Thursday, January 19, 2017

Árið 2016 – ósigur hnattvæðingarinnar


(birt á heimasíða Alþýðufylkingarinnar 19. jan 2017)

Árið 2016 var merkisár, ár sviptinga í heimsmálum. Það var árið þegar vestræna
hnattvæðingareimreiðin – undir stjórn USA – tók að hósta alvarlega og missa ferð. Tvö mestu regináföllin sem hnattvæðingarstefnan varð fyrir á árinu voru Brexit í Bretlandi og kosning Donalds Trump í Ameríku. Á hernaðarsviðinu urðu atburðir sem draga í sömu átt.

„Hnattvæðingin“, hástig heimsvaldasinnaðs kapítalisma, er fyrirkomulag auðhringanna til að leggja undir sig markaði, auðlindir og atvinnulíf á heimsvísu. Stefna hnattvæðingarelítunnar var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði auðhringanna. „Hnattvæðingu“ má lýsa sem hnattrænni kapítalískri verkaskiptingu á afar háu stigi, með sem frjálsast flæði fjármagnsins um lönd og álfur, ekki síst „útvistun“ iðnaðar í gróðaskyni til lágkostnaðarlanda en þar sem hönnun, vörumerki yfirstjórn og vald situr eftir sem áður á Vesturlöndum (aðallega) og sér um að gróðinn flæði í rétta átt. Takmarkanir landamæra eru eitur í beinum auðhringanna, og öll sjálfsákvörðun (minni) ríkja er eitur í beinum hnattvæðingarsinna.

Hnattvæðingin brast á af auknum þunga eftir fall Austurblokkar um 1990: GATT-viðræðurnar sem juku frelsi fjármagnsins og fóru fram í „lotum“, stofnun Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO), tilkoma NAFTA, þróun ESB með „frelsun“ markaðsaflanna og miðstýrðs fjármálavalds á kostnað sjálfsákvörðunar aðildarríkja – sálin í ESB, „fjórfrelsið“, er raunar kjarninn í reglum hnattvæðingarinnar, þá landfræðileg útþensla ESB í austur – og loks samningagerðin um TISA og TTIP.

Nýfrjálshyggjumenn og markaðskratar túlka þessa þróun sem efnahagslegt lögmál. Og jafnvel í augum andstæðinga þróunarinnar hefur skriðþungi þessarar eimreiðar verið eins og ósigrandi afl. „Lögmál“ er þetta þó ekki heldur birtist þarna fyrst og fremst sókn auðsins og markaðsaflanna en undanhald verkalýðs og alþýðu – undanhald sósíalisma/félagshyggju og þjóðlegrar sjálfsákvörðunar fyrir því sem kalla má alþjóðahyggju auðmagnsins.

Ekki breiðist hnattvæðingin einfaldlega um heiminn eins og sigrandi hugsun eða andans stormsveipur. Bandaríkin hafa með önnur Vesturlönd í eftirdragi leitast við að treysta ytri skilyrði hennar og hindra framrás keppinauta með valdi, hernaðarinnrásum, viðskiptaþvingunum og valdaskiptaaðgerðum – með sérstaka áherslu á Miðausturlönd og yfirráða- og áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna. Thomas Friedman, sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times, segir:
„Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“
Hnattvæðingarvinstrið
Engan þarf að undra stórlega að frjálshyggjuhægrimenn í viðskiptum og stjórnmálum fylki sér um stefnu og hugmyndir hnattvæðingar. Hitt er merkilegra að fólk sem skilgreinir sig til vinstri gerir það sama. Þá komum  við að frjálslynda vinstrinu og því sem ég að ofan nefndi markaðskrata. Frjálslyndisvinstrið hefur gengið inn á stefnu stórauðvaldsins: fríverslun og frjálst flæði fjármagns og vinnuaafls, m.ö.o. hnattvæðingu auðhringanna.

Nú er staðan sú að hjá frjálslynda vinstrinu hefur hnattvæðing (frjálst flæði, lágmörkun landamæra, „evrópuhugsun“, fjölmenning...) bókstaflega komið í stað þeirrar heimsvaldaandstöðu sem öðru fremur fylkti vinstri mönnum til baráttu á árum áður. Óvinur frjálslynda vinstursins er ekki lengur heimsvaldastefnan, frekar „þjóðernisstefnan“. Jafnframt því er stéttarafstaða og stéttabarátta hætt að vera grundvöllur þessarar vinstrimennsku og helstu baráttusviðin snerta nú kynjabaráttuna, stöðu útlendinga, litaðra, múslima, samkynhneigðra, hinsegin fólks...

Brexit
Kosningarnar um Brexit í júní sl. voru í meginatriðum mótmæli gegn hnattvæðingarreglunum, og hinu evrópska formi þeirra í ESB. Gegn öllum tilskipunum valdsins í Bretlandi og Brussel ákvað meirihlutinn að yfirgefa ESB. Áhrifamestu aðilar sem studdu útgöngu Breta voru samtökin „Vote leave“ sem hafði aðalkjörorðið „Vote leave – take back control“ og flokkurinn UKIP með kjöorðið „I want my country back“. Um atkvæðagreiðsluna í júní hef ég áður skrifað:
Annars vegar stóð hin fjölþjóðlega ESB-elíta, stjórnvöld Bretlands, fjármála- og bankavaldið, voldugustu fjölmiðlarnir, hins vegar almenningur. Almenningur vann.... Þar vó þyngst að verkalýður stórra og smárra bæja Englands hafði fengið meira en nóg – af markaðsfrelsi Evrópumarkaðarins, frjálsu flæði fjármagns inn og út, sem hefur tekið frá honum iðnaðinn og störfin og grafið undan verkalýðshreyfingunni m.a. með ódýru innfluttu vinnuafli. Það að vilja að stefnan í innflytjendamálum eigi að vera ákvörðuð í þjóðríkinu sjálfu er reyndar ekki það sama og rasismi. Það var á hefðbundnum Labour-svæðum sem fólk streymdi á kjörstaði og kaus útgöngu. Þetta voru sem sé mótmæli verkalýðs gegn Brusselvaldi, gegn Cameron og líka gegn Labour. Uppreisn hans gegn elítunni og valdinu.
Fyrirbærið Trump
Donald Trump hafnaði hnattvæðingunni – og gerði það að þungamiðju framboðsmála sinna. „Ameríkanismi, ekki hnattvæðing (glóbalismi) verður okkar trúarjátning“ sagði hann. Helsta kjörorð hans í því samhengi var „Flytjum iðnaðarstörfin heim!“ (Bring manufacturing jobs back“). Eftir kjör Trumps skrifaði Diana Johnstone á Counterpunch:
„Raunveruleg merking þessa uppnáms er að hnattvæðingarstefnu Wall Street hefur verið hafnað af þegnum heimalandsins... Kjósendur Trumps höfðu ýmsar ástæður til að kjósa Trump aðrar en „kynþáttahyggju“. Umfram allt vildu þeir störf sín til baka, störf sem hafa horfið fyrir tilstilli þeirrar efnahagslegu frjálshyggju sem flutt hefur iðnaðarstörfin yfir á láglaunasvæði.“ 
Hillary Clinton var fulltrúi kerfisins, fulltrúi óbreytts ástands, hreinræktaðri fulltrúi bandarískrar hernaðarstefnunnar en Trump – og fulltrúi hnattvæðingarinnar í heild. Valdakerfið bandaríska studdi Hillary. Allir stærstu bankarnir voru þar með, Wall Street, hergagnaiðnaðurinn og allir þungvægustu fjölmiðlarnir. En það dugði samt ekki. Hún tapaði.

Mjög gróflega orðað var það lágstéttin sem bar uppi kjör Trumps meðan hástéttin kaus Hillary Clinton. Trump vann yfirburðasigur meðal hvítra án háskólamenntunar. Skrið yfir til repúblíkana var mest hjá þeim lægst launuðu og mest stökk yfir til demókrata kom hjá þeim hæst launuðu. Þetta er umsnúningur á hefðbundnu fylgi flokkanna tveggja (á sér að vísu lengri aðdraganda en þessa kosningabaráttu eina).

Í ríkjandi umræðu, m.a. á Íslandi – og þó sérstaklega til vinstri – eru úrslitin bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrst og fremst túlkuð sem „vaxandi kynþáttahyggja“ eða „sigur hatursins“ með tilvísun til umræðu um flóttamannastraum, útlendingahræðslu, íslamófóbíu og ólöglega innfytjendur m.m. Ekki þarf að vefengja að þessir þættir hafi haft veruleg áhrif á fylgið. En á hitt er sjaldan minnst að bæði Nigel Farage og Donald Trump spiluðu mjög fimlega á megna óánægju alþýðu með hnattvæðingarstefnuna og það sem henni fylgir: versnandi kjör, útvistun iðnaðar, óöryggi, vaxandi ójöfnuður, félagsleg undirboð...

Það er ekki þannig að popúlistarnir Nigel Farage eða Donald Trump hafi „pískað upp stemningu“ gegn hnattvæðingu eða gegn ESB með lýðskrumi sínu. Sem popúlistar haga þeir einmitt seglum eftir vindi, og vindurinn er almenningsálitið. Þeir taka afstöðu gegn umræddum fyrirbærum af því hvað þau eru óvinsæl. Hagkerfið staðnar, innviðir fúna. Hnattvæðingarstefnan eykur auð hinna ríkustu en frá sjónarhóli almennings rífur hún niður landið fremur en byggja það upp.

ESB og popúlisminn
ESB er nú í svo slæmri kreppu að líkja má við niðurbrot. Einstök lönd í sambandinu hafa hafnað flóttamannapólitík ESB, og þó einkum því að löndin skuli ekki sjálf ákvarða stefnu sína í innflytjendamálum. Refsiaðgerðir ESB gegn Rússlandi hafa einnig reynt mjög á þanþol sambandsins enda eru þær framkvæmdar vegna tilskipana frá USA gegn sterkri innri andstöðu í Evrópu. Cameron gerði þá djöfuls skyssu að leyfa þegnunum að kjósa um aðild, og það fór sem  fór. Forseti ESB, Jean-Claude Juncker, sagði í ræðu á Evrópuþinginu.
„Við skulum bara gera sjúkdómsgreininguna heiðarlega: Evrópusambandið okkar er í tilvistarkreppu, a.m.k. að hluta. Aldrei áður hef ég séð jafn litla samheldni milli aðildarríkja, svo fá svið  sem við getum sameinast um að vinna saman á.“
Fríverslunarsamningur milli ESB og Bandaríkjanna, TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership), hefur undanfarin misseri verið í mótun bak við luktar dyr og gengur út á að gefa auðhringunum aukin völd. Frumkvæðið hefur algjörlega verið Bandaríkjamegin. Samningsgerðin hefur mætt hörðum mótmælum meðal almennings, 17% Þjóðverja styðja hann og 15% Bandaríkjamanna. Gagnrýnin gengur m.a. út á að yfir ½ milljón störf tapist í Evrópu, ekki síst tengd landbúnaði. Í ágúst sl. sögðu svo bæði Hollande Frakklandsforseti og Gabriel fjármálaráðherra Þýskalands að samningsgerðin hefði mistekist og væri strand. Í kosningabaráttunni tók síðan Donald Trump afstöðu gegn samningsgerðinni og sagði hana ógna störfum í landinu, svo samningunum er líklegast sjálfhætt.

Í þessu umhverfi óvinsællar hnattvæðingarstefnu hefur hægri popúlisminn vaxið fram – popúlískir flokkar Evrópu þenjast út og Trump sigrar Hillary. Ef við lítum á Evrópu sérstaklega er ljóst að hægripopúlisminn tekur í einu landi af öðru til sín það verkalýðsfylgi sem hefðbundnir vinstri flokkar tóku áður. Það er af því að þeir flokkar hafa yfirgefið verkalýðsstéttina. Þeir reyna ekki einu sinni að hlusta eftir óskum hennar og þörfum, hvað þá að styðja hana og leiða í stéttabaráttunni. Og þarna er augljóst að hægripopúlistar hafa hlustað miklu betur. Þeir hafa í velferðarmálum tekið upp mörg af stefnumálum vinstri flokkanna. Þar við bætist andstaðan við hnattvæðinguna og afleiðingar hennar, af því hvað slíkur málflutningur fellur í góðan jarðveg hjá almenningi. Hve mikið þessir flokkar munu fylgja málflutningnum eftir í verki er vafasamt (í ljósi þess að þeir játast kapítalismanum sjálfum) og allt annað mál – sem ekki verður rætt hér.

Það þarf ekkert að efast um að hægripopúlískir flokkar Evrópu hafa líka riðið á bylgju útlendingaótta og sums staðar púra rasisma, sem er auðvitað áhyggjuefni. Það breytir því ekki að höfnun kjósenda í Bretlandi og Bandaríkjunum á hnattvæðingarstefnunni árið 2016 var greinileg uppreisn alþýðu gegn fjandsamlegu kerfi. Sú uppreisn var um leið ósigur auðsins og valdsins þó framhaldið sé óljóst. Þróunin á komandi árum verður mjög háð því hvernig vinstri öflin í framhaldinu bregðast við þessari uppreisn.

Umsnúningurinn í Sýrlandi
Hér ætla ég að prjóna við lítinn kafla af öðru sviði, sviði stríðsátaka. Það tengist ekki pólitískum straumum á Vesturlöndum eins og Brexit eða fyrirbærið Trump, en stríðsrekstur Vestursins í fjarlægum löndum – innrásir eða staðgengilsstríð – eru órjúfanlegur hluti af hnattvæðingunni eins og áður var nefnt. Árið 2016 var árið sem vígið Austur-Aleppo féll til sýrlenska stjórnarhersins. Árið 2015 var Sýrlandsstjórn komin í mjög aðþrengda stöðu og hryðjuverka- og uppreisnarherirnir studdir af NATO-veldum og Persaflóaríkjum réðu stækkandi svæðum landsins. Íhlutun Rússa til stuðnings Sýrlandsstjórn seint á árinu 2015, í viðbót við þátttöku frá Íran og Hizbolla í Líbanon, snéri hins vegar dæminu við. Orrustan um Aleppo varð á árinu 2016 að táknrænni þungamiðju stríðsins. Þegar Austur-Aleppo var frelsuð skömmu fyrir jól varð ljóst að staðgengilsstríð Vestursins og bandamanna er tapað, þó það sé vissulega alls ekki búið. Umsnúningurinn í Sýrlandsstríðinu er því þriðja regináfall hnattvæðingarstefnunnar árið 2016.

Tim Anderson, ástralskur prófessor, hefur skrifað mikilvæga bók og fjölda greina um Sýrlandsstríðið. Ég eftirlæt honum að túlka þýðingu atburðanna í Aleppo:
„Frelsun Aleppo, sem er önnur mesta borg Sýrlands og djásn aftan úr fornöld, er alvarlegasta bakslag í 15 ára hernaðaryfirgangi undir forustu Washington á öllu svæðinu. Endurvakin herská nýlendustefna á þessu svæði hefur þanið sig frá Afganistan til Líbíu, undir langri röð falskra yfirskrifta. Innrásum og staðgengilsstríðum hefur verið fylgt eftir með efnahagslegum refsiaðgerðum og yfirgengilegum áróðri. En þessi mikla hernaðarútrás – sem George W Bush fyrrum forseti kallaði sköpun „Nýrra Miðausturlanda“ – hefur siglt á sker í Sýrlandi. Hinir miklu staðgengilsherir, launaðir og vopnaðir af Washington ásamt sínum staðbundnu bandamönnum Sádum, Tyrkjum, Katar og Ísrael hafa verið sigraðir af sterku svæðisbundnu bandalagi með stuðningi sýrlensku þjóðarinnar.“
Þegar Donald Trump eftir forsetakjör segir hluti eins og „...Við munum ástunda nýja utanríkisstefnu sem að lokum lærir af mistökum fortðíðarinnar. Við munum hætta að steypa stjórnvöldum og kollvarpa ríkisstjórnum...“ þá er það merki um það að sigrar Sýrlendinga skila sér á sinn hátt og valdamiðstöðvarnar í Washington þurfa að horfast í augu við breytta stöðu hins hnignandi risaveldis.

2 comments:

  1. Ég er meðvitaður um að þessi greining á pólitískum straumum samtímans er mjög óhefðbundin vinstri greining, svo það væri gagnlegt að fá viðbrögð við henni hér í kommentum

    ReplyDelete
  2. Hjartanlega sammála allri greininni og greiningin er mjög viðeigandi.

    ReplyDelete