Lýðræði hentar auðvaldinu illa á krepputímum.Þróun ESB er dæmi um það.ESB er þó alls ekki einangrað, mislukkað dæmi eins og ýmsir kjósa að skoða sambandið, heldur er það á margan hátt dæmigert fyrir þróunina á heimsvísu.
Meðan fullvalda þjóðríki með eru rammi stjórnmála gefur það verkalýðshreyfingu og virkri grasrót möguleika til áhrifa. En yfirþjóðlegar blokkir eins og ESB og NATO taka sér æ meira vald. Þær stjórnast af öflugri þrýstihópum: stórveldum Evrópu, fjármálamörkuðum austan Atlantshafs og vestan, Bilderberg-klúbbnum, World Economic Forum, AGS, Heimsviðskiptastofnuninni o.s. frv. Grasrót og smáríki hafa þar harla litla möguleika til áhrifa. Hagsmunir vestræns stórauðvalds sitja fyrir og menn nálgast þar hreint auðræði. Einkennilegt er að sjá yfirlýsta vinstri menn styðja þessa þróun.
Þessi samþjöppun valdsins í Evrópu gildir ekki eingöngu fyrir lönd með fulla ESB-aðild. Hvort sem við Íslendingar innleiðum 2/3 af regluverki ESB gegnum EES-samninginn - oftast án teljandi umræðu á þingi - eða ögn hærra eða lægra hlutfall er það sannanlega grafalvarlegt afsal á fullveldi landsins og þar með lýðræðinu.
Auðurinn þjappast saman ekki síður en valdið, svo nú eiga 85 auðugustu einstaklingar heims jafn miklar eignir og fátækari helmingur jarðarbúa.
Evrópa hefur þróast hratt til tvískiptingar, kjarnasvæði norðan- og vestanvert og svo jaðarsvæði í austri og suðri. Efnahagskerfi jaðarsins verður undir í samkeppninni, þau lönd verða efnahagslegar hjálendur meðan kjarninn, einkum Þýskaland, þróast sem útflutningshagkerfi. Kapítalískur aflsmunur ræður.
Í kreppu síðustu ára í Evrópu hafa jaðarlöndin orðið ofurskuldug. Þá er lýðræðinu og borgaralegum réttindum miskunnarlaust fórnað. Árið 2011 neyddi fjármálafáveldi Evrópu tvo forsætisráðherra, ítalska Berlusconi og gríska Papandreo, til að segja af sér. Berlusconi hafði sagt að Ítalía gæti e.t.v. ekki greitt skuld sína. ESB skipti honum þá snarlega út og setti Mario Monti, bankastjóra í Goldman Sachs í hans stað. Þegar Papandreo ýjaði að því að þjóð hans ætti e.t.v. að fá að segja álit sitt á kreppuráðstöfunum ESB þá ýtti ESB honum til hliðar og setti varaforseta Evrópska seðlabankans í hans stað.„Þríeykið" - Framkvæmdastjórnin í Brussel plús Evrópski seðlabankinn plús AGS - lagði línuna. Þjóðþing voru einskis spurð. Þingræðinu er ýtt til hliðar þegar það hentar ekki.
Í kreppunni miklu upp úr 1930 jókst vægi grasrótarinnar víða í Evrópu smám saman (þar sem ekki ríkti fasismi) einkum vegna framsóknar róttækrar verkalýðshreyfingar og sósíalískra viðhorfa. En vegna sögulegs undanhalds sósíalismans er nú mikill skortur á mótafli í samfélagið gegn hinu óhefta auðræði.
Lögregluríkið þróast jafnt og þétt bak við tjöldin. Edward Snowen hefur sýnt og margsannað að bandarískar öryggisstofnanir hafa árum saman njósnað um almenning í eigin landi og um heim allan gegnum Microsoft, Google, Facebook m.m. Bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin hlerar Angelu Merkel, en Snowden hefur einnig sýnt að breskar þýskar og meira að segja skandinavískar öryggisstofnanir vinna náið með þeirri bandarísku.Þessi lönd halda þó fram eigin lýðræði sem fyrirmynd. Þetta er skýlaust brot á stjórnarskrá landanna, en hún víkur fyrir þörfum auðs og valds.
Í sunnanverðri Evrópu, þar sem kreppan kemur harðast niður hefur ríkisvaldið tekið að skerða atahafnafrelsi verkalýðshreyfingar og virkrar fjöldahreyfingar. Á Spáni er kreppan hyldjúp. Atvinnuleysi fólks innan 25 ára nálgast 60%, sem eðlilega hefur leitt til mikilla mótmæla. Því svarar ríkisvaldið með harðneskjulegum lögum gegn mótmælaaðgerðum. Lögleidd hafa verið grimmilegar fjársektir t.d. við verkföllum og við því að mótmæla í leyfisleysi nálægt þinginu í Madríd.
Þegar kreppan dýpkar og átök heimsveldanna harðna bruggar Vestrið (USA og ESB-veldin) sterkari meðul. Í Sýrlandi beitir það fyrir sig vígasveitum íslamískra terrorista. Í Úkraínu var löglega kjörinni stjórn steypt með dyggilegri hjálp ESB og Bandaríkjanna. Miklu ofbeldi var beitt við stjórnarskiptin. Vestræn pressa lýsir þessu reyndar sem sigri „lýðræðisins" enda voru það vestrænt sinnuð öfl sem komust að. Helstu flokkarnir í nýrri stjórn eru Föðurlandsflokkur Jatsenjúks forsætisráðherra og Júlíu Tímosjenko fyrrum forsætisráðherra og svo fasistaflokkurinn Svoboda. Ekki þarf að fjölyrða um þann síðarnefnda, þar fara nasistar af gamalli gerð. Hinn er flokkur öfgaþjóðernissinna, afskaplega Rússlands-fjandsamlegra. Tímosjenko hefur verið séstakur talsmaður ESB í Úkraínu, mjög vestrænt sinnuð og frjálslynd að því okkur er sagt. En rússnesk leyniþjónusta náði að hlera og leka til fjölmiðla símtali hennar við samflokksmann sinn þar sem hún segir að útrýma beri Rússunum í Úkraínu og breyta Rússlandi í sviðna jörð! Í háborgum valdsins vestan og austan Atlantshafs eru menn sjálfsagt ekkert hrifnir af fasistum. En allt er hey í harðindum og sem sagt: á krepputímum hentar lýðræðið auðvaldinu illa.
No comments:
Post a Comment