(Birt á fésbókarsíðu SHA 16. okt 2016)
Í frétt RUV núna 15. október segir: "Massud Barzani, leiðtogi Kúrda í Írak, segir að undirbúningi fyrir árás á borgina Mosul sé lokið og ekkert til fyrirstöðu að láta til skarar skríða... Allt að ein milljón manna kunni að hrekjast á vergang vegna þeirra. Barzani sagði að forystumenn Kúrda og ráðamenn í Bagdad hefðu ákveðið að skipa sameiginlega aðgerðastjórn sem annast myndi skipulag og hafa umsjón með þróun mála í Mosul eftir að vígamenn hefðu verið hraktir þaðan. Barzani kvaðst vona að allt færi vel og að íbúar Mosul yrðu frelsaðir undan harðstjórn Íslamska ríkisins." Íhugum þetta. Ein milljón mun fara á vergang! Við heyrum lítið af vorkunnsemi Vestursins gagnvart íbúum Mosul. Þó er neyðin þarna stærri í sniðum en í Austur-Aleppo þar sem aðeins um 200 þúsund íbúar eru eftir. Það hefur trúlega með það að gera að í Mosul er það ekki hinn illi Assad sem reynir að sigrast á uppreisnaröflunum heldur Íraksstjórn og sérstaklega kúrdneski USA-leppurinn Barzani.
Það sem við heyrum af sannleik um Íraksstríðið í vestrænni pressu er helst það sem ráðamenn hermála stöku sinnum „missa út úr sér“. Nú snýst fréttaflutningurinn mest um borgina Aleppo. Ráðamenn á Vesturlöndum reyna að höfða mál gegn Assad/Rússum fyrir stríðsglæpi í Aleppo. Við fáum að heyra að þar séu hófsöm uppreisnaröfl og saklausir borgarar undir stöðugu regni af tunnusprengjum frá Assad með aðstoð Rússa. En við hverja berst Assad í Aleppo? Á fréttamannafundi í apríl í vor talaði Seve Warren ofursti, talsmaður Pentagons, um Aleppo og „missti út úr sér“ mikilvægt atriði, að það væri hin opinbera Al Kaídadeild, Al-Nusra, í Sýrlandi sem væri aðalaflið í andspyrnunni gegn Assad í borginni: „That said, it's primarily al-Nusra who holds Aleppo.“ Einu sinni (2001) þótti sjálfsagt að fara í stórstríð við heilt land, Afganistan, til að jafna um Al Kaída, en öðru máli gegnir ef Sýrlandsstjórn vill endurheimta stærstu borg sína frá sömu öflum. Svona er réttlætið teygjanlegt.
No comments:
Post a Comment