(Í framhaldi af grein minni um tortímingu þotunnar MH17 yfir Úkraínu sem
líklegt hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúning birti ég hér grein
sem ég skrifaði 2007 um hryðjuverkin í New York 11. september 2001. Hún er sjö
ára gömul en ég stend við allar meginniðurstöður. Hún birtist á Friðarvefnum og á eggin.is 8. og 14. des. 2007. Hluti
hennar birtist í Fréttablaðinu 20. des. sama ár.)
Ég er orðinn nokkurn veginn sannfærður um að voðaverkin í New York 11. september voru innherjaverk úr bandarísku stjórnkerfi og leyniþjónustu. Þessi skoðun er útbreidd , einkum í Bandaríkjunum. Af hverju ræðum við hana þá ekki?
Hin opinbera skýring á 11. september stenst ekki. Fjölmörg atriði skera í augu.
Til dæmis það að allir turnarnir þrír skyldu hrynja nánast á hraða fallandi steins. Á kvikmyndum virðast þeir breytast í duft og hrynja án mótstöðu niður í gegnum sjálfa sig (einnig „turn númer sjö“ sem ekki varð fyrir neinni flugvél). Það er verkfræðingum ráðgáta hvernig brennandi flugvélabensín gat farið svona með stálgrind þessara bygginga.
Til dæmis það að enginn maður skuli enn hafa verið dæmdur fyrir illvirkin.
Til dæmis það furðulega flugafrek ungra og óreyndra Araba sem aldrei höfðu flogið farþegaflugvélum áður, en hittu samt með mikilli nákvæmni tilætlaðar byggingar, eða það að þeim tókst fyrst öllum að hverfa úr radarsambandi áður en nokkur flugmaður náði að senda út neyðarkall.
Ekki er saknað neinna farþega úr þeirri farþegavél sem á að hafa flogið á Pentagon-bygginguna.
Æðsti maður pakistönsku leyniþjónustunnar ISI, Mahmoud Ahmad, var í Washington dagana kringum 11. september og átti fundi með kollegum sínum hjá CIA og Pentagon. Mánuði síðar vitnaði indversk leyniþjónusta um peningasendingu fyrir tilstilli hins sama Mahmoud Ahmad inn á bankareikning flugræningjans Mohammed Atta í Flórída stuttu fyrir 11. september.
Atburðirnir á Manhattan 11. september komu eins og pantaðir. Þeir urðu startskot fyrir nýja og harðari heimsvaldastefnu Bandaríkjanna undir forystu nýhægrimanna. Jafnvel sjálfan 11. september var ekki aðeins lýst yfir stríði gegn Al-Qaeda og Talibanastjórninni í Afganistan heldur mæltist Rumsfeld til þess við herforingja sína að þeir undirbyggju hernaðaraðgerðir gegn Írak.
Bandaríkin eða önnur árasarríki hafa aldrei lagt fram snefil af sönnun fyrir því að Afganistan, eða Írak – hvað þá Íran – tengist neitt árásunum á þessa ágætu turna en hóta samt löndunum innrásum hverju á fætur öðru, og framkvæma þær síðan.