Saturday, February 13, 2016

Flugskýlin á Miðnesheiði

(birtist á fésbókarsíðu SHA 12. feb 2016)
Gunnar Bragi og Hanna Birna gera lítið úr "uppfærslu flugskýlis" á Miðnesheiði. En vefrit Bandaríkjahers segir málið snúast um að taka skuli upp eftirlit úr lofti með rússneskum kafbátum og sjóherinn gæti síðar "farið fram á aðstöðu til langframa". Fyrir viku kom fram að Bandaríkin áforma að FJÓRFALDA á næstunni hernaðarútgjöld sín í Evrópu. Og í gær kom fram frá fundi utanríkisráðherra NATO í Brussel í fyrsta lagi að NATO hefur undanfarið ÞREFALDAÐ viðbragðsliðsafla sinn í Austur-Evrópu og áformar nú að bæta 40 þúsund manns við auk þess að auka mjög hernaðaraðstoð við Tyrkland m.m.  Sjá frétt þar um. Það verður að setja flugskýlismálið inn í þetta samhengi og segja svo að það sé meinlaust.

TISA og lýðræði á undanhaldi


Nokkur umræða hefur vaknað um væntanlegan TISA-samning, en Ísland á aðild að samningsgerðinni. Stjórnmálasamtökin Dögun stóðu fyrir opnum fundi um málið fyrir skömmu og Ögmundur Jónasson tók það upp á Alþingi 4. febrúar. Það sem mest er gagnrýnt er leyndin yfir viðræðunum, enda samningsgerðin bak við luktar dyr. Aðferðina skortir allt lýðræði enda er markmiðið ekki styrking lýðræðis heldur þvert á móti, flutningur valds til fjölþjóðlegra auðhringa og risafyrirtækja. Frumkvæðið að TISA kemur frá auðhringunum en almenningi er haldið óupplýstum. Reiknað er með að samningurinn verði lagður fyrir þjóðþing, m.a. Alþingi á Íslandi, en bara til samþykktar eða höfnunar í heilu lagi og óumbreytanlegur. Þetta er víst ekki mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki heldur kosningamál. Gunnar Bragi Sveinsson blæs á gagnrýni og segir samningsgerðina eðlilega og væntanlegan samning hefðbundinn, saklausan viðskiptasamning. Það er fjarri sannleikanum.



TISA-viðræðurnar koma sem framhald GATT viðræðnanna. Fyrsti GATT-samningur varð til fyrir 1950 sem samningur um frjálsari verslun með VÖRUR á eftirstríðsárunum. GATT varð síðan verkfæri til „opnunar markaðanna“ og afnáms innflutningsverndar. Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins lauk 1994 með stofnun WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og fól einkum í sér frelsun á flæði FJÁRMAGNS OG FJÁRFESTINGA. Frumkvæðið og þrýstingurinn til „opnunar“ kom alla tíð fá vestrænum, einkum bandarískum, auðhringum sem beittu sér fyrir „opnun“ og frjálsara flæði vöru og fjármagns yfir landamæri.TISA er þriðja stóra lotan: frelsun VIÐSKIPTA MEРÞJÓNUSTU. Úrúgvæ-lotan hafði fætt af sér svokallaðan GATS-samning sem einmitt tók til viðskipta með þjónustu. Hins vegar hafði markaðsvæðing þess sviðs stöðvast á miðri leið vegna andstöðu meðal þróunarríkja og ýmissa baráttusamtaka gegn hnattvæðingu (kennd við Seattle 1999). TISA er á sinn hátt framhald GATS, með TISA-viðræðunum tóku 50 þróuð ríki sig út úr, undir forustu Bandaríkjanna, til að búa til nýja samninga um frjálst flæði og stilla síðan öðrum ríkjum upp við vegg og bjóða þeim aðgang að fullmótuðum samningi eða standa úti.



TISA-samningurinn stefnir í það að gera þjónustu að alþjóðlegri verslunarvöru og fjarlægja pólitískar og félagslegar hindranir á „frjálsum viðskiptum “ á því sviði. Löndin skuldbinda sig til að OPNA ÞJÓNUSTUGEIRANN (heilsugæsla, öldrunarþjónusta, menntun, vatns- og orkuveitur, söfn, fjármálaþjónusta, menningarviðburðir...) og markaðsvæða hann á alþjóðlegum markaði. Hugmyndafræðin er frjálshyggja, afnám opinbers regluverks (deregulation). Markaðsvæðingin er jafnframt opnun til einkavæðingar. TISA-samningurinn meinar löndum að hygla að eigin starfsemi (rekstri/fyrirtækjum) á sviði þjónustu eða gera kröfur sem „mismuna“ aðilum, t.d. mismuna jákvætt í þágu neytendaverndar, vinnuverndar, heilsuverndar, umhverfis (sbr. umhverfistengd þjónustuviðskipti). Frjáls markaðslögmál á alþjóðavettvangi eiga að stjórna fjárfestingu í þjónustu og því hvernig þjónustan er veitt. Ljóst má vera af upptalningunni að þetta eru breytingar sem munu hafa geysivíðtæk áhrif á íslenskt samfélag eins og önnur. TISA-samningurinn er risaskref í löngu ferli sem felur í sér stöðuga VALDATILFÆRSLU FRÁ ÞJÓÐKJÖRNU VALDI TIL MARKAÐSAFLANNA. Stórum sviðum er kippt út af vettvangi stjórnmálanna og kosningar til þings og fulltrúasamkunda missa vægi sitt að sama skapi.



Mestar upplýsingar um TISA koma frá leka Wikileaks á nokkrum skjölum um viðræðurnar í júní 2015, sjá https://wikileaks.org/tisa/. Eftir þær afhjúpanir hefur gagnrýnin beinst að afleiðingum samningsins fyrir lýðræðið: hvernig hann breytir þjóðlegu fullveldi í átt að alræðisvaldi stórfyrirtækja. Bergsveinn Birgisson skáld skrifar um dómsvaldið og lögsöguna á sviði samningsins, fyrirbæri sem nefnist „Fjárfestingadómstóll“ (Investor State Dispute Settlement, ISDS): „Í þessum sem og öðrum fríverslunarsamningum er kveðið á um hvernig stórfyrirtæki geta rekið dómsmál gegn þjóðríkjum fyrir gerðardómi ef þeim finnst brotið á sér eða markaðslegt olnbogarými þeirra skert svo það bitni á gróða þeirra. Þessi gerðardómur er skipaður þremur lögfræðingum, hvar tveir þeirra eru oftast hallir undir hag fyrirtækisins, en einn frá landinu sem reynir að spyrna gegn hnattræna túrbó­kapítalismanum.“ Sjá: http://www.visir.is/tisa-samningurinn-og-lydraedi-a-utsolu/article/2015151129588

Arkítektinn á bak við TISA er Bandaríkin. Því landi er að mestu stjórnað af lobbýistum stórfyrirtækja, fulltrúi þeirra í þjónustugeiranum er The Coalition of Services Industries með flesta stærstu auðhringa Bandaríkjanna innanborðs. Hinn aðalaðili samningsins er ESB en auk þess eru rúmlega 20 náin fylgiríki Bandaríkjanna í Suður-Ameríku og Asíu með (m.a. Japan). Hins vegar eru hvorki Kína né sk. BRICS-ríki með (BRICS: Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka), þ.e. hinir uppvaxandi keppinautar gömlu iðnríkjanna á heimsmarkaðnum. TISA er hluti af viðskiptastríði.



Þetta er mikilvægt. TISA er beinlínis TEFLT GEGN framantöldum „nýmarkaðsríkjum“, og umfram allt Kína. TISA er hluti af stærri heild, samningurinn hangir náið saman við tvo aðra samninga sem hafa líka verið í mótun bak við luktar dyr á sama tíma: TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership) sem er fríverslunarsamningur milli Bandaríkjanna og ESB, ennþá á samningsstigi, og TPP (Trans-Pacific Partnership) sem er skoðaður sem „systursamningur“ (companion agreement) og þar með fyrirmynd hins fyrrnefnda og var undirritaður af 12 Kyrrahafsríkjum þann 4. febrúar síðastliðinn. Daginn eftir kynnti RÚV samninginn og reyndi ekkert að dylja þetta stríðshlutverk hans: „Barack Obama segir samninginn veita Bandaríkjunum forskot á önnur efnahagsleg stórveldi, þá sérstaklega Kína.“ Sjá http://www.ruv.is/frett/friverslunarsamningur-undirritadur. Viðskiptastríðið og hernaðarútrás Vestursins eru tveir þættir í hnattrænu stríði gömlu heimsveldanna við þau nýju, og línur í stríðinu skýrast með þessum nýju samningum. Þess ber svo að geta að þegar TTIP- samningurinn lítur dagsins ljós tekur hann EINNIG GILDI Á íSLANDI gegnum EES-samninginn þótt Ísand sé ekki beinn aðili að honum.



Auðvaldið fer sínu fram meðan lítið mótvægi er frá virkri (hvað þá sósíalískri) verkalýðshreyfingu eða öflugum grasrótarhreyfingum. Og niðurstaðan er ört hopandi lýðræði.

Friday, February 12, 2016

Frelsun Aleppo


(Stutt stöðufærsla á Fésbókarsíðu SHA 7. febr 2016 og lífleg umræða sem fylgdi)
Frelsun Aleppo, stærstu borgar Sýrlands, nálgast hratt. Það er hart að vita, kæru friðarsinnar, en úrslitin ráðst á vígellinum. Ekki í Genf. Takist þetta má segja að sjaldan hafi jafn einangruð þjóð unnið meiri sigur á heimsvaldasinnum. Hún er þó ekki alein meðan hún hefur stuðning Rússa. Straumurinn hefur snúist og verður varla snúið aftur nema með massífri vestrænni innrás. Vestrið á þó óhægt með að beita sér þar sem það þykist vera að berjast við ISIS og Al Kaída. Líklegra er að Tyrkir, Sádar, Katar, Furstadæmin o.s.frv. ráðist inn en þá er stuðningurinn við jíhadistana líka æpandi ljós. Illt að SHA og friðarhreyfingin treystir sér ekki til að taka afstöðu. Lesið Robert Fisk um málið.

Jonas Thor Gudmundsson Nú skil ég ekki nákvæmlega hvaða afstöðu þú vilt að SHA og friðarhreyfingin taki í þessu máli. Ég myndi halda svo að friðarhreyfingar almennt myndu aldrei taka afstöðu með vopnuðum átökum. Þetta er og verður áfram martröð fyrir íbúa svæðisins. Sama hvernig útkoman verður í Raqqa, þá verður aldrei nokkur "frelsun" í gangi - heldur áframhaldandi eymd og hörmung. Átökin verða ekki leyst með vopnum. Kannski er þetta barnalegur hugsanarháttur hjá mér.
Þórarinn Hjartarson Friðarhreyfing, Jónas, sem getur ALDREI tekið afstöðu í vopnuðum átökum, jafnvel ekki í þjóðfrelsisstríði gegn innrás heimsvaldasinna, er vængstífð og lömuð.

Stefán Pálsson Á friðarhreyfing að velja sér lið í styrjöldum í fjarlægum löndum? Um það geta menn deilt. - En varðandi þetta tiltekna stríð þá deili ég einfaldlega ekki þeirri skoðun Þórarins að hér sé um að ræða andstæðurnar þjóðfrelsislið vs. heimsvaldasinnað innrásarlið.

Þegar stríðið byrjaði lenti maður ótaloft í deilum við fólk sem vildi draga upp þá mynd að í Sýrlandi ættust við einræðisstjórn og lýðræðiselskandi almenningur. Það fór ekki lítill tími í að reyna að rökræða það mál og benda á að átakalínurnar væru fyrst og fremst eftir þjóðernis-, ættbálka og trúarbragðalínum. Að uppreisnarmenn væru upp til hópa súnníar á móti shíamúslimum, alavítum, kristnum, kúrdum og drúsum.