Sunday, August 17, 2014

11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum“


(Í framhaldi af grein minni um tortímingu þotunnar MH17 yfir Úkraínu sem líklegt hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúning birti ég hér grein sem ég skrifaði 2007 um hryðjuverkin í New York 11. september 2001. Hún er sjö ára gömul en ég stend við allar meginniðurstöður. Hún birtist á Friðarvefnum og á eggin.is 8. og 14. des. 2007. Hluti hennar birtist í Fréttablaðinu 20. des. sama ár.)
Fréttamynd frá 11. september


Ég er orðinn nokkurn veginn sannfærður um að voðaverkin í New York 11. september voru innherjaverk úr bandarísku stjórnkerfi og leyniþjónustu. Þessi skoðun er útbreidd , einkum í Bandaríkjunum. Af hverju ræðum við hana þá ekki?
Hin opinbera skýring á 11. september stenst ekki. Fjölmörg atriði skera í augu.
Til dæmis það að allir turnarnir þrír skyldu hrynja nánast á hraða fallandi steins. Á kvikmyndum virðast þeir breytast í duft og hrynja án mótstöðu niður í gegnum sjálfa sig (einnig „turn númer sjö“ sem ekki varð fyrir neinni flugvél). Það er verkfræðingum ráðgáta hvernig brennandi flugvélabensín gat farið svona með stálgrind þessara bygginga.
Til dæmis það að enginn maður skuli enn hafa verið dæmdur fyrir illvirkin.
Til dæmis það furðulega flugafrek ungra og óreyndra Araba sem aldrei höfðu flogið farþegaflugvélum áður, en hittu samt með mikilli nákvæmni tilætlaðar byggingar, eða það að þeim tókst fyrst öllum að hverfa úr radarsambandi áður en nokkur flugmaður náði að senda út neyðarkall.
Ekki er saknað neinna farþega úr þeirri farþegavél sem á að hafa flogið á Pentagon-bygginguna.
Æðsti maður pakistönsku leyniþjónustunnar ISI, Mahmoud Ahmad, var í Washington dagana kringum 11. september og átti fundi með kollegum sínum hjá CIA og Pentagon. Mánuði síðar vitnaði indversk leyniþjónusta um peningasendingu fyrir tilstilli hins sama Mahmoud Ahmad inn á bankareikning flugræningjans Mohammed Atta í Flórída stuttu fyrir 11. september.
Atburðirnir á Manhattan 11. september komu eins og pantaðir. Þeir urðu startskot fyrir nýja og harðari heimsvaldastefnu Bandaríkjanna undir forystu nýhægrimanna. Jafnvel sjálfan 11. september var ekki aðeins lýst yfir stríði gegn Al-Qaeda og Talibanastjórninni í Afganistan heldur mæltist Rumsfeld til þess við herforingja sína að þeir undirbyggju hernaðaraðgerðir gegn Írak.
Bandaríkin eða önnur árasarríki hafa aldrei lagt fram snefil af sönnun fyrir því að Afganistan, eða Írak – hvað þá Íran – tengist neitt árásunum á þessa ágætu turna en hóta samt löndunum innrásum hverju á fætur öðru, og framkvæma þær síðan.

Wednesday, August 13, 2014

Tortíming farþegaþotu: hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúningur

(birtist á fridur.is 11/8 2014)
Michael Bociurkiw var annar af tveimur fyrstu eftirlitsmönnum ÖSE á hrapsvæði farþegaþotunnar MH17. Vitnisburður hans er afar sterkur, vitnisburður um skýr merki eftir hríðskotasprengikúlur úr flugvél en hins vegar engin merki eftir flugskeyti.  Aðrir sérfróðir menn draga sömu ályktun og Bociurkiw af að skoða myndir af stjórnklefahluta þotunnar. Rökin hníga þá að HRYÐJUVERKI FRAMKVÆMDU UNDIR FÖLSKU FLAGGI, undir flaggi Pútíns til að koma á hann sök.
Stjórnklefahluti þotunnar 
Heilbrigð skynsemi er treg til að trúa því að heimsvaldasinnar fremji fjöldamorð á saklausum borgurum, komi sökinni á útvalinn andstæðing og fari síðan herferð til að koma honum á kné. Ein mótbára sem sjálfkrafa vaknar er að slíkt sé allt of áhættusamt, allt gæti komist upp og komið í hausinn á gerendunum. En hryðjuverk undir fölsku flaggi er ein aðferð heimsvaldasinna af mörgum til að einangra andstæðinga sína, skapa tilefni til íhlutana, koma af stað styrjöldum, koma upp leppstjórnum, vinna áhrifasvæði. Tortíming þotunnar MH17 sýnist þá sverja sig í ætt þekktra atburða: ríkisþinghúsbrunannn í Berlín 1933, sprengingu Tvíburaturnanna 11. september 2001, eiturgasárás í útjaðri Damaskus 2013, leyniskyttumorðin af húsþökum í Kænugarði í febrúar sl. Önnur aðferð til að framkalla stríð og valdarán er auglýsing og sviðsetning voðaverka sem aldrei voru framin, eru tilbúningur. Dæmi um slíkt er tilbúin árás Norður-Víetnama á bandaríska flotann í Tonkin-flóa 1964, morð hermanna Saddams Hússein á súrefniskassabörnum í Kúvaít 1991, gjöreyðingavopn Saddams 2003, loftárásir Gaddafís á eigin þegna 2011.

Saturday, August 9, 2014

Stórbreskt íhald

(birtist á Vefritinu Kistunni og á eggin.is í febrúar og mars 2008)
Nú hef ég hraðlesið tvær bækur, hnausþykkar, eftir Antony Beevor: Stalíngrað sem út kom hjá Bókaútgáfunni Stalingrad, BeevorHólum nú fyrir jólin (útgefin í Bretlandi 1998) og svo bókina TheBattle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939 sem kom út 2006.  Tvær aðrar bækur höfðu áður komið út á íslensku: Fall Berlínar 1945 (2006) ogNjósnari í Þýskalandi nasista?: ráðgátan um Olgu Tsékovu (2007).
Beevor er metsöluhöfundur sem hefur fundið einhverja þá töfraformúlu sem tryggir honum lesendur í milljónavís. Hann er orðinn að stórveldi á Íslandi líka. Í tengslum við útkomu bókarinnar Fall Berlínar haustið 2006 hélt hann fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og troðfyllti hátíðarsal Háskóla Íslands og af því tilefni var hann hlaðinn miklu lofi af forsvarsmönnum Sagnfræðingafélagsins í útvarpinu og víðar.
Antony Beevor er menntaður í Winchester og nam síðan hernaðarsögu við Konunglegu herakademíuna í Sandhurst. Þá er hann fyrrverandi liðsforingi í breska hernum. Talsverð hefð er fyrir slíkum  menntunar- og starfsframa í breska heimsveldinu.

Kreppa auðvaldsskipulagsins

(ræða flutt á ráðstefnu Rauðs vettvangs 10. október 2009, birtist á eggin.is og this.is/nei í nóvember sama ár)

1. Um orsakir kreppunnar

• Sjálfstæðisflokkurinn segir: Hugmyndafræðin og efnahagsstefnan var góð en einstaklingarnir brugðust. Þeir menn yfirtóku því miður sviðið, sem amma Davíðs Oddssonar nefndi „óreiðumenn“.
• Þorvaldur Gylfason segir: Einkavæðingin var vitlaust framkvæmd, enda framkvæmd af spilltri stjórnmálastétt.
• Jóhanna og Steingrímur segja: Það var efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins sem gaf græðginni lausan tauminn og þar með tók græðgin völdin í landinu. En með vinstri menn við stjórnvölinn og með auknu eftirliti má laga kerfið á ný og byggja hér norrænt velferðarkerfi..
Til að byrja með aðeins um græðgina. Það er alveg út í hött að kenna græðginni um kreppuna. Græðgin, gróðasóknin er eina driffjöður kapítalismans. Þar með er hún innsta eðli hans og fjöregg. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Að kenna græðginni kreppuna er eins og að segja að bílslys hafi stafað  af því að vél var í bílum.
Kreppuskýringar þessa fólks sem ég vísaði til eiga það sameiginlegt að hafa mjög takmarkað sjónarhorn og fókus. Þau segja öll: Þetta var klúður. Þau segja líka öll, nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta var séríslenskt klúður og hálfvitagangur. Rangir aðilar fengu að ráða ferðinni í fjármálakerfinu og stjórnkerfinu.
Það er ekki séríslenskt að kalla kreppuna klúður. Í hverju landinu af öðru má sjá skýringanna leitað í hagstjórnarmistökum stjórnvalda. Enda hafa fjölmargar ríkisstjórnir ýmist hrökklast frá völdum eða sitja nú við litlar vinsældir og bíða kosninga.
Marxista, hins vegar, dettur ekki í hug að kenna neinu klúðri um yfirstandandi kreppu. Það dygði ekki til, nánast hvar sem væri í hinum kapítalíska heimi, jafnvel þótt eintóm fjármálaséní væru í ríkisstjórn, þá gætu þau ekki stýrt framhjá kreppunni. Hér er nefnilega um að ræða kerfiskreppu, þjóðfélagsskipan í kreppu.