Thursday, June 18, 2020

Á að reyna „union busting“?

(birtist á Neistum.is 21 maí 2020)
Kjaradeila Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands heldur áfram. FFÍ beygir sig ekki og Icelandair freistar þess að sniðganga FFÍ. Þarna er brennipunktur íslenskrar stéttabaráttu í dag. ASÍ og Efling – stéttarfélag senda flugfreyjum mikilvægar stuðningsyfirlýsingar.
 
Icelandair hefur lýst yfir að það ætli að ná 20% hagræðingu í launakostnaði fyrir hluthafafund 22. maí. og gengur fram af mikilli hörku við flugstéttir. Samist hefur um skerðingar við félög flugmanna og flugvirkja, en Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafði ekki beygt sig undir tilsvarandi. FFÍ hefur ítrekað hafnað útspili Icelandair sem félagið segir að feli í sér „tugprósenta launalækkanir og skerðingu á réttindum til frambúðar.“

Icelandair breytir ekki stefnu sinni. „Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins 20. maí skoðar Icelandair möguleika á að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og samkvæmt Fréttablaðinu hyggst Icelandair láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi náist ekki samningur.“ https://www.ffi.is/ Ef þetta er rétt hermt er ljóst að Icelandair stefnir að því að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands. Atvinnulausar flugfreyjur eru nú mjög margar, íslenskar og miklu fleiri erlendar. Hvernig Icelandair ætlar að safna liði og stofna stéttarfélag vitum við hins vegar ekki, en við vitum til hvers. Og það blasir við að kjaradeila Icelandair og FFÍ er núna brennipunktur stéttabaráttunnar í landinu. Fordæmisgildið er mikið á báða bóga.

 

ASÍ: sættum okkur ekki við union busting

Drífa Snædal forseti ASÍ sendi í gær, 20. maí, frá sér skorinorða yfirlýsingu af tilefni áðurnefndrar fréttar og þar segir: „Framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hefur verið með ólíkindum og er til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð þessa rótgróna flugfélags. Þetta er ekki flugfélagið okkar allra sem býður okkur velkomin heim. Við munum ekki sætta okkur við aðferðir sem á ensku eru kallaðar union busting og ganga út á að grafa undan samstöðu launafólks og eyðileggja verkalýðsfélög. Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum.“ https://www.ffi.is/

Efling – stéttarfélag sendi líka þann 20. maí frá sér mikilvæga yfirlýsingu í tilefni af þessari deilu. Þar er þess krafist íslenska ríkið, og einnig lífeyrissjóðir, hafni því að styðja við fyrirtæki sem stundar árásir á lögvarin réttindi verkafólks.

 

Ályktun stjórnar Eflingar vegna kjaradeilu Icelandair og FFÍ:

„Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
     Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna Kórónaveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.
      Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.
     Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skiling aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.
     Verkafólk á skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur er mannréttindi og er varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk á ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.
     Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling – stéttarfélag ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust.
     Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.
     Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið heldur nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafna því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.“ Sjá hér.

No comments:

Post a Comment