Sunday, April 3, 2016

„Arabíska vorið“ í Sýrlandi

(Birt á fridur.is 1. apríl 2016)

„Átökin í Sýrlandi hófust í apríl 2011 þegar friðsöm mótmæli að fyrirmynd byltinganna í Egyptalandi og Túnis breyttust í mótmæli gegn einræðisstjórn landsins. Ríkisstjórnin brást við eins og sönn illmenni gera. Fyrst sáu öryggissveitir um að taka aðgerðarsinna af lífi… Því næst hófu hersveitir að skjóta á mótmælendur og það endaði með að mótmælendurnir skutu á móti….“ (eyjan.pressan.is 2. sept 2013)
Þessa tuggu (í fáeinum tilbrigðum) hafa íslenskir fjölmiðlar tuggið nær daglega eins og kýr jórtrandi makindalega á sínum bás í vestræna fjölmiðlafjósinu. Þetta er hin staðlaða opinbera saga sem okkur hefur verið sögð allt frá 2011. Og á henni byggir afstaða NATO-ríkja og Vesturlanda til þessa stríðs: meginorsök þess er harðstjórn Assads og þess vegna verður ekki friður nema til komi valdaskipti, Assadstjórnin fari frá.
Svona einföld var atburðarásin í Sýrlandi þó ekki og að stærstum hluta er sagan lygi. Mótmæli hófust vissulega í landinu í mars 2011, undir áhrifum “arabíska vorsins”. En undurfljótt breyttust þau í innanlandsstríð, með miklu mannfalli á bága bóga. Það er mikilvægt að átta sig á í hvaða röð hlutirnir gerðust í kviknun og þróun þessa stríðs, m.a. átta sig á þætti „arabíska vorsins“ í því.
Vestræn afskipti hófust fyrir 2011
Ísrael á landamæri að Sýrlandi (við hinar hernumdu Gólanhæðir) og fylgist því betur en flestir aðrir með málum í nágrannalandinu. Í ísraelskum leyniþjónustuskjölum frá ágúst 2011 kemur fram að NATO og Tyrkland voru þá að hefja vopnaflutninga til uppreisnarinnar og liðssöfnun trúarvígamanna í múslimalöndum til að berjast gegn Assad, en ætluðu þó að beita annarri taktík en í Líbíu:
“NATO headquarters in Brussels and the Turkish high command are meanwhile drawing up plans for their first military step in Syria, which is to arm the rebels with weapons for combating the tanks and helicopters spearheading the Assad regime’s crackdown on dissent. Instead of repeating the Libyan model of air strikes, NATO strategists are thinking more in terms of pouring large quantities of anti-tank and anti-air rockets, mortars and heavy machine guns into the protest centers for beating back the government armored forces … the arms would be trucked into Syria under Turkish military guard and transferred to rebel leaders at pre-arranged rendezvous… Also discussed in Brussels and Ankara, our sources report, is a campaign to enlist thousands of Muslim volunteers in Middle East countries and the Muslim world to fight alongside the Syrian rebels. The Turkish army would house these volunteers, train them and secure their passage into Syria.”
Þetta var sem sagt skrifað í ágúst 2011, og greinilega eitthvað fleira í gangi en „friðsöm mótmæli“. En undirbúningur utanaðkomandi hervelda undir uppreisn og trúrbragðastríð í Sýrlandi var samt hafin miklu fyrr. Árið 2007 skrifaði Pulitzerverlaunahafinn Seymour Hersh grein í The New Yorker um stefnubreytingu strategistanna í Washington í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“: að styðja hernað súnní múslima gegn sjía múslimum. Þetta var liður í valdataflinu um Miðausutrlönd í heild: „Til að grafa undan Íran, sem er í meginatriðum sjía-land, hefur Bushstjórnin ákveðið að endurstilla áherslur sínar í Miðausturlöndum… Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnnía sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir Al-Kaída.“
Afskipti Vesturlanda af Sýrlandi hófust ekki vegna harkalegra aðgerða Assads gagnvart mótmælendum 2011. Einn margra sem hefur bent á að aðdragandinn væri miklu lengri er Robert Kennedy jr. (sonur dómsmálaráðherrans sem skotinn var) sem nýlega skrifaðivel upplýsta og ýtarlega grein um Sýrland. „Undirróður vestrænnar leyniþjónustu í átt að stríði hófst frekar þegar Assadstjórnin hafnaði áformaðri olíulögn frá Katar til Tyrklands gegnum Sýrland: Árið 2009, skv. Wikileaks, fljótlega eftir að Bashar Assad hafnaði olíulögninni frá Katar, byrjaði CIA að fjármagna andstöðuhópa í Sýrlandi. Það er mikilvægt að muna að þetta var langtum fyrr en uppreisnir gegn Assad undir áhrifum Arabíska vorsins hófust… Horfumst í augu við það: það sem við köllum „stríð gegn hryðjuverkum“ er bara enn eitt olíustríðið.“
Fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands, Roland Dumas, sagði frá því í viðtali að Bretar hefðu undirbúið leynilegar aðgerðir í Sýrlandi 2009: „Ég var í Englandi tveimur árum fyrr en ofbeldið hófst í Sýrlandi, í öðrum erindum. Ég hitti hóp enskra embættismanna sem játuðu fyrir mér að þeir væru að undirbúa eitthvað í Sýrlandi… Þetta var í Bretlandi, ekki í Bandaríkjunum. Bretland var að undirbúa innrás uppreisnarmanna í Sýrland. Þeir m.a.s. spurðu mig, þó ég væri ekki lengur utanríkisráðherra, hvort ég vildi vera með.“

Hvort sem vestræn íhlutun í Sýrland hófst nákvæmlega 2009 eða ekki er það víst að árið 2012 var hún komin í vel grafinn farveg og vestrænar leyniþjónustur höfðu þar skýra yfirsýn. Til að glöggva sig á því „stríði gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin og bandamenn þeirra lystu yfir í Sýrlandi nokkrum misserum síðar er gott að skoða opinber skjöl bandarísku stofnunarinnar Department of Intelligence Agency (DIA) frá 2012. DIA er stofnun sem heyrir undir bandaríska hermálaráðuneytið. Þar segir: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI (Al-Qaeda í Írak) eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Og ennfremur: „…Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Der Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“  Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og það er alveg ljóst að um er að ræða hið verðandi ISIS. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“
Af þessu öllu sjáum við að stríð og öngþveiti í Sýrlandi eru framkölluð af utanaðkomandi öflum, einkum vestrænum, ennfremur að stríðið hófst ekki vegna „arabíska vorsins“, undirbúningur þess var kominn vel af stað áður. Loks sjáum við að NATO-veldin og svæðisbundnir bandamenn þeirra ólu og fóðruðu ISIS og helstu hópa herskárra íslamista – vitandi vits. Það var „trúardeiluvopnið“ sem fella skyldi Assad-stjórnina og bandamenn hennar (Íran, Hizbolla…).
„Arabíska vorið“
Engu að síður er nauðsynlegt að skoða betur „arabíska vorið“. „Arabíska vorið“ brast á Miðausturlönd og Norður-Afríku 2010/2011 við skilyrði efnahagskreppu og ólgu af hennar völdum. Annað sem þá einkenndi umrætt svæði (eins og fleiri svæði og heimshluta) var þróun í átt frá „einpóla“ heimi fullrar vestrænnar drottnunar yfir í það að ýmis lönd á svæðinu höfðu tekið að líta til og auka viðskipti við nýjar og rísandi valdastöðvar eins og Peking og Moskvu, við lítinn fögnuð vestrænna heimsvaldasinna. Þegar svo „arabíska vorið“ brast á hófu vestræn ríki (undir forustu Bandaríkjanna) skjótt á loft kröfuna um „valdaskipti“. Nokkur lönd voru meira höfð í siktinu til „valdaskipta“ en önnur, einkum Egyptaland, Líbía og Sýrland.
Ég ætla ekki að halda því fram hér að „arabíska vorið“ hafi verið þaulskipulagt fyrirfram í N-Ameríku en óhætt er að halda fram að vestræn stjórnvöld og leyniþjónustur (ekki síst bandarískar) hafi átt mikinn þátt í að koma því af stað – sbr. það sem áður hefur komið fram um langvarandi vestrænan undirróður og undirbúning Sýrlandsstríðins – og þegar uppþotin brustu á voru þessir aðilar tilbúnir með aðgerðaáætlun fyrir „valdaskipti“. Taktíkin við „valdaskiptin“ var hluti af nýjum aðferðum við íhlutanir, sem ýmist eru kenndar við „frjálslynda heimsvaldastefnu“ eða „smart power“. Það gengur út á að tengja íhlutanir (Bandaríkjanna, NATO eða „Alþjóðasamfélagsins“) við lýðræðiskröfur, mannréttindi og mannúð. (Sjá t.d.)
Vestræna taktíkin kringum „arabíska vorið“ var valin í ljósi og framhaldi af sk. „litabyltingum“ sem áður höfðu átt sér stað á svæði fyrrum Sovétríkjanna. „Byltingarnar“ fóru fram með traustu atfylgi og leiðsögn CIA – að tjaldabaki – en á sviðinu höfðu sig frammi ýmis bandarísk “frjáls félagasamtök“ á sviði „mannréttinda“ svo sem National Endowment for Democracy (NED) og Albert Einstein Institute (AEI), Freedom House og fleiri sem boðuðu nú „byltingar“ með hjálp SMS og samfélagsmiðla eins og Facebook og Twitter. Helstu „litabyltingar“ sem fram voru komnar voru byltingin gegn Mílósévits í Serbíu (2000), „rósabyltingin“ í Georgíu (2003), „appelsínugula byltingin“ í Úkraínu (2004) og „túlípanabyltingin“ í Krigísíu (2005). Í öllum þessum tilfellum var einræðissinnuðum Rússlandsvinum steypt af stóli fyrir einræðissinnaðar vestrænt sinnaðar stjórnir. Um þessar fyrri litabyltingar má lesa hér.
Á hvern hátt „arabíska vorið“ varð kópía af framantöldum „byltingum“ skal ekki útmálað hér, en meðfylgjandi grein úr New York Times tínir til nokkrar þjálfunarbúðir og æfingarprógrömm á vegum þessara bandarísku aðila sem stuðla skyldu að „valdaskiptum“ í Miðausturlöndum og Norður Afríku. Þarna kemur líka fram áhugavert atriði um tengingu þessara „frjálsu félagasamtaka“við þingið og Utanríkisráðuneytið í Washington: „A number of the groups and individuals directly involved in the revolts and reforms sweeping the region, including the April 6 Youth Movement in Egypt, the Bahrain Center for Human Rights and grass-roots activists like Entsar Qadhi, a youth leader in Yemen, received training and financing from groups like the International Republican Institute, the National Democratic Institute and Freedom House, a nonprofit human rights organization based in Washington, according to interviews in recent weeks and American diplomatic cables obtained by WikiLeaks… The Republican and Democratic institutes are loosely affiliated with the Republican and Democratic Parties. They were created by Congress and are financed through the National Endowment for Democracy which was set up in 1983 to channel grants for promoting democracy in developing nations. The National Endowment receives about $100 million annually from Congress. Freedom House also gets the bulk of its money from the American government, mainly from the State Department.”
Obeldið hófst í Daraa
Tim Anderson, prófessor í Sidney, gaf í fyrra út bókina The Dirty War on Syria. Hann skrifar m.a. um upphaf átakanna í landinu: „Það er ljóst að það varð uppnám (popular agitation) í Sýrlandi snemma árs 2011, í kjölfar atburðanna í Túnis og Egyptalandi. Það voru kröfugöngur bæði gegn og með stjórnvöldum og almenn stjórnmálaumræða. En ofbeldið sem hófst í mars 2011 hefur verið mistúlkað á kerfisbundinn hátt til samræmis við enn eina USA-NATO áætlunina um „valdaskipti““. Ofbeldi með mannfalli hófst í bænum Daraa nærri landamærum Jórdaníu. Samkvæmt fréttum m.a. Al Jazeera og ísraelskra fréttastofa skutu þar leyniskyttur af húsþökum, bæði á lögreglu og mótmælendur og stjórnarskrifstofur voru brenndar.
Leyniskyttur á húsþökum sem skjóta bæði lögreglu og mótmælendur eru áhugavert fyrirbæri. Þær birtust m.a. aftur á Maidantorgi í Kænugarði í seinni „litabyltingunni“ þar (2014) og Paet utanríkisráðherra Eistlands upplýsti Ashton utanríkisfulltrúa ESB um það í símtali að skytturnar tilheyrðu líklega andstöðunni:

Uppþotin höfðu einkenni stríðs frá byrjun
Sharmine Narwani, búsett í Bretlandi, er fréttaskýrandi einkum um Miðausturlönd sem skrifað hefur fyrir Guardian, Al Jazeera, New Yourk Times, RT m.m. Hún hefur m.a. reynt að gera sér grein fyrir fjölda fallinna sýrlenskra hermanna í upphafi átakanna. Þeir fyrstu féllu í og við bæinn Daraa seinni hluta mars 2011. Að hluta til reyndi Sýrlandsstjórn í fyrstu að leyna mannfalli, einnig hermanna, til að æsa ekki tilfinningar eða sýna eigin veikleika. Narawani nefnir um 20 hermenn drepna í fyrirsát á leið til Daraa um mánaðarmótin mars/apríl. Hún sá svo lista yfir 88 hermenn sem féllu á ýmsum stöðum í Sýrlandi í aprílmánuði þetta vor, þ.á.m. 19 fallna í Daraa 25. apríl.
Ísraelska fréttastöðin The Israel National News Report fjallaði öðrum fyrr um atburðina í Daraa og sagði m.a. í frétt í blábyrjun ofbeldisins, 21. mars 2011: „Sjö lögreglumenn og a.m.k. fjórir mótmælendur í Sýrlandi hafa verið drepnir í áframhaldandi ofbeldisfullum árekstrum sem blossuðu upp í bænum Daraa sunnarlega í landinu á fimmtudag.“

Í febrúar 2012 skrifaði Sharmine Narwani grein þar sem hún reyndi að leggja mat á tölur fallinna í Sýrlandi fyrsta ár átakanna og studdist þá einkum við tölur sem Mannréttindafulltrúi SÞ gaf út fyrstu misseri átakanna en hætti því svo. Narwani skrifar. „Ef við göngum út frá tölum um fallna frá Mannréttindafulltrúa SÞ, um 5000 – síðasta opinbera tala sem sú stofnun gaf út – þá er spurning hvort það sé hlutfallslega há tala borin saman við u.þ.b. 2000 hermenn Sýrlandshers og annarra öryggissveita sem hafa verið drepnir síðan í apríl 2011.“
Þetta gefur augljóslega mynd sem er æði ólík þeirri sem við höfum verið skipulega fóðruð með frá upphafi átakanna. Meðan gengið gat sögðu stóru fréttastofurnar í USA – og þá náttúrlega jórturfréttastofurnar á Íslandi – að í Sýrlandi væri sýrlenski herinn stöðugt að drepa „friðsama mótmælendur“. Ekkert var talað um að „mótmælendur“ væru þungvopnaðir, fyrr en býsna skyndilega að ljóst varð að hinir „friðsömu mótmælendur“ réðu yfir voldugum her og höfðu á valdi sínu stóra hluta landsins. Sagan um það hvernig meginuppistaða andspyrnunnar í Sýrlandi breyttist frá „hófsömum“ „lýðræðisöflum“ í skrýmslið ISIS, gegnum skyndilega stökkbreytingu sumarið 2014 hangir ekki saman frekar en lygasagan um upphaf stríðsins. En um það verður ekki fjallað hér. Niðurstaða þessarar greinar er hins vegar að uppreisnin í Sýrlandi hafi haft einkenni stríðs frá upphafi. Og það voru aðrir þættir en „harkaleg viðbrögð“ stjórnvalda gegn „friðsömum mótmælendum“ sem réðu því að svo varð.

No comments:

Post a Comment