Sunday, January 24, 2016

Ellefu greinar á Eldmessu um Úkraínudeiluna


Forsetar Úkraínu og Rússlands Petro Porosénko og Vladimir Pútín            
                       
Hér að neðan birti ég Eldmessugreinar mínar um Úkraínudeiluna, geinar sem áður höfðu birst á pappír eða á netinu. Sumar örstuttar, aðrar lengri. Alls eru þær ellefu, sú fyrsta birt í mars 2014, mánuði eftir atburðina á Maidan-torgi og hin CIA-hönnuðu valdaskipti í Kænugarði.

Staðfesta Gunnars Braga                                          janúar 2016
Siðferðissjónarmið í Úkraínudeilunni                       september 2015
Nokkrar tesur um Úkraínudeiluna                             apríl 2015                        
Ný skref í uppgjörinu við Rússa                                desember 2015
Liðsafnaður í ranga átt - á ný                                     september 2015
MH17 grandað yfir Úkraínu                                                                          júlí 2014     
Blokkin og járntjaldið                                                                                   maí 2014
Sókn Pútíns sem nauðvörn                                                                            mars 2014

Saturday, January 23, 2016

Staðfesta Gunnars Braga

Margir vinstri menn lofa nú Gunnar Braga fyrir staðfestuna gagnvart Rússum og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi . Ekki ég. Hverjir heyja viðskiptastríð við Rússa? Bandaríkin hófu refsiaðgerðirnar 6. mars 2014 og 17. mars bættist ESB við og einnig Kanada. Seinna á árinu bættust við NATO-lönd utan ESB: Ísland, Albanía, Noregur og þar með var þátttaka NATO-landa nánast fullkomnuð (Tyrkland þó ekki með strax). Önnur Evrópulönd sem bættust við voru Montenegro (umsóknarland í NATO), Moldova (með eina tegund aukaaðildar að NATO) og Sviss. Tveir skilyrðislausir bandamenn USA utan Evrópu taka þátt, Japan og Ástralía, en aðgerðir þeirra eru þó takmarkaðri. Praktískt séð er það NATO sem heyr stíðið með Bandaríkjunum. Málið er að hér hefja viðskiptastríð þeir tveir aðilar, USA og NATO, sem standa fyrir helstu stríðum nútímans, sýna minnsta virðingu fyrir sjálfstæði ríkja og jafnframt umkringja Rússland hernaðarlega. Og sú skylda fylgir NATO-aðild (de facto) að taka þátt í vopnastríði og viðskiptastríði gegn þeim löndum sem Sam frændi hefur skrifað kross yfir. Reisn og staðfesta Gunnars Braga felst í því að segja: Já herra.  

Thursday, January 21, 2016

Rússum refsað. Hæfur dómari? Réttmæt refsing?

Þátttaka Íslands í refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum hefur verið heitt umræðuefn undanfarið, skiljanlega þar sem viðskiptabannið kemur hart niður á Íslandi, bæði útflytjendum og ýmsum byggðarlögum. Fjölmiðlarnir lýsa málinu sem svo að þar takist á viðskiptahagsmunir (LÍÚ) og hins vegar prinsipp eða siðferðissjónarmið (Gunnar Bragi). Þorsteinn Pálsson segir reyndar að hagsmunamat og siðferðismat fari saman, við græðum til lengdar á að standa með „okkar bandamönnum“. Mjög fáar raddir draga í efa að refsiaðgerðir Vestursins séu réttmætar.
Skýring Vesturlanda er að innlimun Krímskagans sé Rússnesk útþensla, tilraun Rússa til að endurheimta stöðu risaveldis. Þessu er nú mætt með annars vegar viðskiptabanni gegn Rússum, leitt af Bandaríkjunum og ESB og hins vegar hernaðarlegu umsátari um Rússland sem leitt er af Bandaríkjunum og NATO.
Á bak við refsiaðgerðirnar standa fyrst og fremst Bandaríkin og ESB (Kanada strax, svo Japan, Ástralía og fáeinir aðrir hafa bæst við). Nánar tiltekið voru það BANDARÍKIN sem höfðu þar algjört frumkvæði. Bandaríkin og ESB hafa ólíka hagsmuni í málinu. ESB og Rússland eru einna mikilvægustu viðskiptaaðilar hvors annars. Rússland er hins vegar lítilvægur viðskiptaaðili Bandaríkjanna sem sér sér hag af því að ESB dragi úr viðskiptum við Rússa. Á veiku augnabliki sjálfsupphafningar hældist Joe Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“
Það er rétt að Rússar brutu þjóðréttarreglur með innlimun Krímskagans. Reglur sem afar mikilvægt er að virtar séu. Þetta var einhliða breyting landamæra og við hljótum að FORDÆMA slíka aðgerð á almennum þjóðréttarlegum forsendum. En af því leiðir ekki sjálfkrafa að rétt sé að fordæma aðgerðina í sínu ÁKVEÐNA SAMHENGI. Nokkrar ástæður skulu nú tilgreindar.

Heimild: "Sýrlenska mannréttindavaktin"

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 20. janúar 2016)
Engin heimild um stríðið í Sýrlandi og ástand mála þar innanlands er jafn oft nefnd í íslenskum fjölmiðlum og "Sýrlenska mannréttindavaktin" (Syrian Observatory for Human Rights) - hvort sem það er t.d. RÚV, Fréttablaðið eða Mbl. Hún er líka helsta heimild AFP, AP, CNN, CBS, BBC... sem sagt vestrænu fréttaveitunnar. Hún lýsir stríðinu sem uppreisn gegn morðóðum einræðisherra og nefnir aldrei erlend veldi á bak við uppreinsina. Nú útmálar hún einkum dráp Rússa á almennum borgurum. Jæja, fréttaveita þessi er engin risastofnun heldur EINN MAÐUR sem situr í Coventry í Englandi og sendir þaðan út fréttir um Sýrland byggðar á símhringingum þangað. Hann heitir R.A. Rahman, Sýrlendingur sem hafði tvívegis fengið fangelsisdóma vegna andspyrnustarfa en flúði til Englands árið 2000. Skv. meðfylgjandi grein frá New York Times kom breska ríkisstjórnin honum þá fyrir í Coventry og fékk honum þar aðstöðu. Einnig fær hann fjárstuðning frá ESB. Fréttir hans af stríðinu voru Vestrinu afar hagstæðar og hann fékk brátt nánast opinbera stöðu í breskum og vestrænum fjölmiðlum sem talsmaður almennings í Sýrlandi og fulltrúi mannréttinda. En það er hann ekki! Hann er uppkeyptur málaliði Vestursins. Hafið það í huga þegar þið sjáið og heyrið fréttir byggðar á "Sýrlensku mannréttindavaktinni".

Friday, January 8, 2016

Vestrið og gerfistríðið við ISIS

(birtist á fridur.is 7.jan 2016)


Vestræn herveldi ráðast nú hvert af öðru inn í Sýrland til að „berjast við ISIS“. Nú er endurvakið það „stríð gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin og NATO skrifuðu á stríðsfána sína eftir 11. september 2001 og réðust í framhaldinu á Afganistan og Írak. Margt er líkt. Fyrirbærið ISIS er einmitt af sama meiði og fyrirbærið Al Kaída: Islömsk hryðjuverkasamtök af stofni Súnnía. ISIS hétu upphaflega Al Kaída í Írak. Líkt og Al Kaída láta þau nú til sín taka í mörgum löndum í Asíu og Afríku.
Þessi hernaður vestrænna ríkja í Sýrlandi er í óþökk ríkisstjórnar landsins, vestrænir leiðtogar og bandamenn þeirra taka mjög skýrt fram að þeir muni ekki vinna með því afli sem öðrum fremur hefur þó sýnt árangur í að uppræta ISIS á svæðinu, þ.e. Sýrlandsher.
Vestrænar íhlutanir og hryðjuverk hanga saman
Jafnvel í vestrænni fréttaveitu er sú staðreynd nokkuð viðurkennd að íslamskir hryðjuverkahópar og jíhadistar – bæði Al Kaída, ISIS og fleiri slíkir – hafi einkum sprottið og gróið úr innrásum og íhlutunum vestursins á hinu íslamska svæði frá Mið-Asíu til Norður-Afríku eftir að „stríð gegn hryðjuverkum“ hófst. Þetta má staðfesta með því að ganga á röðina.
Írak: Fyrir innrás „hinna viljugu“ 2003 var Al Kaída ekkert afl í Írak. Upp úr innrásinni og hernáminu uxu samtökin úr grasi, hétu fyrst Al Kaída í Írak, svo ISI. Hlutverk þeirra í stríðinu varð að vekja trúarbragðadeilur innan Írak og veikja þar með samstöðuna og viðnámið gegn hinni vestrænu innrás. Hryðjuverkasamtökin fluttu svo meginstarfsemi sína 2011 yfir landamærin til Sýrlands þegar vestrænt studd uppreisn hófst þar, uxu þá eins og arfi á mykjuhaug og urðu smám saman höfuðaflið í þeirri uppreisn. Árið 2014 voru þau orðinn stór, ríkulega útbúinn her og kölluðu sig ISIS/ISIL. Líbía: Al Qaeda var ekki neitt neitt í Líbíu fyrr en með hinni vestrænt studdu uppreisn og lofthernaði NATO gegn landinu 2011. En eftir íhlutunina er landið orðið að miðstöð íslamskra hryðjuverkahópa alls konar sem sendir vopn og vígamenn í allar áttir. Framantalin dæmi gefa skýra mynd: Eftir vestrænar íhlutanir standa viðkomandi lönd í upplausn, sundurtætt af trúardeilum þar sem íslamskir vígamenn gera sig gildandi umfram aðra. Hryðjuverkahóparnir gréru og blómstruðu við þær aðstæður sem ihlutanirnar skópu. Þetta vitum við og þurfum ekki að deila um. Afganistan er aðeins flóknara dæmi. Sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton , viðurkenndi (2009) berum orðum hinn stóra þátt bandarískra strategista í því að skapa Al Kaída og slíka íslamska hryðjuverkahópa þegar hún sagði: „þeir sem við berjumst við núna kostuðum við fyrir 20 árum“ til að berjast við Sovétherinn í Afganistan.https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=xd0fLAbV1cA Í því stríði gegndu þessir íslömsku hryðjuverkahópar mikilvægu staðgengilshlutverki fyrir vestræna heimsvaldastefnu, fjármagnaðir og vígbúnir einkum annars vegar af CIA og hins vegar af Sádi-Arabíu. Í seinna Afganistanstríðinu hafði Al Kaída hins vegar aðeins það hlutverk að réttlæta innrás USA og NATO-veldanna í landið, svo var því hlutverki lokið og þau hurfu að mestu úr sögunni. Í viðtali nýlega viðurkenndi Hamid Karzai – sem var yfirverkfæri Bandaríkjanna og NATO eftir innrásina – að Al Kaída sé kannski mýta og hann, forseti landsins 2004-2014, hafi a.m.k. aldrei séð neinar sannanir fyrir tilvist þeirra í Afganistan. http://www.theguardian.com/us-news/2015/sep/10/hamid-karzai-al-qaida-myth-september-11-afghanistan

Sunday, January 3, 2016

22 greinar á Eldmessu um Sýrlandsstríðið


Ég opnaði bloggsíðu mína, eldmessa.blogspot.is, árið 2012 og fór að færa þar inn nýbirtar greinar mínar úr blöðum og af netinu. Frá og með 2012 hef ég skrifað og birt 72 geinar um stjórnmál, innlend og þó einkum alþjóðleg (16 fyrstu greinarnar teljast hér ekki með, voru skrifaðar á tímabilinu 2009-2011). Þetta þýðir að meðaltali 18 greinar á ári. Alveg viðunadi afköst meðfram stálsmíðunum. 


Þegar þessar 72 greinar eru skoðaðar sést að algengasta atriðisorðið í þeim er SÝRLAND. Alls 22 þeirra hafa Sýrland sem atriðisorð. Í flestum tilfellum er verið að fjalla um stríðið í Sýrlandi. Fyrstu þrjár Sýrlandsgreinarnar eru frá árinu 2012, en áherslan á Sýrland hefur smám saman farið vaxandi og á árinu 2015 fjölluðu 15 af 22 greinum mínum eitthvað um landið og/eða stríðið (reyndar 7 greinar bara í nóvember). Það segir auðvitað allt um þá áherslu sem ég vil leggja á það stríð sem þar geysar. Ég á ekki von á  að aðrir Íslendingar hafi skrifað meira um Sýrlandsstríðið, auk þess sem ég vísa auðvitað mikið í greinar annarra manna sem eru heimildir mínar. Ég tel þess vegna ekki úr vegi að safna hér saman þessum greinum frá fjórum síðustu árum.

Erdóganfjölskyldan, ISIS og smyglolían  nóvember 2015
Tólf tesur um ISIS  nóvember 2015
Innrásin í Sýrland  ágúst 2015