Sunday, January 20, 2013

Goldman Sachs & ‘Masters of the Eurozone‘


Goldman Sachs er fjármálaráðgjafi fyrir nokkur ráðandi fyrirtæki heims, nokkur voldugustu stjórnvöld heims og auðugustu fjölskyldur. Fjármálafyrirtækið er megingerandi á verðbréfamarkaði bandaríska fjármálaráðuneytisins.
Í apríl 2010  hóf bandaríska fjármálaeftirlitið (Securities and Exchange Commission) málsókn gegn Goldman Sachs fyrir að hafa blekkt viðskiptavini sína í undirmálslána-hneykslinu svokallaða. Goldman Sachs hjálpaði grísku ríkisstjórninni árið 2001 við að fela skuldir Grikklands svo að landið liti út sem hæfur kandídat til að taka upp evru.
Einhver skyldi halda að fjárfestingabanki með slíka sögu hefði misst áhrif sín eftir bankahrunið 2008 og síðan evrukreppuna. Svo er þó ekki. Menn nátengdir Goldman Sachs sitja eða hafa undanfarin misseri setið í lykilstöðum í ESB-batteríinu og í toppstöðum í  sjö löndum á evrusvæðinu, sem forsætisráðherrar og seðlabankastjórar. Ýmist hafa þeir farið úr pólitískum valdastöðum til bankans eða úr bankanum til pólitískra valda. Þessum hrókeringum er mjög stjórnað beint frá stjórnstöðvum ESB og klúbbum fjármálavaldsins en þær fara hins vegar að miklu leyti fram yfir höfðum þjóðþinga og þjóðkjörinna stofnana. Og stefnu þessa býrókratíska valds gagnvart skipulegri verkalýðshreyfingu hef ég áður lýst í grein.
Hér að neðan má sjá „drengjaklúbb Goldman Sachs" sem á undanförnum árum hefur setið marga hæstu valdastóla í evrópskum fjármálum og stjórnmálum. Samantektin er sótt í rúmlega ársgamla grein í The Independent:
goldman.jpg

Mario Draghi. Ítalíu.
Forseti Evrópska seðlabankans (höfuðstöðvar í Frankfurt). Áður bankastjóri Seðlabanka Ítalíu og framkvæmdastjóri Goldman Sachs International.
Otmar Issing, Þýskalandi.
Var í yfirstjórn Evrópska seðlabankans 1998-2006 og áður í stjórn þýska Bundesbank. Einn af arkítektum evrunnar. Nú ráðgjafi hjá Goldman Sachs.
Mark Carney, Englandi
Yfirbankastjóri Bank of England. Áður bankastjóri Bank of Canada og framkvæmdastjóri í Goldman Sachs.
Lucas Papademos, Grikklandi
Forsætisráðherra Grikklands 2011-12. Fyrrum bankastjóri Seðlabanka Grikklands á þeim tíma er skuldir Grikklands voru lækkaðar á pappírnum með hjálp Goldman Sachsárið 2001 (til að undirbúa upptöku evru í Grikklandi 2001) og aftur síðar. Síðar var hann varaforseti Evrópska seðlabankans þar til hann varð forsætisráðherra 2011.
Petros Christodoulou. Grikklandi
Yfirmaður skiptastjórnar þeirrar sem stjórnar nú skuldum gríska ríkisins. Hóf frama sinn innan Goldman Sachs í London og Kanada.
Mario Monti, Ítalíu
Forsætisráðherra Ítalíu. Áður í Framkvædastjórn ESB og síðan alþjóðlegur ráðgjafi hjáGoldman Sachs.
Antonio Borges, Portúgal/Frakklandi
Stjórnar nú einkavæðingunni í Portúgal í samvinnu við „Þríeykið" (Evrópska seðlabankann, Framkvæmdastjórnina og AGS). Var fram til 2011 yfir Evrópusviði AGS og þar áður varaforseti Goldman Sachs.
Peter Sutherland, Írlandi
Framkvæmdastjóri í Goldman Sachs International. Áður Ríkissaksóknari á Írlandi og fulltrúi Írlands í Framkvæmdastjórn ESB
Samantektin sýnir m.a. þrennt: 1) að fjármálaauðvaldið hefur ekki veikst þrátt fyrir fjármálakreppuna, fjármálavæðingin heldur áfram og „2007" varir enn, 2) í öðru lagi sést mikið nábýli stjórnmálaheimsins og fjármálaheimsins, jafnt í Evrópu sem Bandaríkjunum og 3) loks sýnir þetta hin nánu tengsl á efsta plani auðs og valds milli ESB og USA þar sem sá síðarnefndi er stóri bróðir. /ÞH

No comments:

Post a Comment