Inngangur eftir Þórarin Hjartarson og grein eftir Patrik Paulov
Í Speglinum 27. júní fjallaði Kári Gylfason um Sýrlandsstríðið. Hann hafði þar eftirfarandi eftir bandarískum blaðamanni, Jonathan Spyer: „Sýrland er ekki lengur til. Því hefur þegar verið skipt upp í sjö aðskilda hluta.“ (heimild) Greining Kára studdist einkum við grein frá 19. maí í ritinu Foreign Policy – sem er mjög miðlægt í bandarískri utanríkisumræðu og mætti kalla málgagn „The Deep State“ vestan hafs. Í greininni skýrir Spyer nánar skiptinguna í sjö svæði: „...svæðið undir yfirráðum stjórnarinnar, þrjú aðskilin svæði undir stjórn uppreisnarmanna, tvær kúrdneskar kantónur og ISIS-svæðið.“ Aftar í greininni slær hann föstu: „Sýrlandi verður skipt á milli stjórnarhlutans í vestri, uppreisnarmanna súnníaraba í norðvestri og suðvestri, svæði tyrknesk-studdra uppreisnarmanna í norðri, SDF-stýrða svæðið í norðaustri og loks eitthvert fyrirkomulag á austursvæðinu sem felur í sér yfirráð bæði SDF og vestrænt studdra araba.“ Stöðu síðastnefnda svæðisins, austursvæðisins, orðaði hann svo á öðrum stað: „...og æ opinskárri stuðningur Bandaríkjanna við þessar sveitir opnar möguleikann á að USA-studdur landshluti verði til austan Efrats“. (heimild)
Þessi greining er auðvitað ekki persónulegt álit Kára Gylfasonar. Hún er ekki heldur greining blaðamannsins Jonathan Spyers. Þetta er línan sem nú er við lýði í Washington (RÚV leitar aldrei annað eftir réttri túlkun átakanna í Miðausturlöndum). Hugveitan RAND Corporation, sem er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn, hefur á undanförum árum árlega birt nokkuð sem hún kallar „Peace Plan for Syria“. Nýjasta áætlunin „Peace Plan for Syria III“ sem lögð var fram í febrúar sl. (ég deildi henni á fésbók SHA 26. febr.) er nánast orðrétt samhljóða framtíðarsýn Spyers um Sýrland. (heimild)
Þessi greining/áætlun hefur nokkur megineinkenni: Hún gerir reginmun á annars vegar ISIS og hins vegar allri annarri vopnaðri andstöðu sem kölluð er „uppreisnarmenn“. Greiningin horfist að nokkru í augu við slæmt gengi vopnuðu andstöðunnar í Sýrlandi undanfarið, einkum tapaða orustu um Aleppo, og þann veruleika að Assadstjórnin muni ekki falla, eins og stefnt var að framan af stríðinu. En strategistarnir í Washington aðlaga nú strategíu heildarstríðsins að þessum veruleik, og þeir ætla síst af öllu að gefa eftir allt „gamla“ Sýrland. Strategían um sundurlimun/balkaníseringu landsins hefur oft verið kölluð „plan B“. Þessi uppfærða áætlun gerir ennfremur ráð fyrir beinni og opinskárri hernaðarþátttöku Bandaríkjanna en áður, nefnilega opinni þátttöku í stríðinu gegn Sýrlandsstjórn. Ennfremur er ljóst að hersveitum „Syrian Democratic Force“ (SDF), sem er borinn uppi af sveitum Sýrlands-Kúrda, er ætlað algjört burðarhlutverk í hinni uppfærðu áætlun. Kóngur vill sigla – en byr mun ráða. Það er þess vegna alls óvíst að þessi áform heimsvaldasinna heppnist fremur en þau sem fyrr voru lögð um Sýrland.
Hér að neðan fylgir annars konar greining á stöðu og horfum í Sýrlandsstríðinu nú sumarið 2017, séð út frá þjóðarhagsmunum og þjóðernisminnihlutum Sýrlands. Hún er sótt til blaðamannsins Patrik Paulov hjá sænska blaðinu Proletären 22. júní. Þessa greiningu vil ég gera að minni og hef þess vegna þýtt hana á íslensku.
Bandaríkin reyna að höggva austurhluta Sýrlands af – Sýrlandsstjórn gerir gagnsókn eftir Patrik Paulov
Í Austur-Sýrlandi fer fram aflkeppni sem hefur þýðingu fyrir valdajafnvægið í öllum heimshlutanum. Bandaríkin koma æ opinskár fram með herlið á sýrlensku landi og ráðast á land- og flugher Sýrlands.
En sýrlensk stjórnvöld hafa með aðstoð Rússlands og Írans hafið sókn gegn tilraununum til að lima austursvæðin af landinu.
Patrik Paulov |
Nýlega hófu Persaflóaríkin Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin tilraun til að svelta út Katar. Ein af orsökum fyrir viðskiptabanninu er að Katar af efnahagslegum ástæðum og ástæðum raunsæisstjórnmála hefur tekið upp sáttfúsa afstöðu til nágrannalandsins Írans.
Viðskiptaþvinganirnar endurspegla vaxandi spennu í Miðausturlöndum eftir heimsókn Trumps til Sádi-Arabíu og Ísraels í maí. Forsetinn útnefndi þá Íran ásamt bandamönnum sem uppsprettu hryðjuverka og þar með höfuðóvin Bandaríkjanna.
Katardeilan sýnir jafnframt hve flókin og þversagnakennd staðan í Miðausturlöndum er orðin eftir áratugi af imperíalískum íhlutunum. Bandaríkin eru í bandalagi við bæði Katar og löndin sem reyna að brjóta það á bak aftur. Og löndin sem greinilegast hafa snúist til varnar Katar – Tyrkland og Íran – eru óbeint í stríði innbyrðis þar sem þau styðja hvort sína hliðina í Sýrlandsdeilunni.
Það er líka á sýrlenskri grund sem fram fer aflkeppni sem hefur mikla þýðingu fyrir framtíð Sýrlands og framtíð heimshlutans. Lengi hefur Sýrlandsher, studdur af Rússlandi, Íran og Hizbolla frá Líbanon unnið sístækkandi landsvæði. Vígahóparnir hafa tapað yfirráðasvæðum í Aleppó og öðrum héruðum og þeir hafa veikst af innri átökum. Öfgahópar í Sýrlandsstríðinu, studdir ýmist af Sádum eða Katar, hafa háð blóðugar orrustur sem er afleiðing af deilunni milli landanna tveggja.
Að undanteknu Idlib-héraði í norðvestri sem er undir yfirráðum al-Kaída öfgatrúarmanna eru í meginatriðum allir bæir og þéttbýlisstaðir í versturhluta Sýrlands undir yfirráðum stjórnarinnar.
Þau NATO-lönd og Persaflóaríki sem árum saman hafa þjálfað og vopnað þessa hópa eru áhyggjufull. Og vandamálið virðist ennþá stærra þegar Íslamska ríkið (ISIS) er að brotna saman í Írak og Sýrlandi og valdatómið eftir hryðjuverkasamtökin verður að fyllast.
Í Írak vinna Bandaríkin með Íraksstjórn sem getur yfirtekið borgir og bæi er Íslamska ríkið hverfur á braut. Í Sýrlandi er það hins vegar átakaefni hver eigi að leggja undir sig ISIS-svæðin í hinum dreifbyggða austurhluta landsins.
Út frá alþjóðalögum er svarið einfalt. Það er hin löglega og SÞ-viðurkennda ríkisstjórn Sýrlands sem hefur réttinn til að stjórna sýrlensku svæði og enginn annar.
Bandaríkin og það bandalag sem risaveldið leiðir viðurkennir það ekki. Það þvert á móti er greinilegt að bandalagið reynir að hindra að Sýrlandsstjórn yfirtaki stjórn á þeim svæðum sem ISIS er rekið frá. Það er það sem átökin um borgina Raqqa snúast um.
Í febrúar 2016 birti Proletären grein með titlinum „Hver nær Raqqa fyrst“? Við slógum föstu að væntanlegur ósigur vígahópanna í Aleppo-héraði fengi bakmenn þeirra, NATO-löndin og Persaflóaríkin, til að beina sjónum að svokölluðum höfuðstað ISIS, Raqqa í norðaustur Sýrlandi. Það sem ekki lá fyrir þá var hvaða landher Bandaríkin gætu veðjað á í kapphlaupinu um Raqqa.
Í dag, sextán mánuðum síðar, líður að lokum baráttunnar um Raqqa. Sýrlenskir stjórnarhermenn eru komnir inn í samnefnt hérað og nálgast bæinn úr suðvestri. Herinn hefur frelsað marga bæi frá hryðjuverkamönnum ISIS.
En það afl sem Bandaríkin kusu að veðja á, Syrian Democratic Force (SDF), hafa með bandarískri hjálp þegar náð til borgarinnar.
SDF samanstendur að mestu leyti af hersveitum sýrlensk-kúrdíska flokksins PYD. PYD er nátengt PKK, Kúrdíska verkamannaflokknum í Tyrklandi, sem er stimplaður sem hryðjuverkasamtök í Bandaríkjunum og af ESB. Þrátt fyrir tyrkneska andstöðu hafa stjórnvöld í Washington staðsett bandarískan herafla á yfirráðasvæði SDF í Norður-Sýrlandi. Í vor ákvað svo Trump-stjórnin að leggja SDF til vopn.
Að a.m.k. 700 bandarískir hermenn séu staðsettir í Sýrlandi er í þjóðréttarlega jafn ólöglegt og að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa í þrjú ár varpað sprengjum á sýrlensk lönd án heimildar frá ríkisstjórn landsins. Alveg eins og það er þjóðréttarlega ólöglegt að önnur ríki haldi við stríðinu með því að vopna hópa innan Sýrlands.
Það er margskyns orsakasamhengi í því sem gerist. Að sýna fram á „frelsun “ Raqqa væri áróðursvinningur fyrir Trump sem hefur oft slegið föstu að Bandaríkin muni sigra ISIS. Raqqa er auk þess hernaðarlega mikilvæg borg með olíu- og gaslindir í næsta nágrenni.
Stjórnandi yfirvöld í Norður-Sýrlandi, því sem Kúrdarnir áður nefndu Rojava, halda fram að stríðið gegn ISIS sé frelsisstríð sem sé háð á þeirra forsendum og geti leitt til lýðræðis og friðar í öllu Sýrlandi. Evrópufulltrúi þeirra, Sinem Muhammed, segið við Proletären að það sé alþýðan sem hagnist mest og að SDF sé alls ekki notað af heimsvaldasinnum.
Öll söguleg reynsla sýnir að það sem við sjáum í Norður-Sýrlandi er nokkuð annað. Bandaríkin hafa aldrei stuðlað að því að hjálpa undirokuðum þjóðum eða byggja upp lýðræði þó að slíkar ástæður hafi verið tilfærðar fyrir ólöglegum innrásarstríðum og valdaskiptaaðgerðum.
Að Bandaríkin vilji sýnast besti vinur Sýrlands-Kúrda snýst um það að það þjónar hagsmunum þeirra þessa stundina. En það sem gildir í dag þarf ekki að gilda á morgun, ef kappsmál Kúrda fara í blóra við efnahagslegt og valdapólitískt brölt Bandaríkjanna.
Það sem Bandaríkin gera í Sýrlandi líkist sígildri taktík heimsvaldasinna. Að drottna með því að deila, að styðja þjóðernislega og trúarlega minnihlutahópa til að kljúfa lönd og gegnum það ná áhrifum, og geta svo hvenær sem er skipt um bandamenn út frá því hvað þjónar eigin hagsmunum.
Augljóslega er það miklu mikilvægara fyrir Bandaríkin að „vinir“ þeirra taki Raqqa en að hryðjuverkamennirnir séu sigraðir. Það staðfestist af því að 18. júní skutu Bandaríkjamenn niður sýrlenska flugvél sem studdi sókn Sýrlandshers gegn ISIS vestur af Raqqa. Að sýrlenska flugvélin réðist ekki gegn kúrdneska SDF heldur ISIS-hryðjuverkamönnum var staðfest af Sýrlensku mannréttindavaktinni, andstöðu-fréttastofu sem oft er vitnað til í Vestrinu.
Það eru líka heimildir til um að stríðsmenn ISIS fái að fljúga suður frá Raqqa í átt til Deir Ezzor. Í þeim bæ halda stjórnvöld velli en bærinn hefur lengi verið umsetinn af ISIS.
Aflkeppnin fer fram á mörgum sviðum. Bandaríkin hafa, m.a. í samvinnu við norskar og breskar hersveitir, komið upp nokkrum herstöðvum í Suðaustur-Sýrlandi, nærri landamærum Jórdaníu. Markmiðið er að þjálfa og vopna nýjan uppreisnarher sem á að geta sótt norður og tekið yfir er ISIS er hrakið á flótta.
Frá þessu er sagt berum orðum af alþjóðlegum fréttastofum. Áætlunin sem kemur í ljós er sú að SDF í norðri og vopnuðu sveitirnar í suðri eigi að mætast og sjá til þess að allt Austur-Sýrland verði ekki undir yfirráðum sýrlenskra stjórnvalda þegar ISIS er horfið.
Bandaríkin hafa á síðustu mánuðum í mörgum tilvikum gert loftárásir á sýrlenska stjórnarherinn til að stöðva framrás hans nálægt bandarísku herstöðvunum á sýrlenskri grund. Svo fáránlegt sem það hljómar staðhæfa Bandaríkin, sem gera sig sek um ólöglega innrás, að þau skjóti á her stjórnvalda í sjálfsvarnarskyni.
Baráttan um hin löngu austurlandamæri Sýrlands hefur mikla hernaðarlega þýðingu. Sýrlandsstjórn vill ná stjórn á svæðinu og umferðinni yfir til Íraks til að tryggja viðskipti og stjórna flutningi á vörum og vopnum. Það myndi bæta lífskjör sýrlensks almennings og styrkja Sýrlandsher.
Að opna landsamgöngur frá Líbanon í vestri til Írans í austri væri samtímis hagstætt fyrir öll lönd á þessari samgönguleið. Ekki síst hefði Íran mikinn hag af því vegna vaxandi hótana og refsiaðgerða Trumpstjórnarinnar.
Þetta er ástæða þess að Sýrlandsstjórn ásamt bandamönnum hefur hafið sókn til að reka inn fleyg á milli SDF og ISIS í norðri og uppreisnarmanna í suðri. Þann 9 júní náði sýrlenski stjórnarherinn í fyrsta sinn frá 2015 landamærum Íraks og kom upp varðstöð norðan við eina af herstöðvum Bandaríkjanna í Suðaustur-Sýrlandi. Seinna náðu íraskar sveitir landamærasvæðinu sín megin í samstilltu átaki með Sýrlendingum.
Þar með var um sinn girt fyrir áætlanir heimsvaldasinna.
Hvað kemur út úr yfirstandandi aflkeppni í Austur-Sýrlandi ætlum við ekki að hafa getgátur um. Ef eitthvað einkennir undanfarin sex ár er það snöggar vendingar í stríðinu og áherslubreytingar hjá ríkjunum að baki valdaskipta-uppreisninni.
Hver veit hvað hinn óútreiknanlegi Trump gerir næst í Sýrlandi, eða að hve miklu leyti Bandaríkin ætla í alvöru að reyna að koma á valdaskiptum í Íran, eins og Rex Tillerson utanríkisráðherra tjáði 13. júní við utanríkismálanefnd Fulltrúadeildarinnar. Fremur en nokkuð annað myndi það skapa öngþveiti í öllum heimshlutanum.
Hver veit hvaða gagnráðstafanir Pútín forseti og Lavrov utanríkisráðherra gera til að stöðva bandarískar árásir á sýrlensk hernaðarleg skormörk og til að koma á þeim pólitísku friðarsamningum sem þeir hafa stefnt að í áráraðir. Eða hvað Rússar hyggjast gera til að hindra að fleiri vinir Rússlands í heimshlutanum verði fyrir eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðum.
Hver veit í hvaða formi og með hvaða krafti ISIS mun lifa áfram eftir að kalífadæmi þeirra er rústað og á hvern hátt hryðjuverkastefnan verður notuð áfram sem yfirvarp fyrir nýjum hernaðarlegum landvinningum.
Við því verður að segja að stríðið er alls ekki heldur búið í Vestur-Sýrlandi. Þrátt fyrir góðan árangur getur Sýrlandsstjórn varla til lengdar látið Idlib-hérað standa eftir sem virki fyrir al-Kaídahópa og hryðjuverk þeirra gegn sýrlensku þjóðinni.
(Íslensk þýðing: Þórarinn Hjartarson)
No comments:
Post a Comment