Tuesday, January 22, 2013

"Herskáir íslamistar" sem tannhjól í gangverki heimsvaldasinna






LIFGSpringBoarding_1.jpg 595 x 380.jpg

















Ég get ekki fullyrt að gíslatakan í Alsír hafi verið atburðarás nákvæmlega skipulögð af vestrænum leyniþjónustum. En ég fullyrði að hún hafi verið PÖNTUÐ og UNDIRBYGGÐ með kostgæfni af vestrænum leyniþjónustum.
Samtökin sem eru sögð standa að gíslatökunni í olíuvinnslustöðinni í Amenas, rétt við landamæri Líbíu, eru klofningshópur úr alsírsku hryðjuverkasamtökunum "Al Qaeda í íslamska Maghrib" (AQIM). Yfirlýst tilefni gíslastökunnar var að þvinga Frakka til að láta af hernaðaríhlutun í nágrannalandinu Malí. Samtökin AQIM eiga sér nána bandamenn innan "frelsishersins" sem steypti Gaddafí í Líbíu árið 2011, samtökin Libyan Islamic Fighting group (LIFG), og þá leiðina koma vopnin sem þessar hryðjuverkasveitir ráða yfir í ríkum mæli. Líbísku "íslamistarnir" koma þannig mjög við borgarastríðið í Malí, og þar starfa systursamtökin MUJAO. Einnig tengjast þeir Frelsisher Sýrlands sem ber uppi stríðið gegn Assadstjórninni og nýtur velvildar og stuðnings Vesturveldanna og NATO.
Vesturblokkin, þ.e.a.s. Bandaríkin og NATO-ríkin, ástundar hnattrænt valdatafl við keppinauta sína, einkum Kína en einnig við Rússland og önnur lönd sem mynda óformlega "andófsblokk" með þeim. Taflið fer fram á stóru svæði - teygir sig frá Afríku norður og austur um allt til Peking - en miðja þess er Miðausturlönd. Miðausturlönd hafa þá sérstöðu að vera RÍK AF OLÍU og orku. Pólitísk markmið vestrænna heimsvaldasinna og auðhringa er einfalt: að hafa hámarksnot af þessu svæði. En keppinautar sækja fram og því þarf að ná pólitískum undirtökum. Til þess þarf að fella stjórnvöld sem flækjast fyrir vestrænni hnattvæðingarstefnu, og koma nýjum "vestrænt sinnuðum" stjórnvöldum að, helst leppstjórnum. Gangi það ekki er það markmið út af fyrir sig að veikja þau stjórnvöld innan frá sem eru til trafala, jafnvel með von um að sundurlima lönd þeirra. Stjórnvöld sem hafa verið til trafala eru m.a. Serbía, Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, Íran. Meðulin gegn þeim eru a) diplómatí (t.d. viðskiptabann), b) leynilegur undirróður c)hryðjuverk d) stríð.
Hér skal því haldið fram að ýmsir hópar "herskárra íslamista" gangi erinda vestrænna heimsvaldasinna, og séu þar í afar stóru hlutverki. Þetta hlutverk þeirra birtist þó á flókinn hátt. Það er t.d. alveg háð aðstæðum hvort starfsemi "íslamistanna" er notuð sem TYLLIÁSTÆÐA vestrænna íhlutana eða hvort þeir FRAMKVÆMA vestræna utanríkispólitík sjálfir sem leiguherir á snærum vestrænna leyniþjónusta (einkum CIA og bresku MI5). En þjónusta þeirra við heimsvaldasinna er jafntraust hvor aðferðin sem notuð er.
Það er þó ekki hægt afgreiða að íslamistana herskáu einfaldlega sem strengjabrúður. Ég vil undirstrika að herskár íslamismi á sér vissulega sjálfstæðan pólitískan grundvöll á því svæði sem hér um ræðir. Það er eitt sérkenni svæðisins að íslam er þar ríkjandi trúarbrögð. Til þess hljóta allir að horfa sem vilja komast þar til áhrifa. Róttækar trúarlegar umbótahreyfingar eru eðlilegur hluti af flestum trúarbrögðum. Annað sérkenni Miðausturlanda er hinar ríku orkuauðlindir eins og áður sagði og þess vegna hafa þau orðið vettvangur mikils og grófs yfirgangs nýlenduvelda heimsvaldasinna allt frá 19. öld.
Undanfarna áratugi hefur pólitískur og róttækur íslamismi látið mikið til sín taka í múslimalöndum. Ekki þarf að koma á óvart að hann hafi oft beinst gegn áhrifum og yfirgangi Vesturlanda í arabaheimi, og heimamönnum sem ganga erinda þeirra. Herskáir íslamistar ("jihadistar") telja að köllun múslimans um "jihad" sé m.a. köllun um að grípa til vopna gegn vantrúuðum og ranglátum yfirvöldum. Þar á meðal eru hreyfingar sem háð hafa hetjulega vopnaða baráttu gegn heimsvaldastefnu og síonisma, og nefni ég Hizbolla í Líbanon sem dæmi. En ýmislegt fleira er á kreiki.
Samtökin Al Kaída eru frægustu samtök herskárra "íslamista". Það er staðreynd að upphafs Al Kaída er að leita undir handarjaðri bandarískrar heimsvaldastefnu, nánar tiltekið í Afganistanstríðinu þegar CIA fékk unga arabíska trúmenn þangað til að berjast gegn sovésku innrásinni. Það var auðvitað ekki opinskátt og almennir stríðsmenn litu örugglega ekki á sig sem bandarísk verkfæri - hafa sjálfsagt hatast við vestræn áhrif - en þaðan voru þeir vopnaðir og kostaðir. Þegar því stríði lauk voru þessir hópar í fyrsta lagi atvinnulausir, í öðru lagi með traust en mis-opinská tengsl við bandaríska leyniþjónustu. Þetta tvíeðli hópanna, að vera í senn ákafir jihadistar og leiguhermenn í ákveðnu (ljósfælnu) tengslaneti, hefur reynst vestrænum leyniþjónustum notadrjúgt. Nefna má stríð í Bosníu, Kosovo, Tétsníu þar sem Al Qaeda hefur átt mikilvæga aðkomu og svo sprengingar tvíburaturnanna 11. september, en í framhaldi af þeim kom hnattrænt "stríð gegn hryðjuverkum" sem réttlætti og réttlætir enn hnattræn umsvif herja USA og NATO.
Á tímabili, eftir 11. september, voru Al Qaeda mest notuð sem TYLLIÁSTÆÐA vestrænna íhlutana (hugmyndin um stöðuga yfirvofandi hryðjuverkaógn) en síðustu árin hafa þau á ný í auknum mæli fengið burðarhlutverk í að FRAMKVÆMA slíkar innrásir og íhlutanir.
Abdulhakim Belhadj, foringi í uppreisnarsveitum Þjóðarráðsins í Líbíu og áður helsti foringi LIFG. „Jihadisti“ í þjónustu vestræAbdulhakim Belhadj, foringi í uppreisnarsveitum Þjóðarráðsins í Líbíu og áður helsti foringi LIFG. „Jihadisti“ í þjónustu vestrænna vinnuveitenda.Ég ætla að fylgja lítillega eftir einum Al Qaeda-manni. Bæði af því hann er mikilvægur fyrir atburðarásina í Malí/Alsír og af því hann er gott dæmi um það hvernig "hryðjuverkastríðið" gengur fyrir sig. Abdelhakim Belhaj heitir hann og var lengi helsti forustumaður, og emír, samtakanna LIFG í Líbíu. Árið 2007 gekk LIFG í náið bandalag við alsírska AQIM (Al Qaqda í íslamska Maghreb) og Belhaj varð nú fremsti forustumaður þess bandalags. "Jihadistar" þessir, og fleiri hópar herskárra íslamista, höfðu lengi barist, án mikils árangurs, fyrir málstað sínum í Líbíu og Alsír, þegar "arabíska vorið" og Líbíustríðið brast á 2011. Þá voru þeir nokkuð skyndilega komnir í fremstu röð í bardögum um Trípolí, og reyndust hafa mikilvirkustu og best vopnuðu sveitir "uppreisnarherjanna" gegn Gaddafí - vopnaðir og studdir af NATO, skrifaði Pebe Escobar í ágúst 2011.
Belhaj hafði bakgrunn í Afganistanstríðinu gegn innrás Sovétmanna. Og í Afganistan voru samtökin LIFG stofnuð nokkru síðar. Belhaj var tekinn höndum af Bandaríkjamönnum í Malasíu 2003. Þeir sendu hann síðan til heimalandsins Líbíu. Hann og hans fólk sættist opinberlega við Gadaffi um tíma, en hófu aftur "jihad" þegar "arabíska vorið" byrjaði og voru fljótlega komin í lykilstöður í hernaðararmi Líbíska þjóðarráðsins, nú fjármagnaðir og vopnaðir af NATO. Í árás NATO-ríkja á Líbíu var Frakkland einmitt fremst í flokki. Sjá um Belhaj:http://en.wikipedia.org/wiki/Abdelhakim_Belhadj
Aðeins mánuði eftir Fall Gaddafís var Belhaj kominn til Tyrklands til fundar við Frjálsa sýrlenska herinn og lofaði honum vopnum og fjárstuðningi í nýbyrjuðu stríði gegn Assad, aftur með vestrænum velvilja og hjálp.
Vopnabirgðirnar sem "jihadistarnir" komust yfir í Líbíu leiddu til þess að snemma árs 2012 tóku þeir stóra hluta af norðanverðu Sahara innan landamæra Malí. Ekki voru þeir neinir aufúsugestsir þar, og rúmu ári síðar skapaði þetta eyðimerkurstríð Frökkum heppilegt tilefni til innásar í Malí sem þeir "áttu" áður og hafa fullan hug á að eignast aftur enda er landið afar ríkt af olíu, gasi, kopar, úran, platínu og gimsteinum. Allt virkaði eins og til var sáð.
Sumir eru skarpari en aðrir í að greina samhengið í svona atburðarás. Grein á vef tengdum Wikileaks sem skrifuð var - takið eftir - TVEIMUR DÖGUM FYRIR gíslatökuna í Alsír lýsir því hvernig samtökin MUJAO í Malí, systursamtök AQUIM og LIFG, hóta gagnaðgerðum vegna innrásar Frakka, og segir svo: "Frakkland, SÞ, NATO og Pentagon munu nú færa út stríðið í Afríku og almenningur - sem rétt einu sinni skelfist hryðjuverk frá óttavekjandi en traustum leikbrúðum í CIA-hryllingsleikhúsinu - mun kaupa það og styðja frekari stríð og morð í nafni hnattræns veldis sem býr sig undir nýtt nýlenduhernám Afríku."
Líkindin með hryðjuverkaaðgerðunum í Amenas og 11. september eru mörg og mikil. Ég enda því greinina eins og ég byrjaði hana - en visa í staðinn til sprengingar tvíburaturnanna: " Ég get ekki fullyrt að hún hafi verið atburðarás nákvæmlega skipulögð af vestrænum leyniþjónustum. En ég fullyrði að hún hafi verið PÖNTUÐ og UNDIRBYGGÐ með kostgæfni af vestrænum leyniþjónustum."

Sunday, January 20, 2013

Goldman Sachs & ‘Masters of the Eurozone‘


Goldman Sachs er fjármálaráðgjafi fyrir nokkur ráðandi fyrirtæki heims, nokkur voldugustu stjórnvöld heims og auðugustu fjölskyldur. Fjármálafyrirtækið er megingerandi á verðbréfamarkaði bandaríska fjármálaráðuneytisins.
Í apríl 2010  hóf bandaríska fjármálaeftirlitið (Securities and Exchange Commission) málsókn gegn Goldman Sachs fyrir að hafa blekkt viðskiptavini sína í undirmálslána-hneykslinu svokallaða. Goldman Sachs hjálpaði grísku ríkisstjórninni árið 2001 við að fela skuldir Grikklands svo að landið liti út sem hæfur kandídat til að taka upp evru.
Einhver skyldi halda að fjárfestingabanki með slíka sögu hefði misst áhrif sín eftir bankahrunið 2008 og síðan evrukreppuna. Svo er þó ekki. Menn nátengdir Goldman Sachs sitja eða hafa undanfarin misseri setið í lykilstöðum í ESB-batteríinu og í toppstöðum í  sjö löndum á evrusvæðinu, sem forsætisráðherrar og seðlabankastjórar. Ýmist hafa þeir farið úr pólitískum valdastöðum til bankans eða úr bankanum til pólitískra valda. Þessum hrókeringum er mjög stjórnað beint frá stjórnstöðvum ESB og klúbbum fjármálavaldsins en þær fara hins vegar að miklu leyti fram yfir höfðum þjóðþinga og þjóðkjörinna stofnana. Og stefnu þessa býrókratíska valds gagnvart skipulegri verkalýðshreyfingu hef ég áður lýst í grein.
Hér að neðan má sjá „drengjaklúbb Goldman Sachs" sem á undanförnum árum hefur setið marga hæstu valdastóla í evrópskum fjármálum og stjórnmálum. Samantektin er sótt í rúmlega ársgamla grein í The Independent:
goldman.jpg

Mario Draghi. Ítalíu.
Forseti Evrópska seðlabankans (höfuðstöðvar í Frankfurt). Áður bankastjóri Seðlabanka Ítalíu og framkvæmdastjóri Goldman Sachs International.
Otmar Issing, Þýskalandi.
Var í yfirstjórn Evrópska seðlabankans 1998-2006 og áður í stjórn þýska Bundesbank. Einn af arkítektum evrunnar. Nú ráðgjafi hjá Goldman Sachs.
Mark Carney, Englandi
Yfirbankastjóri Bank of England. Áður bankastjóri Bank of Canada og framkvæmdastjóri í Goldman Sachs.
Lucas Papademos, Grikklandi
Forsætisráðherra Grikklands 2011-12. Fyrrum bankastjóri Seðlabanka Grikklands á þeim tíma er skuldir Grikklands voru lækkaðar á pappírnum með hjálp Goldman Sachsárið 2001 (til að undirbúa upptöku evru í Grikklandi 2001) og aftur síðar. Síðar var hann varaforseti Evrópska seðlabankans þar til hann varð forsætisráðherra 2011.
Petros Christodoulou. Grikklandi
Yfirmaður skiptastjórnar þeirrar sem stjórnar nú skuldum gríska ríkisins. Hóf frama sinn innan Goldman Sachs í London og Kanada.
Mario Monti, Ítalíu
Forsætisráðherra Ítalíu. Áður í Framkvædastjórn ESB og síðan alþjóðlegur ráðgjafi hjáGoldman Sachs.
Antonio Borges, Portúgal/Frakklandi
Stjórnar nú einkavæðingunni í Portúgal í samvinnu við „Þríeykið" (Evrópska seðlabankann, Framkvæmdastjórnina og AGS). Var fram til 2011 yfir Evrópusviði AGS og þar áður varaforseti Goldman Sachs.
Peter Sutherland, Írlandi
Framkvæmdastjóri í Goldman Sachs International. Áður Ríkissaksóknari á Írlandi og fulltrúi Írlands í Framkvæmdastjórn ESB
Samantektin sýnir m.a. þrennt: 1) að fjármálaauðvaldið hefur ekki veikst þrátt fyrir fjármálakreppuna, fjármálavæðingin heldur áfram og „2007" varir enn, 2) í öðru lagi sést mikið nábýli stjórnmálaheimsins og fjármálaheimsins, jafnt í Evrópu sem Bandaríkjunum og 3) loks sýnir þetta hin nánu tengsl á efsta plani auðs og valds milli ESB og USA þar sem sá síðarnefndi er stóri bróðir. /ÞH

Saturday, January 12, 2013

Samfylkjum!


Taktíkin í baráttunni er alltaf mikilvæg og ræður stundum úrslitum. Hverjir eiga samleið? Hverjir vilja standa saman? Hvað skilar bestum árangri? Í samtakabaráttu almennings fyrir hagsmunum sínum er grundvallaratriði að kunna að samfylkja,  að sameina þá sem sameinast geta um þau mál sem brýnust eru á hverjum tíma.
Baráttan gegn ESB-aðild Íslands er slíkt mál . Við vitum að andastaðan gegn ESB-aðild er þverpólitísk. Hún er m.a. afar breið á skalanum hægri-vinstri. En það er vandaverk að samfylkja, Í því efni er auðvelt að falla í gryfjur, ýmist út frá eingin flokkshollustu, pirringi eða óþolinmæði gagnvart fólki úr öðrum flokkum m.m. Í ESB-andstöðunni gengur þetta brösótt eins og stundum áður í líku samhengi..
Samtökin Heimssýn eru mikilvægustu samtökin í baráttunni gegn ESB-aðild, enda eru þau - að ég held - einu samtökin sem helga  sig alveg því málefni. Og þau eru skipulögð sem ekta samfylking. Í lögum þeirra segir að þau séu: „þverpólitísk landssamtök fólks sem hefur mismunandi skoðanir á þjóðmálum en vinnur saman á vettvangi samtakanna til verndar íslensku sjálfstæði og lýðræði..."
Það er ekkert nema gott um þessi lög að segja. Þau eiga að geta sameinað ólíka hópa. Samt hefur allmjög borið á sundrungu í Heimssýn og innan raða ESB-andstæðinga. Spurningin er: Er það skortur á TAKTÍK eða vantar VILJANN til að standa saman? Lítum á fáeina sundrungarbresti sem orðið hafa.
Það var slæmt þegar Páll Vilhjálmsson fyrir skemmstu skaut breiðsíðu að VG sem flokki, sagði að koma þyrfti VG af þingi vegna eftirgjafa og svika flokksforustunnar í Evrópumálum.  Með því móti var Páll farinn að reka frá sér marga eindregna ESB-andstæðinga sem halda tryggð við VG. Þetta var sérstaklega slæmt af því Páll var helsti starfsmaður Heimssýnar og bloggaði þetta á vef samtakanna, að vísu undir eigin upphafsstöfum. Páll er kappsamur og hressilegur baráttumaður, en ekki sérlega taktískur, og breiðsíða hans kostaði nokkrar úrsagnir úr samtökunum.  Hann tók afleiðingum af því og sagði af sér sem starfsmaður Heimssýnar.
Hins vegar er Páli Vilhjálmssyni og örðum ESB-andstæðingum vandi á höndum að fást við VG. Samtök stofnuð til að berjast gegn ESB-aðild hljóta óhjákvæmilega að gagnrýna harkalega ríkisstjórn sem sækir um inngöngu í sambandið, og forustu þeirra flokka sem hafa forgöngu að slíkri umsókn (jafnvel gegn eigin stefnu). Samt þarf að forðast gagnrýni sem er árás á alla stuðningsmenn stjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Það er vandrataður meðalvegurinn - en um hann liggur leiðin að markinu.
Svo eru það annars konar úrsagnir úr Heimssýn, formlegar eða óformlegar. Menn hafa gengið úr liðinu - og yfirgefið alla virka ESB-andstöðu - á þeim forsendum að einhverjir séu í liðinu sem þeir vilja ekki hafa með.  Árni Þór Sigurðsson réðist gegn vefmiðlinum „Evrópuvaktinni", þar sem Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson eru áberandi, á þeim forsendum að þar færu „öfgahægrimenn". Huginn Þorsteinsson og Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmenn Steingríms J. og Katrínar Jakobsdóttur, skrifa greinar og segja Heimssýn vera hluta af íslenskri „Teboðshreyfingu" og að samtökin hafi „runnið sitt skeið á enda".  Í mars 2011 lýsti Björn Valur Gíslason á bloggi sínu frati á Heimssýn og spurði hvort ekki væri tímabært að skapa sér nýjan vettvang til að takast á við umræðuna í stað þess sem Heimssýn er að bjóða upp á". Hvaða vísbendingu gefur það að nokkrir alnánustu bandamenn Steingríms J. Sigfússonara gangi fram í Evrópuumræðunni á þennan hátt?
Hugtakið „öfgahægrimenn" er yfirleitt notað um fasista, nasista, rasista, fólk sem berst gegn innflytjendum, gegn múslimum o.s.frv. Ég kæri mig reyndar ekki heldur um að starfa með öfgahægrimönnum í neinum samtökum. Hins vegar er meira en hæpið að tala um Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson sem öfgahægrimenn. Frekar eru þeir hefðbundnir, þjóðlegir íslenskir hægrimenn. Og á „Evrópuvaktinni" er erfitt að finna dæmigerð rök öfgahægrimanna í rökstuðningi fyrir ESB-andstöðu. Enda nefndi Árni Þór ekkert dæmi því til staðfesteingar. Þeir Huginn og Elías Þór nefndu ekki heldur neitt dæmi um það hvernig hvernig málflutningur á vegum Heimssýnar samrýmdist málflutningi Teboðshreyfingarinnar bandarísku. Stimplarnir eru einfaldlega dregnir fram til að sverta þau samtök sem um ræðir
Björn Valur Gíslason hefur ekki skapað neinn „nýjan vettvang" fyrir baráttu gegn ESB hvorki fyrr né síðar. Og ekki heldur þeir Árni Þór, Huginn eða Elías Jón, síður en svo. Gagnrýnin úttekt á ESB er mjög fyrirferðalítil á vettvangi VG eftir að stjórnarsamstarfið hófst (sem skýrir það að meira ber á hægri en vinstri mönnum kringum Heimssýn). Þá lítur út fyrir að þátttaka hægrimanna í samfylkingu ESB-andstæðinga sé einfaldlega notuð sem átylla þessa fólks til að hlaupast á brott úr liðinu. Og það er alvarlegra mál en að vera ótaktískur.
ESB-andstaðan er breið og þverpólitísk. Það ætti að vera styrkur hennar, ef menn taka málstaðinn fram yfir flokkshagsmuni - og ef menn kunna að samfylkja. /ÞH

Saturday, January 5, 2013

Vinnumarkaðsumbætur ESB boða harkaleg komandi ár



Saga EBE/ESB er saga um stöðuga viðleitni og endurteknar tilraunir lítillar elítu, þ.e.a.s. klúbba kringum vesturevrópskt stórauðvald, til að smíða sér stærri og voldugri einingu, efnahagslega og pólitíska blokk. Til þess þarf að  brjóta niður skilrúm, opna landamæri, samræma og samhæfa framleiðslukerfi og vinnumarkaðs-regluverk, gera það straumlínulagaðra, ná við það sparnaði og hagræðingu stærðarinnar – til að græða meira á sameiginlegum innri markaði og til að standast betur samkeppni frá öðrum auðvaldsblokkum. 

Tilraunir elítunnar til að smíða pólitískt samband hafa mætt eindreginni andstöðu og tregðu hjá almenningi sem hefur jafnan fellt slíkt ef hann er spurður. Úr því lýðræðisleiðin er ekki fær velur elítan hjáleið: að innleiða sameiginlegan markað – formlega með Maastrict-samningnum 1993 – sleppa markaðsöflunum lausum og láta frjálsa flæðið og samkeppnina sjá um samrunaþróunina. Leiðin liggur framhjá lýðræðinu. Gallinn við pólitíkina er að þar þvælist almenningur endalaust fyrir en á efnahagssviðinu ræður elítan ein (einokunarauðvaldið). Mig langar að nefna fáeina nýlega áfanga á þessari þróunarbraut.

Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims“ fyrir árið 2020. Evrópski markaðurinn þurfti að verða meira örvandi fyrir fjárfesta og þar með hagvöxtinn. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki“ og byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að auka hagvöxt.

Næsti áfangi var stækkun ESB í austur 2004. Þar fór saman hagræn stórsókn Vesturevrópsks auðmagns inn í gömlu austurblokkina og svo straumur launafólks frá  austri, þar sem verkalýðshreyfing er naumast til. Þeim straumi var ætlað að brjóta upp „ósveigjanleika og reglugerðabákn“ í vestrinu. Í framhaldinu voru framleiðslueiningar fluttar á lágkostnaðarsvæði í austri og/eða að ódýrt vinnuafl streymdi í vestur í krafti hins frjálsa flæðis. Elítan hefur lengi talið að „reglugerðabákn“ á vinnumarkaði hamlaði hagvexti. „Reglugerðabákn“ á vinnumarkaði er samheiti við áunnin fagleg réttindi og því snar þáttur í velferðarkerfinu. Markmiðið var sem sé að brjóta upp heildarkjarasamninga og stranga vinnulöggjöf, og til lengri tíma að losna við kostnaðarsamt velferðarkerfi.

Þegar svo fjármálakreppan 2008 kom til og í framhaldinu evrópska kreppan er hún notuð sama hátt: sem múrbrjótur á fagleg réttindi og velferðargæði. Vinnumarkaðsumbætur eru fyrst innleiddar í þeim löndum Suður-Evrópu þar sem allt er í kaldakoli og niðurskurðarhnífurinn stöðugt blóðugur, og síðan er umbótunum veitt þaðan og inn í hin löndin. Tilskipanirnar frá miðstöðvum ESB verða sí-harkalegri. Nefna má áætlun um fjármálastöðugleika sem nefnd er „Evrópska önnin“ sem Framkvæmdastjórnin sendi út í ársbyrjun, einnig svonefndan „ríkisfjármálasáttmála“ (bann við Keynesisma) frá í mars sl. sem ég fjallaði nokkuð um fyrir viku.

Nú síðast, í september sl., kemur frá Framkvæmdastjórninni skýrsla um „umbætur á vinnumarkaði“.  Sjá hér:
http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/european_economy/2012/pdf/ee-2012-5_en.pdf  Þar er fjallað um breyttar reglur á vinnumarkaði sem þegar hafa gengið í gildi í nokkrum aðildarríkjum þar sem kreppan hefur komið harðast niður og lagt er á ráðin um frekari aðgerðir í sama anda. Breytingarnar fela almennt í sér „aukinn sveigjanleika“ þ.e.a.s. afnám reglna á vinnumarkaði. Dæmi: dregið er úr vægi heildarkjarasamninga, boðuð „dreifð samningagerð“ þar sem einstök fyrirtæki geta samið um kjör utan kjarasamninga og bein inngrip ríkisstjórna um kaup og kjör eru daglegt brauð (um þetta er fjallað í skýrslunni á bls 48–60).

Samband evrópskra verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation, ETUC) er regnhlífarsamtök verkalýðshreyfinga innan ESB. Sambandið rekur rannsókna- og námsstofnunina ETUI. Á vegum hennar hefur nú verið gerð rannsókn á þessum vinnumarkaðsumbótum sem flæða yfir lönd sambandsins í kreppunni. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að umbæturnar hafi í för með sér meiri ójöfnuð og meira óöryggi í Evrópulöndum. Rannsóknarskýrsluna má sjá hér:
http://www.etui.org/Publications2/Working-Papers/The-crisis-and-national-labour-law-reforms-a-mapping-exercise  Danska netsíðan „EU-fagligt netværk“, sem er ESB-gagnrýnin, dregur skýrsluna saman og segir m.a.:

„Krafan um umbætur hefur hljómað árum saman frá ESB-kerfinu, en í núverandi kreppu hafa kröfurnar um „sveigjanlegri vinnumarkað“ harðnað. ESB leikur beint og virkt hlutverk í því að grafa undan faglegum réttindum í Grikklandi, Írlandi og Portúgal eins og skýrslan sýnir. Löndunum er ekki bara þröngvað til að breyta reglunum um vinnumarkaðinn heldur einnig félagsmálakerfinu (styttri dagpeningagreiðslur, lægri bætur, hækkaður lífeyrisaldur, lækkaðar lífeyrisgreiðslur).

Umbæturnar nú eru svo umfangsmiklar að þær ógna beinlínis hinni svonefndu „evrópsku samfélagsgerð“ segja skýrsluhöfundarnir tveir frá ETUI. Skýrslan bendir á nokkrar almennar tilhneigingar til afnáms reglna á vinnumarkaði aðildarlandanna og fjallar um þróunina í 24 löndum. ETUI bendir á að umbæturnar séu í mörgum tilfellum teknar upp án lýðræðislegs lögmætis og án tillits til hefða í viðkomandi löndum. Í mörgum tilfellum eru umbæturnar samþykktar án þess að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum eins og annars er venja.“

Það er ástæða til að undirstrika að skýrsla þessi sem er samhangandi aðvörunaróp er ekki samin af stofnun sem yfirleitt ástundar ESB-gagnrýni heldur er stofnunin hluti af ESB-batteríinu og hefur stutt samrunaferlið til þessa. En niðurstaðan er enn á ný þessi: Elítan notar vald sitt í efnahagslífinu til að leggja leiðina framhjá lýðræðinu. Eins og samkeppnin og frjálsa flæðið áður er kreppan nú notuð eins og gegnið getur sem múrbrjótur gegn verkalýðshreyfingunni og og áunnum réttindum hennar.