíft fram að þörf væri á „sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við.“

Auk þessarar hækkunar var samið um styttingu vinnuvikunnar í takt við það sem gert hefur verið hjá öðrum hópum undanfarið. Vinnuvika vaktavinnufólks fer niður í 36 tíma og 32 tíma hjá þeim sem ganga vaktir allan sólarhringinn, leikskólastarfsfólki eru tryggðir 10 yfirvinnutímar á mánuði í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum og fleira mætti telja. Samningurinn nær til um 1.850 starfsmanna borgarinnar.

Friday, March 6, 2020

Áfram Eflingarkonur!

(Birtist á Neistum 3. mars 2020)

Efling stéttarfélag ryður nú brautina. Ótímabundið verkfall félagsins gagnvart Reykjavíkurborg hefur staðið í á þriðju viku. Samstaðan og stuðningur félagsmanna við aðgerðirnar er yfirgnæfandi. Verkfallið var samþykkt með 95,5% atkvæða þar sem um 60% greiddu atkvæði. Væntanleg samúðarverkföll Eflingarfélaga hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg (sett á 9. mars nk.) voru einnig samþykkt með miklum meirihlutastuðningi. Láglaunafólk í Reykjavík er í baráttuhug. https://efling.is/2020/01/26/yfirgnaefandi-meirihluti-samthykkir-verkfallsbodun-gagnvart-reykjavikurborg/

Svo sem við var að búast reyna andstæðingarnir að sá sundrungu. Lýsa Eflingu sem klofningsafli í verkalýðshreyfingunni. Efling eyðileggur Lífskjarasamningana! Efling vill ekki meta nám til launa! Borgarstjóri stundar fagurgala í fjölmiðlum en býður mjög fátt sem fast er í hendi. En Eflingarfólk þjappar sér bara betur saman. Hátt er rætt um réttmæti verkfallsins og réttmæti verkfalla yfirleitt.
Ýmsir „ábyrgir“ aðilar segja að kröfur Eflingar séu óásættanlegar, „út úr kú“, muni koma af stað „höfrungahlaupi“, „skapa glundroða“ o.s.frv. Við þurfum varla að ræða lengi slíka skoðun. Ófaglært starfsfólk í barnagæslu hefur lægst laun af öllum starfsstéttum í landinu. Umönnunarstörf eru lægst metin! Að undirlaunuð kvennastétt og umönnunarstétt stígi fram – lægsti hópur launaskalans eftir áratuga vaxandi ójöfnuð – er að sjálfsögðu fagnaðarefni.

Friday, February 28, 2020

Óvinamynd RÚV, óvinamynd NATO

(birtist á fésbók SHA 26. febrúar 2020)

Í þættinum Kveik í gær (RÚV) fjallaði Ingólfur Bjarni Sigfússon um nýjustu stríðin: netógnir, upplýsingaóreiðu, falsfréttir. Þarna voru línurnar hreinar og óvinamyndin skýr. Hann sótti sér sérfræðiaðstoð utanlands, einkum í konur tvær, Laura Galante og Anna Smith. A) Laura Galante var merkt sem „sérfræðingur í tölvuógnum og upplýsingaóreiðu“. Hér var undanskilið það mikilvæga atgriði hvar hún er sérfræðingur: hjá Atlantic Council (áður Atlantic Council of the United States), sem er strategísk þungaviktarhugveita í Washington og driffjöður í nýja kaldastríðinu, aðili að Atlantic Treaty Assosiation sem er hliðarbatterí í NATO þótt það sé formlega óháð. B) Hanna Smith er yfirmaður hjá European Centre of Excellencefor Countering Hybrid Threats. Wikipedia nefnir að sú stofnun í Helsinki sé „undir verndarvæng ESB og NATO“. 

Með aðstoð kvennanna tveggja sagði Ingólfur Bjarni að þjóðríki geti átt í starfsemi sem hafi ámóta afleiðingar og stríð án þess að lýsa yfir stríði. Nettröllin geta verið ein á báti en þau hættulegustu tengjast leyniþjónustum. Og Ingólfur Bjarni bætti við: „Rússar eru oftast nefndir á nafn í sambandi við tölvuárásir og upplýsingaóreiðu, og ekki að ástæðulausu.“ Hann nefnir að þeir hafi „þurkað út mörkin milli stríðs og friðar“ og að í vopnabúri þeirra séu „verkfæri til að hakka heil samfélög, slá út lykilstofnanir“. Rússar eru þó ekki alveg einir í þessu því Hanna Smith segir: „Kínverjar eru einnig nefndir í þessu sambandi, og í einhverjum tilfellum Íran. Samt þarf að hafa í huga að þess konar aðferðir eru hefðbundnar hjá alræðisríkjum.“ Galante segir að á bak við tölvuárásir á rafkerfi Úkraínu 2015 hafi verið „sami hópur rússneskra hakkara á ferð sem varð víðfrægur úr bandarísku forsetakosningunum 2016 frá leyniþjónustu hersins, GRU.“ Sem sagt, fullyrt er að rússneska leyniþjónustan hafi staðið á bak við leka eða hökkun í kosningakerfi Demókrata 2016, þótt enn hafi ekkert sannast í þeim efnum. Fullyrt var í þættinum án fyrirvara og rökstuðnings að Rússar hafi „ráðist inn í Austur –Úkraínu“. Samanlagt: Höfuðstöðvar NATO í Brussel hefðu ekki getað teiknað óvinamynd sína skýrar en þarna er gert.

Friday, February 7, 2020

Söguendurskoðun frá Brussel



Molotov undirritar griðarsamninginn. Ribbentrop og Stalín fyrir aftan.


Í september 2019 voru 80 ár liðin frá upphafi seinna stríðs. Af því tilefni  samþykkti Evrópuþingið í Brussel þann 19. september „Ályktun um mikilvægi evrópskra minninga fyrir framtíð Evrópu.“ http://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-0021_EN.pdf  Í ályktuninni eru aðildarlöndin hvött til að halda hátíðlegan dag griðarsamnings Hitlers og Stalíns, 23. ágúst sem „sameiginlegan minningardag um fórnarlömb nasisma og kommúnisma“. Söguendurskoðun ESB gefur griðarsáttmálanum gríðarlegt sögulegt vægi en horfir skipulega framhjá aðdraganda hans.

Söguendurskoðunin er ekki alveg ný af nálinni þar sem Evrópuþingið samþykkti árið 2008 að lýsa 23. ágúst „evrópskan dag minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma“ og hefur síðan gert nokkrar almennari samþykktir um „evrópska samvisku og kommúnisma“ og „evrópska samvisku og alræðisstefnu“. En þessi síðasta ályktun gengur skrefi lengra en áður í því að gera Sovétríkin og Þýskaland Hitlers sameiginlega ábyrg fyrir heimsstyrjöldinni síðari.

Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem heiðra alræðisstjórnir, þ.á.m. þau sem helguð eru Rauða hernum. 

Ályktunin var borin fram af hægriflokkum á Evrópuþinginu en hún var studd af mörgum krataflokkum, grænum og frjálslyndum. En hún hefur mætt verulegri andstöðu. T.d. komu þúsundir kommúnista og vinstriróttækra saman í Róm hálfum mánuði eftir samþykktina og svöruðu ályktun ESB með slagorðinu „Fuck you!“ https://morningstaronline.co.uk/article/w/italian-communists-protest-eu-moves-to-rewrite-history
 
Í íslensku samhengi má segja að sögutúlkanir Þórs Whitehead  og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar ráði nú ríkjum í Brussel. Söguendurskoðunin er gamaldags andkommúnismi en gegnir jafnframt nýju hlutverki í nútímanum: í því að djöfulgera Rússland og endurnýjað rússahatur gegnir einmitt meginhlutverki í herskárri liðssöfnun BNA og Vestursins gegn keppinautunum í kalda stríðinu nýja. 

Hér á eftir fylgir ágæt grein um málið eftir Lennart Palm, sænskan söguprófessor, og birtist á vefnum BEVARA ALLIANSFRIHETEN. https://www.alliansfriheten.se/brussels-historierevisionism-om-andra-varldskriget/ 


ESB endurskoðar sögu síðari heimsstyrjaldar
Lennart Palm

Þann 19. sptember 2019 samþykkti Evrópuþingið með miklum meirihluta ályktunina „Mikilvægi evrópsksra minninga fyrir framtíð Evrópu“. Tilgangurinn með henni var sagður vera að þjóðir evrópu læri af stórslysum sögunnar til að forðast þau í framtíðinni. En minni er vandmeðfarið. Mennirnir vilja gjarnan hagræða og lagfæra söguna, oft af hugmyndafræðilegum orsökum. Stjórnmálamenn Evrópuþingsins reyna að búa til sameiginlegar minningar en sams konar hagræðingar-gangverk sýnir sig þar eins og hjá einstaklingum. Pólitískt viðkvæmum staðreyndum er ýtt út og hlutir teknir úr samhengi. Með orðum Harolds Pinter frá Nóbelsræðunni 2005: „Það hefur aldrei gerst. Ekkert hefur gerst. Ekki einu sinni meðan það gerðist gerðist það. Það hefur enga þýðingu.“ Hin umrædda ályktun hefur naumast verið nefnd í stóru fjölmiðlunum okkar. 

Meginhugsun ályktunarinnar er að Hitlers-Þýskaland og Sovétríkin hafi í sameiningu hafið seinni heimsstyrjöldina: „Evrópuþingið leggur áherslu á að seinni heimsstyrjöldin, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, byrjaði sem bein afleiðing af hinum alræmda nasistþýska-sovéska griðarsamningi frá 23. ágúst 1939, einnig nefndur Mólotoff-Ribbentropsamningurinn, og leynilegri bókun hans en með henni skiptu tvö alræðisríki, sem stefndu að því að leggja undir sig heiminn, Evrópu í tvö áhrifasvæði.“ Svo auðveldlega rugla menn spilunum – án neinna nýrra upplýsinga ganga menn í berhögg við viðtekið viðhorf í sagnfræðirannsóknum um Þýskaland sem upphafsaðila stríðsins. 

Nokkur gleymd efnisatriði: Seinni heimsstyrjöl var að miklu leyti framhald þeirrar fyrri. Í baráttu sinni um nýlendur og markaði öttu pólitískar elítur Evrópu árið 1914 þjóðum sínum út í mestu slátrun fram til þess tíma. Sigurvegararnir, fyrst og fremst Frakkar, Bretar, Bandaríkin og Belgar útnefndu Þýskaland sem eitt ábyrgt fyrir stríðinu og kröfðust grimmúðlegra stríðsskaðabóta. Landið var rænt gömlum þýskum svæðum eins og Elsass og Lotringen og Vestur-Prússlandi. Rínarhéruðin voru sett undir erlenda stjórn. 

Í austri féll rússneska keisaradæmið saman og í staðinn komu sjálfstæð ríki, verðandi Sovétríkin, Finnland, Eystrasaltslönd, Pólland m.m. Í Sovét-Rússlandi hélt borgarastríð milli rauðra og hvítra áfram til 1922. Hinir hvítu fengu hjálp frá hundruðum þúsunda  hermanna frá ríkjum í Vestrinu: Þýskalandi, Bretlandi, Tékkoslóvakíu, Bandaríkjunum, Finnlandi og öðrum. Í viðbót við það kom að Pólland réðst á og hernam stóra hluta af núverandi Hvítrússlandi og Úkraínu (hluta sem Stalín tók svo tilbaka 1939). Þessar innrásir skildu ekki bara eftir sig eyðingu, þær áttu líka þátt í að skapa andrúmsloft umsáturs í Sovétríkjunum. Einnig hér gleymir Evópuþingið illu sáðkorni Vestur-Evrópu í jörð hins ókomna. 

Sovétmenn voru sannfærðir um að þeir lifðu í fjandsamlegu umhverfi. Sovétforustan óttaðist fyrst mest Breta en fór með valdaatöku Hitlers að líta á hið nasíska Þýskaland sem helstu ógn. Áform Hitlers um að skapa sér „lebensraum“ og að gera hinn „óæðri lýð“ í austri að nýlendum voru vel þekkt úr Mein Kampf sem og þýska vígvæðingin (sem Sovétmenn vissu vel um gegnum hernaðarsamvinnuna við Weimarlýðveldið). Hernám Rínarhéraða og og íhlutunin gegn spænska lýðveldinu gerðu hættuna ljósari. 

Árið 1934 áleit utanríkisráðherra Sovétríkjanna að það væri „aðeins hægt að berjast gegn metnaðrgirnd Þýskalands af skjaldborg ákveðinna granna“. Sovétríkin beittu sér því fyrir „sameiginlegu öryggi“. En hversu „ákveðnir“ voru grannarnir? Íhaldssamir og frjálslyndir flokkar Þýskalands gerðu Hitler kleift að taka völdin og greiddu samhljóða atkvæði með umboðslögum hans 1933 [lög sem veittu honum stjórnarumboð, þýð.]. Lýðræðisstjórnir Evrópu höfðu staðið aðgerðarlausar gagnvart hernámi Rínarhéraða og uppreisn fasista á Spáni. Þrátt fyrir það gerðu Sovétríkin á 4. áratugnum ákafar tillögur um varnarbandalög við Frakka, Breta, Bandaríkin, Rúmeníu, Pólland, Júgóslavíu, já m.a.s. hina fasísku Ítalíu. Allstaðar var tillögunum hafnað, Pólland vann beinlínis gegn tillögum Sovétríkjanna alveg fram að stríði. Og enn átti það eftir að versna. 

Þann 29. September 1938 hittu breski forsætisráðherrann Chamberlain og Dadalier forseti Frakklands Hitler og Mússólíni í München. Þýskaland heimtaði að Tékkóslóvakía skilaði Súdetahéruðum með þýskmælandi íbúum. Hitler fékk grænt ljós frá Bretum og Frökkum að ráðast inn í Tékkóslóvakíu, og hann lét sem kunnugt er ekki staðar numið við Súdetahéruðin.

Einnig Pólland, sem árið 1934 varð fyrst til að gera griðarsamning við Hitler, sendi inn hermenn sína sem hertóku slésíska hluta Tékkóslóvakíu. Sovétfoustan sá nú hvert stefndi, þ.e.a.s. að Vestrið vildi fá Hitler til að stefna í austur. Stríðið virtist stöðugt nálgast, en svo seint sem í apríl 1939 hafnaði Frakkland nýju tilboði frá Sovétríkjunum. Í maí leitaði nýi utanríkisráðherran Mólotoff eftir samningi við Pólland en var strax hafnað. Það fóru þó fram samningaviðræður við Englendinga. Þeir áttu þó einnig í leynilegum samningaviðræðum við Þjóðverja og ákváðu að „fara sér hægt“. Þeir sendu sendinefnd með farþegaskipi (á 14 hnúta hraða) sem náði til Sovétríkjanna á 5 dögum, og þar sýndi sig að sendinefndin hafði ekki umboð til að undirrita neinn samning.

Nú gaf Moskva upp alla von um samninga við Vesturveldin. Mólotoff-Rippentroppsamningurinn var undirritaður 23. ágúst 1939. Samningurinn gaf Sovétríkjunum nokkra ávinninga. Þau fengu tóm til að byggja frekar upp varnir sínar fyrir þýsku árásina sem menn vissu að kæmi fyrr eða síðar. Gegnum hina (vissulega siðlausu) leynilegu bókun fékkst „áhrifasvæði“ sem virka skyldi sem stór höggdeyfir.
Öllu þessu samhengi hlutanna er vandlega ruglað og eytt í söguritun Evrópuþingsins. Einna furðulegast er að München-samkomulagið er þar ekki nefnt einu orði. 

En þetta er ekki nóg. Þann 22. júní 1941 kom svo árásin mikla á Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa. Þar tóku þátt auk Þýskalands einnig Austurríki, Rúmenía, Finnland, Ítalía, Ungverjaland, Slóvakía og Króatía. Það er frá nokkrum þessara landa sem eldsálirnar að baki ályktun Evrópuþingsins eru. Í hinni herteknu Evrópu lagaði borgarastéttin sig gjarnan að Þjóðverjum. Það voru reyndar Sovétríkin sem stóðu fyrir stærstum hluta andspyrnunnar gegn nasismanum (kostaði 27 milljónir sovétborgara lífið), og í andspyrnuhreyfingunum gegndu kommúnistar oft leiðandi hlutverki. Hvaða „minningar“ um þetta eigum við að varðveita, skv. Evrópuþinginu? Augljóslega engar!

Hvaða afleiðingar fær svona ályktun? Í framhaldinu er tjáningarfrelsinu hótað. Við megum búast við stöðugt þrengra tómi til umræðu, og nýjum, pólitískt leiðréttum skólabókum. Í ályktuninni eru aðildarlönd ESB hvött til að halda hátíðlegan 23. ágúst, dag þýsk-sovéska griðarsamningsins, sem  sameiginlegan minningadag um fórnarlömb um nasisma og kommúnisma, að forðast „lágkúru“ í umræðu og fjölmiðlum, að efla sameiginlega sögumenningu og veita meira fé til ESB-áróðurs. Rússneska samfélagaið er hvatt til að gera upp við sína sorglegu sögu og hætta meintu upplýsingastríði, háðu til að kljúfa hina lýðræðislegu Evrópu. Án þess að spá í grjótkast úr glerhúsi skrifar Evrópuþingið einnig að Rússland verði að hætta að rangsnúa sögulegum staðreyndum.

Þessi rússaandúð frá Brussel hefur verið ákaft gripin af stærsta blaði Svíþjóðar, Dagens Nyheter, af Michael Winiarski utanríkisskriffinna og af leiðarasíðu blaðsins. Við munum því miður sjá meira af slíku í fjölmiðlum okkar, miklu meira. En er það ekki viðvörunarmerki að pólitísk samkunda eins og Evrópuþingið fyrirskipi hvað er sögulegur sannleikur? Það leiðir hugann óneitanlega að alræðislegum forskriftum.
(Höfundur er prófessor emerítus við Gautaborgarháskóla)