Friday, February 12, 2016

Frelsun Aleppo


(Stutt stöðufærsla á Fésbókarsíðu SHA 7. febr 2016 og lífleg umræða sem fylgdi)
Frelsun Aleppo, stærstu borgar Sýrlands, nálgast hratt. Það er hart að vita, kæru friðarsinnar, en úrslitin ráðst á vígellinum. Ekki í Genf. Takist þetta má segja að sjaldan hafi jafn einangruð þjóð unnið meiri sigur á heimsvaldasinnum. Hún er þó ekki alein meðan hún hefur stuðning Rússa. Straumurinn hefur snúist og verður varla snúið aftur nema með massífri vestrænni innrás. Vestrið á þó óhægt með að beita sér þar sem það þykist vera að berjast við ISIS og Al Kaída. Líklegra er að Tyrkir, Sádar, Katar, Furstadæmin o.s.frv. ráðist inn en þá er stuðningurinn við jíhadistana líka æpandi ljós. Illt að SHA og friðarhreyfingin treystir sér ekki til að taka afstöðu. Lesið Robert Fisk um málið.

Jonas Thor Gudmundsson Nú skil ég ekki nákvæmlega hvaða afstöðu þú vilt að SHA og friðarhreyfingin taki í þessu máli. Ég myndi halda svo að friðarhreyfingar almennt myndu aldrei taka afstöðu með vopnuðum átökum. Þetta er og verður áfram martröð fyrir íbúa svæðisins. Sama hvernig útkoman verður í Raqqa, þá verður aldrei nokkur "frelsun" í gangi - heldur áframhaldandi eymd og hörmung. Átökin verða ekki leyst með vopnum. Kannski er þetta barnalegur hugsanarháttur hjá mér.
Þórarinn Hjartarson Friðarhreyfing, Jónas, sem getur ALDREI tekið afstöðu í vopnuðum átökum, jafnvel ekki í þjóðfrelsisstríði gegn innrás heimsvaldasinna, er vængstífð og lömuð.

Stefán Pálsson Á friðarhreyfing að velja sér lið í styrjöldum í fjarlægum löndum? Um það geta menn deilt. - En varðandi þetta tiltekna stríð þá deili ég einfaldlega ekki þeirri skoðun Þórarins að hér sé um að ræða andstæðurnar þjóðfrelsislið vs. heimsvaldasinnað innrásarlið.

Þegar stríðið byrjaði lenti maður ótaloft í deilum við fólk sem vildi draga upp þá mynd að í Sýrlandi ættust við einræðisstjórn og lýðræðiselskandi almenningur. Það fór ekki lítill tími í að reyna að rökræða það mál og benda á að átakalínurnar væru fyrst og fremst eftir þjóðernis-, ættbálka og trúarbragðalínum. Að uppreisnarmenn væru upp til hópa súnníar á móti shíamúslimum, alavítum, kristnum, kúrdum og drúsum.



Við þá greiningu stend ég. Á sama hátt og mér fannst fráleitt af vestrænum fjölmiðlum að reyna að gera uppreisnarmenn úr súnníliðinu að einhverjum málsvörum frelsis og lýðræðis þegar þeir drápu samborgara sína, þá kaupi ég ekki hugmyndina um að sveitir shíta séu þjóðfrelsislið þegar þær gera það sama. Það kann vel að vera að einhverjum finnist þessi svartsýnislega sýn mín á stríðið vera vængstífð og lömuð. Sjálfum finnst mér hitt viðhorfið einkennast af óskhyggju.


Þorsteinn Vilhjálmsson Ég held að menn þurfi að byrja á að kynna sér og hugleiða átökin innan Islams, einkum milli sjíta og súnníta, ásamt sögu svæðisins, til að átta sig á því sem þarna er að gerast. Hugtök sem spretta upp ur akri okkar Vesturlandabúa koma þarna fyrir lítið. Þar á meðal er hugtakið „þjóð“, sem okkur hættir til að nota eftir strikum sem heimsveldi 20. aldar drógu á kort að eigin vild án þess að gera neitt með afstöðu íbúanna.
Sverrir Jakobsson Það besta í stöðunni hefði auðvitað verið að Sýrlandi hefði ekki verið steypt út í borgarastríð. Þar bera Vesturlönd mikla ábyrgð, einkum Bandaríkin og Frakkland. Núna virðast það einkum vera Sádí-Arabía og Tyrkland sem vilja halda þessu gangandi hvað sem tautar og raular.

Þórarinn Hjartarson Já, já, heimsvaldasinnar drógu landamærin eftir fyrra stríð. Að átakalínur leggist að hluta eftir trúarbragðalínum afsannar ekki að þarna eigi þjóðríki - vissulega með stórum kúrdískum minnihluta m.m. - í höggi við heimsvaldaárás. Heimsvaldasinnar tóku þá meðvituðu ákvörðun ca. 2005-06 að veðja á trúrdeilutrompið til að steypa stjórnvöldum landsins og hafa síðan með handbendum sínum á svæðinu, Tyrkjum og Persaflóaríkjum, lagt til brennið í það bál.
Þórarinn Hjartarson Stefán virðist ekki vilja "velja sér lið í styrjöldum í fjarlægum löndum". Slík afstaða er að minni hyggju alveg fráleit, þá hefði ekki heldur mátt velja sér lið í t.d.Víetnam 1970 eða Júgóslavíu 1944. Ef réttlætissinnar hafa slíka afstöðu er það grænt ljós fyrir yfirgangsmenn. Aðalatriðið í gagnrýni minni er að friðarhreyfingin hefur horft að mestu aðgerðarlaus á staðgengilsstríð heimsvaldasinna í Sýrlandi (líka Líbíu). Sýrlandsher er nú búinn að ná yfirhöndinni gegn verkfærum heimsvaldasinna sem svara kannski með innrás Tyrkja/Sáda til bjargar sínu liði. Hvað eiga friðarsinnar þá að gera ef enn ekki má velja lið? Fordæma alla aðila, syngja friðarsálma eða snúa sjónum sínum undan í hryllingi?

Stefán Pálsson Svo við séum nákvæmari: þá tel ég fyrst og fremst varhugavert að veðja á hesta í stríðum sem í grunninn eru drifin áfram af ættbálka- og þjóðarbrotaágreiningi. Að gefa stríðsaðilum í slíkum átökum stimpla á borð heimsvaldasinna og andheimsvaldasinna er jafnófrjótt nú og var í ótalmörgum sambærilegum stríðum í þriðja heiminum á tímum kalda stríðsins. Í Sýrlandi er nóg af málaliðum og leiguþýi en meirihluti þeirra sem berjast í báðum fylkingum eru venjulegir Sýrlendingar sem allir eru jafnsannfærðir um að þeir séu að verja hendur sínar.

Þórarinn Hjartarson Ég er ekki ósammála öllu sem þú segir þar. En að lýsa stríðunum í Sýrlandi eða Líbíu sem "í grunnin" átök "ættbálka og þjóðarbrota" ar afar rangt þar sem hinn sekasti sleppur. Eins og Seymour Hersh benti á í grein 2007 voru Bandaríkin þá farin að vopna og fjármagna jíhadista súnnía í "leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra Sýrlandi". Sú lína hefur síðan bara verið þróuð áfram, í tengslum við nánustu bandamennina á svæðinu (Tyrki, Sáda...) sem fyrir tilviljun eru súnníar.
Jón Karl Stefansson Ég veit ekki hvað skal segja. Mér finnst svo ákaflega sorglegt að sjá hernaðarandstæðinga styðja þessi skuggastríð gegn Líbýu og Sýrlandi. Já, það eru mörg þjóðarbrot og margar skoðanir í Sýrlandi, eins og flestum öðrum ríkjum. En þegar Bandaríkjamenn og evrópskir imperíalistar ásamt ömurlegustu konungsstjórnum Arabíu dæla fyrst peningum og áróðri (fyrir 2011), svo gríðarlegu magni vopna og erlendra málaliða til allra aðila sem eru tilbúin að berjast á móti kjörnum fulltrúum ríkisins er ekki um að ræða "uppreisn fólksins" og ekki einu sinni "ættbálkaerjur", heldur árásarstríð þarf að taka beina afstöðu gegn. Mín afstaða er þessi: Styðjið löglega stjórn Sýrlands, vopnahlé og svo nýjar kosningar undir umsjón Sameinuðu þjóðanna. Takið afstöðu gegn augljósum tilraunum Arabíukónganna og Tyrkja til að kremja síðasta sósíalistaríkið í austurlöndum nær

Jonas Thor Gudmundsson
 Ég get ekki séð úr svörum hérna að nokkur maður styðji þessi skuggastríð gegn Líbýu og Sýrlandi. Ofbeldi er síðasta skjól þess vanhæfa og finnst mér einfaldlega úr takti við friðarhreyfingu að styðja við vopnuð átök. Fara þarf eftir alþjóðalögum og finna friðsamlegar úrlausnir, þar sem áframhaldandi stríðsátök mun ekki leiða til varanlegra framtíðarlausna.

Það er ekki deilur hins góða gegn hinu illa. Þetta er allt mjög grátt og loðið. Við eigum ekki að taka afstöðu með einum eða neinum í þessum átökum, nema einhver aðilinn sýni fram á lausn sem feli í sér langvarandi frið og velmegun fyrir íbúa landsins. Það er einfaldlega ekki í boði eins og er.


Stefán Pálsson Ég átta mig heldur ekki á í hvaða skilningi Sýrland á að geta talist sósíalískt ríki. Þriðjungur íbúa bjó við fátækt fyrir stríð og 10% örbirgð. Millistéttin var fámenn og veikburða, en agnarlítil vellrík yfirstétt. Velferðarkerfið á brauðfótum og helst rekið í gegnum hjálparsamtök. Núverandi Assad var iðinn við einkavæðingu og frjálshyggjuaðgerðir framan af valdatíma sínum (sem bakaði honum vinsældir á vesturlöndum). Það var ekki fyrr en undir það síðasta að hann fór að taka upp retórík um mikilvægi aukins jöfnuðar, en minna var um efndir.
Jón Karl Stefansson Fara þarf eftir alþjóðalögum, já. Þau banna einmitt íhlutun í innanríkismál þjóða. Sýrlenska stjórnin hefur rétt til þess að verja ríkið gegn innrás. Skuggastríð fara í kringum alþjóðalög að einhverju leyti, en niðurstaðan er hin sama. Ég var einmitt að benda á friðsama lausn sem við ættum að standa fyrir: Styðja stjórnina (alþjóðalög), vopnahlé (friður), og kosningar undir stjórn SÞ (friðsamleg úrlausn). Þetta er eina niðurstaðan sem getur leitt af sér varanlegan frið. Sýrland er undir stjórn Baath flokksins, sem er hluti af pan arabískum sósíalisma; þótt svo að sá sósíalismi sé kannski ekki upp á marga fiska. Það breytir því ekki að konungarnir í Sádí Arabíu, Bahrain, Kuwait o.s.frv. hata þessa pólitík. Það er engin tilviljun að öll ríki sem hafa verið skotspónn annað hvort beins árásarhernaðar eða skuggahernaðar hafa titlað sig sósíalísk: Afganistan, Líbýa, Jemen (sérstaklega suður Jemen), Alsír, Írak, Sýrland o.s.frv.

Jonas Thor Gudmundsson Sammála þér í flestum atriðum. Er hins vegar í vafa með hvort friðarsamtök sem þessi eigi að styðja við stjórn, sem hefur nú þegar brotið gegn íbúum sínum. Vopnahlé er nauðsynlegt (sammála) og kosningar undir eftirliti SÞ er að sjálfsögðu friðsamleg úrlausn, en hvort það sé framtíðarlausn vitum við ekki. Tel að hlutverk friðarsamtaka sé að koma með "lausnir" án aðkomu ofbeldis. Kannski er sú hugmyndarfræði algjörlega naivísk og í raun ógerleg, en stuðningur við ofbeldi á einhvern hátt finnst mér óréttlætanlegur með öllu - því það mun aldrei skila sér í varanlegum frið.

Þórarinn Hjartarson Ég er sammála þeim kröfum/tillögum sem Jón Karl setur fram: a) fordæmum skuggastríð/staðgengilsstríð gegn Sýrlandi, þ.e. uppreisn sem borin er uppi af stuðningi utanlands frá og viðurkennum rétt löglegrar stjórnar Sýrlands til að verja ríkið b) krefjumst vopnahlés og kosninga undir stjórn SÞ. Punktur. Þetta tvennt eru aðalatriði. Hitt er aukaatriði hvort Sýrland sé sósíalískt (ég held ekki) eða hvort sjórnvöld þar hafi framið mannréttindabrot (ég held þau hafi það). En eins og Jonas Thor dreg ég í efa tal Jóns Karls um hernaðarandstæðinga sem "styðja þessi skuggastríð gegn Sýrlandi og Líbíu". Að menn láti vera að berjast gegn skuggastríðunum er ekki það sama og að styðja þau.

Kristján Þór Sigurðsson Er þetta ekki fyrst og fremst proxy stríð á milli Íran/Rússa vs. USA/Sadí/Tyrklands og mikið útaf fyrirhugaðri gasleiðslu í gegnum Sýrland? Frekar er einhverjar ættbálka- eða trúardeilur sem er oftast billigt yfirskyn í svona átökum...  Flest átök og stríð af þessu tagi snúast um náttúruauðlindir, ekki þjóðflokka eða trúarbrögð, þó það séu nýtileg leiktjöld...

No comments:

Post a Comment