Tuesday, April 26, 2022

Hvaða stríð er háð í Úkraínu? Athugasemd til Jóns Trausta Reynissonar

 (birtist í Stundinni (netútgáfu) 22. apríl 2022)

Ég hef skrifað nokkrar greinar um Úkraínu í ritið Neista. Þær vöktu meiri athygli og meiri viðbrögð en ég á að venjast, en verra var að ég tók ekki eftir viðbrögðunum. Mér var um síðir bent á heilar tvær langar greinar á Stundinni sem báðum var beint gegn þessum skrifum mínum. Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Stundarinnar hafði 11. mars skrifað greinina Kominn tími til að opna augun, og Stefán Snævarr skrifaði greinina Úkraína og Þórarinn Hjartarson 21. mars. Báðar birtust þær reyndar aðeins á vefútgáfu Stundarinnar og fóru því auðveldlega framhjá manni. Ég hlýt að þakka þessa athygli. Þó seint væri fór ég að pára svolítið svar og ætlaði að svara báðum í einu en það fór svo að svar við fyrri greininni varð nóg í bili.

Það sem okkur Jóni Trausta ber á milli um Úkraínustríðið er um hvers konar stríð þar er að ræða. Það eru fleiri en við tveir sem metum það misjafnlega. Jón Trausti metur ágreininginn um skilgreiningu stríðsins svo: Annars vegar standa „tilteknir vinstri menn“ (Þórarinn meðal þeirra). „Þannig líta þessir tilteknu vinstri menn ekki á uppgang einræðisherra sem helstu ógnina við heiminn, og það sem meira er, líta svo á að heimsmálin hverfist nánast eingöngu um valdatafl stórvelda.“ Jón Trausti sjálfur greinir þetta stríð hins vegar svona: „Lýð­ræð­is­ríki standa frammi fyr­ir banda­lagi ein­ræð­is- og al­ræð­is­ríkj­anna Rúss­lands og Kína sem snýst um að skapa oln­boga­rými fyr­ir of­beldi.“

Tvöfalt eðli Úkraínustríðsins

Þarna ber mikið á milli, ekki samt að öllu leyti. Við Jón Trausti erum sammála um að fleira hangi á spýtunni en staða og örlög Úkraínu. Að hluta til snýst stríðið um árás stórveldis á miklu minna og veikara land. Það er illt og við erum ekki ósammála um að fordæma það. Rússland er árásaraðilinn, og þar með hefur Úkraína fullan rétt á að verja sig, líka með vopnum (hversu skynsamlegt það er er önnur saga).

Mín skoðun er að skilgreining stríðsins endi ekki þar. Stríðið á sér aðra vídd, og það er einnig háð á öðru og hærra plani. Og það er á því plani eða þeirri vídd sem einmitt má kalla „valdatafl stórvelda“, eða það sem á útlensku nefnist „geópólitík“. Hið geópólitíska stríð er á milli Bandaríkjanna/NATO og Rússlands. Í Úkraínu birtast þau átök sem staðgengilsstríð þar sem Bandaríkin/NATO nota Úkraínu sem sinn staðgengil gegn Rússlandi. Í þeirri vídd stríðsins er það ekki Rússland heldur Bandaríkin/NATO sem sækja á sem árásraðili. Þessi vídd stríðsins er ráðandi. Hún hefur víðtækari áhrif og er líka miklu hættulegri fyrir heimsfriðinn en sú fyrrnefnda – þó hún fái miklu minna kastljós í fréttaflutingi – og hún verður meira ráðandi eftir því sem Bandaríkin/NATO blandast meira og beinna inn. Þetta gefur Úkraínustríðinu tvöfalt eðli.

Stríðsflokkurinn í Bandaríkjunum (sem ræður þar för) eygir þann möguleika að þetta staðgengilsstríð verði (sjálfstæðu) Rússlandi að falli. Í þeirri von reyna Bandaríkin að hindra pólitísk-diplómatíska lausn stríðsins og vona að það dragist sem mest á langinn (jafnvel til „hins síðasta Úkraínumanns“). Það síðasta sem þau óska sér er sættir við Rússland. Fyrir Bandaríkin skiptir fullveldi Úkraínu engu máli, það er Rússland sem er málið.

En málið er líka stærra en Rússland. Í hinni geópólitísku vídd takast nú á tvær stórar blokkir á heimsvísu, sem kalla má „Vesturblokk“ gegn „Austurblokk“. Um það virðumst við Jón Trausti raunar vera sammála. En þegar Jón Trausti skilgreinir þetta sem baráttu „lýðræðisríkjanna“ gegn „banda­lagi ein­ræð­is- og al­ræð­is­ríkj­anna“ hætti ég að vera sammála honum og tel þá skilgreiningu gagnslitla og ranga. Barnalega má kalla hana.

Að mati Jóns Trausta stafar nútímanum mest hætta af sókn alræðis. Alræðið skilur hann sem nánast samheiti við einræði, með fullkomna samþjöppun valds (m.a. upplýsingavalds) í hendur einvalda. Alræðið segir hann birtast fyrst og fremst í mynd Rússlands og Kína og styrkingu þeirra. Jón Trausti er stuðningsmaður þenslu NATO í austur af því að það „eina sem bjargar nágrannaríkjunum frá hreinni valdbeitingu Pútíns er NATO“. Hann styður líka meiri efnahagsþvinganir og efnahagsstríð gegn Rússlandi, ekki minni. Skipting heimsins í „viðskiptablokkir einræðis- og lýðræðisríkja“ sé líka „líklegasta niðurstaðan“ í Úkraínudeilunni enda sé nú þegar kominn upp „vísir að nýju járntjaldi“. Hann er alla vega ekki í vafa um hvar í fylkingu hann skipar sér. Ógn nútímans er alræðið í austrinu (hann ræðir t.d. útþenslu NATO í austur aldrei sem vandamál eða hættu fyrir neinn). Hann gefur hinni hernaðarlegu og efnahagslegu baráttu gegn þessari ógn sinn fulla stuðning.

Vestrænu stríðin

Það einkennir skrif Jóns Trausta Reynissonar að hann virðist skilja hernað Vestursins/NATO-velda nokkra síðustu áratugi eins og hinir vestrænu stríðsaðilar skilgreina hann sjálfir. Og hann ber þau stríð saman við stríðsrekstur Rússa sem beinist gegn lýðræði. „Innrásir Rússa, ólíkt stríðum sem Bandaríkin og bandalagsríki hafa átt aðild að, hafa gjarnan beinst gegn sjálfræði nágrannaríkja og lýðræðisumbótum.“ Jón Trausti tæpir síðan á nokkrum helstu styrjöldum Vestursins síðustu 30 árin – og hann kaupir og sporðrennir retorík Vestursins þar um: að stríðin hafi snúst um „gildi“, baráttu lýðræðis gegn einræðiskúgun.

Jón Trausti viðurkennir fúslega að misvel hafi gengið fyrir Bandaríkin & co að ná markmiðum sínum í stríðum undangenginna áratuga – það náðist ekki að koma lýðræði á í Kosovo, Afghanistan, Írak eða Líbíu – en það stóð til, stríðin voru vel meint! Og Joe Biden hefur „fram að þessu horft meira til þess að viðhalda alþjóðalögum“.

En það er grundvallaratriði að greina á milli sjálfsmyndar og veruleika, milli annars vegar framsetningar/kynningar stríðsins af vestrænum leiðtogum og fjölmiðlum og hinsvegar markmiða og raunveruleika stríðsins. Það má tala um tvo heima stríðsins: „raunheim“ og „kynningarheim“.

Bandaríkin slá öllum við í mikilli leiktjaldasmíði kringum eigin styrjaldir. Þau hafa þróað baráttuaðferðina „smart power“ sem samtvinnar hervald og upplýsingastríð, áherslu á mannréttindaboðskap og það að virkja mannréttindasamtök í þágu hernaðarins. Í kynningarheiminum eru hin lýðræðislegu Vesturlönd að berjast við vonda karla vítt um heim sem kúga fólk og eru hættulegir umhverfi sínu. Með þeirri aðferð eru lýðræði, mannúð, mannréttindi, kvenréttindi, vernd gegn hryðjuverkum og gjöreyðingarvopnum beinlínis notuð sem stríðsöskur, sem slagorð fyrir íhlutunum og styrjöldum vestrænna heimsvaldasinna. Í kynningarheimi hafa íhlutanir BNA og NATO-ríkja á 21 öldinni verið „mannúðarinnrásir“ af einhverri tegund. Þar sem ríkjandi fréttastofur líta skipulega framhjá raunverulegum markmiðum stríðsins og ekki síður stríðsglæpum og óhæfuverkum.

Í umfjöllun sinni um vestræn stríð talar Jón Trausti algjörlega innan innan hins vestræna kynningarheims. Það er orðræða (hinna frjálslyndu) Joe Bidens og Jens Stoltenberg sem ríða nú fremstir í krossferðinni nýju gegn Rússlandi og „alræðinu“.

Upplýsingastríðið er eðlilega ekki síður úrslitaatriði þegar óvinir Vestursins heyja sín stríð (sem eru reyndar miklu færri). Hryllingur stríðsins í Úkraínu er útmálaður í öllum fréttum og spilað er á skynfæri okkar og tilfinningar. Auðvitað ljúga Rússar og skreyta málstað sinn eins og aðrir stríðsaðilar gera (Jón Trausti tilgreinir nokkur dæmi um það). En þeir eru samt hrein börn í samanburði við andstæðinga sína. Rússar hafa yfirburði á vígvellinum í Úkraínu, þrátt fyrir vaxandi þáttöku NATO í stríðinu. Rússar geta sennilega líka staðið af sér efnahagsstríð Vestursins. En upplýsingastríðinu gjörtapa þeir. Áróðursmaskína Bandaríkjanna er eyðingarafl sem þeir ráða ekkert við og hafa aldrei gert. Hún vinnur svo vel að háir sem lágir á Vesturlöndum tala nú í einum kór um stríðið og segja: Við í okkar heimshluta erum öll í réttlátu stríði gegn einræðissegg sem stjórnast af sjúkum persónulegum metnaði og ógnar öllu lífi kringum sig, það er barátta lýðræðis gegn alræði!

„Lýðræði“ = friðsemd?

Það er ekkert einfalt samband á milli annars vegar stöðu ríkis á skalanum lýðræði-einræði og svo útþenslu- og árasarhneigðar þess. Bretland, Frakkland, Holland og Belgía á 19. öld höfðu tiltölulega þróað þingræði en ráku miskunnarlausa útþenslu- og yfirgangsstefnu vítt um veröld, Bretland, móðir þingræðisins, var þar allra verst. Á 20 öld var sagan lík. Þýskaland hafði að vísu ekki þróað lýðræði, en árásarhneigð þess stafaði hvað mest af því að það kom seint að „veisluborði nýlendnanna“ og Versalasamningarnir þrengdu síðan kosti þess enn frekar. Nasisminn kom meira sem afaleiðing. Í Bandaríkjunum ríkti hins vegar tiltölulega þróað lýðræði en BNA hafa fengið stimpilinn „herskáasta þjóð í mannkynssögunni“ („most warlike nation in the history of mankind“, Jimmy Carter) og frá 1991 var stefnan tekin á heimsyfirráð.

Málið er að heimsvaldastefna og útleitin drottunarstefna er efnahagslegs eðlis, ekki siðferðilegs eðlis og tengist ekki svo mjög ákveðinni tegund stjórnkerfis. Heimsvaldastefnan tengist þróunarstigi hins gráðuga og útleitna kapítalisma, hann heimtar áhrifasvæði í samræmi við efnahagsstyrk sinn.

Utanríkisstefnan í Washington er mikið til óháð þjóðkjörnu valdi, og lýðræðið þvælist lítið fyrir þeim sem móta hana. Hún er ákvörðuð af nokkrum hugveitum – Council on Foreign Relations, Brookings Institutions, RAND Corporation og Center for Strategic and International Studies – þar sem sitja fulltrúar bandarískrar toppelítu sem er óháð bandaríska þinginu en þeim mun tengdari Wall Street, Silicon Valley og síðast en ekki síst the „Military Industrial Complex“.

Af hverju tókst Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra ekki að koma á lýðræði í styrjöldum sínum eftir lok Kalda stríðsins? Meðal annars af því það stóð aldrei til. Þau yfirlýstu markmið voru bara leikhús, hluti af kynningarheimi stríðsins, ekki raunheimi.

Stríðin á Balkanskaga og í Afganistan voru „gamaldags“ stríð um áhrifasvæði (liður í stærri baráttu um heimsyfirráð). Það var samt auðveldara að sjá raunveruleg stríðsmarkmið í til dæmis Írak og Líbíu. Í Írak yfirtóku bandarískir auðhringar framleiðsluréttindi olíunnar eftir fall Saddams. „Mission accomplished!“ Í bandarískum augum eru það vond olíulönd sem vilja halda olíutekjum fyrir sig sjálf. „Lýræðið“ í Sádi Arabíu er aldrei vandamál af því landið er bandamaður Bandaríkjanna og hornsteinn olíudollarakerfisins, hins vegar í Íran! Þó er miklu meira lýðræði í Íran, en Íranar eru vondu karlarnir af því bandarískir auðhringar eru þar frystir úti. Líbía, olíuríkasta land Afríku, var vandamál af því Líbía hélt olíutekjunum fyrir eigin ríkiskassa. Það þurfti því að sprengja landið í tætlur og tryggja vestrænum auðhringum aðganginn. Eftir það náðust samningar strax við viðkomandi stríðsherra um olíuna. Sem sagt vel heppnað stríð um auðlindir. Öll önnur tilefni voru uppspuni og lýðræði og mannréttindi komu málinu ekkert við.

Jón Trausti skrifar um Bandaríkin sem (í meginatriðum) verndara þess að „að alþjóðalög og sjálfsákvörðunarréttur eigi að gilda.“ En í herbúðum óvinanna sé annað uppi: „Lýð­ræð­is­ríki standa frammi fyr­ir banda­lagi ein­ræð­is- og al­ræð­is­ríkj­anna Rúss­lands og Kína sem snýst um að skapa oln­boga­rými fyr­ir of­beldi.“ Það er furðulegt að maður sem fylgst hefur eitthvað með alþjóðamálum síðustu þrjá áratugi láti slíkt frá sér, horfandi á stríðin í Júgóslavíu, Írak, Afganistan, Líbíu, Sýrlandi m.m.

Ég skrifaði í Neista tveimur dögum eftir innrás Rússa: „Það sögulegasta við þessi heimssögulegu tímamót er líklega það að einkaréttur Bandaríkjanna (studdum af NATO) til vopnaðra íhlutana er nú úr gildi.“ Ég bætti við: „Það er auðvitað ófært að styðja árás Rússa á Úkraínu. Ekki á þjóðréttargrunni – árás herveldis á minni granna brýtur þjóðarrétt – né neinum öðrum.“ (Neistar 26.2.) Það voru hins vegar ekki „vestræn gildi“ sem Rússar voru að brjóta, vildi ég meina: „Líklega er það rétt að Rússar hafi loksins lært hin „vestrænu gildi“ Bandaríkjanna sem hafa frá stríðslokum framkvæmt 55 vopnaðar innrásir í önnur lönd og náð að steypa stjórnvöldum í 36 af þeim skiptum.“ (Neistar 5.3.)

„Lýðræðisleg“ hægriþjóðernishyggja í Úkraínu?

Lýðræðið stendur gegn „bandalagi alræðis og einræðis“ skrifar Jón Trausti. Stríð Rússa, margtekur hann fram, er „stríð gegn lýðræðisþjóð", og eðli þess er „árás gegn lýðræðisumbótum og lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn“. Þetta fellur að mynd ríkjandi fjölmiðla um baráttu Úkraínu sem baráttu frelsis og lýðræðis gegn villimennskunni.

En Úkraína nú um stundir hentar illa sem fyrirmynd í lýðræði. Í fyrsta lagi voru Maidan-valdaskiptin í Kænugarði 2014 valdarán, litabylting af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn með Victoriu Nuland í margendurteknum heimsóknum meðan mestu mótmælin stóðu, og þess á milli gefandi Geoffrey Pyatt sendiherra skipanir í síma um rétta samstarfsaðila (nasistinn Tyahnybok var þar einn af „the big three“).

Í Úkraínu má segja stjórnarandstaðan sé nú bönnuð. Eftir innrásina bannaði Zelenski 11 stjórnarandstöðuflokka, alla vinstriflokka landsins og NATO-andstöðuflokka, þ.á.m. næststærsta flokk landsins Patriots for Life (sem þó fordæmdi rússnesku innrásina), auk þriggja sjónvarpsstöðva. Opinberir nasistaflokkar, t.d. Azov-þjóðardeildin, eru hins vegar leyfðir.

Vestrænt sinnuð stjórnmálaöfl í Kiev hafa aftur og aftur heiðrað minningu hinnar fasísku hreyfingar OUN/UPA sem, leidd af foringjanum Stepan Bandera, studdi innrás Þjóðverja í Sovétríkin 1941 og gerðist sek um stórbrotnar slátranir á gyðingum, Pólverjum og Rússum. Þarna liggur sögulegi grunnurinn undir sterkri hægriþjóðernishyggju í Úkraínu í dag. Árið 2015 ákvað úkraínska þingið að banna Kommúnistaflokk Úkraínu (hafði 13% fylgi 2012) og öll kommúnísk minnismerki, en bannaði um leið gagnrýni á minningu OUN og Bandera. Svo seint sem 2018 var fæðingardagur Bandera gerður að þjóðlegum minningardegi í Úkraínu. Þetta sýnir lýðræðisást stjórnvalda.

Pútín notar nasismann í Úkraínu sem eina af sínum átyllum fyrir innrásinni og þess vegna stimpla ríkjandi fjölmiðlar Vestursins allt tal um þann nasisma sem „Pútín-áróður“. Sérstaða fasismans í Úkraínu er ekki fjöldafylgi hans heldur sú velvild, stuðningur og refsileysi frá stjórnvöldum sem hann hefur notið frá 2014, svo umsvif hans og áhrif eru miklu meiri en fjöldafylgið segir, enda nota stjórnvöld fasísku hópana ósparlega til að vinna þau mörgu ofbeldisskítverk sem vinna þarf.

Það sem Úkraína hefur til síns ágætis fyrir BNA og NATO er ekki lýðræðisást heldur hinir sterku andrússnesku straumar í landinu. Úkraínsk þjóðernishyggja hefur lengi beinst gegn stórveldi svæðisins, Rússlandi. Það er ekki sjálfgefið að slík þjóðernishyggja horfi til framfara. Í sögu heimsvaldastefnunnar er það frekar regla en undantekning að heimsvaldasinnar spili á þjóðernislegar andstæður til að deila og drottna, og styðji hreyfingar sem þjóna þeirra heimsvaldahagsmunum, sbr. stuðningur Breta, Frakka og Rússa við Serba 1914, stuðningur Hitlers við króatísku Ustasja-hreyfinguna 1941 og ekki síður samvinna hans við OUN-hreyfingu Stephans Bandera í Úkraínu. Á 10. áratugnum birtist sama fyrirbæri sem stuðningur Bandaríkjanna og Þýskalands við albanska og króatíska þjóðernishyggju til þess að hluta í sundur Júgóslavíu.

Allt frá lokum seinna stríðs hefur bandaríska leyniþjónustan ræktað sambönd við hægriþjóðernishyggju í Úkraínu til að nota hana gegn Sovét og síðan gegn Rússlandi. Nýr áfangi hófst með valdaráninu í Kiev 2014. „Gagnsemi“ hennar lá í Rússahatrinu. Eitt fyrsta verk nýrra stjórnvalda í Kiev var að afnema stöðu rússnesku sem annað opinbert tungumál í Úkraínu (um þriðjungur þegnanna hafði rússnesku sem fyrsta mál) og þremur mánuðum síðar var Kiev-stjórn komin í stríð við rússneskumælandi austurhéruð eigin lands.

Hægriöfgaflokkar þykja almennt ekki fínn pappír á Vesturlöndum, ekki í sölum frjálslyndisins í Ameríku eða hjá Brusselvaldinu. En ástæða þess að hægriþjóðernishyggjan er svo dýrmæt í Úkraínu er að hún er ástríðufullt andrússnesk og situr svona þétt upp við hjarta Rússaveldis. Í krafti þess gegndi fasisminn lykilhlutverki í Kiev 2014 og líka meginhlutverki í borgarastríðinu í kjölfarið.

Samjöfnuðurinn Pútín – Hitler gengur ekki upp

Jón Trausti gerir samlíkingu á Hitler 1939 og Pútín 2022 eins og orðin er rútína, og telur þá tvo sambærilega á margan hátt. Hann nefnir Hitler átta sinnum í greininni, alltaf í samhengi og samanburði við Pútín. En samjöfnuðurinn er fráleitur. Þegar Hitler hóf heimsstyrjöldina 1939 var Þýskaland langöflugasta iðnaðarríki Evrópu og með langöflugasta herinn. Enda lagði þýski kanslarinn meginland Evrópu undurhratt að fótum sér, allt þar til kom að Rússlandi. Allt þetta er vel kunnugt. Staða Pútíns er mjög ólík. Ég les hjá Forbes að þjóðarframleiðsla Rússlands sé svipuð og í Texas-fylki í Bandaríkjunum. Öflugasti geiri rússneska iðnaðarins er vopnaframleiðslan. Samt eru fjárlög rússneska hersins undir 8% af fjárlögum þess bandaríska og eitthvað á borð við þann breska. Þar að auki er rússneski herinn ekki byggður upp sem neinn útrásarher heldur sem landvarnarher og alveg eðlisólíkur þeim bandaríska sem hefur 800 herstöðvar um allan hnöttinn.

Rússland er hernaðarlegt stórveldi en getur ekki kallast efnahagslegt stórveldi. Það hefur lítið gert sig gildandi í baráttunni um heimsmarkaðinn, erlendar fjárfestingar Rússa eru minni háttar, langstærstur hluti af útflutningi Rússlands er hrávara (einkum jarðgas og olía). Rússland er sem sagt tiltölulega veikur imperíalisti þó landið eigi öflugan her. Pútín þekkir efnahagslega stöðu landsins mætavel og veit að það væri langt ofar getu landsins að ætla í sóknarstríð gegn NATO.

Bandarískir strategistar þekkja þessa stöðu mætavel líka. Mikilvægasta hernaðarhugveita Bandaríkjanna, RAND-Corporation (sem leggur reglulega fram strategíu fyrir Bandaríkjaher) lagði 2019 fram áætlunina „Að teygja Rússland“ (Extending Russia) sem gengur út á að „láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega“ og með því einangra rússnesk stjórnvöld pólitískt (sbr. í Afganistan á 9. áratug). Efst á lista beinna aðgerða í áætlun RAND-Corporation 2019 var „vopnaaðstoðin við Úkraínu“, og eftir þessari strategíu kemur Úkraínustríðið 2022 eins og eftir pöntun.

Alveg rétt, ógnin stafar frá Kína

Í stríðinu í Úkraínu er það hin geópólitíska vídd stríðsins sem er ráðandi og ákvarðandi. Og séð frá Washington er ekki Rússland einu sinni aðalvandamálið: Gamla Veldið heyr heiftarlega baráttu til að viðhalda einpóla heimi. Þróun kapítalismans sjálfs stefnir í aðra átt, í átt að fjölpóla heimi. Ameríska heimsveldið hefur fyrir allnokkru séð sitt fegursta. Ég og margir vinstri andheimsvaldasinnar höfum talað um þetta alla þessa öld. Jón Trausti ýjar sjálfur að vandanum: „Margar spár gera ráð fyrir því að landsframleiðsla Kína fari fram úr Bandaríkjunum innan tíu ára.“ Og grein hans fjallar í raun meira um kínversku „ógnina“ en þá rússnesku (en að hans mati snúast átökin eftir sem áður um gildi og „heimsmynd“).

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon lagði núna í lok mars fram Þjóðar-varnarmálaáætlun (National Defence Strategy) fyrir árið 2022. Miðað við gagnkvæmar ógnanir Bandaríkjanna og Rússa að undanförnu hefði mátt búast við að Pentagon skilgreindi Rússland sem aðalógnina. En nei nei, það er Kína. Í inngangi segir: „Ráðuneytið [Pentagon] verður að bregðst við án tafar og styrkja fyrirbygginguna (deterrence), með Alþýðulýðveldið Kína sem mikilvægasta strategíska keppinaut okkar og aðsteðjandi áskorun fyrir ráðuneytið.“ Í áhersluröð verkefna fjallar fyrsti punktur um að „verjast hinni vaxandi fjölþátta ógnun frá Kína“. Annar punktur fjallar um að vera „tilbúinn undir átök ef þörfin krefur, með áskorunina frá Kína á Indlandshafs- og Kyrrahafssvæðinu í forgangi, og síðan áskorunina frá Rússlandi í Evrópu.“

Áherslurnar eru ekki nýjar. Strax á fyrstu mánuðum eftir fall Sovétríkjanna lagði Pentagon fram Defence Planning Guidance 1994-1999 (Wolfowitz-kenningin) um að hindra að upp geti komið veldi sem keppt gæti við Bandaríkin í Evrópu, Asíu eða landsvæði hinna föllnu Sovétríkja. Sjá hér. Jafnframt tóku Bandaríkin að tryggja sér ný áhrifasvæði, svæðisbundin yfirráð og á heimsvísu, sem kostaði slatta af styrjöldum. Það gat samt ekki hindrað tilkomu keppinauta, þ.á.m. nýja efnahagsrisans Kína. Kína er óðum að ryðja Bandaríkjunum úr forustusæti í samkeppninni um heimsmarkaðinn og hótar að rjúfa heimsvaldakerfi bandarískra yfirráða – hinni einpóla heimsskipan.

Kína er nú gengið í strategískt bandalag með Rússlandi. Sergei Lavrov utanríkisráðherra heimsótti kínverska kollega sinn Wang Yi 30. mars og sagði þar að að heimurinn upplifði nú „alvarlegan áfanga“ í þróun alþjóðasamskipta: „Við, ásamt með ykkur og með stuðningsmönnum okkar, munum ótrauð stefna að fjölpóla, réttlátri, lýðræðislegri heimsskipan.“

Ef friðsamleg efnahagsþróun fengi að halda áfram væri ekkert sem gæti hindrað að Kína sigldi fram úr Bandaríkjunum á einu sviðinu af öðru. Meðal annars rambar olíudollarakerfið á barmi falls. Það er þannig í kapítalismanum að efnahagseining sem verður undir í samkeppni á markaðnum veltur gjarnan um koll. Einpóla heimsforræði og öll yfirbygging ameríska heimsveldisins er nú í yfirvofandi hættu að fara sömu leið og hallir Rómaveldis forðum.

Frá sjónarhólnum í Washington þarf þess vegna einmitt að hindra það að „friðsamleg efnahagsþróun“ fái að halda áfram. Gamla Veldið á enn nokkur mikilvægt tromp á hendi. Það mikilvægasta er hernaðarlegir yfirburðir (yfirráð í hnattrænu pólitísku valdakerfi og yfirráð í alþjóðlegum fjármálakerfum eru önnur tromp). Gamla Veldið metur stöðuna svo að leiðin til að viðhalda bandarískum einpóla yfirráðum sé fyrst og fremst á hernaðarsviðinu. Óhjákvæmilegt sé að knésetja Rússland fyrst áður en hægt sé að beina öllum spjótum að Kína.

Peðum þarf að fórna

Stjórn Úkraínudeilunnar er í Moskvu og Washington. Stefnan í Washington er ekki á sættir við Moskvu. Það sýnir (hunsandi) afstaðan til „öryggiskrafna“ Pútíns fyrir innrásina og til málamiðlana eftir að innrás hófst. Þess vegna er aðstoðin til Úkraínu einkum í formi vopnaaðstoðar. Þessi afstaða (ásamt afstöðu Pútíns) leiddi borgarastríðið í Úkraínu yfir í fullt stríð á milli Rússlands og Úkraínu og síðan yfir í efnahagslegt og hernaðarlegt stríð milli Rússlands og Bandaríkjanna. Sem staðfestir það auðséða að Úkraína er aðeins peð í geópólitísku tafli. Markmiðið er alls ekki að Úkraína sjálf komist sem best frá leiknum. Það sem er í veði í taflinu er miklu hærra, og peð eru til að fórna.

No comments:

Post a Comment