Saturday, January 5, 2013

Vinnumarkaðsumbætur ESB boða harkaleg komandi árSaga EBE/ESB er saga um stöðuga viðleitni og endurteknar tilraunir lítillar elítu, þ.e.a.s. klúbba kringum vesturevrópskt stórauðvald, til að smíða sér stærri og voldugri einingu, efnahagslega og pólitíska blokk. Til þess þarf að  brjóta niður skilrúm, opna landamæri, samræma og samhæfa framleiðslukerfi og vinnumarkaðs-regluverk, gera það straumlínulagaðra, ná við það sparnaði og hagræðingu stærðarinnar – til að græða meira á sameiginlegum innri markaði og til að standast betur samkeppni frá öðrum auðvaldsblokkum. 

Tilraunir elítunnar til að smíða pólitískt samband hafa mætt eindreginni andstöðu og tregðu hjá almenningi sem hefur jafnan fellt slíkt ef hann er spurður. Úr því lýðræðisleiðin er ekki fær velur elítan hjáleið: að innleiða sameiginlegan markað – formlega með Maastrict-samningnum 1993 – sleppa markaðsöflunum lausum og láta frjálsa flæðið og samkeppnina sjá um samrunaþróunina. Leiðin liggur framhjá lýðræðinu. Gallinn við pólitíkina er að þar þvælist almenningur endalaust fyrir en á efnahagssviðinu ræður elítan ein (einokunarauðvaldið). Mig langar að nefna fáeina nýlega áfanga á þessari þróunarbraut.

Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims“ fyrir árið 2020. Evrópski markaðurinn þurfti að verða meira örvandi fyrir fjárfesta og þar með hagvöxtinn. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki“ og byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að auka hagvöxt.

Næsti áfangi var stækkun ESB í austur 2004. Þar fór saman hagræn stórsókn Vesturevrópsks auðmagns inn í gömlu austurblokkina og svo straumur launafólks frá  austri, þar sem verkalýðshreyfing er naumast til. Þeim straumi var ætlað að brjóta upp „ósveigjanleika og reglugerðabákn“ í vestrinu. Í framhaldinu voru framleiðslueiningar fluttar á lágkostnaðarsvæði í austri og/eða að ódýrt vinnuafl streymdi í vestur í krafti hins frjálsa flæðis. Elítan hefur lengi talið að „reglugerðabákn“ á vinnumarkaði hamlaði hagvexti. „Reglugerðabákn“ á vinnumarkaði er samheiti við áunnin fagleg réttindi og því snar þáttur í velferðarkerfinu. Markmiðið var sem sé að brjóta upp heildarkjarasamninga og stranga vinnulöggjöf, og til lengri tíma að losna við kostnaðarsamt velferðarkerfi.

Þegar svo fjármálakreppan 2008 kom til og í framhaldinu evrópska kreppan er hún notuð sama hátt: sem múrbrjótur á fagleg réttindi og velferðargæði. Vinnumarkaðsumbætur eru fyrst innleiddar í þeim löndum Suður-Evrópu þar sem allt er í kaldakoli og niðurskurðarhnífurinn stöðugt blóðugur, og síðan er umbótunum veitt þaðan og inn í hin löndin. Tilskipanirnar frá miðstöðvum ESB verða sí-harkalegri. Nefna má áætlun um fjármálastöðugleika sem nefnd er „Evrópska önnin“ sem Framkvæmdastjórnin sendi út í ársbyrjun, einnig svonefndan „ríkisfjármálasáttmála“ (bann við Keynesisma) frá í mars sl. sem ég fjallaði nokkuð um fyrir viku.

Nú síðast, í september sl., kemur frá Framkvæmdastjórninni skýrsla um „umbætur á vinnumarkaði“.  Sjá hér:
http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/european_economy/2012/pdf/ee-2012-5_en.pdf  Þar er fjallað um breyttar reglur á vinnumarkaði sem þegar hafa gengið í gildi í nokkrum aðildarríkjum þar sem kreppan hefur komið harðast niður og lagt er á ráðin um frekari aðgerðir í sama anda. Breytingarnar fela almennt í sér „aukinn sveigjanleika“ þ.e.a.s. afnám reglna á vinnumarkaði. Dæmi: dregið er úr vægi heildarkjarasamninga, boðuð „dreifð samningagerð“ þar sem einstök fyrirtæki geta samið um kjör utan kjarasamninga og bein inngrip ríkisstjórna um kaup og kjör eru daglegt brauð (um þetta er fjallað í skýrslunni á bls 48–60).

Samband evrópskra verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation, ETUC) er regnhlífarsamtök verkalýðshreyfinga innan ESB. Sambandið rekur rannsókna- og námsstofnunina ETUI. Á vegum hennar hefur nú verið gerð rannsókn á þessum vinnumarkaðsumbótum sem flæða yfir lönd sambandsins í kreppunni. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að umbæturnar hafi í för með sér meiri ójöfnuð og meira óöryggi í Evrópulöndum. Rannsóknarskýrsluna má sjá hér:
http://www.etui.org/Publications2/Working-Papers/The-crisis-and-national-labour-law-reforms-a-mapping-exercise  Danska netsíðan „EU-fagligt netværk“, sem er ESB-gagnrýnin, dregur skýrsluna saman og segir m.a.:

„Krafan um umbætur hefur hljómað árum saman frá ESB-kerfinu, en í núverandi kreppu hafa kröfurnar um „sveigjanlegri vinnumarkað“ harðnað. ESB leikur beint og virkt hlutverk í því að grafa undan faglegum réttindum í Grikklandi, Írlandi og Portúgal eins og skýrslan sýnir. Löndunum er ekki bara þröngvað til að breyta reglunum um vinnumarkaðinn heldur einnig félagsmálakerfinu (styttri dagpeningagreiðslur, lægri bætur, hækkaður lífeyrisaldur, lækkaðar lífeyrisgreiðslur).

Umbæturnar nú eru svo umfangsmiklar að þær ógna beinlínis hinni svonefndu „evrópsku samfélagsgerð“ segja skýrsluhöfundarnir tveir frá ETUI. Skýrslan bendir á nokkrar almennar tilhneigingar til afnáms reglna á vinnumarkaði aðildarlandanna og fjallar um þróunina í 24 löndum. ETUI bendir á að umbæturnar séu í mörgum tilfellum teknar upp án lýðræðislegs lögmætis og án tillits til hefða í viðkomandi löndum. Í mörgum tilfellum eru umbæturnar samþykktar án þess að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum eins og annars er venja.“

Það er ástæða til að undirstrika að skýrsla þessi sem er samhangandi aðvörunaróp er ekki samin af stofnun sem yfirleitt ástundar ESB-gagnrýni heldur er stofnunin hluti af ESB-batteríinu og hefur stutt samrunaferlið til þessa. En niðurstaðan er enn á ný þessi: Elítan notar vald sitt í efnahagslífinu til að leggja leiðina framhjá lýðræðinu. Eins og samkeppnin og frjálsa flæðið áður er kreppan nú notuð eins og gegnið getur sem múrbrjótur gegn verkalýðshreyfingunni og og áunnum réttindum hennar. 

No comments:

Post a Comment