(birtist á Attac.is 23. janúar 2013)
Samtökin sem eru sögð standa að gíslatökunni í olíuvinnslustöðinni í Amenas, rétt við landamæri Líbíu, eru klofningshópur úr alsírsku hryðjuverkasamtökunum "Al Qaeda í íslamska Maghrib" (AQIM). Yfirlýst tilefni gíslastökunnar var að þvinga Frakka til að láta af hernaðaríhlutun í nágrannalandinu Malí. Samtökin AQIM eiga sér nána bandamenn innan "frelsishersins" sem steypti Gaddafí í Líbíu árið 2011, samtökin Libyan Islamic Fighting group (LIFG), og þá leiðina koma vopnin sem þessar hryðjuverkasveitir ráða yfir í ríkum mæli. Líbísku "íslamistarnir" koma þannig mjög við borgarastríðið í Malí, og þar starfa systursamtökin MUJAO. Einnig tengjast þeir Frelsisher Sýrlands sem ber uppi stríðið gegn Assadstjórninni og nýtur velvildar og stuðnings Vesturveldanna og NATO.
Vesturblokkin, þ.e.a.s. Bandaríkin og NATO-ríkin, ástundar hnattrænt valdatafl við keppinauta sína, einkum Kína en einnig við Rússland og önnur lönd sem mynda óformlega "andófsblokk" með þeim. Taflið fer fram á stóru svæði - teygir sig frá Afríku norður og austur um allt til Peking - en miðja þess er Miðausturlönd. Miðausturlönd hafa þá sérstöðu að vera RÍK AF OLÍU og orku. Pólitísk markmið vestrænna heimsvaldasinna og auðhringa er einfalt: að hafa hámarksnot af þessu svæði. En keppinautar sækja fram og því þarf að ná pólitískum undirtökum. Til þess þarf að fella stjórnvöld sem flækjast fyrir vestrænni hnattvæðingarstefnu, og koma nýjum "vestrænt sinnuðum" stjórnvöldum að, helst leppstjórnum. Gangi það ekki er það markmið út af fyrir sig að veikja þau stjórnvöld innan frá sem eru til trafala, jafnvel með von um að sundurlima lönd þeirra. Stjórnvöld sem hafa verið til trafala eru m.a. Serbía, Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, Íran. Meðulin gegn þeim eru a) diplómatí (t.d. viðskiptabann), b) leynilegur undirróður c)hryðjuverk d) stríð.
Hér skal því haldið fram að ýmsir hópar "herskárra íslamista" gangi erinda vestrænna heimsvaldasinna, og séu þar í afar stóru hlutverki. Þetta hlutverk þeirra birtist þó á flókinn hátt. Það er t.d. alveg háð aðstæðum hvort starfsemi "íslamistanna" er notuð sem TYLLIÁSTÆÐA vestrænna íhlutana eða hvort þeir FRAMKVÆMA vestræna utanríkispólitík sjálfir sem leiguherir á snærum vestrænna leyniþjónusta (einkum CIA og bresku MI5). En þjónusta þeirra við heimsvaldasinna er jafntraust hvor aðferðin sem notuð er.
Það er þó ekki hægt afgreiða að íslamistana herskáu einfaldlega sem strengjabrúður. Ég vil undirstrika að herskár íslamismi á sér vissulega sjálfstæðan pólitískan grundvöll á því svæði sem hér um ræðir. Það er eitt sérkenni svæðisins að íslam er þar ríkjandi trúarbrögð. Til þess hljóta allir að horfa sem vilja komast þar til áhrifa. Róttækar trúarlegar umbótahreyfingar eru eðlilegur hluti af flestum trúarbrögðum. Annað sérkenni Miðausturlanda er hinar ríku orkuauðlindir eins og áður sagði og þess vegna hafa þau orðið vettvangur mikils og grófs yfirgangs nýlenduvelda heimsvaldasinna allt frá 19. öld.
Undanfarna áratugi hefur pólitískur og róttækur íslamismi látið mikið til sín taka í múslimalöndum. Ekki þarf að koma á óvart að hann hafi oft beinst gegn áhrifum og yfirgangi Vesturlanda í arabaheimi, og heimamönnum sem ganga erinda þeirra. Herskáir íslamistar ("jihadistar") telja að köllun múslimans um "jihad" sé m.a. köllun um að grípa til vopna gegn vantrúuðum og ranglátum yfirvöldum. Þar á meðal eru hreyfingar sem háð hafa hetjulega vopnaða baráttu gegn heimsvaldastefnu og síonisma, og nefni ég Hizbolla í Líbanon sem dæmi. En ýmislegt fleira er á kreiki.
Samtökin Al Kaída eru frægustu samtök herskárra "íslamista". Það er staðreynd að upphafs Al Kaída er að leita undir handarjaðri bandarískrar heimsvaldastefnu, nánar tiltekið í Afganistanstríðinu þegar CIA fékk unga arabíska trúmenn þangað til að berjast gegn sovésku innrásinni. Það var auðvitað ekki opinskátt og almennir stríðsmenn litu örugglega ekki á sig sem bandarísk verkfæri - hafa sjálfsagt hatast við vestræn áhrif - en þaðan voru þeir vopnaðir og kostaðir. Þegar því stríði lauk voru þessir hópar í fyrsta lagi atvinnulausir, í öðru lagi með traust en mis-opinská tengsl við bandaríska leyniþjónustu. Þetta tvíeðli hópanna, að vera í senn ákafir jihadistar og leiguhermenn í ákveðnu (ljósfælnu) tengslaneti, hefur reynst vestrænum leyniþjónustum notadrjúgt. Nefna má stríð í Bosníu, Kosovo, Tétsníu þar sem Al Qaeda hefur átt mikilvæga aðkomu og svo sprengingar tvíburaturnanna 11. september, en í framhaldi af þeim kom hnattrænt "stríð gegn hryðjuverkum" sem réttlætti og réttlætir enn hnattræn umsvif herja USA og NATO.
Á tímabili, eftir 11. september, voru Al Qaeda mest notuð sem TYLLIÁSTÆÐA vestrænna íhlutana (hugmyndin um stöðuga yfirvofandi hryðjuverkaógn) en síðustu árin hafa þau á ný í auknum mæli fengið burðarhlutverk í að FRAMKVÆMA slíkar innrásir og íhlutanir.
Ég ætla að fylgja lítillega eftir einum Al Qaeda-manni. Bæði af því hann er mikilvægur fyrir atburðarásina í Malí/Alsír og af því hann er gott dæmi um það hvernig "hryðjuverkastríðið" gengur fyrir sig. Abdelhakim Belhaj heitir hann og var lengi helsti forustumaður, og emír, samtakanna LIFG í Líbíu. Árið 2007 gekk LIFG í náið bandalag við alsírska AQIM (Al Qaqda í íslamska Maghreb) og Belhaj varð nú fremsti forustumaður þess bandalags. "Jihadistar" þessir, og fleiri hópar herskárra íslamista, höfðu lengi barist, án mikils árangurs, fyrir málstað sínum í Líbíu og Alsír, þegar "arabíska vorið" og Líbíustríðið brast á 2011. Þá voru þeir nokkuð skyndilega komnir í fremstu röð í bardögum um Trípolí, og reyndust hafa mikilvirkustu og best vopnuðu sveitir "uppreisnarherjanna" gegn Gaddafí - vopnaðir og studdir af NATO, skrifaði Pebe Escobar í ágúst 2011.
Belhaj hafði bakgrunn í Afganistanstríðinu gegn innrás Sovétmanna. Og í Afganistan voru samtökin LIFG stofnuð nokkru síðar. Belhaj var tekinn höndum af Bandaríkjamönnum í Malasíu 2003. Þeir sendu hann síðan til heimalandsins Líbíu. Hann og hans fólk sættist opinberlega við Gadaffi um tíma, en hófu aftur "jihad" þegar "arabíska vorið" byrjaði og voru fljótlega komin í lykilstöður í hernaðararmi Líbíska þjóðarráðsins, nú fjármagnaðir og vopnaðir af NATO. Í árás NATO-ríkja á Líbíu var Frakkland einmitt fremst í flokki. Sjá um Belhaj:http://en.wikipedia.org/wiki/Abdelhakim_Belhadj
Aðeins mánuði eftir Fall Gaddafís var Belhaj kominn til Tyrklands til fundar við Frjálsa sýrlenska herinn og lofaði honum vopnum og fjárstuðningi í nýbyrjuðu stríði gegn Assad, aftur með vestrænum velvilja og hjálp.
Vopnabirgðirnar sem "jihadistarnir" komust yfir í Líbíu leiddu til þess að snemma árs 2012 tóku þeir stóra hluta af norðanverðu Sahara innan landamæra Malí. Ekki voru þeir neinir aufúsugestsir þar, og rúmu ári síðar skapaði þetta eyðimerkurstríð Frökkum heppilegt tilefni til innásar í Malí sem þeir "áttu" áður og hafa fullan hug á að eignast aftur enda er landið afar ríkt af olíu, gasi, kopar, úran, platínu og gimsteinum. Allt virkaði eins og til var sáð.
Sumir eru skarpari en aðrir í að greina samhengið í svona atburðarás. Grein á vef tengdum Wikileaks sem skrifuð var - takið eftir - TVEIMUR DÖGUM FYRIR gíslatökuna í Alsír lýsir því hvernig samtökin MUJAO í Malí, systursamtök AQUIM og LIFG, hóta gagnaðgerðum vegna innrásar Frakka, og segir svo: "Frakkland, SÞ, NATO og Pentagon munu nú færa út stríðið í Afríku og almenningur - sem rétt einu sinni skelfist hryðjuverk frá óttavekjandi en traustum leikbrúðum í CIA-hryllingsleikhúsinu - mun kaupa það og styðja frekari stríð og morð í nafni hnattræns veldis sem býr sig undir nýtt nýlenduhernám Afríku."
Líkindin með hryðjuverkaaðgerðunum í Amenas og 11. september eru mörg og mikil. Ég enda því greinina eins og ég byrjaði hana - en visa í staðinn til sprengingar tvíburaturnanna: " Ég get ekki fullyrt að hún hafi verið atburðarás nákvæmlega skipulögð af vestrænum leyniþjónustum. En ég fullyrði að hún hafi verið PÖNTUÐ og UNDIRBYGGÐ með kostgæfni af vestrænum leyniþjónustum."