Saturday, March 9, 2013

Grískir harmleikir

(birtist á Vinstri vaktin gegn ESB 23. febr, 2013)


images
Sunnanverð Evrópa færist ört í átt að 3. heims ástandi.  Á Spáni eru nú atvinnuleysingjar álíka margir og í kreppunni miklu í Þýskalandi skömmu áður en Hitler komst til valda árið 1933.
Síðastliðinn miðvikudag var enn eitt allsherjarverkfallið í Grikklandi. Tvö stærstu verkalýðsssambönd landsins stóðu fyrir verkfalli í sólarhring. Þúsundir gengu um götur Aþenu og annarra borga. Mótmælin eru tímasett m.t.t. þess að eftirlitsmenn Þríeykisins - framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS - heimsækja landið eftir helgina til að fylgjast með að hert verði á niðurskurðinum. 
Í Grikklandi ýtist nú sívaxandi hluti þegnanna út í djúpa neyð með hjálp „björgunaraðgerða" - lána á eitilhörðum skilmálum - undir leiðsögn Þríeykisins. Gríska blaðakonan Alex Politaki lýsir á þessa leið þrengingum og neyð (humanitarian crisis) þessara stækkandi þjóðfélagshópa, samkvæmt frásögn The Guardian:
AlexPolitaki
  • Fólk verður af grundvallar-velferðarþjónustu eins og læknisþjónustu, meðulum og sjúkrahúsvist.
  • Í nokkrum hverfum Aþenu eru yfir 60% íbúanna háð meðalaaðstoð frá hjálparsamtökum. Hið opinbera hefur ekkert að bjóða þeim sem ekki geta borgað.
  • Grikkland hefur sokkið niður í alvarlega fátækt. Yfir 11% lifa í sárafátækt (extreme material deprivation).
  • Atvinnuleysið er 27% og nærri 60% hjá fólki undir 30 ára aldri.
  • Af þeim sem hafa fulla atvinnu eru 13% „vinnandi fátækir" - geta ekki lifað af launum sínum.
  • Óopinberar tölur sýna að fjöldi heimilislausra er kominn yfir 40 000.
  • Á einu sviði er vöxtur: Fjöldi súpueldhúsa hefur margfaldast, og mun enn hækka þar sem yfirvöldum er nú tilkynnt um vaxandi fjölda barna sem fellur í yfirlið í skólum vegna vannæringar.
Af hverju gerist þetta allt? Vegna þess að lítil fjármálaelíta veltir, með hjálp Þríeykisins, skuldum sínum yfir á ríkiskassann, og skikkar hann til að skera niður útgjöld á móti. Slík þjóðnýting bankaskulda er reglan í ESB. Líkt og ef íslenska ríkið sæti með allar skuldir íslensku bankanna eftir bankahrunið. Í Evrópu nú um stundir er Ísland helsta undantekningin frá slíkri ríkisyfirtöku á skuldum banka - þökk sé neyðarlögunum frá október 2008 (þótt endanleg útkoma bankaskuldanna fyrir íslenska ríkið sé ekki að fullu ljós). Hingað horfa því æ fleiri Evrópubúar eftir ljósi í sortanum. Lykillin að þessu ljósgjafahlutverki Íslands liggur í stöðu þess utan ESB.

No comments:

Post a Comment