Friday, March 24, 2017

Bók Árna Daníels Júlíussonar: Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals

(Birtistí byggðablaði Svarfdælinga Norðurslóð 23. mars 2017)


Okkur Svarfdælingum bættist ansi drjúg viðbót við byggðasögu okkar núna fyrir jólin. Miðaldir í Skuggsjá Svarfaðardals. Frumkvæðið að ritinu kom frá Sögufélagi Svarfdæla sem fékk Árna Daníel Júlíusson til verksins. Með því var um leið minnst 100 ára afmælis Kristjáns Eldjárns, sem hóf sjálfur ritun svarfdælskrar byggðasögu en lést áður en langt var komið verki, hafði þó skrifað skemmtilegan formála og lítils háttar drög. Þau drög fékk Árni Daníel til afnota og notar, birtir m.a. formálann í heild. Árni Daníel takmarkar verkið við miðaldirnar, en lok þeirra miðast gjarnan við aldamótin 1500 eða þá siðaskiptin um 1550.

Saga auðs og valds
Bókin opnar okkur góða glugga inn í áður huldan heim. Þar birtast útlínur og megindrættir samfélags. Í misskýrum línum þó. Nafnið er engin tilviljun. Þarna birtist ekki Svarfaðardalur í ljósi almennra íslenskra miðaldarannsókna heldur einmitt miðaldir Íslands dregnar upp „í skuggsjá Svarfaðardals“, þ.e.a.s. í ljósi svarfdælskra fornleifarannsókna og ritheimilda um dalinn frá miðöldum. Svo bætast við helstu nýju fornleifarannsókinir frá öðrum svæðum í landinu. 
Ég held að þarna fáist fyllri mynd af miðaldasamfélaginu en aðgengileg hefur verið, a.m.k. kunnug mér sem er leikmaður á þessu fræðasviði. Það stafar af því hvað efnislegar minjar (kuml, merkjagarðar, bæjarhólar, seltóftir, kirkjugarðar, tímasetning mannvistar og eyðibyggðar) og skriflegar heimildir úr Svarfaðardal eru miklar og Árni Daníel notar þær vel. 
Eins og fram hefur komið hjá höfundi, m.a. hér í Norðurslóð, þá „hverfist umfjöllunin fyrst og fremst um það hverjir áttu landið, hverjir nutu góðs af framleiðslunni, hverjir fóru með völdin og þess háttar. Þetta er sem sagt ekki landbúnaðarsaga heldur saga auðs og valds.“ (Nsl. nóvember 2016) Það mætti líka kalla þetta þróun stéttaskiptingarinnar í landinu. Það má gagnrýna slíkt sjónarhorn og segja að það sé þröngt, en vissulega eru þetta grundvallarþættir í þróun samfélagsins og tilvist fólksins. En kannski er ekki rétt hjá höfundi að sjónarhornið sé svona þröngt.

Sem alhliða mynd af miðaldasamfélagi dalsins tel ég þó allvíða vanta upp á að mynd Árna Daníels sé skýr fyrir lesandann. Líklega er ekki kostur á öðru. Eitthvað vantar upp á alþýðleika í framsetningu til að almennur lesandi fái ljósa mynd. Vissulega útheimtir miklu meira af höfundi, miklu meiri matreiðslu textans, að skrifa alþýðlegt rit en t.d. greinaskrif fyrir fræðirit. Texti Árna Daníels er alls ekki fræðigreinatexti en hefði þó haft gott af meiri vinnu við að auka alþýðleikann. Þetta er sjálfsagt óhjákvæmilegt í ljósi hins víðfeðma efnis og þess nauma tíma sem höfundur fékk. 
Árni Daníel er varfærinn fræðimaður sem lætur ekki hanka sig á að „hrapa að ályktunum“. Hann segir stundum að svona og svona „gæti það hafa verið“. Ég veit að skiptar skoðanir eru meðal fræðimanna um íslenskt miðaldasamfélag, rétt eins og um nútímasamfélgið. Til að auka gagn og ánægju lesandans af lestrinum hefði ég hér og þar kosið meiri og ákveðnari ályktanir höfundar. Mér sýnist heimildagrundvöllur Árna Daníels víðast það traustur að hann beri uppi ályktanir. Kannski mætti stundum skrifa „líkindi benda til“ í stað þess að segja „gæti hafa verið“. 

Nokkar ályktanir
Til gamans langar mig að raða upp nokkrum af ályktunum bókarinnar sem Árni Daníel ýmist setur fram svartar á hvítu eða ýjar að án fullyrðingar. Það er gaman að gera þetta af því hvað myndin af Svarfaðardal miðaldanna er hér heildstæð og glögg þrátt fyrir allt, og einnig af því hún segir margt annað en hefðbundnar hugmyndir um miðaldasamfélagið segja – og annað en margar nýrri hugmyndir fræðimanna líka. Hér kemur vísast það til að undirritaður er meiri glanni en Árni Daníel (og líka það að þessi grein er fljótaskrift).
- Það er rangt að búskapur landnámsmanna hafi verið rányrkjubúskapur sem hafi fljótt gengið á landgæðin. „Ekki eru merki um jarðvegs- og gróðureyðingu frá þessum tíma í dalnum, þótt búfénu hafi fjölgað svona mikið og loftslag verið mjög kalt“. Landbúnaðurinn óx hægt og bítandi án landfræðilegra hindrana til 1400.
- Kuml: (heiðnar grafir) hafa fundist óvenju mörg í Svarfaðardal og Árskógsströnd. Lega þessara kumla bendir til að ströndin, niður- og miðsveitin hafi byggst nokkuð á undan framdölunum.  
- Sjálfseignarbændur: Kuml voru sett á landamerki sem merki um jarðeign fjölskyldu og sjálfstæði. Fjöldi kumlanna bendir til að dalurinn hafi byggst einkum af sjálfseignarbændum, ekki af aðli og ófrjálsu fylgdarliði hans. Þetta er annað munstur en sums staðar annars staðar í landinu. „Upphaflegar sjálfstæðar jarðir [virðast] hafa verið allt að 20 eða jafnvel fleiri.“ Fjöldi kirkna í dalnum – 21 kirkja á 11. Öld – bendir mjög í sömu átt. Þetta var því líklega samfélag sjálfseignarbænda sem áttu fulltrúa á þingum þjóðveldisins og höfðu með sér „hrepp“.
- Garðar: Lengd hlaðinna garða frá miðöldum í Svarfaðardal (hagagarða, landamerkjagarða, vallargarða) er um 150 km. Görðunum var reglulega haldið við fram að Svarta dauða 1402, en var þá að miklu leyti hætt. 
- Áburðarnotkun varð regluleg eftir 1100 en varð óreglulegri eftir Svarta dauða. 
- Seljabúskapur: Forleifaskráning skráir seljarústir við 38 lögbýli í Svarfaðardal (mikinn meirihluta lögbýla) en aðeins 3 í Skíðadal (lítil garðlög þar líka). Sel voru almennt uppi í hlíð, ofan hagagarða. Á tíma Jarðabókar Árna og Páls (1702-14) var selför hins vegar aðeins frá fáum bæjum. Líklega er „samhengi milli byggingar hagagarða og þess að farið var að hafa í seli“ og eins þegar hvorutveggja var hætt.    
- Kúabúskapur: Nautgriparækt var ráðandi í landinu framan af miðöldum. „Allt að 85% landbúnaðarafurða komu frá þessari einu grein.“ Það gjörbreyttist við Svarta dauða.
- Þéttbýli: Toll- og tíundarskyld býli (lögbýli) í Svarfaðardal árin 1318 og 1398 voru 68. Til viðbótar komu „hjábýli“ (hjáleigur) sem voru ósjálfstæð og greiddu ekki tíund. Þau hafa verið skráð alls 69 á breytilegum tímum. Ef tvíbýlt var og þríbýlt á stærri jörðum var sannarlega „setinn Svarfaðardalur“. Hjábýlin hurfu eftir Svarta dauða en fóru að byggjast aftur á 17. og 18. öld.
Héraðsríki: Ekki löngu eftir landnámsöld fór eignarhald jarða að breytast og renna undir höfðingja og einnig kirkjustofnanir. Fyrst voru þetta einkum veraldlegir ættarhöfðingjar og landeigendur, þá mynduðust víða héraðsríki sem voru nánast sjálfstæðar stjórnarfarseiningar. Fornungar voru rík, sjálfstæð valdætt sem ríkti á Völlum og Urðum kringum 1200, tók þátt í baráttu um völdin í Eyjafirði og átti í brösum við Hólabiskup. 
- Meginkirkjur urðu „staðir“ sem eignuðust lönd og auð og voru sjálfstæð tíundarsvæði. Vellir var slíkur „staður“. En valdasamþjöppunin í landinu var mikil og jarðeignir runnu í vaxandi mæli undir stærri kirkjustofnanir upp úr róstrum Sturlungaaldar. Fornungar biðu pólitískan ósigur, liðu undir lok og Vellir féll þá undir Hóla. Það varð svo að meginreglu skömmu fyrir 1300 að „staðir“ landsins féllu undir forræði kirkjunnar og biskupsstólanna. 
-Urðamenn: Urðir var ein þeirra krikjujarða sem féll ekki undir forræði  kirkjunnar og Hóla, af því kirkjan átti ekki heimajörðina. Þetta varð sjálfstæður  grundvöllur undir miklu veldi Urðarmanna á 14. öld. Þorsteinn Eyjólfsson á Urðum var lögmaður yfir öllu landinu og síðan einnig hirðstjóri og einn helsti valdamaður landsins í áratugi, átti margar jarðir (og Urðakirkja aðrar), hafði um sig einkaher, „sveinalið“.
- Arðrán: Eitt dæmi um harkalegt  leigugjald leiguliðanna á 14. öld: Jarðirnar Hóll (niður) og Sauðanes voru meðal jarða Hólastóls. Leigan var greidd í lömbum, smjöri, skreið og vaðmáli. T.d. áttu jarðirnar tvær að greiða landeigandanum 350 kg af skreið árlega. Og heildarleigan var jafnvirði 420 metra (700 álna) af 0,7 m breiðum vaðmálsstranga. Fróðlegt hefði verið að gera sér grein fyrir hve mikið þetta gjald var miðað við neyslu býlisins sjálfs. Þetta var aðeins jarðarleigan, landskuldin, þar á ofan bættist tíundin til kirkjunnar, heytollur, ljóstollur og örugglega fleira. Þetta eina litla dæmi talar sínu máli um arðránið. 
- Bækur: Samkvæmt Auðunnarmáldaga 1318 var Vallakirkja langauðugust kirkna á Norðurlandi að bókum (utan Hóla), átti 56 bækur.
- Svarti dauði voru mestu hamfarir Íslandsbyggðar. Einnig í Svarfaðardal. Hólabiskup vísiteraði dalinn 1429 og 1431. Þá voru aðeins 5 af 16 tollskyldum jörðum í Urðasókn í byggð. Þrjár af sex í Upsasókn og Upsir í eyði. Árið 1447 voru 9 af 14 jörðum Möðruvallaklausturs í dalnum í eyði. Höfundur áætlar að 48 af 68 lögbýlum hafi lagst í eyði og „sennilega nær allar hjáleigur“. Fyrst eftir drepsóttina miklu hafði býlum í Svarfaðardal því fækkað úr 100-110 í 20! Óvíst að mannfækkunin hafi unnist upp fyrr en á 19. öld. 
- Sauðfjárrrækt: Þetta raskaði öllum búskaparháttum. Vinnuaflsfrek nautgriparækt vék fyrir sauðfjárrækt. Selför snarminnkaði og viðhald hagagarða þar með. Offramboð varð á jarðnæði og landeigendum tókst ekki að halda uppi leiguverðinu. Dæmi um áðurnefndar jarðir í Upsasókn sýnir það. Samanlögð árleg leiga Hóls (niður) og Sauðaness til Hólastaðar lækkaði úr jafngildi 700 álna vaðmáls í 420 álnir. Hagur leiguliða hafði batnað verulega við pláguna.
- Siðaskipti: Ekki jókst þó bændaeign jarða. Með siðaskiptum eignaðist konungur bæði klausturjarðir og jarðir katólskra höfðingja eins og fjölskyldu Jóns Arasonar. Hins vegar var Hólastóll orðinn stærsti jarðeigandi dalsins. Þarna í lok miðalda áttu kóngur og kirkja 50 jarðir í Svarfaðardal en bændur og veraldlegir jarðeigendur aðeins 11. 

Mesti galli við bókina er að of mikið er af slökum myndum. Hins vegar eru fjölmörg góð og gagnleg kort og töflur til mikillar glöggvunnar. Verkið Miðaldir í Skuggsjá Svarfaðardals er í heild meiri háttar ávinningur fyrir alla áhugasama um miðaldir – og okkur Svarfdælinga auðvitað sérstaklega. Bókin heiðrar minningu Kristjáns Eldjárns rækilega. Þakka ber Sögufélagi Svarfdæla sitt góða frumkvæði. Árni Daníel Júlíusson hefur unnið afrek. 


No comments:

Post a Comment