(birt á Friðarvefnum 29. febr 2016)
Jíhadistar drápu Gaddafí eftir að bílalest hans varð fyrir NATO-loftárás
Hér er fjallað um Líbíustríðið 2011 sem „prófmál“ fyrir nýja taktík í vestrænni íhlutunarstefnu, nýja aðferð til að koma á „valdaskiptum“. Fjallað er um málatilbúnað „alþjóðasamfélagsins“, stuðning við innri uppreisn, áróðursstorm bandarískrar/vestrænnar fjölmiðlamaskínu um mannréttindabrot í Líbíu og beitingu nýs prinsipps í alþjóðarétti, um „verndarskyldu“ (Responsipility to Protect). Og síðan um nær órofa samstöðu Vesturlanda/NATO-ríkja í málinu. Sérstaklega er fjallað um afgreiðsla málsins á Íslandi, sem lítt hefur verið sinnt fyrr, og einnig í Noregi. En í báðum þeim löndum sátu vinstri stjórnir við völd – og skipuleg andstaða við stríðsreksturinn var enginn. Ein niðurstaða greinarinnar er dapurlegt ástand lýðræðis innan Vesturblokkarinnar á okkar dögum.
Jíhadistar drápu Gaddafí eftir að bílalest hans varð fyrir NATO-loftárás
Hér er fjallað um Líbíustríðið 2011 sem „prófmál“ fyrir nýja taktík í vestrænni íhlutunarstefnu, nýja aðferð til að koma á „valdaskiptum“. Fjallað er um málatilbúnað „alþjóðasamfélagsins“, stuðning við innri uppreisn, áróðursstorm bandarískrar/vestrænnar fjölmiðlamaskínu um mannréttindabrot í Líbíu og beitingu nýs prinsipps í alþjóðarétti, um „verndarskyldu“ (Responsipility to Protect). Og síðan um nær órofa samstöðu Vesturlanda/NATO-ríkja í málinu. Sérstaklega er fjallað um afgreiðsla málsins á Íslandi, sem lítt hefur verið sinnt fyrr, og einnig í Noregi. En í báðum þeim löndum sátu vinstri stjórnir við völd – og skipuleg andstaða við stríðsreksturinn var enginn. Ein niðurstaða greinarinnar er dapurlegt ástand lýðræðis innan Vesturblokkarinnar á okkar dögum.
Hliðargildi þess að rannsaka Líbíustríðið er að varpa ljósi á stríðið í Sýrlandi sem hefur orðið miklu meiri stærð í alþjóðastjórnmálum. Það er fleira líkt en ólíkt með þeim stríðum. Ekki síst sú taktík sem Vestrið og stuðningssríki „uppreisnarinnar“ hafa beitt, þó ekki tækist að koma á beinum lofthernaði „alþjóðasamfélagsins“ gegn Sýrlandsstjórn eins og reynt var sumarið 2013. Stríðið í Sýrlandi kom í framhaldi af „valdaskiptunum“ í Líbíu. Að tengslin milli stríðanna voru mjög bein sást á því að þegar opnuð höfðu verið vopnabúr Gaddafí-stjórnarinnar hófust strax miklar vopnasendingar frá Líbíu – einkum miðstöð uppreisnarinnar, Benghazi – til Sýrlands gegnum Tyrkland. Að ýmsu leyti var Líbía eins og æfing fyrir Sýrland. Niðurstaða „valdaskipta“ í Líbíu liggur fyrir og er rík ástæða til að skoða hana.
„Alþjóðasamfélagið“ gegn Gaddafí
Þann 17. mars 2011 samþykkti Öryggisráð SÞ „loftferðabann“ á Líbíu (tíu ríki ráðsins greiddu atkvæði með, en fimm – Rússland, Indland, Þýskaland, Brasilía, Kína – sátu hjá). Samþykktin fól í sér heimild til að fylgja loftferðabanninu eftir með hernaðaraðgerðum til að „vernda borgarana“. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG lýsti strax yfir stuðningi við ályktunina. Þann 23. mars greiddi Ísland atkvæði með því innan NATO að NATO tæki að sér stjórn á aðgerðunum. NATO kom þarna fram, eins og alloft eftir lok Kalda stríðsins, sem hernaðarlegt framkvæmdavald SÞ. Þar með fór Líbíustríðið á fullt. Lofthernaður NATO og stuðningur Vestursins við uppreisn jíhadista rústaði Líbíu sem ríki. Ég ætla ekki að fjalla um yeðileggingu Líbíu, en um það má t.d. lesa hér. Um Líbíu fyrir stríðið sem það næsta við velferðarríki sem Afríka hafði upp á að bjóða má lesa hér.
Vinstri stjórn á Íslandi – fumlaus stuðningur við aðgerðir
Afstaða Íslands var fumlaus stuðningur við loftárásirnar og árásarstríðið. Eftir á sögðu ráðherrar VG að þeir hefðu ekki verið hafðir með í ráðum, flokkurinn hefði ekki stutt loftárásir á Líbíu, og sérstaklega hefðu þeir ekki verið spurðir um þátt NATO í málinu. Í þrefi á Alþingi við VG 2014 sagði Össur Skarphéðinsson f.v. utanríkisráðherra um „loftferðabannið“ á Líbíu: „Það var tekið til sérstakrar umræðu hér. Og alveg sama hvað VG segir í dag, þá getur það ekki breytt þeirri staðreynd að í þeirri umræðu lýstu allir þingmenn sig samþykka þeirri ákvörðun sem tekin var, þ.e. að Ísland legðist ekki gegn þessu… Það var enginn í þingsal sem talaði gegn þessu…“
Skoðum stuttlega þessa fullyrðingu Össurar. Umræða um aðgerðir í Sýrlandi, m.a. „loftferðabann“, fóru fram á Alþingi 17. mars 2011. Þetta var sama dag og Öryggisráðið ályktaði um „loftferðabannið“, sem gerðist þó seinna um daginn. Íslensku þingmennirnir vissu auðvitað af umræðunum sem þá fóru fram í Öryggisráðinu um væntanlegar aðgerðir á vegum „alþjóðasamfélagsins“. Í umræðunum á Alþingi töluðu tveir þingmenn VG, Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar og Álfheiður Ingadóttir fyrrv. ráðherra. Í ræðu sinni sagði Álfheiður m.a. eftirfarandi: „Ég vil í þessu sambandi, frú forseti, nefna að utanríkisráðherra Dana hefur bent á samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2005, um skylduna til að verja og vernda, Responsibility to Protect, sem opnar óhefðbundna leið fyrir Sameinuðu þjóðirnar til að bregðast við ef öryggisráðið er blokkerað með þessum hætti og stefnir í þjóðarmorð. Þá leið mundi ég styðja, það er leið til þess að hindra annað Rúanda eða annað Kósóvó ef þjóðir heims ætla að beita neitunarvaldi í öryggisráðinu.“
Í þessu máli þvældust ráðherrar og forustumenn VG m.ö.o. ekki fyrir hinum glaðbeitta málflutningsmanni NATO á Íslandi, Össuri Skarphéðinssyni. Þeir studdu „loftferðabannið“ og tóku ekki upp andstöðu gegn hlutverki NATO í málinu – fyrr en eftir á. Andstöðu þeirra skömmu síðar má skoða í ljósi þess að þróun mála vakti eðlilega strax ólgu innan VG. Sjá hér. Það er auðvelt að benda á svik vinstri flokkanna við stefnumál sín, og rík ástæða til að gera það í ljósi hinna hroðalegu afleiðinga. Sérstaklega voru svik VG skýr því flokkurinn tekur „skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði“ í stefnuyfirlýsingu sinni. Samfylkingin er hins vegar ákafur NATO-flokkur og álitamál hvort skoða beri hana sem vinstri flokk. En það er samt of þröngt sjónarhorn að einblína á „svikin“ ein í þessu sambandi.
Nær órofa samstaða Vesturlanda
Fyrst er ástæða til að benda á hvað samstaðan gegn Líbíustjórn var afar breið í Evrópu og Vesturlöndum. Þar var varla falskur tónn. Og stríðið þótti ganga vel, Gaddafístjórninni var steypt. Öfugt við Írakstríðið 2003 kom ekki fram neinn klofningur innan NATO, NATO-ríkin studdu aðgerðirnar nema hvað Þýskaland sat hjá í Öryggisráðinu. Norðurlönd til dæmis tóku mjög virkan þátt í Líbíustríðinu, ekki bara þau sem eru í NATO. Danmörk og Noregur sendu 6 orustuvélar hvort á vettvang. Danmörk hefur reyndar lengi verið „fyrirmyndar NATO-land“ sem hefur tekið virkan þátt gegn öllum löndum sem Bandaríkin hafa krossað við til árásar. Meiri tíðindi eru að„hlutlausa“ landið Svíþjóð sendi 10 herþotur, þar af 8 orustuþotur, til að berjast undir NATO-stjórn. Það var samt ekki algert nýmæli því bæði Svíþjóð og Finnland höfðu þá þegar sent herafla til að berjast með NATO í Afganistan. Sjá hér skrá yfir þátttökuríkin í Líbíu: 11 NATO-lönd, tvö arabaríki og Svíþjóð. Pólitískt séð stóðu Vesturlönd nánast eins og einn maður gegn Líbíu. Það var óháð því hvort við völd sátu hægri eða vinstri ríkisstjórnir. Helsta undantekningin var atkvæði Þýskalands í Öryggisráðinu sem áður var nefnt.
Smart power
Einingin kom ekki af sjálfu sér eða fyrir tilviljun. Í Líbíustríðinu þróuðu og prófuðu Bandaríkin og Vesturveldin nýja taktík og aðferðir. Innrásir vestrænna ríkja í Afganistan (2001-) og Írak (2003-) höfðu reynst þeim dýrar og erfiðar. Strategistarnir lærðu af mistökunum. Þeir tóku nú þá stefnu að dulbúa komandi innrásir, hafa þær „óbeinar“ í staðinn fyrir „beinar“ og leitast við að taka vígin „innan frá“, að blása að glæðum innri ófriðar, á grundvelli þjóðernaandstæna og þó einkum trúardeilna. Af því „vígin“ voru múslimalönd þýddi þetta í framkvæmd að styðja ákveðnar fylkingar herskárra íslamista til uppreisnar og heilags stríðs (jíhad) gegn hinum óæskilegu stjórnvöldum. Jíhadistarnir, og mögulega einhverjir þjóðernahópar, koma þannig fram sem „staðgenglar“ (proxy) innrásarherja.
Jafnhliða stuðningi við uppreisnarhópa setti bandaríska/vestræna áróðursmaskínan í gang mikinn áróðursstorm um „mannréttindabrot“ Gaddafís þar sem hann var skipulega gerður að skrímsli. Bandarísku samtökin NED (National Endowment for Democracy ) og USAID gengu fremst í því að skipuleggja breiða herferð mannréttindasamtaka, utan og innan Líbíu, gegn „mannréttindabrotum og voðaverkum“ Gaddafís. Áhrifamikil samtök eins og Amnesty International og Human Rights Watch áttu einnig afgerandi þátt í að undirbúa jarðveginn og kalla eftir íhlutun „alþjóðasamfélagsins“. Bænaskrá um hernaðaríhlutun undirrituð af 70 slíkum samtökum var send Ban-ki Moon, aðalritara SÞ í aðdraganda stríðsins. Sjá grein um þátt mannréttindasamtakanna, m.a. AI og HRW „Mannréttindastormurinn“ varð svo mikill að þau ríki í Öryggisráðinu“ sem höfðu mælt ákveðið gegn „loftferðabanni“ á Líbíu enduðu á að sitja hjá.
Þetta var sem sagt hluti af nýrri bandarískri/vestrænni taktík. Suzanne Nossel er bandarískur demókrati sem starfað hefur lengi hjá Utanríkisráðuneytinu og Council for Foreign Relataions og einnig innan SÞ, en ekki síst hefur hún verið í æðstu embættum hjá framangreindum frjálsum samtökum, bæði Human Rights Watch og Amnesty International. Árið 2004 skrifaði hún grein í Foreign Affairs um nauðsyn þess að Bandaríkin tækju upp „frjálslynda alþjóðahyggju“. Hún gagnrýndi tilhneigingu Bush-stjórnarinnar til einhliða hernaðaraðgerða, Bandaríkin yrðu að læra að tileinka sér „SMART POWER“, að sameina hernaðarmátt sinn baráttunnni fyrir framsæknum og húmanískum gildum. Sjá grein hennar. Þetta var skrifað snemma í Íraksstríðinu og þessi nýja taktík var einmitt hugsuð til að yfirvinna mótþróa frjálslyndra og vinstrisinna – ekki síst Evrópubúa – gegn aðferðum Bush-stjórnarinnar í Írak sem höfðu skapað klofning og vandamál í undirbúningi og rekstri stríðsins, og í stjórnartíð Obama gekk sú áherslubreyting eftir. Þessi og þvílíkur málatilbúnaður er síðan mjög áberandi í bandarískri utanríkisstefnu og má vísa í tvær nánar stöllur Suzanne Nossel, þær Hillary Clinton fyrrum utanríkisráðherra og Samantha Power sendiherra USA hjá Sameinuðu Þjóðunum. Eftirfarandi grein skoðar þessara tengingar milli mannréttindasamtakanna og bandarískrar utanríkisstefnu, og hlutverk Suzanne Nossel þar í.
Með yfirburðastöðu sinni á alþjóðavettvangi tókst vestrænum heimsvaldasinnum árið 2005 að koma í gegn í Allsherjarráði SÞ nýju prinsippi, um „verndarskylduna“, skyldu „alþjóðasamfélagsins“ til að vernda borgarana í hvaða landi sem er gegn „harðstjórum“ (Responsibility to Protect, gjarnan skammstafað „R2P“). Í framkvæmd hefur þessi regla um „verndarskyldu“ verið sett ofar en gamla meginprinsipp SÞ sem bannaði rikjum að hlutast til um innri mál annarra fullvalda ríkja. Þarna er sem sagt fundin skylda og réttur sem rýfur fullveldismúrinn og undir þeim merkjum hafa nýju stríðin verið háð: í búningi frjálslyndrar heimsvaldastefnu, mannúðarheimsvaldastefnu. Líbía varð fyrsta og hreinasta prófmálið eftir að nýja stefnan gekk í gegn hjá SÞ.
Eins og áður kom fram var hin nýja taktík sérsniðin fyrir „framsækið fólk“, fjálslynda og vinstri menn. Moldrykið úr vestrænni fjölmiðlaveitu var að mestu lygar en það var einhliða og skilvirkt allt þar til krafan um „íhlutun“ stóð út úr hverjum pólitíkus í Vestrinu, ekki síður vinstrimönnum, jafnvel enn frekar. Ræða Álfheiðar Ingadóttur sem vitnað var í hér að framan er gott dæmi um þetta. Hún ákallaði „skylduna til að verja og vernda, Responsibility to Protect“ með hennar óbreyttu orðum.
Dæmið Noregur
Stríðsþátttaka Noregs er talandi dæmi. Árið 2011 var þar vinstri stjórn – líkt og á Íslandi – sem kallaði sig „rauðgræna ríkisstjórn“. Það mætti kannski búast við að slík stjórn væri síður herská en hægri stjórn. En svo var ekki. Strax 19. mars bauð Stoltenberg forsætisráðherra fram 6 orustuvélar og sendi þær svo suður í stríðið, eftir að hafa haft símasamband við formenn flokkanna á Stórþinginu! Norska stórþingið sjálft tók ekki upp málið fyrr en nokkrum dögum eftir að flugvélarnar höfðu hafið sprengjukast sitt yfir Líbíu. Málið fylgdi þannig ekki eðlilegu lýðræðislegu ferli. En jafnvel þegar umræðan loks var tekin á norska þinginu var þar enginn sem mótmælti stríðinu eða stríðsþáttöku Noregs.
Noregur er að vísu í annarri stöðu en Ísland þar sem landið er ekki aðeins með her heldur rekur mjög virka heimsvaldasinnaða efnahagsstefnu, norska stórauðvaldið stundar miklar fjárfestingar vítt um lönd, m.a. í olíuiðnaði, og hefur fyrir löngu séð sér hag í að bindast Bandaraíkjunum og NATO nánum böndum til að tryggja þá hagsmuni. Að engin andstaða skuli hafa verið gegn stríðinu á norska þinginu skýrist sjálfsagt að nokkru með því að þeir flokkar sem líkegastir voru til andstöðu (einkum Sosialistisk venstreparti (SV)) voru einmitt í ríkisstjórn. Jafnt vinstri sem hægri armur norskra stjórnmála lítur á það sem sitt hlutverk að auka arðsemi í norsku atvinnulífi, ekki síst hjá risafyrirtækinu Statoil – og er ekki öruggast að tryggja þá hagsmuni í bandalagi við helstu herveldi nútímans??
Noregur hefur þó ekki alltaf verið í stríðsliðinu. Noregur var ekki á „lista hinna viljugu“ gegn Írak 2003. Enda hafði öflug friðarhreyfing þá risið í landinu, t.d. fóru 60.000 manns í eina kröfugöngu í Ósló gegn stríðinu 22. mars 2003. Þegar «rauðgræna ríkisstjórnin» var sest til valda 2005, og Sosialistisk venstreparti (SV) var sterkt, var stjórnin fyrst um sinn eitthvað treg í framlögum sínum til Afganistanstríðsins. Það breyttist þó á næsta kjörtímabili. Ofursti í norska hernum, ritstjóri ritsins „Militære studier“ sagði við blaðið Klassekampen í maí 2014: „Stoltenberg-stjórnin hafði á fyrstu stjórnarárum sínum vont orð á sér m.a. af því við tókum ekki þátt í Suður-Afganistan. Eftir að staða SV veiktist í kosningunum 2009 skapaði Líbía möguleika á að bæta sambandið við Bandaríkin. Þetta hefur nú leitt til þess að Noregur hefur stigið upp um deild innan NATO.“ Að þetta stenst fyllilega hjá ofurstanum sést á því að seinna sama ár var Stoltenberg, fyrrum forsætisráðherra, gerður að framkvæmdastjóra NATO.
Friðarhreyfing lömuð
Annað merki um það að vestrænum strategistum hefur tekist taktíkin um „smart power“ er það að þeir náðu að lama friðarhreyfinguna. Í mars 2003 fóru 60.000 í kröfugöngu í Ólsó gegn innrásinni í Írak, líklega stærsta friðarganga í norskri sögu. En í nokkurra mánaða árásarstríði NATO gegn Líbíu voru tvær eða þrjár sárafámennar mótmælaaðgerðir gegn því í Ósló, söfnuðu 2-300 manns í heild. Ekki eitt prómill af mótmælunum átta árum fyrr. Sagan var ekki betri á Íslandi. Árið 2003 voru fjölmargir fundir í Reykjavík gegn innrásinni í Írak, bæði fyrir og eftir innrásardaginn. Á fundinn 14. febrúar mættu 4000 manns. Einnig voru fundir á Akureyri og Ísafirði og skrif gegn stríðinu á prenti voru daglega fyrir augum manna mánuðina fyrir og eftir innrásina. Svo kom stríðið í Líbíu. Engar mótmælaaðgerðir voru sjáanlegar vegna þeirra á Íslandi og skrif og ályktanir gegn stríðinu voru alveg hverfandi. Raunasagan endurtekur sig svo gagnvart stríðinu í Sýrlandi.
Vondir tímar
Þar sem „smart power“ eða „soft power“ sleppir tekur „hart vald“ við: valdboð og þrýstingur frá NATO, USA, ESB… Uppljóstranir Snowdens um árið sýndu vítækar njósnir NSA og bandarískra öryggisstofnana um helstu bandamenn Bandaríkjanna, um höfuðstöðvar ESB, um sendiráð einstakra ríkja ESB o.s.frv. Bandaríkin og NATO hafa sínar þumalskrúfur og aðferðir til að gera lífið óþægilegt fyrir valdamenn, vestræna sem aðra, sem ganga ekki í takt. Við þekkjum það m.a. frá sk. „öxulveldum hins illa“ að mótþrói verður ekki liðinn eða fyrirgefinn. Meðferð ESB (ásamt AGS) á Grikklandi breytti uppreisnarflokknum Syrisa og formanninum Tsipras í meðfærileg lömb á stuttum tíma. Valdaðilar Vestursins hafa mörg tæki í sínu vopnabúri, diplómatíska einangrun, stöðvun lánaþjónustu, viðskiptaþvinganir og hreint ofbeldi. Við skulum því alveg gera ráð fyrir að stjórnvöld bæði Íslands og Noregs – og önnur NATO-ríki – hafi verið undir pressu frá NATO um þátttöku í stríðinu gegn Líbíu. Hafi vilji viðkomandi stjórnvalda staðið til einhvers annars.
Við í Vestrinu lifum á vondum tímum. Tímum þar sem saman fer samþjöppun auðs, samþjöppun valds, samþjöppun fjölmiðlaheimsins – og þar með miðstýring hugsunar – meiri en áður eru dæmi um. Líklega er miðstýring fjölmiðlanna hvergi meiri en á hernaðarsviðinu, þegar sagðar eru fréttir af átaka- og styrjaldarsvæðum. Helstu stríð í heiminum renna undan rifjum vestrænna heimsvaldasinna, Pentagon, NATO og evrópskra NATO-velda. En þessir sömu aðilar ráða fjölmiðluninni sem segir okkur að hættan stafi annars staðar frá, frá persónum eins og Saddam Hússein, Gaddafí eða Assad.
Annað merki um einhliða valdboð ofan frá og niður hér í Vestrinu eru samningar eins og TISA (Trade in Services Agreement) og TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership) með stórfelldum efnahagslegum afleiðingum sem koma yfir okkur án umræðu í samfélaginu. Miðstýringin minnir á það „alræðisvald“ sem George Orwell fjallaði um í 1984, en er við lýði í þeim ríkjum sem sérstaklega stæra sig af „lýðræði“ til aðgreiningar frá ríkjum „einræðis“ og „alræðis“. Verst er að andstaðan við valdið er nánast ekki fyrir hendi, raunveruleg stjórnarandstaða, alþýðuhreyfingar, friðarhreyfingar…
Dæmið um Líbíustríðið er því hollt umhugsunarefni. Hvorki norska né íslenska þjóðin einkennast af miklum hernaðaranda. Samt var þessum löndum einhvern veginn þvælt til stuðnings (pólitísks og/eða hernaðarlegs) við árásarastríðið gegn Líbíu, án undangenginnar umræðu í samfélaginu. Gegnum hæfilega blöndu af þrýstingi frá Vesturblokkinni (NATO,ESB,USA…), moldviðri frá vestrænni fjölmiðlaveitu og svo svikum og aumingjaskap.
No comments:
Post a Comment