(Birtist á Vinstri vaktinni gegn ESB 19. apríl 2014)
Ég er ósáttur við fésbókarvini mína. Fólkið sem stóð með mér í Búsáhaldabyltingu
fyrir bráðum 6 árum stendur nú aftur reglulega á Austurvelli og heimtar áframhald
á umsóknarferlinu að ESB. Yfirlýstir vinstrimenn vilja afhenda skrifræðinu í
Brussel íslensk gögn og gæði. Jafnframt er uppistaðan í pólitískri umræðu
margra þeirra orðin að persónulegum skætingi, skítkasti og níði um íslenska
ráðherra eða forsetann á fésbókarsíðunni minni og í öðrum netmiðlum - vegna
ESB-afstöðu þeirra.
Þetta fólk, sem ég held að skiptist tilvijanakennt milli
Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, og Evrópuarms VG (helstu afskipti VG
af ESB-málinu undanfarið eru reyndar þau að heimta framhald umsóknar!) lítur á
evrópska sameiningar- og samrunaþróun sem ópólitíska „efnahagsþróun“, „opnun“
„fjölþjóðlega samvinua“ o.s.frv. Einkum lítur það á allt viðnám gegn þessari
„eðlilegu“ þróun sem nesjamennsku og þjóðrembu, og lægra verður víst ekki
komist.
Ég held því fram að þessu valdi einfaldlega pólitískur
vanþroski. Fésbókarvinir mínir eru upp til hópa vel meinandi vinstri menn og um
margt skynsamt fólk. En þetta er „vinstrimennska“ sem hefur þann galla að vita
ekkert hvað kapítalismi eða heimsvaldastefna er. Þekking á slíku er gleymd. Fók
sem ekki er meðvitað um það heimsvaldaumhverfi sem það lifir í er á valdi þess
umhverfis. Þegar meðvitaða greiningu skortir lifir maðurinn í ímynduðum heimi.
Upphleðsla auðmagns og samþjöppun auðs og valds í heimsvaldablokk birtist honum
þá einfaldlega sem „eðlileg
efnahagsþróun“ og heimsvaldaprósékt (evrópskrar) borgarastéttar birtist sem
„alþjóðleg samvinna“.
Ísland – verandi aðili að EES og NATO – er á yfirráðasvæði
ESB og Vesturblokkarinnar. Við Íslendingar lifum mjög á forsendum þeirra hugmynda
sem þar ríkja og hlýðum þeim lögmálum sem þar gilda. Aðlögun og innlimun gengur
þar SJÁLFKRAFA, nema henni sé meðvitað veitt viðnám. Inngangan sjálfvirk, en
útgangan....
Þorsteinn Pálsson skrifar: „Evrópusambandið snýst... í stuttu
máli um frjáls viðskipti og vestræna samvinnu.“ Þetta er rétt. ESB er evrópski
hluti Vesturblokkarinnar. Sá hluti hennar sem hefur þanist út. Útþensla hennar
eftir lok kalda stríðsins hefur falist í að innlima ný svæði í vestræna efnahagskerfið,
opna það fyrir frjálsu flæði fjármagns, opna það fyrir „hnattvæðingu“ vestrænna
auðhringa.
Sem er þó bara önnur hlið málsins. Hin hliðin er útþensla
NATO: að innlima ný svæði inn í hernaðarkerfi NATO. NATO er hernaðararmuninn á Vesturblokkinni. Þegar
Sovét – tilverugrunnur NATO – var horfin fór „varnarbandalagið“ að þenjast út.
Í grófum dráttum hefur það innlimað afganginn af Evrópu. NATO-blokkin er
stríðsblokk nútímans sem kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og stefnir á
heimsyfirráð. Í þeirri blokk eru Bandaríkin foringinn og ESB aðstoðarmaðurinn.
Evrópuvinstrið ímyndar sér gjarnan að stækkun ESB og stækkun
NATO séu tvö aðskilin ferli, hvort öðru óháð. Það er misskilningur. Öll ríki
ESB eru NATO-ríki ellegar hafa aukaaðild/samstarfsaðild að bandalaginu. Kýpur
hefur verið eina undantekningin en nýr forseti landsins hefur nú sótt um
samstarfsaðild að NATO. Engu ESB-ríki líðst til lengdar að standa utan NATO né
hafa aðra sjálfstæða utanríkisstefnu. Eftir fall Múrsins hafa stækkunarferlin
tvö gengið samhliða yfir Evrópu. Stærsti skammtur Austur-Evrópuríkja, sjö
talsins, gekk nær samtímis inn í samböndin tvö árið 2004 (Rúmenía og Búlgaría
urðu þó að bíða þrjú ár í viðbót utan ESB).
Því fylgja skyldur að vera í liði Vesturblokkarinnar. Þegar
lönd eru komin í NATO eru þau SJÁLFKRAFA þátttakendur í hernaði bandalagsins.
Öll ESB-ríki nema Malta og Kýpur hafa átt aðild að hernaðinum í Afganistan og
Líbíu. Og nú eru þau SJÁLFKRAFA komin í viðskipta- og diplómatískt stríð við
Rússland.
Hið nána bandalag ESB og Bandaríkjanna gegnum NATO hefur stundum
verið Evrópuvinstrinu sálrænt erfitt. Tilkoma hins frjálslynda Obama auðveldaði
sumum vinstrimönnum að styðja stríðsrekstur Bandaríkjanna. Og nú verður norski
„vinstrimaðurinn“ Jens Stoltenberg nýr framkvæmdastjóra NATO. Verður þá kannski
NATO líka boðlegur klúbbur fyrir vinstri menn, og stríð hans ásættanlegri?