Saturday, January 12, 2013

Samfylkjum!


Taktíkin í baráttunni er alltaf mikilvæg og ræður stundum úrslitum. Hverjir eiga samleið? Hverjir vilja standa saman? Hvað skilar bestum árangri? Í samtakabaráttu almennings fyrir hagsmunum sínum er grundvallaratriði að kunna að samfylkja,  að sameina þá sem sameinast geta um þau mál sem brýnust eru á hverjum tíma.
Baráttan gegn ESB-aðild Íslands er slíkt mál . Við vitum að andastaðan gegn ESB-aðild er þverpólitísk. Hún er m.a. afar breið á skalanum hægri-vinstri. En það er vandaverk að samfylkja, Í því efni er auðvelt að falla í gryfjur, ýmist út frá eingin flokkshollustu, pirringi eða óþolinmæði gagnvart fólki úr öðrum flokkum m.m. Í ESB-andstöðunni gengur þetta brösótt eins og stundum áður í líku samhengi..
Samtökin Heimssýn eru mikilvægustu samtökin í baráttunni gegn ESB-aðild, enda eru þau - að ég held - einu samtökin sem helga  sig alveg því málefni. Og þau eru skipulögð sem ekta samfylking. Í lögum þeirra segir að þau séu: „þverpólitísk landssamtök fólks sem hefur mismunandi skoðanir á þjóðmálum en vinnur saman á vettvangi samtakanna til verndar íslensku sjálfstæði og lýðræði..."
Það er ekkert nema gott um þessi lög að segja. Þau eiga að geta sameinað ólíka hópa. Samt hefur allmjög borið á sundrungu í Heimssýn og innan raða ESB-andstæðinga. Spurningin er: Er það skortur á TAKTÍK eða vantar VILJANN til að standa saman? Lítum á fáeina sundrungarbresti sem orðið hafa.
Það var slæmt þegar Páll Vilhjálmsson fyrir skemmstu skaut breiðsíðu að VG sem flokki, sagði að koma þyrfti VG af þingi vegna eftirgjafa og svika flokksforustunnar í Evrópumálum.  Með því móti var Páll farinn að reka frá sér marga eindregna ESB-andstæðinga sem halda tryggð við VG. Þetta var sérstaklega slæmt af því Páll var helsti starfsmaður Heimssýnar og bloggaði þetta á vef samtakanna, að vísu undir eigin upphafsstöfum. Páll er kappsamur og hressilegur baráttumaður, en ekki sérlega taktískur, og breiðsíða hans kostaði nokkrar úrsagnir úr samtökunum.  Hann tók afleiðingum af því og sagði af sér sem starfsmaður Heimssýnar.
Hins vegar er Páli Vilhjálmssyni og örðum ESB-andstæðingum vandi á höndum að fást við VG. Samtök stofnuð til að berjast gegn ESB-aðild hljóta óhjákvæmilega að gagnrýna harkalega ríkisstjórn sem sækir um inngöngu í sambandið, og forustu þeirra flokka sem hafa forgöngu að slíkri umsókn (jafnvel gegn eigin stefnu). Samt þarf að forðast gagnrýni sem er árás á alla stuðningsmenn stjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Það er vandrataður meðalvegurinn - en um hann liggur leiðin að markinu.
Svo eru það annars konar úrsagnir úr Heimssýn, formlegar eða óformlegar. Menn hafa gengið úr liðinu - og yfirgefið alla virka ESB-andstöðu - á þeim forsendum að einhverjir séu í liðinu sem þeir vilja ekki hafa með.  Árni Þór Sigurðsson réðist gegn vefmiðlinum „Evrópuvaktinni", þar sem Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson eru áberandi, á þeim forsendum að þar færu „öfgahægrimenn". Huginn Þorsteinsson og Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmenn Steingríms J. og Katrínar Jakobsdóttur, skrifa greinar og segja Heimssýn vera hluta af íslenskri „Teboðshreyfingu" og að samtökin hafi „runnið sitt skeið á enda".  Í mars 2011 lýsti Björn Valur Gíslason á bloggi sínu frati á Heimssýn og spurði hvort ekki væri tímabært að skapa sér nýjan vettvang til að takast á við umræðuna í stað þess sem Heimssýn er að bjóða upp á". Hvaða vísbendingu gefur það að nokkrir alnánustu bandamenn Steingríms J. Sigfússonara gangi fram í Evrópuumræðunni á þennan hátt?
Hugtakið „öfgahægrimenn" er yfirleitt notað um fasista, nasista, rasista, fólk sem berst gegn innflytjendum, gegn múslimum o.s.frv. Ég kæri mig reyndar ekki heldur um að starfa með öfgahægrimönnum í neinum samtökum. Hins vegar er meira en hæpið að tala um Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson sem öfgahægrimenn. Frekar eru þeir hefðbundnir, þjóðlegir íslenskir hægrimenn. Og á „Evrópuvaktinni" er erfitt að finna dæmigerð rök öfgahægrimanna í rökstuðningi fyrir ESB-andstöðu. Enda nefndi Árni Þór ekkert dæmi því til staðfesteingar. Þeir Huginn og Elías Þór nefndu ekki heldur neitt dæmi um það hvernig hvernig málflutningur á vegum Heimssýnar samrýmdist málflutningi Teboðshreyfingarinnar bandarísku. Stimplarnir eru einfaldlega dregnir fram til að sverta þau samtök sem um ræðir
Björn Valur Gíslason hefur ekki skapað neinn „nýjan vettvang" fyrir baráttu gegn ESB hvorki fyrr né síðar. Og ekki heldur þeir Árni Þór, Huginn eða Elías Jón, síður en svo. Gagnrýnin úttekt á ESB er mjög fyrirferðalítil á vettvangi VG eftir að stjórnarsamstarfið hófst (sem skýrir það að meira ber á hægri en vinstri mönnum kringum Heimssýn). Þá lítur út fyrir að þátttaka hægrimanna í samfylkingu ESB-andstæðinga sé einfaldlega notuð sem átylla þessa fólks til að hlaupast á brott úr liðinu. Og það er alvarlegra mál en að vera ótaktískur.
ESB-andstaðan er breið og þverpólitísk. Það ætti að vera styrkur hennar, ef menn taka málstaðinn fram yfir flokkshagsmuni - og ef menn kunna að samfylkja. /ÞH

No comments:

Post a Comment