Saturday, May 11, 2013

Andstaða við EES í norskri verkalýðshreyfingu


Í grein hér á Vinstri vaktinni 7. maí kom fram að samkvæmt nýrri könnun styðja aðeins 42% Svía aðild að ESB en voru 53% fyrir 3 árum (sem breytir þó litlu þegar enginn farvegur út úr sambandinu er til). Einnig kemur fram að aðeins 9% Svía telja að ESB-aðild auki sjálfstæði landsins, sem er vinsæl kenning meðal aðildarsinna hérlendis. Ekki síst kemur fram að aðeins 9% vilja að landið taki upp evru í staðinn fyrir sænsku krónuna.
Víkur þá sögunni til Noregs. Formaður norsku Evrópuhreyfingarinna lýsti nýlega yfir: „umræðan um norska ESB-aðild er dauð" (Klassekampen 29. nóvember 2012) og lagði niður hreyfinguna. Lengi var andstaðan við ESB í Noregi borin uppi af landsbyggðarfólki, ekki síst því sem tengist landbúnaði og fiskveiðum, en tök hægri krata á verkalýðshreyfingunni voru sterk og komu í veg fyrir kröftuga andstöðu úr þeirri átt. Nú eru tímar breyttir. Nú er verkalýðshreyfingin ekki aðeins andsnúin ESB-aðild heldur í vaxandi mæli andsnúin EES líka.
Norsk verkalýðshreyfing hafnar forgangsrétti ESB-reglna  
Norska verkalýðshreyfingin LO hélt í síðustu viku allsherjarþing (LO-kongess) sem hún gerir á fjögra ára fresti. Þar fór mest umræða í harkalega gagnrýni á EES-samninginn. Stærsta landssamband innan LO, Fagforbundet, hafði þegar ályktað að „vinnumarkaðsmál og fagleg réttindi verða að fara út úr EES-samningnum svo við getum varðveitt norsku atvinnulífsgerðina." Mörg önnur sambönd höfðu einnig lýst yfir óánægju með það hvernig Evróputilskipanir grípi inn í norska kjarasamninga og vinnumálalöggjöf. Sum bæta því við að ef ekki megi komast hjá þessu verði Noregur að yfirgefa EES. Óánægjan beinist einmitt að því hvernig EES-samningurinn felur í sér hæga og bítandi aðlögun að ESB.
Umræður urðu heitar á LO-þinginu. Að lokum var samþykkt nær samhljóða málamiðlunartillaga, einmitt frá Fagforbundet: „LO-þingið fullyrðir að núverandi EES-samningur grípur inn í norskt atvinnulíf og samfélag. LO krefst þess að norsk stjórnvöld hafni hverri skerðingu á rétti til samvirkra baráttuaðferða, rétti til heildarkjarasamninga og landsbundinnar launamyndunar. ILO-samningar, norskir kjarasamningar og norsk vinnumálalöggjöf skulu hafa forgangsrétt fram yfir ESB-reglur" (http://www.abcnyheter.no/nyheter/2013/05/08/lo-kongressen-med-viktigste-vedtak-i-norsk-politikk-om-eoes?utm_source=feedly).
Það sem gerir þessa LO-samþykkt svo róttæka er að efni hennar er ósamrýmanlegt EES-samningnum eins og þinginu var fullkunnugt um. Gianluca Grippa, formaður Vestur-Evrópudeildar Framkvæmdastjórnar ESB, var spurður um þetta atriði og svaraði: „Þeirri spurningu er svarað í 35. bókun samningsins en þar eru aðilar sammála um að EES-samningurinn hafi forgangsrétt fram yfir þjóðlega löggjöf ef á milli ber." (http://www.abcnyheter.no/nyheter/2013/02/06/eu-sier-nei-til-lo-kompromiss).
Fjórfrelsinu hafnað 
Bókunin hljóðar svo: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum" (http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/pages/bokun35 )
Í fjölmennum röðum EES-andstæðinga á LO-þinginu var það mál manna að samþykkt þessi hlyti að leiða af sér stigmagnandi árekstra milli LO og ESB-reglna. Hér er í raun hafnað gildandi framkvæmd á frjálsu flæði vinnuafls á Evrópska efnahagssvæðinu á tímum atvinnuleysissprengingar og vaxandi félagslegra undirboða. Líklegra verður þó bið á að ASÍ-þing ráðist gegn EES-samningnum á viðlíka hátt.

No comments:

Post a Comment