(Birtist á Friðarvefnum 18/3 2015)
Friðarhreyfingin á Vesturlöndum hefur undanfarin ár verið
lítt virk og sýnist mjög ráðvillt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi,
Írak, Úkraínu og víðar. Ekki heldur SHA á Íslandi tekst að taka skýra afstöðu Í
þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja öfluga baráttu fyrir friði.
Þetta er breyting frá því sem áður var. Ég fékk pólitíska
skírn í baráttunni gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam, stríði sem ól af
sér mesta andheimsvaldastarf 20. aldarinnar. Alþjóðleg samstaða átti stóran
þátt í sigri víetnömsku þjóðarinnar 1975 og sú hreyfing olli pólitískri ólgu á
Vesturlöndum og gerði mína kynslóð róttæka. Viðlíka gerðist aftur í tengslum
við innrás „hinna viljugu“ í Írak 2003. Þá kviknaði aftur öflug grasrótarbarátta
gegn stríði um hinn vestræna heim. Mannfjöldinn í götumótmælum var hliðstæður
við hátinda Víetnambaráttunnar. Og mótmælahreyfingin gegn stríðinu vann
áróðursstríðið svo Bush og Blair stóðu uppi sem ærulausir stríðsglæpamenn sem
höfðu falsað gögnin um „gjöreyðingarvopn Saddams“.
Mótmælin gegn Íraksstríðinu á Íslandi voru líka mjög kröftug. Mánuðum
saman voru vikulegir útifundir haldnir í Reykjavík. Allt annað gildir um
nýjustu stríðin. Engin mótmæli eða ályktanir komu frá SHA né öðrum þegar stríð NATO
geysaði í Líbíu. Og sama er uppi á teningnum í Sýrlandi, í stríði sem USA og
ESB-veldin reka gegnum staðgengla. Breytingin er afskaplega sláandi. Ég ætla að
slá því fram að meginorsakirnar séu tvær:
Í FYRSTA LAGI skýrist hin ráðvilta afstaða fjölmargra friðarhreyfinga af því að heimsvaldasinnar tóku upp „smart power“ (sniðuga beitingu valds). Þeir píska upp stemningu gegn útvöldum „harðstjórum“, beita fyrir sig mannréttindasamtökum (NGO´s) og skipuleggja miklar ófrægingarherferðir gegnum heimspressuna. Slíkar herferðir geta tekið stefnu á íhlutun frá „alþjóðasamfélaginu“ undir merkjum „mannúðarinnrásar“ (sbr Líbíu), eða þá, sem algengara hefur orðið, að valin er leið stríðs gegnum staðgengla. Þá felst íhlutunin í að styðja uppreisn óánægðra trúarhópa eða þjóðernishópa og byggja upp og vopna her málaliða, oftast undir trúarlegri eða þjóðernislegri yfirskrift. Þriðja aðferðin er að ráðist er á fórnarlömbin út frá endurnýjaðri kennisetningu um „stríð gegn hryðjuverkum“ (sbr Sýrland og Írak 2014). Lömun friðarhreyfingarinnar liggur þá í því að hún kaupir að einhverju leyti þessar opinberu skýringar stríðsaflanna á hernaðinum. Um þessar aðferðir kenndar við „smart power“ fjalla ég í annarri grein: