(Birtist á Neistum 19. september)
Umsvif Bandaríkjanna og NATO á Íslandi aukast jafnt og þétt. Ekki síður árið 2022. Að nokkru leyti tengist það innrás Rússa í Úkraínu, en fyrst og fremst er það þó hluti af breiðara ferli vestrænnar vígvæðingar sem hófst miklu fyrr.
Áfram með Finnafjörð
Einn þáttur hennar er ósk NATO um aðstöðu í Finnafirði austur. Í fyrra, 2021, lagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra fram frumvarp um breytingu á varnarmálalögum og áttfalda stækkun öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall á Langanesi, niður í Finnafjörð til að tryggja «öryggishagsmuni Íslands á Norðurslóðum» https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/ Núna sumarið 2022 bárust fréttir af óskum NATO um langan viðlegukant þar í Finnafirði. Skömmu síðar komu fréttir af ósk frá Utanríkisráðuneytimu um það sama. Framtak og erindisrekstur Kolbrúnar Reykfjörð í sumar er m.ö.o. beint og hnökralaust framhald af því sem Guðlaugur Þór baukaði í fyrra – að tilhlutan NATO. Þessi mál fara að mestu leyti fram á bak við tjöldin, svo erfitt er að leita heimilda og átta sig á hverslu lagt málið er komið.
B-2 þoturnar, sbr. ályktun Húmanista.
Annar þáttur í auknum umsvifum er notkun bandarískra sprenguþotna á Keflavíkurstöðinni. Ekki síst gildir það um B-2 Spirit, dýrustu sprengjuþotur heims., sem hafa komið hér við og við á undanförnum árum. Skv. Wikipedíu voru þessar þotur «aðallega hannaðar fyrir kjarnorkusprengjur». Þær geta borið allt upp í 16 kjarnorkusprengjur hver. Ekki eru þær hugsaðar til landvarna heldur eru þær svo hreinræktuð árásaratæki sem hugsast getur, hannaðar til að fljúga óséðar inn yfir lönd óvinarins og skjóta á hann sprengjum. Þegar árið 2019 kom það fram hjá Bandaríska flughernum að Keflavíkurstöðin væri skilgreind sem «framvarðarstöð» fyrir þessar flugvélar.
Í fyrra var utanríkisráðherra spurður, bæði af Andrési Inga Jónssyni þingmanni og af SHA hvað fælist í hugtakinu «framvarðarstöð». Kolbrún Reykfjörð sendi spurninguna einfaldlega til bandarískra hermálayfirvalda, lét þau skilgreina málið, og kom tilbaka með þau svör að B-2 þoturnar væru hluti af «varanlegum tilflutningi bandarísks liðsafla» (“rotational presence”). Keflavík er sem sagt liður í «rotational presence» flugflotans (sem væri eðlilegra að þýða sem «hreyfanleg viðvera”).
Keflavíkurstöðin er að verða aftur, eða er þegar orðin, bandarísk herstöð, flestar bandarískar herstöðvar á 21. öld hafa einmitt ekki fastan herafla heldur “hreyfanlegan”. Í svörum sínum báru íslensk stjórnvöld ekki á neinn hátt til baka skilgreiningu bandarískra hermálayfirvalda á Keflavíkurstöðinni sem «framvarðarstöð” fyrir þoturnar B-2 Spirit. Sem felur í sér viðurkenningu á skilgreiningunni, án þess að málið sé nokkurn tíma formlega tekið fyrir í íslensku stjórnkerfi.
Nú skal vakin athygli á ársgamalli ályktun/fréttatilkynningu frá Húmanistaflokki Íslands, gefinni út í tilefni af staðsetningu B-2 sprengiþotnanna á Keflavíkurflugvelli í fyrrasumar. Ályktunin greinir vel málið og setur í samhengi. Þar segir:
“”
„Húmanistaflokkurinn á Íslandi fordæmir harðlega samþykki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þeirri ákvörðun Bandaríkjanna að gera Keflavíkurflugvöll að skilgreindri framvarðarstöð fyrir B-2 þotur til sprengjuárása eins og fram hefur komið m.a. í fréttum Stövar 2 og visir.is að undanförnu. B-2 sprengjuþoturnar eru einhver skæðustu árásarvopn mannkyns, þær eru hannaðar til kjarnorkuárása og geta borið allt að 16 slíkar sprengjur. B-2 þotunum fylgja um tvöhundruð liðsmenn bandaríska hersins. Þess má geta að þotur þessararar tegundar voru meðal annars notaðar þegar Bandaríkin - með stuðningi „hinna viljugu þjóða“ þar á meðal Íslands - sprengdu upp Bagdad í Íraksstríðinu 2003 til 2011. Með samþykki ríkisstjórnarinnar á að gera Keflavíkurflugvöll að framvarðarstöð B 2 sprengjuþotanna er Ísland orðinn beinn og virkur aðili að þeim stríðum smáum og stórum sem Bandaríkin kunna að heyja. Með þessum hætti verður Ísland jafnframt að skilgreindu hernaðarlegu skotmarki andstæðinga Bandaríkjanna í stríði.“
Aðvörunin í lok álykktunarinnar hljómar spámannlega nú ári síðar þegar staðgengilsstríð USA/NATO við Rússa geisar í Úkraínu. Ísland er í reynd orðinn aðili að því stríði, og gerir sig um leið að skotmarki, m.a. með því að hafa hér framvarðarstöð fyrir árásarvopn á borð við B-2.
Norður-Víkingur 2022
Hvað um aðra vígvæðingu á Íslandi þetta árið? “Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022” fór fram í Hvalfirði í apríl í vor. Landganga, og um 700 manns æfði sig á Íslandi en einnig fóru fram æfingar herskipa sunnan við Ísland. «Norður-Víkingur» er fyrst og fremst tvíhliða æfingar Íslands og Bandaríkjanna, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Þær hafa í heild farið vaxandi. Til marks um það var að Annar floti Bandaríkjanna var endurræstur 2018, hafði þá ekki verið virkur frá 2011). Æfingin 2022 skar sig þó ekki úr að umfangi.
Allt er þetta fyrst og fremst beint og hnökralaust framhald á stefnu þeirri sem áður hafði verið tekin. Ekkert rof varð eða kúvending árið 2022, vegna Úkraínustríðs eða af öðrum sökum. Það er samfella í stefnunni, og stefnan varð ekki til með Úkraínustríðinu. Samfellan gengur út á vígvæðingu. Hina nýju vígvæðingu. Sú vígvæðing hófst í raun með lokum kalda stríðsins um 1990, tók stefnu með «alþjóðavæðingu NATO 1999» og fór á flug með yfirlýstu «stríði gegn hryðjuverkum» 2001. Eftir ca. 2007 hefur vígvæðingin snúist æ beinna um «einpóla heimsskipan», að viðhalda henni og berjast gegn rísandi keppinautum, Kína og Rússlandi.
Helsta viðbót: vopnaflutningur til Úkraínu
Vígvæðingar-marsinn herti þó á sér 2022. Það sem helst hefur bæst við á Íslandi með Úkraínustríðinu er þátttaka Íslands í vopnaflutningum. Strax eftir innrás Rússa í 24. febrúar hófu íslensk stjórnvöld að standa fyrir vopnaflutningum tíl Úkraínu. Um miðjan maí höfðu þau lagt fram 125 milljónir til þess arna. Illa hefur þó gengið að fá fram framlög Íslands skjalfest. Annað atriði er stóraukin «loftrýmisgæsla». Æfingar þær sem voru ca 5 sinnum á ári koma nú á fárra vikna fresti. Nú tala ég mest frá eigin tilfinningu fyrir þotuæfingum og herflutningavélum á Akureyrarflugvelli. Ég tel að tíðni æfinganna hafi a.m.k. tvöfaldast frá undangengnum árum.
Ísland er NATO-hjálenda. Í utanríkismálum ganga hlutirnir sjálfkrafa fyrir sig. Við höfum enga sjálfstæða utanríkisstefnu. Gerum það sem NATO segir. Ísland hefur stutt allar aðgerðir NATO síðustu þrjá áratugi. Og allar stórar aðgerðir Bandaríkjahers. Punktur. Sjálfvirknin er óháð stjórnarsamsestningu. Við flækjum okkur rækilegar í net vígvæðingarinnar með hverju árinu. En ekkert af þessu er í raun nýtt. Úkraínustríðið er aðeins eitt skref enn niður á við.
No comments:
Post a Comment