Friday, April 28, 2017

Norður-Kórea og "djöflarnir" í heimsvaldakerfinu

(birtist á fésbók SHA 26. apríl og heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 4. maí 2017)

                                       Skopmynd af Kim Jong-ún þjóðhöfðingja Norður-Kóreu
Í dag, 26. apríl, boðar Trump alla Öldungadeildina í Hvíta húsið til að ræða ógnina sem stafar af N-Kóreu sem sé „alvarlegt vandamál fyrir allan heiminn“. Þegar Bush-stjórnin útnefndi „öxulveldi hins illa“ eftir 11. september var Norður-Kórea á þeim lista. Hin voru Íran, Írak, Kúba, Líbía og Sýrland. Síðan er hálfur annar áratugur liðinn og önnur ríki hafa bæst á óvinalista USA, nefnd nöfnum eins og „harðstjórnir“ og „bófaríki“: Venezuela undir Chavez og áfram, Súdan, Zimbabwe, Úkraína líka um tíma og í seinni tíð einkum Rússland. Þegar Bandaríkin hafa gefið ríkjum slíka stimpla fylgja bandamennirnir í Vesturblokkinni (NATO + ESB) alltf dæmi þeirra. 
 
Hin útlægu ríki eru sem sagt stimpluð „harðstjórnir“, „einræði“ og þaðan af verra og fá svo meðferð í samræmi við það: Áróðursmaskínan mikla djöfulgerir (demóníserar) viðkomandi, svo koma efnahagslegar refsiaðgerðir, diplómatísk einangrun og valdaskiptaaðgerðir í formi innri „uppreisna“ fjármagnaðra utanlands frá, tilraunum til „litabyltinga“ sem stjórnað er utanlands frá – eða bein innrásarstríð.

Ef við horfum gagnrýnu auga á þessar stimplanir sem koma frá Washington og helstu valdamiðstöðvum Vesturlanda og spyrjum hvað þessi útlagaríki hafi raunverulega til saka unnið kemur yfirleitt í ljós að höfuðglæpur þeirra er skortur á undirgefni við Vestrið.

Útlagaríkin eiga almennt það sameiginlegt að hafna kröfum USA og bandamanna um a) frjálsar fjárfestingar og b) aðstöðu fyrir herstöðvar. Eftir lok kalda stríðsins um 1990 varð sú stefna fljótt ráðandi meðal vestrænna „hnattvæðingarsinna“ að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði vestrænna, fjölþjóðlegra auðhringa. Bandaríkin hafa alls um 900 herstöðvar utan lands og hernaðaraðstöðu í 130-150 löndum, og þú neitar ekki USA um hernaðaraðstöðu ef þú villt vera í „hlýjunni“. Stjórnvöld í Íran, Írak og Líbíu áttu lengi það sameiginlegt að vilja hnekkja valdi dollarsins í alþjóðaviðskiptum, ekki síst olíuviðskiptum. Gaddafí fór m.a.s. fyrir hreyfingu um ný samtök Afríkuríkja og nýtt  fjármálakerfi þeirra þar sem sameiginlegur gjaldmiðill þeirra yrði gulldínar í stað dollars. Það var margföld dauðasök.

Glæpur Pútíns er augljós. Á 10. áratug fékk Rússland sjokkþerapíu einkavæðingar undir leiðsögn AGS og Jeltsín var USA/NATO-veldum undirgefinn. Vestrænir auðhringar sáu fyrir sér eilífar veiðilendur fjárfestinga um allt gamla Sovétsvæðið. NATO tók mikinn sprett landvinninga í austur og lýsti því m.a. yfir 2008 að bæði Úkraína og Georgía innan skamms „munu verða aðildarlönd NATO“. En Pútín eyðilagði þau bjartsýnu áform í Ossetíu og Afkasíu það ár og svo á Krím 2014. Og fór svo að styðja „viðnámsöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum. Djöfuls Rússneski risinn sem var kominn á hnén hafði sem sagt brölt á fætur aftur! Nú duga engir silkihanskar!

Berum að lokum saman tvö lönd sem koma mjög við sögu vestrænnar heimsvaldastefnu. Víetnam og Norður-Kóreu. Eftir sigurinn á heimsvaldasinnum 1975 hóf Víetnam fyrst þjóðlega uppbyggingu, mótað af sovétbýrókratísku stjórnkerfi en fljótlega samt með miklum „markaðslausnum“. En eftir fall Sovét og kapítalíska umbyltingu Kína missti landið sína pólitísku bakhjarla og markaðshyggjan varð alveg ofan á. Víetnam sveigði þá fljótt af hinni þjóðlegu stefnu, opnaði sig fyrir hnattvæðingunni, bauð fram auðlindir landsins til alþjóðlegra auðhringa ásamt afar ódýru og réttindasnauðu vinnuafli, umfaðmaði stofnanir eins og WTO og TPP (Trans-Pacific Partnership), tók svo upp hernaðarsamvinnu við Bandaríkin, m.a. í umkringingu Kína, nokkuð sem var staðfest í heimsókn Obama til landsins á síðasta ári. (heimild)

Norður-Kórea hins vegar hefur frá upphafi (eftir tortímandi stríð og vopnahlé 1953) treyst á efnahagslegan sjálfsbjargarbúskap – og hélt því áfram eftir lok kalda stríðsins – ásamt því að halda fast við ríkiseign á helstu framleiðslutækjum og miðstýrðan áætlanabúskap með takmarkaða aðstöðu fyrir erlenda fjárfesta – og að sjálfsögðu enga hernaðaraðstöðu heimsvaldasinna í landinu. Stefna þeirra brýtur u.þ.b. allar reglur vestrænnar hnattvæðingar. Viðbrögðin létu aldrei á sér standa, með orðum Mike Whitney: „Bandaríkin hafa kallað yfir landið hungursneyð, meinað stjórn þess um aðgang að erlendu fjármagni, kæft efnahag þess með lamandi refsiaðgerðum og komið upp dauðlegum eldflaugakerfum og herstöðvum við landamærin.“ Sjá hér grein um N-Kóreu og Vestrið



Það sem hinir útnefndu „djöflar og útlagar“ eiga sameiginlegt er ekki „harðstjórn“ umfram önnur lönd. Ekki heldur árásarhneigð, það að boða hættu fyrir umheiminn. Djöfulgerðu útlagaríkin hafa hreint ekki sýnt árásarhegðun gagnvart nágrönnum með einni undantekningu: Írak réðist á Íran (með fullum stuðningi USA) og Saddam réðist á Kúvaít (margt bendir til að USA hafi þar leitt hann í gildru). Það sem útlagarnir eiga sameiginlegt er andstaða við bandaríska og vestræna yfirráðastefnu og hnattvæðingu. Það er hún sem er vandamálið, ekki „harðstjórarnir“ í Norður-Kóreu eða annars staðar.

Thursday, April 20, 2017

Varnir Norður-Kóreu

Í hvert skipti sem við heyrum eitthvað um Norður Kóreu er það til að útmála bjálsemina sem þar ríki og ráði. Þar ráði óðir menn sem ógna og skjóta í kringum sig með eldflaugum og gjöreyðingarvopnum. Þá er frískandi og glöggvandi að lesa stórgóða grein eftir Mike Whitney á CunterPunch. Hann segir einfaldlega: „Most people think the problem lies with North Korea, but it doesn’t. The problem lies with the United States“
„In the 64 years since the war ended, the US has done everything in its power to punish, humiliate and inflict pain on the Communist country. Washington has subjected the DPRK to starvation, pre vented its government from accessing foreign capital and markets, strangled its economy with crippling economic sanctions, and installed lethal missile systems and military bases on their doorstep.“
Það eru Bandaríkin sem neita að semja um frið og halda N-Kóreu í spennitreyju vopnahlés með herflugvelli og skotflaugar óvinanna rétt við landamærin og sífelldar flotaæfingar undan ströndum, og hafa gert í yfir 60 ár. Þetta gera Bandaríkin til að ógna ríkinu til að láta undan og beygja sig. En það munu Norður-Kóreumenn ekki gera en hafa í staðinn þróað nokkurt kjarnorku-vopnabúr. Og Whitney heldur áfram:
„There’s no country in the world that needs nuclear weapons more than North Korea... And let’s be honest, the only reason Kim Jong Un hasn’t joined Saddam and Gadhafi in the great hereafter, is because (a)– The North does not sit on an ocean of oil, and (b)– The North has the capacity to reduce Seoul, Okinawa and Tokyo into smoldering debris-fields.“
Whitney skýrir í kröftugu máli ástæðurnar fyrir hatri og miklum ótta Norður-Kóreumanna við óvin sinn Bandaríkin. Á tveimur árum drap Bandaríkjaher yfir 2 milljónir eða 20% þjóðarinnar.
“In the early 1950s, during the Korean War, the US dropped more bombs on North Korea than it had dropped in the entire Pacific theater during World War II. This carpet bombing, which included 32,000 tons of napalm, often deliberately targeted civilian as well as military targets, devastating the country far beyond what was necessary to fight the war. Whole cities were destroyed, with many thousands of innocent civilians killed and many more left homeless and hungry….
According to US journalist Blaine Harden: “Over a period of three years or so, we killed off — what — 20 percent of the population,” Air Force Gen. Curtis LeMay, head of the Strategic Air Command during the Korean War, told the Office of Air Force History in 1984. Dean Rusk, a supporter of the war and later secretary of state, said the United States bombed “everything that moved in North Korea, every brick standing on top of another.” After running low on urban targets, U.S. bombers destroyed hydroelectric and irrigation dams in the later stages of the war, flooding farmland and destroying crops...“
Hatrið á Bandaríkjunum sem kennt er í skólum Norður-Kóreu byggir sem sagt á bitrum raunveruleika.
"The savagery of America’s war against the North left an indelible mark on the psyche of the people. Whatever the cost, the North cannot allow a similar scenario to take place in the future. Whatever the cost, they must be prepared to defend themselves. If that means nukes, then so be it. Self preservation is the top priority."

Wednesday, April 19, 2017

Fordæmum nýjustu árás Bandaríkjanna á Sýrland!

(Birtist á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 19. apríl 2017)

Vestrænir stuðningsmenn „uppreinsarinnar“ í Sýrlandi vilja einkum ræða það hvort Bashar al-Assad sé góður eða vondur forseti, og vestræn pressa hefur frá 2011 lýst Assad sem mikilli og afbrigðilega kaldrifjaðri skepnu. Ýmsir vinstri hópar og friðarsinnar gangast inn á þessar forsendur og segjast aldrei geta stutt „harðstjóra“ á nokkurn hátt. Slík rökfærsla afvegaleiðir umræðuna. Það er að vísu full ástæða til að benda á að skrýmslismyndin af Assad er pólitískt lituð. Bandaríkin settu Sýrlandsstjórn á listann yfir  „Öxulveldi hins illa“ árið 2001, settu viðskiptabann á landið 2003 og studdu við „uppreisn“ frá 2011 af því stjórnvöld þar voru ekki „vestrænt sinnuð“, ekki með þeim í liði. Nýbirt leyniskjöl sýna raunar að CIA vann að valdaskiptum í Sýrlandi þegar árið 1986. Það má þó fullyrða að Assadstjórnin hefur meira lýðræðislegt umboð en flestar eða allar stjórnir olíufurstanna við Persaflóa sem eru fylgiríki Vestursins í Sýrlandsdeilunni.

Þetta er samt ekki mergurinn málsins. Það er ekkert aðalatriði hvort Assad forseti er mildur eða harður. Aðalatriðið er íhlutun utanaðkomandi afla í málefni Sýrlands. Sérlega alvarlegt er síðasta skref Bandaríkjanna til stigmögnunar Sýrlandsstríðsins þegar þau hafa beint hernaði sínum opinskátt gegn stjórnvöldum Sýrlands. Alþýðufylkingin hlýtur að mótmæla þessu kröftuglega:

Við fordæmum eldflaugaárás Bandaríkjanna á Shayrat flugvöllinn 6. apríl sem inniber stórfellda stigmögnun stríðsins í átt að beinum átökum helstu kjarnorkuvelda heims.

Við mótmælum allri hernaðaríhlutun erlendra ríkja í Sýrland án samþykkis löglegra stjórnvalda landsins, og styðjum rétt Sýrlandsstjórnar til að verja landið fyrir innrásum og einnig staðgengilsherjum studdum utanlands frá.

Nokkrar helstu röksemdir:

a) Þjóðarréttur og sáttmálar SÞ banna ríkjum að hlutast til um innri málefni annars lands. Undantekning á því er aðeins ef um sjálfsvörn er að ræða eða ef til kemur samhljóða ákvörðun Öryggisráðs SÞ um íhlutun. Hvorugt gildir um Sýrland. Þetta bann við íhlutunum bannar hins vegar ekki löglegum stjórnvöldum að biðja um hernaðaraðstoð gegn innri og ytri hættu. Það á við um aðstoð Rússa og Írana við Sýrlandsher.

b) Fordæma verður skefjalausar, síendurteknar valdaskiptaaðgerðir Bandaríkjanna og NATO-ríkja í þessum heimshluta sem vísa til „verndarskyldu“ gegn „harðstjórn“ en valda aðeins ómældri þjáningu, dauða og eyðileggingu.

c) Valkosturinn við Assadstjórnina er ekki lýðræðisleg stjórn heldur kaos og sundurlimun landsins. A.m.k. 2/3 hlutar uppreisnaraflanna í Sýrlandi eru ofstækisfullir íslamistar og örlög Afganistans, Íraks og Líbíu tala skýru máli.

d) Ekki er hægt að berjast gegn Íslamska ríkinu (sem er yfirvarp hernaðar „Alþjóðlega bandalagsins gegn ISIS“ í landinu) og samtímis gegn Assadstjórninni sem er höfuðaflið gegn ISIS. ISIS að sínu leyti er afurð hinnar vestrænu innrásar í Írak sem braut niður samfélagið þar.

e) Það að veikja Sýrland og helst lima það sundur er einnig liður í stórveldaáætlunum Ísraels og Sádi-Arabíu um Miðausturlönd og uppskrift að áframhaldandi stríði og upplausn.

Sunday, April 9, 2017

Trump lætur undan og óbifanleg hernaðarstefnan blífur


Þann 30 mars hafði Reuter eftir Haley sendiherra Trumps hjá SÞ að nú væri „U.S. priority on Syria no longer focused on 'getting Assad out'“. Þetta var mikilvægur sigur fyrir Assadstjórnina, en að sama skapi vandræði fyrir bandaríska stjórnkerfið (í áratugi gírað á hernaðarstefnu í Miðausturlöndum) og herbúðir Vestursins. Þann 4-5. apríl var í Brussel friðar- og hjálparráðstefna fyrir Sýrland á vegum ESB. Þann 3. mars, skrifaði Guardian varðandi þá ráðstefnu: „EU at odds with Trump administration over Assad's role in Syria“. 

En næsta dag, 4. mars, kom eitugasárásin í Idlibhéraði, og Vestrænu fréttastofurnar settu einum rómi og án fyrirvara sökina á Sýrlandsher. Þar með snéru Trump og Tillerson afstöðu sinni leiftursnöggt og sögðu Assadstjórninni stríð á hendur, með einhliða hernaðarðagerðum. Kvöldið áður hafði Tillerson sagt að komandi aðgerðir Bandaríkjanna yrðu „á vegum Alþjóðasamfélagsins“. Þar með voru vandræði Vestursins líka leyst. Alþjóðasamfélagið – þ.e.a.s. Vesturlönd – brugðust vel við, engin mótmæli heyrðust þaðan við stríðsaðgerðunum. Guðlaugur Þór Þórðarson talar með munni þeirra allra og segir það sé eðlilegt að brugðist sé hart við beitingu eiturgass. Ekki þarf að spyrja hver sé gerandinn. Höfum ekki áhyggjur, hugsa þeir, CIA annast rannsóknina!

Það er líka eins og vandræði Trumps heima fyrir leysist snöggt og vel með þessum umsnúningi. Fréttastofurnar stóru taka allar viðbrögðum hans fagnandi. Washington Post var blaða skýrast í stuðningi sínum við Killary og hefur síðan hamnast gegn Trump, en segir nú í leiðara: "Perhaps most importantly, U.S. allies now have reason to hope that Mr. Trump could fill the leadership vacuum, in the Middle East and beyond" og bætir við að hann "brást djarflega við".

Mér finnst ekki við þurfum að ræða þá klikkuðu hugmynd að Assad hafi varpað eitursprengju. Sannleikurinn er sá að „djúpríkisvaldið“ vestan hafs hefur haldið sinni siglingu óbreyttri þótt nýi forsetinn talaði um tíma öðru máli. Hugveitan RAND sem er hluti af bandaríska sjórnkerfinu setti fyrir nokkrum vikum fram uppfærða áætlun um skiptingu Sýrlands í ljósi sóknar Stjórnarhersins: „..menn sjá fyrir sér stórveldalausn þar sem Tyrkir ráða norðlægum landamærasvæðum Sýrlands en öðrum svæðum austar haldi Syrian Democratic Forces þar sem kúrdneska YPG sé ráðandi afl og njóti vestrænnar verndar og loks komi súnní-ráðandi belti niður suðaustur Sýrland, kringum Raqqa og Deir Ezzor, nú undir ISIS, sem verði undir „alþjóðlegri stjórn““ Fall Aleppo hefur hins vegar bundið enda á raunhæfar vonir andstöðunnar um sigur í Vestur-Sýrlandi. (sjá eldmessa.blogspot.is 27. febrúar sl.). Flugvöllurinn Sharyat sem sprengdur var fellur inn í þessa strategíu. Macedonia online skrifar: „The Shayrat Military Airport is one of the Syrian Air Force’s most important installations in the fight against the Islamic State due to its proximity to the Palmyra and Deir Ezzor fronts. Has the US Government strike strategically assisted ISIS?“

Bandaríkin ráðast á Sýrland - milliliðalaust

(birtist á fésbókarsíðu SHA 7.apríl 2027)
                             Hvítu hjálmarnir að störfum Í Idlibhéraði. Assadstjórnin - fullyrti Trump - gerði
                             svívirðilega árás á konur og börn "and even beautiful little babies". Þetta virkaði.           

Stríðstrommurnar gjalla. Bandaríkin segja Sýrlandi stríð á hendur og skjóta 59 eldflaugum að sýrlenskum flugvelli. Trump og Tillerson segja „engan vafa“ á að Assad standi að baki eiturgasárásinni í Idlib-héraði, og bregðast við með einhliða hernaði. Þetta er viðsnúningur frá nokkurra daga gamalli yfirlýsingu Trumps um að „Assad er ekkert forgagnsatriði“. 
Sviðsmyndin var endurtekning á atburðarásinni frá 2013 þegar Vestrið var á barmi lofthernaðar gegn Assad, þá eins og nú eftir eiturgasárás (í Ghouta, nærri Damaskus), þar til Obama hætti við á síðustu stundu. Báðar eiturárásirnar bera mörg merki sviðsetningar.
Spyrja má: Af hverju í ósköpum ætti Assadstjórnin að fara að nota eiturgas í stríði þar sem hún hefur náð öllu frumkvæði og yfirhönd? Lausn eiturgasdeilunnar 2013 var að Sýrlandsstjórn undirgekkst að eyða öllum eiturvopnum. Brot á því myndi kalla á íhlutun „alþjóðasamfélagsins“ gegn henni. Bandaríkin hafa margsagt að beiting eitugass sé „rautt strik“ sem kalli á íhlutun. Ekkert vill Sýrlandsstjórn síður en slíka íhlutun. CIA og al-Nusra hafa hins vegar þráfaldlega kallað eftir íhlutun og „loftferðabanni“. Já, hver græðir á íhlutun nú? Augljóslega Al-Nusra og aðrir hryðjuverkahópar sem berjast aðþrengdir í Idlibhéraði.
Gasársin 2013 kom þegar vopnaeftirlitsnefnd SÞ var nýlent í Damaskus. Mjög ólíklegt að Assad hafi talið rétt að kasta eitursprengjum akkúrat þá! En eftir það sagðist Carla Ponti, formaður eftirlitsnefndarinnar hafa fengið „strong, concrete suspicions“ um að uppreisnarmenn í Sýrlandi hefðu notað sarin eiturgas. Og verðlaunablaðamaðurinn Seymour Hersh komst að þeirri niðurstöðu eftir m.a. samtöl við sérfróða menn úr her og leyniþjónustu að ólíklegt væri að sarin-gasið gæti komið frá Sýrlandsher.
Það er sem sé ólíklegasti möguleikinn að Sýrlandsher hafi beitt eiturgasi núna. Aðrir möguleikar eru að stjórnarherinn hafi varpað sprengjum á vopðnabúr uppreisnarmanna sem hafi geymt eiturgas og hins vegar að jíhadistarnir hafi sjálfir sleppt eitrinu. En CIA vissi að Assad væri sekur, án þess að rannsaka þyrfti málið – og virðist auðveldlega hafa sannfært forsetann sem óspart hafði gagnrýnt fyrri forseta fyrir að flækja sig í endalausan hernað í Miðausturlöndum. En nú geta NATO-veldin aftur fylkt sér um sinn æðsta mann.

Tuesday, April 4, 2017

10 greinar á Eldmessu um hnattvæðingu



Hugtakið hnattvæðing verður æ fyrirferðarmeira í pólitískri umræðu. Í tvo áratugi hefur verið til á heimsvísu nokkuð sem nefnist "hreyfing gegn hnattvæðingu". En fylking hnattvæðingarsinna hefur breyst. Í hinum miklu mótmælum í Seattle í desember 1999 og í upphafi nýrrar aldar voru það einkum vinstri aðgerðarsinnar sem mótmæltu hnattvæðingunni og beindu spjótum gegn Heimsviðskiptastofnuninni (WTO), AGS og World Economic Forum og valdi fjölþjóðlegra risaauðhringa. Á síðustu árum ber svo við að lítið fer fyrir málflutningi mjög margra vinstri flokka gegn hnattvæðingunni en þeir sem mest gagnrýna fyrirbærið eru hægripopúlistar, sbr. Brexit, kosningabaráttu Trumps eða Marine le Pen í Frakklandi.

Eldmessa hefur fjallað talsvert um þetta mikilvæga efni. Hér að neðan eru skráðar 10 greinar sem að meira eða minna leyti fjalla um hnattvæðingu. Frá 2012 þar fyrstu og allt til þessa dags. Sú hnattvæðing sem um ræðir er efnahagsleg hnattvæðing sem ég kýs að kalla hnattvæðingu auðmagnsins. Nafna má að greinar um ESB mætti flokka hér undir en það er ekki gert nema þær hafi "hnattvæðingu" sem atriðisorð.

Einkavæðing - hnattvæðing - Goldman Sachs                               4/5 2017                  
Vinstrimennskan, verkalýðurinn og hnattvæðingin                      31/3 2017
Árið 2016 – ósigur hnattvæðingarinnar                                        18/3 2017
Sigur Trumps: viðbrögð gegn ríkjandi hnattvæðingarþróun og íhlutunarstefnu  15/11 2016
Það sem lesa má úr Brexit                                                                                   21/6 2016            
Stríð um heimsyfirráð - hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki           31/5 2016
TISA og lýðræði á undanhaldi                                                                             13/2 2016                  
Heimsvaldastefnan, þjóðríkið og Sýrlandsstríðið                                                15/11 2015
Þjóðernishyggja og alþjóðahyggja                                                                       24/11 2012
Andstæður hins evrópska markaðar                                                                     21/11 2012