Friday, March 31, 2017

Einkavæðing - hnattvæðing - Goldman Sachs

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. mars)

Salan á þriðjungi Arion banka féll fljótt í skugga frásagnarinnar um gruggug kaup Ólafs Ólafssonar á Búnaðarbanka árið 2003/04. Sú frásögn þjónar þeim markmiðum a) að glæpkenna og bófavæða kreppuna, skýra hana með siðferðisbresti og spillingu einstakra banka- og kaupsýslumanna og b) að lýsa bankasölu til erlendra fjármálastofnana sem ákjósanlegri og eftirsóknarverðri. Hvort tveggja rangt.

Þrír bandarískir vogunarsjóðir plús bandaríski bankinn Goldman Sachs kaupa nú 29,2% af Arion banka með kauprétt á 21,9% til viðbótar sem líklegt er að þeir nýti síðar á árinu og eiga þá meirihluta í bankanum. Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn af Kaupþingi ehf sem þeir eiga sjálfir 2/3 hlut í. Þeir eru því að kaupa af sjálfum sér. Kaupþing ehf átti 87% af Arion banka eftir að hann var einkavæddur af vinstri stjórninni á haustdögum 2010. Það var þá sem hún, í samráði við AGS, seldi lánadrottnum og kröfuhöfum gömlu bankanna tvo af nýju bönkunum, Arion banka og Íslandsbanka.

Stærsti hlutafjáreigandi Kaupþings (38.64%) er vogunarsjóðurinn Taconic capital. Einn hinna þriggja kaupendanna er hinn voldugi fjárfestingabanki Goldman Sachs. En auk þess tengjast Goldman Sachs og Taconic capital innbyrðis af því stofnendur og eigendur þess síðarnefnda voru tveir fyrrverandi starfsmenn Goldman Sachs. Goldman Sachs er kannski voldugasti fjárfestingabanki heims. Þefum aðeins af honum.

Goldman Sachs múrbrjótur hnattvæðingarafla
Bandaríska stjórnkerfið er klofið. Klofningurinn birtist í nýliðinni kosningabaráttu. Hillary Clinton var skýr fulltrúi hnattvæðingaraflanna, efnahagslegrar hnattvæðingar og pólitískrar/hernaðarlegrar íhlutunarstefnu um heim allan. Hillary var nánar tiltekið fulltrúi kerfisins, „The Establishment“, fulltrúi óbreyttrar stefnu (sem þó skyldi taka skrefi lengra). Andspænis henni stóð Donald Trump sem sagði „Ameríkanismi, ekki hnattvæðing, er okkar trúarjátning“ og sagðist mundu draga mjög úr efnahagslegri hnattvæðingu og sömuleiðis úr íhlutunarstefnunni. Þó miklu stærri hluti stjórnkerfisins, bankakerfisins og fjölmiðlanna styddi Clinton dugði það ekki til. Sigur Trumps fólst að stórum hluta í því að bregðast við stemningu meðal lýðsins, höfnun á útvistun iðnaðar og atvinnu – og almenningur reyndist einnig áhugalaus um vopnakapphlaup gegn Rússagrýlu. Bankinn Goldman Sachs, miðlægur í fjármálakerfinu, tók skýra afstöðu í kosningunum, bannaði fjárframlög til Trumps en var einn af fimm stærstu greiðendum í kosningasjóð Clintons. (heimild)

En eitt er að vinna kosningar, annað að breyta stefnu stjórnkerfisins. Eftir stjórnarskiptin er áðurnefndur klofningur enn við lýði – og birtist nú í klofnu ráðuneyti Donalds Trump og miklum brösum forsetans við hluta stjórnkerfisins (m.a. CIA) og voldugustu fjölmiðla.Þekktur stjórnmálarýnir lýsir klofinni ríkisstjórn svo: „Það virðast vera Goldman Sachs liðið gegn Bannon/Miller andstöðunni.“ Fjármálaráðherra Trumps er nefnilega sóttur til Goldman Sachs. Það er afar skýrt merki um það hvernig „djúp-ríkisvaldið“ (The Deep State) gerir sig gildandi þvert gegn hinni íhaldssömu, popúlísku retórík nýja forsetans. Líka skýrt merki um miðlæga stöðu bankans í bandarísku valdakerfi.

Ef einhver banki er fulltrúi hnattvæðingarafla, múrbrjótur hnattvæðingar, er það Goldman Sachs. Víkjum sögunni yfir Atlantshafið, að helstu átökum um hnattvæðinguna þar: Brexit. Rétt fyrir atkvæðagreiðsluna sl. sumar flaug Obama forseti yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Ekki nóg með það, Goldman Sachs og þrír aðrir bandarískir risabankar lögðu fram milljónir punda til að styðja herferðina fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB. Sjá grein The Telegraph undir fyrirsögninni: „Official pro-European Union campaign is part-funded by Goldman Sachs, Citigroup, Morgan Stanley and JP Morgan“.

Friday, March 24, 2017

Bók Árna Daníels Júlíussonar: Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals

(Birtistí byggðablaði Svarfdælinga Norðurslóð 23. mars 2017)


Okkur Svarfdælingum bættist ansi drjúg viðbót við byggðasögu okkar núna fyrir jólin. Miðaldir í Skuggsjá Svarfaðardals. Frumkvæðið að ritinu kom frá Sögufélagi Svarfdæla sem fékk Árna Daníel Júlíusson til verksins. Með því var um leið minnst 100 ára afmælis Kristjáns Eldjárns, sem hóf sjálfur ritun svarfdælskrar byggðasögu en lést áður en langt var komið verki, hafði þó skrifað skemmtilegan formála og lítils háttar drög. Þau drög fékk Árni Daníel til afnota og notar, birtir m.a. formálann í heild. Árni Daníel takmarkar verkið við miðaldirnar, en lok þeirra miðast gjarnan við aldamótin 1500 eða þá siðaskiptin um 1550.

Saga auðs og valds
Bókin opnar okkur góða glugga inn í áður huldan heim. Þar birtast útlínur og megindrættir samfélags. Í misskýrum línum þó. Nafnið er engin tilviljun. Þarna birtist ekki Svarfaðardalur í ljósi almennra íslenskra miðaldarannsókna heldur einmitt miðaldir Íslands dregnar upp „í skuggsjá Svarfaðardals“, þ.e.a.s. í ljósi svarfdælskra fornleifarannsókna og ritheimilda um dalinn frá miðöldum. Svo bætast við helstu nýju fornleifarannsókinir frá öðrum svæðum í landinu. 
Ég held að þarna fáist fyllri mynd af miðaldasamfélaginu en aðgengileg hefur verið, a.m.k. kunnug mér sem er leikmaður á þessu fræðasviði. Það stafar af því hvað efnislegar minjar (kuml, merkjagarðar, bæjarhólar, seltóftir, kirkjugarðar, tímasetning mannvistar og eyðibyggðar) og skriflegar heimildir úr Svarfaðardal eru miklar og Árni Daníel notar þær vel. 
Eins og fram hefur komið hjá höfundi, m.a. hér í Norðurslóð, þá „hverfist umfjöllunin fyrst og fremst um það hverjir áttu landið, hverjir nutu góðs af framleiðslunni, hverjir fóru með völdin og þess háttar. Þetta er sem sagt ekki landbúnaðarsaga heldur saga auðs og valds.“ (Nsl. nóvember 2016) Það mætti líka kalla þetta þróun stéttaskiptingarinnar í landinu. Það má gagnrýna slíkt sjónarhorn og segja að það sé þröngt, en vissulega eru þetta grundvallarþættir í þróun samfélagsins og tilvist fólksins. En kannski er ekki rétt hjá höfundi að sjónarhornið sé svona þröngt.

Sem alhliða mynd af miðaldasamfélagi dalsins tel ég þó allvíða vanta upp á að mynd Árna Daníels sé skýr fyrir lesandann. Líklega er ekki kostur á öðru. Eitthvað vantar upp á alþýðleika í framsetningu til að almennur lesandi fái ljósa mynd. Vissulega útheimtir miklu meira af höfundi, miklu meiri matreiðslu textans, að skrifa alþýðlegt rit en t.d. greinaskrif fyrir fræðirit. Texti Árna Daníels er alls ekki fræðigreinatexti en hefði þó haft gott af meiri vinnu við að auka alþýðleikann. Þetta er sjálfsagt óhjákvæmilegt í ljósi hins víðfeðma efnis og þess nauma tíma sem höfundur fékk. 
Árni Daníel er varfærinn fræðimaður sem lætur ekki hanka sig á að „hrapa að ályktunum“. Hann segir stundum að svona og svona „gæti það hafa verið“. Ég veit að skiptar skoðanir eru meðal fræðimanna um íslenskt miðaldasamfélag, rétt eins og um nútímasamfélgið. Til að auka gagn og ánægju lesandans af lestrinum hefði ég hér og þar kosið meiri og ákveðnari ályktanir höfundar. Mér sýnist heimildagrundvöllur Árna Daníels víðast það traustur að hann beri uppi ályktanir. Kannski mætti stundum skrifa „líkindi benda til“ í stað þess að segja „gæti hafa verið“. 

Saturday, March 18, 2017

Vinstrimennskan, verkalýðurinn og hnattvæðingin

Ræða haldin á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 11. mars 2017)

Eftir fall Sovétríkjanna og sósíalismans í Kína m.m. lækkaði stjarna sósíalismans mjög á himninum. Sá ósigur var um leið ósigur verkalýðsstéttar auðvaldslandanna. Frjálshyggja og hnattvæðing auðhringanna sigldu fram seglum þöndum um heim allan, sem ríkjandi efnahagsstefna og hugmyndafræði. „There is no alternative“ (TINA) sagði Margaret Tatcher. Nú um stundir stendur verkalýðsstéttin höllum fæti og hefur miklu minni samfélagsáhrif en lengst af 20. öld. Vísbending um þróunina er að stéttarfélagsaðild hefur minnkað um nærri helming í Evrópu síðustu 30 ár og réttindi launafólks versna að því skapi.

Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Auðhringarnir skipta með sér heiminum. Tilgangurinn er að TRYGGJA AUÐVALDINU ÓDÝRT VINNUAFL.  Frjálsa flæðið – t.d. erlenda farandvinnuaflið á Íslandi – er kerfisbundið notað til að brjóta niður áhrif og áunnin réttindi verkalýðshreyfingar. Hnattvæðingin grefur einnig undan valdi þjóðþinga. Hnattvætt auðvald – hjá World Economic Forum og álíka – telur sjálfstæð þjóðríki vera úrelt fyrirbæri. Markaðskratar, og m.a.s sumir sk. byltingarsinnaðir sósíalistar, taka undir þann söng.

Stéttasamvinnustefna skaut snemma rótum í íslenskri verkalýðshreyfingu. Á frjálshyggjutímanum festi hún sig betur í sessi. Vinstri flokkarnir fá að taka þátt í ríkisstjórnum með því skilyrði að lofa auðstéttinni  „ásættanlegri arðsemi peninganna“. Á undanförnum árum hafa þeir gegnt lykilhlutverki í að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Ætli myndin af stéttasamvinnunni verði skýrari en í samvinnunni um SALEK og makki SA og ASÍ um „leyfilegar launakröfur“ og „forsendubrest“ ef einhver starfsstétt knýr fram eitthvað umfram ASÍ-línuna.

Flokkurinn sem við þurfum er stéttabaráttuflokkur. Ekki þingpallaflokkur sem lofar að færa alþýðu velferð og völd gegnum stjórnkerfi borgarastéttarinnar. Borgarastéttin elur á þeirri blekkingu að valdið í samfélaginu hvíli á þjóðþinginu og óskastaða hennar er að þingpallabaráttan dragi til sín þá athygli og krafta meðal alþýðu og andófsafla sem gætu annars komið fram í fjöldabaráttu í grasrótinni.

„Saga mannfélagsins hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“ sögðu Marx og Engels í Kommúnistaávarpinu. Og „lausn verkalýðsstéttarinnar verður að vera hennar eigið verk.“ (Úrvalsrit II, bls. 217) Byltingarsinnar skilgreina verkalýðsstéttina sem hina framsæknu stétt sem með hjálp stéttvísi og með því að treysta á eigin samtakamátt verði að taka forystu í samfélaginu og skapa þjóðfélag fyrir fólk. Verkefni byltingarsinnaðra flokka er þess vegna að efla og leiða stéttabaráttu alþýðu.

Wednesday, March 15, 2017

Höfuðstöðvar Al Kaída og Hvítu hjálmanna hlið við hlið

Horfið á þessa litlu frönsku ræmu frá Austur-Aleppo. Samtökin á bak við heita Pierre Le Corf, frönsk hjálparsamtök sem hafa starfað í Sýrlandi í eitt ár. Hvítu hjálmarnir urðu í Vestrinu tákn um þjáningu íbúa Sýrlands af völdum hins djöfullega Assads. Hvítu hjálmarnir voru sterkir kandídatar bæði til nýlegra friðarverðlauna Nóbels og Óskarsverðlauna. Ég hef áður sýnt fram á að fyrirbærið Hvítu hjálmarnir eru fyrst og fremst auglýsingariðnaður sviðsettra atburða (barnabjörgun). Flestar myndirnar koma frá fréttastofnuninni Syrian Media Incubator í Tyrklandi sem einkum er kostuð af frönsku ríkissjónvarpi og ESB. Áróðursstríðið gegn Sýrlandi er "hin hlið" stríðsins, kannski jafn mikilvæg hinum beina hernaði. Þessi franska ræma sýnir að höfuðstöðvar Hjálmanna í Aleppo eru í næsta húsi við höfuðstöðvar Jabhat al-Nusra (al Kaída), og stöðvar þessara „hutlausu líknarsamtaka“ eru rækilega merktar lógóum og slagorðum al-Nusra, Frelsisher Sýrlands, Ahrar al-Cham og m.a.s ISIS. Þáttur Hvítu hjálmanna er lítið en glöggt dæmi sem varpar skýru ljósi á hlutverk vígasveita íslamista í stríðinu og á eðli þessa innrásarstríðs sem vestræn pressa matreiðir sem göfuga uppreisn eða í versta falli sem borgarastríð. Sjá hér rapport Frakkanna.