Friday, March 6, 2020

Áfram Eflingarkonur!

(Birtist á Neistum 3. mars 2020)

Efling stéttarfélag ryður nú brautina. Ótímabundið verkfall félagsins gagnvart Reykjavíkurborg hefur staðið í á þriðju viku. Samstaðan og stuðningur félagsmanna við aðgerðirnar er yfirgnæfandi. Verkfallið var samþykkt með 95,5% atkvæða þar sem um 60% greiddu atkvæði. Væntanleg samúðarverkföll Eflingarfélaga hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg (sett á 9. mars nk.) voru einnig samþykkt með miklum meirihlutastuðningi. Láglaunafólk í Reykjavík er í baráttuhug. https://efling.is/2020/01/26/yfirgnaefandi-meirihluti-samthykkir-verkfallsbodun-gagnvart-reykjavikurborg/

Svo sem við var að búast reyna andstæðingarnir að sá sundrungu. Lýsa Eflingu sem klofningsafli í verkalýðshreyfingunni. Efling eyðileggur Lífskjarasamningana! Efling vill ekki meta nám til launa! Borgarstjóri stundar fagurgala í fjölmiðlum en býður mjög fátt sem fast er í hendi. En Eflingarfólk þjappar sér bara betur saman. Hátt er rætt um réttmæti verkfallsins og réttmæti verkfalla yfirleitt.
Ýmsir „ábyrgir“ aðilar segja að kröfur Eflingar séu óásættanlegar, „út úr kú“, muni koma af stað „höfrungahlaupi“, „skapa glundroða“ o.s.frv. Við þurfum varla að ræða lengi slíka skoðun. Ófaglært starfsfólk í barnagæslu hefur lægst laun af öllum starfsstéttum í landinu. Umönnunarstörf eru lægst metin! Að undirlaunuð kvennastétt og umönnunarstétt stígi fram – lægsti hópur launaskalans eftir áratuga vaxandi ójöfnuð – er að sjálfsögðu fagnaðarefni.


Meira þarf líklega að ræða baráttuaðferðina. Auk margtugginnar viðbáru um „tapaðar vinnustundir“ og „úrelta baráttuaðferð“ er verkfalli gjarnan lýst sem „óyndisúrræði“ og „neyðarbrauði“ fyrir verkafólk. Það er villukenning. Auðvitað er verkfall álag á þá sem í því standa. Og skapar líka vanda fyrir „þriðja aðila“ svo sem foreldra leikskólabarna. En það er eftir sem áður eina tæki verkafólks til að bæta kjör sín.

Ekki bara það. Það er gamall sannleikur að verkfall er stéttarlegur skóli. Launamaður er valdalaus einn en í samtökum er hann vald. Sú staðreynd birtist skýrast í verkföllum. Verkfall styrkir trú launafólks á eigin afli. Það sýnir verkafólki hverjir eru vinir og hverjir andstæðingar. Gildi samastöðunnar. Verkfall er skóli, ekki böl.

Styrkur launafólks í stéttabaráttunni liggur í tvennu: Fjöldanum og samstöðunni. Þess vegna reynir stéttarandstæðingurinn sem mest hann má að sá fræi óeiningar í raðir launafólks. Mög er vinsælt að etja þeim betur launuðu gegn þeim lægst launuðu, faglærðu starfsfólki gegn ófaglærðu eins og ójöfnuðurinn liggi í launabilinu þar á milli. Þar er fylgt stjórnkænskunni „deildu og drottnaðu“. Ekki hefur það þó tekist í þessu máli sbr. það að leikskólastjórar í Reykjavík sendu frá sér yfirlýsingu um stuðning við „kjarabaráttu og launakröfur starfsmanna í stéttarfélagi Eflingar í leikskólum.“ Sá stuðningur er dýrmætur fyrir verkfallsmenn. https://www.ki.is/um-ki/utgafa/frettir-og-pistlar/frettir/2020/leikskolastjorar-i-reykjavik-hvetja-til-samninga/

Á löngum tíma stéttasamvinnu hefur skrifstofu- og stofnanavald launþegasamtakanna, rétt eins og atvinnurekendur“, boðað „vinnufrið“ sem æðstu dyggð. En eining um stéttasamvinnu er eitraður friður. Slíka einingu þurfum við ekki. Að sumu leyti er launafólk aftur á byrjunarreit og þarf að endurheimta baráttuna, og stéttarfélögin, úr höndum stofnana sem virka sem hluti af valdakerfi íslenskrar auðstéttar. Launafólk þarf að endurnýja hreyfinguna neðan frá.

Þess vegna er það grundvallaratriði að verkfallsbaráttan sé byggð upp lýðræðislega frá grasrótinni. Ekki síst að aðgerðir séu afurð af umræðu og lýðræðislegum ákvörðunum í grasrótinni sem tryggja raunverulega samstöðu.

Slíkum reglum er vel fylgt í Eflingu: lýræðisleg umræða og ákvörðun um aðgerðir, lýðræðislega kosnar samninganefndir og almenn virkni á verkfallsvakt og öllum rekstri verkfallsins. Þess vegna er samstaðan góð þó svo það dragist á langinn, sem gefur góða von um árangur. Þess vegna er verkfall Eflingar mikilvægt brautryðjendastarf og sögulegt frumkvæði.

Í kringum verkfallsátök verða alltaf átök og deilur um verkfallsvopnið sjálft. Stéttarandstæðingurinn leggur alltaf mikið kapp á að sýna að verkfall sé gagnslaust vopn sem skili engum árangri. „Allir tapa á verkfalli!“ Það er þeirra sannleikur. Samtök atvinnurekenda útmála skaðsemina og reyna að píska upp stemningu gegn verkfalli, styðja viðkomandi atvinnurekendur í því að brjóta öll verkföll á bak aftur, og horfa þá ekki í kostnað, reyna að sanna það að verkföll borgi sig ekki og vilja geta veifað þeirri „sönnun“ framan í verkafólk eftir á. Fyrir stéttvíst verkafólk horfir dæmið þveröfugt við, og sannleikur þess er: Baráttan borgar sig! Eðlilega verður að beita verkfallsvopninu þannig að það bíti sem best, og vel skipulagt verkfall – eða hótum slíkt – er það tæki sem helst skilar árangri. Vissulega hefur anstæðingurinn ýmsar aðferðir til að ná kjarabótum tilbaka en þá gildir fyrir launafólk að semja um tryggingar gegn því.

Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar á fésbókina sína: „Eigum við að skrifa undir hvað sem er? Eigum við að samþykkja að við höfum ekkert að gera með að ákveða verðlagninguna á okkur sjálfum? Eigum við að samykkja að ganga sigruð frá borði? Eigum við að samþykkja að fara aftur i vinnuna með þá vitneskju í farteskinu, að þrátt fyrir að hafa sagt frá aðstæðum okkar og kjörum urðum við að sætta okkur við "náttúrulögmálið" um að vinnuaflið okkar sé eilíflega dæmt til að vera á niðursettu verði? Finnst ykkur það í alvöru í lagi?“ Nei, það finnst okkur ekki og við segjum: Áfram Eflingarfólk!

Eftirmáli: Ályktun Eflingarfólks á fundi í Gamla bíó 3. mars
Við erum ófaglærðir starfsmenn Reykjavíkurborgar, í fjölbreyttum störfum við sorphirðu, viðhald, umönnun og menntun barna, aldraðra og fatlaðra, þrif, eldamennsku og fleira.

Við sinnum grunnþjónustu sem borgarbúar geta ekki lifað án. Þetta hafa verkfallsaðgerðirnar okkar sýnt.

Við erum með lægstu heildarlaun allra á íslenskum vinnumarkaði.

Með því að ganga í störf faglærðra spörum við Reykjavíkurborg árlega um milljarð á ári, eingöngu í leikskólakerfinu.

Við krefjumst þess að borgarstjórnarmeirihlutinn og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri standi við orð sín um að leiðrétta kjör láglaunafólks og sögulega vanmetinna kvennastétta.

Samninganefnd okkar hefur hvað eftir annað lagt fram vel útfærðar og skynsamlegar tillögur um hvernig eigi að framkvæma þetta. Það er með öllu óskiljanlegt hvers vegna borgin hafnar þeim tillögum hverjum á fætur annarri.

Við höfnum þeim leik borgarinnar að borgarstjóri fari með fagurgala í fjölmiðlum en að samninganefnd borgarinnar bjóði svo samninganefnd Eflingarfélaga lausnir sem einungis taka til brots okkar félagsmanna og með kvöðum og skilyrðum.

Það er kominn tími fyrir borgina að sýna að henni sé alvara.

Á borðinu liggur tillaga að samkomulagi sem er í samræmi við yfirlýsingar borgarstjóra sjálfs. Við styðjum samninganefnd Eflingar í því að bjóða að fresta verkfalli í tvo sólarhringa gegn því að samkomulagið verði undirritað.

Við stöndum saman og styðjum samninganefndin okkar alla leið.

Borgin er í okkar höndum!

No comments:

Post a Comment