Friday, April 5, 2019

Orkupakkinn og pólitísku línurnar í Noregi

(birtist á fésbók Sósíalistaflokks Íslands)

VG styður nú orkupakkann gráa. Hér á síðu Sósíalistaflokksins vilja sumir stuðningsmenn pakkans stimpla alla andstæðinga hans sem þjóðernispopúlista (fundur Ögmundar á morgun t.d. nefndur „áróðursfundur þjóðernissinna“). Viðskiptablaðið hafði í vikunni áhyggjur af Noregi af því öll EFTA-lönd þurfa að samþykkja til að pakkinn virki: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn... Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar... færu að hafna pakkanum.“ 

Ég skoðaði þess vegna norsku blöðin. Meirihluti norska Stórþingsins samþykkti þriðja pakkann 22. mars í fyrra. En skoðanakannanir bentu þá til að mikill meirihluti þjóðarinnar væri á móti. Og hvernig lágu pólitísku línurnar í Stórþinginu? MEÐ PAKKANUM voru Hægri-flokkurinn, Framfaraflokkurinn (eini flokkur Noregs kenndur við hægripopúlisma), Verkamannaflokkurinn (mjög klofinn samt), Græningjar og Venstre (miðjuflokkur þrátt fyrir nafnið). Á MÓTI PAKKANUM voru Sósíalíski vinstriflokkurinn (systurflokkur VG), Rauðir (Rødt), Miðjuflokkurinn og Kristni þjóðarflokkurinn. Varðandi Verkamannaflokkinn má geta þess að AUF (ungliðar flokksins) var á móti og flokkurinn sjálfur líka í 12 af 18 fylkjum Noregs. Og í sama mánuði og Stórþingið sagði já sagði LO (norska ASÍ), öll framkvæmdastjórnin samhljóða, nei. Og auðvitað bændasamtökin, Norges bondelag og Norges bonde- og småbrukarlag. Grófu línurnar í Noregi eru þær að kapítalið og stofnanavaldið segir já en verkalýðshreyfing, vinstri menn og dreifbýli segja nei – og meirihluti þjóðarinnar. Væri þá stórundarlegt ef einungis þjóðernispopúlistar segðu nei á Íslandi.

Bjørn Moxnes, formaður flokksins Rødt (sem er í vinsamlegum samskiptum við Sósíalistaflokkinn?) situr á Stórþinginu. Eftir atkvæðagreiðsluna batt hann helst vonir við Alþingi Íslendinga og sagði við Norska útvarpið (í Noregi er pakkinn kenndur við orkustofnunina Acer): „Vi gir oss ikke. Dette slaget tapte vi, men på Island er regjeringa mot Acer, og Island må si ja til Acer, hvis også Norge skal bli med.“

1 comment:

  1. Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
    Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
    Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
    Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
    Netfang: atlasloan83@gmail . com
    whatsapp / hangout + 14433459339

    ReplyDelete