Thursday, October 27, 2022

Fasisminn 100 ára – Hvar er hann nú?

 

                   (Birtist á Neistum 27. október 2022)

Fasistar ganga til Rómar
Frá göngunni til Rómar árið 1922. Mussolini til vinstri.

Í þessum mánuði eru 100 ár liðin frá því ítalskir fasistar fóru „Gönguna til Rómar“ sem endaði á því að konungur Ítalíu skipaði Mússólíni forsætisráðherra 29. október 1922. Árin 1919-1921 á Ítalíu voru eftir á nefnd Bennio Rosso „Tvö árin rauðu“. Þau einkenndust af efnahagslegri og pólitískri kreppu, upplausn og mjög róttækri verkalýðshreyfingu sem skoraði kapítalismann á hólm. Víðtæk verkföll skóku Norður-Ítalíu, sums staðar fóru fram verksmiðjutökur og stofnun verkamannaráða (sem gerðu þó ekki tilraun til valdatöku). En á hinum væng stjórnmálanna óx hreyfing fasista sem pólitísk viðbrögð auðstéttarinnar við Bennio Rosso. Sú hreyfing treysti einkum á beitingu ofbeldis gegn verkfallsbaráttu verkalýðs og hafði afar ríkulegan búnað og frelsi til þess, enda var þá stórkapítalið farið að dæla í fasista fjármunum. Síðasta allsherjarverkfall verkalýðsins um langt skeið var haustið 1922. Þá fóru léttvopnaðar ofbeldissveitir fasista milli bæja á Norður-Ítalíu og gátu kylfubarið verkföllin niður, með þátttöku eða samþykki lögreglu. Í beinu framhaldi af því skipulögðu fasistar „Gönguna til Rómar“ þar sem fasistum voru afhent völdin í landinu. Þetta var fyrsti stóri sigur fasismans á heimsvísu. Það má halda því fram að hann eigi nú 100 afmæli. Sjá hér: https://en.wikipedia.org/wiki/March_on_Rome

Þeir sem nutu góðs af valdatökunni voru ríkjandi öfl í ítölsku efnahagslífi, einkum bankavaldið á Norður-Ítalíu og landeigendastéttin á Suður-Ítalíu. Verkföll voru bönnuð. Eftir 4 ára samstjórn fasista og annarra borgaraflokka var þingræðið afnumið á Ítalíu, sem og stjórnmálaflokkar, árið 1926. Fasistar höfðu full völd. Í atvinnulífinu skyldu atvinnurekendur og „þjóðnýtt“ verkalýðsfélög (önnur verkalýðsfélög bönnuð) skipulögð ofan frá í „korpóratíf sambönd“ og vera undirsett hið fasíska ríkisvald. Í stað stéttabaráttu kom lögskipuð stéttasamvinna.

Baráttan við fasismann/alræðið er mikilvæg, bæði í ljósi sögunnar og í ljósi líðandi stundar. Alþýðan hefur oft farið flatt á að vanmeta fyrirbærið. Og nú um stundir sjáum við víða glitta í komandi alræði, valdboðsstjórnarfar sem ritskoðar og leitast við að koma á einstefnu í orðræðunni, auk þess sem harðir hægriflokkar styrkja stöðu sína víða, sumir með rætur í fasisma, eins og forustuflokkur splunkunýrrar ríkisstjórnar á Ítalíu.

Þá vaknar spurningin: Hvaðan kemur alræðið og fasismahættan nú um stundir? Ég nota hugtökin „fasismi“ og „alræði“ (sem þá er þýðing orðsins tótalítarismi) hvort um annað þó að þau merki ekki alveg það sama. Ég vil síðan nefna þrjár mikilvægar greinar eða rætur þess alræðis.

Af hitlersgerðinni

Fyrst nefni ég gamaldags fasisma af hitlersgerðinni. Dæmi Gullin dögun í Grikklandi, Jobbik í Ungverjalandi, og ekki síður Azov hreyfingin í Úkraínu eða fasistaflokkurinn Svobda og fleiri hreyfingar í Austur Evrópu – sem tengja sig opinskátt við fasismann á 4. áratug síðustu aldar og fram til 1945. Meðal einkenna slíkra flokka eru andlýðræði, harkaleg andúð á verkalýðshreyfingu og sósíalisma, andfrjálslyndi, rasismi og ofbeldishneigð – ásamt heimsvaldastefnu og hernaðarhyggju. Slíkar hreyfingar eru að jafnaði smáar og áhrifalitlar nema þegar fjármála- og stórkapítalið og heimsvaldasinnar hafa þörf fyrir þær til skítverka og þörf á að undiroka verkalýð og alþýðu á opinskáan hátt, eða til hernaðar.

Eftir 1945 héldu fasistar áfram að vera mikilvæg verkfæri auðvalds og heimsvaldasinna. Breski herinn og leyniþjónustan MI6, ásamt grískri borgarastétt, beitti blygðunarlaust grísku fasistunum – samverkamönnum nasista frá hernámsárunum – í gríska borgarstríðinu strax í styrjaldarlok til að berja niður hina rauðu og róttæku andspyrnuhreyfingu. Uppvakning nýfasisma í Grikklandi í gervi Gullinnar dögunar í seinni tíð, og áður valdarán grísku herforingjanna 1967, eru beintengd þessari fortíð þegar hreinsun ríkisstofnana af fasistum í stríðslok var alveg vanrækt í þágu nýrra „öryggishagsmuna” (The Guardian, 2014) . Á áttunda áratugnum voru fasistar verkfæri afturhalds gegn róttækri verkalýðshreyfingu og alþýðu, meðal annars á Ítalíu (Operation Gladio) og í Síle (í valdaráninu 1973), í báðum tilfellum í leynilegum en nánum tengslum við CIA (á Ítalíu einnig í nánum tengslum við NATO).

Stetsko hittir Bush eldri
George Bush varaforseti heiðrar Jaroslav Stetsko foringja úkraínsku OUN árið 1983.

Fasismi af gömlu gerðinni í Evrópu samtímans er mest áberandi í Úkraínu. Stór hluti úkraínskra þjóðernisafla hafa lengi skipað sér á ysta hægri væng, m.a. í fasíska og nasíska hópa. Hinn ofurþjóðernissinnaði flokkur OUN (Organisation of Ukrainian Nationalists) gegndi þar stærra hlutverki en aðrir á styrjaldarárunum síðari, undir forustu Bandera og síðar Stetsko. Flokkurinn tók fullan þátt í Barbarossa og fjöldamorðum Þjóðverja í Sovétríkjunum frá 1941. Við stríðslok sneri bandarísk leyniþjónusta skjótt við blaðinu og hóf samstarf við fasísk uppreisnarsamtök í Úkraínu. Strax eftir stofnun CIA 1947 hófst náið samstarf við OUN í leynilegri fjölhliða baráttu gegn Sovétríkjunum. Samvinna CIA og breska MI6 við úkraínska fasista hefur veið órofa síðan. Not heimsvaldasinna af hægriöfgahópum Úkraínu færðust á nýtt stig 2014 þegar þeir gegndu lykilhlutverki í CIA-skipulögðu Maidanvaldaráninu og síðan í hernaðinum gegn aðskilnaðarhéruðunum í Donbass frá 2015. Fæðingardagur Bandera hefur nú verið gerður að þjóðlegum minningardegi, fjölmargar styttur af honum reistar og frímerki prentuð . Gerald Sussman fer yfir sögu þessara tengsla hér. Vestrænir heimsvaldasinnar hafa m.ö.o. séð það, bæði fyrr og síðar, að úkraínsk hægriþjóðernishyggja myndi nýtast vel í baráttunni gegn Rússlandi/Sovétríkjunum.

Fasískir hópar sem tól í vopnabúri heimsvaldasinna á sér hliðstæðu í öfgahópum og hryðjuverkasamtökum starfandi á trúarlegum grunni frekar en þjóðernislegum, sbr. hlutverk ýmissa íslamskra hópa undanfarna 2-3 áratugi, en sú hliðstæða verður ekki útlistuð hér.

Hægripopúlismi

Hægripopúlismi á eitt og annað sammerkt með fasisma en annað er ólíkt. Það sem einkennir hægripopúlíska flokka er m.a. and-hnattvæðingarhyggja, andfrjálslyndi, og andsósíalismi og þeir beita gjarnan þjóðrembu og rasisma í stjórnmálum, í mismiklum mæli. Sameiginlegt með fasísku hefðinni er menningarleg íhaldssemi. Ólíkt fasisma er hins vegar ofbeldishneigð þar ekki áberandi. Og andlýðræði er ekki einkenni þessara flokka, þeir halda einmitt helst fram málum sem höfða til almennings, hafa enda oft verulegt fjöldafylgi. Í samræmi við það eru þeir gjarnan andelítískir (sem gamli fasisminn var ekki) og vilja að almenningur taki pólitískar ákvarðanir frekar en elítan eða skrifræðið (t.d. í ESB-samhengi), og þeir halda á loft þjóðlegu fullveldi. Í seinni tíð hafa popúlistar einnig tekið upp þá stefnu að vilja efla velferðarríkið.

En það sem klárlega mest hefur gert hægripopúlista að andstöðuafli er andstaða þeirra við hnattvæðingarstefnuna sem ríkt hefur frá ca 1990. Hnattvæðingin inniber sívaxandi umsvif og vald auðhringa og fjármálarisa í heimi sem þeir vilja gera að einu opnu fjárfestingasvæði, og tilsvarandi skerðing á fullveldi ríkja, einnig útvistun á framleiðslunni og störfum verkalýðs til lágkostnaðarlanda - sem og flæði vinnuafls milli landa. Meðal helstu samfélagslegu áhrifa sem hnattvæðingin leiðir af sér innan einstakra landa er ekki aðeins af-reglun og einkavæðing heldur einnig veiking skipulegrar verkalýðshreyfingar.

„Þjóðfélagslegt hlutverk“ gamalfasista og hægripopúlista er þess vegna nokkuð ólíkt. Á meðan gamli fasisminn var fyrst og fremst viðbrögð við stéttabaráttu, skipulegri verkalýðshreyfingu og sósíalisma er hægripopúlisminn í samtímanum einkum viðbrögð við hnattvæðingunni. Þetta kemur fram í þjóðernishyggju trumpismans, „America first, not globalism), og kemur fram í andstöðu gegn markaðsfrjálshyggju og frjálsu flæði og stofnanaveldi ESB. Hægripopúlistar geta beint spjótum að umsvifum fjölþjóðlegra auðhringa í efnahagslífinu – en þeir eru samt líklegri til að ráðast að innflytjendum, eins og þeir álykti að innflytjendurnir beri ábyrgð á samfélagslegri eymd glóbalismans.

Það er óhætt að fullyrða að stórfelldur klofningur sé innan auðstéttarinnar og auðvaldsafla á milli hnattvæðingarsinna og hnattvæðingarandstæðinga. Í okkar heimshluta eru hnattvæðingaröflin ríkjandi hluti auðstéttarinnar. Ófrjálslynda, popúlíska hægrið er að svo stöddu alls ekki þóknanlegt þessum ríkjandi hluta auðvaldsins. Hnattvæðingaröfl eiga flesta voldugustu fjölmiðla og fréttastofur hins vestræna heims. Þeim er tamt – enda samræmist það þeirra málstað – að setja „öfgahægri“ stimpil á alla þá sem ekki vilja fylgja hnattvæðingarreglunum. Það samræmist einnig þeirra málstað að setja samasemmerki á milli hvers konar þjóðernishyggju og fasisma. Og þá kemur röðin að þriðju rót/grein alræðisins.

„Frjálslynt“ alræði?

Þriðja grein alræðisins vex beint úr herbúðum vestrænu billjóneraklíkunnar og „djúpríkisins“ (The deep state). Það er „klíkan“ sem á bæði hermálaiðnaðinn og fjölmiðlana, plús tæknirisana, lyfjaiðnaðinn... Það er „klíkan“ sem Alþjóðaefnahagsráðið, WEF, er öðrum fremur sýnilegur fulltrúi fyrir, góbalistarnir sem hittast í Davos. Þessi „klíka“ klæðir sig í föt menningarlegs frjálslyndis, fjölmenningar, umhverfisverndar m.m. og segist vera að berjast við heimsfaraldur og „alræðið í austri“ (og hatursáróður og rasisma m.m.). En samtímis rekur hún iðnað „gegn falsfréttum“ og gerir út heri af „staðreyndalögreglu“ sem vinna ákaft að því að kom á einstefnu í orðræðunni, koma á skipulegu og víðtæku kerfi ritskoðunar. „Staðreyndalögreglan“ fór á flug í kóvídi (sjá neðar) og magnast enn margfaldlega í Úkraínustríðinu og sker úr um „rétt“ og „rangt“ í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Facebook og Twitter loka á efni og einstaklinga sem ganga gegn ráðandi línu í Úkraínudeilu og höfðu áður gert það gagnvart kóvídpólitík. Leitarvél Google stjórnar upplýsingamiðluninni meira en nokkur annar aðili og stýrir því hvað milljarðir notenda sjá og sjá ekki. Við það starfa hjá fyrirtækinu herskarar CIA-manna. Sjá hér. . Aðeins eitt dæmi, en lýsandi á sinn hátt, um vald þessara miðla birtist í ársbyrjun 2021 þegar sitjandi en fráfarandi forseti Bandaríkjanna var skyndilega útilokaður frá öllum helstu samskiptamiðlum (og um leið stærstu fjölmiðlum) netheima, Facebook, Instagram, Twitter, Google, YouTube og reyndar miklu fleiri. Þá er þeim augljóslega hægur leikur að útiloka aðra lægra setta.

Ritskoðunin takmarkast ekki við ritmiðlana. Greiðsluveitan PayPal, hinn voldugi fjártæknirisi í nethagkerfinu hefur að undanförnu lokað á og sektað fólk og vefmiðla sem hann segir láta „villandi upplýsingar“ á netið (varð að vísu að bakka með síðasta sektaráhlaup eftir uppreisn meðal notenda).

Stríðinu „gegn falsfréttum“ og gegn „upplýsingaóreiðu“, ritskoðun í nafni frelsisins, er auðvitað ætlað að koma á einstefnu og valdboðsstefnu í orðræðunni í netheimum og síðan væntanlega á öllum öðrum vettvangi. Tjáðu þig „rétt“ eða þú ert þaggaður niður! Í raun er það hryðjuverk gegn tjáningarfrelsinu. Það vekur nokkrar eðlilegar spurningar: Hverjir eiga þau fyrirtæki sem standa að mestu ritskoðun og þöggun nútímans? Hverjir eiga PayPal eða Visa? Hverjir eiga helstu tæknirisana, Facebook, Twitter eða Alphabet/Google. Ef að er gáð sést að í öllum tilfellum eru 3-4 fjármálasjóðir – BlackRock, State Street, Vanguard og Fidelity – meðal 5 stærstu eigenda þeirra. Eignarhald á stærstu fjölmiðlum og fréttastofum segir sömu sögu, skv. bandarískri rannsókn kemur um 90% af fjölmiðlun Bandaríkjanna frá 5 stöðvum, sem eru þær voldugustu á Vesturlöndum. Og stærstu eigendur þeirra eru sömu fjármálasjóðir. Það er sem sé fjármálaauðvald Vestursins sem sker niður tjáningarfrelsið og skammtar lýðnum það síðan í sneiðum.

Fjármálaauðvaldið hefur ríkjandi stöðu í síðkapítalismanum (ríkir yfir iðnaðarauðvaldi, verslunarauðvaldi..). Hnattrænt fjármálaauðvald hefur þjappast gríðarlega saman í stöðugt færri einingar og er samtengt gegnum fáeinar banka- og fjármálasamsteypur sem eiga hver aðra – sem eiga ekki aðeins bankana sjálfa heldur einnig hermálaiðnaðinn, stafrænu tæknirisana, fjölmiðlana, lyfjaiðnaðinn.. (voldugastir eru áðurnefndir BlackRock, State Street, Vanguard og Fidelity, sem eru samtengdir og geta því virkað sem ein ofureining) Nú gengur þetta auðhringavald hins vestræna heims stöðugt beinna fram á völlinn, undir merkjum „public-private partnership“ – glóbalistarnir eiga sinn helsta sameinandi vettvang í WEF. Hið ofursamþjappaða fjármálaauðvald hefur meira og beinna vald en nokkurt auðvald hefur áður haft í mannkynssögunni.

Þessi (hnattvæðingarsinnaða) fjármálaelíta er um leið efnahagslegur kjarni vestrænnar heimsvaldastefnu (þó að hernaðararmur hennar sé fyrst og fremst US Army). Og sú sama fjármálaelíta – sem stendur á bak við WEF, AGS, WTO m.m. – leitast við að viðhalda og festa í sessi sinn One World ­Order. Ein hnattræn stjórnun skal yfirkeyra hvers konar þjóðkjörið vald almennings einstakra landa sem og allar hugmyndir um þjóðlegt fullveldi. Fremsta markmið stefnunnar um hnattræna stjórnun er að viðhalda hinni „einpóla heimsskipan“ (unipolar world) gegn þeim ríkjum og þeim öflum sem leitast við að fjölga valdapólum heimsins.

Í þágu þess háleita markmiðs telst sérstaklega nauðsynlegt að stýra orðræðunni ofan frá og skammta tjáningarfrelsið. Og þegar valdið sjálft aðhyllist skerðingu lýðréttinda er það alvarlegra mál en þó að einhver klíka sérvitringa „úti í bæ” geri það. Þess vegna er þessi alræðisógn hættulegri en öll önnur.

Fasisminn hefur breytileg klæði

Fasisminn í Þýskalandi gerði út á hefnd fyrir auðmýkingu 1918, gerði út á gyðingahatur og rasískt stigveldi, sá ítalski gerði út á feðraveldi og gömul fjölskyldugildi, sterkt ríkisvald, endurreisn Rómaveldis o.fl., sá spænski gekk mjög fram í nafni og undir gildum kaþólsku kirkjunnar. Með öðrum orðum, fasistar 20. aldar notuðu ólík klæði, mjög mismunandi áróðurstákn og myndmál, breytilegt milli landa. En ef skilgreina skal INNIHALD fasismans er mikilvægast að spyrja um STÉTTARINNIHALD. Á Ítalíu þar sem fasisminn kom fyrst fram var innihaldið lögskipuð stéttasamvinna og „korpóratismi“ eins og komið hefur fram. Einhver frægasti andfasisti síns tíma var kommúnistinn Georgi Dimitrov. Á 7. heimsþingi Komintern 1935 lagði hann fram fræga greiningu á fasismanum, á grundvelli þeirrar reynslu sem komin var af helstu ríkjum undir fasískri stjórn, Ítalíu og Þýskalandi. Og ein meginniðurstaða hans var: „Fasisminn er ótakmarkað vald fjármálaauðvaldsins.“

Þannig er það: Milliliðalaust vald fjármálaauðvaldsins, lögskipuð stéttasamvinna, valdboðsstefna í orðræðunni. Þetta er kjarni og INNIHALD fasismans þar sem hann er við völd. FORM fasismans, tákn hans og fagurfræði, taka hins vegar mið af straumum og stemningum á ólíkum stöðum og breytilegum tímum. Fasistar á Íslandi nútímans sem myndu rita á fána sinn gyðingahatur, slagorð gegn „óæðri kynstofnum“, slagorð gegn opinberri samkynhneigð eða fóstureyðingum og getnaðarvörnum gætu e.t.v myndað flokk en næðu varla fjöldafylgi. Ég held reyndar að „kristinn fasismi“ af slíku tagi eigi litlar framavonir á hinu vantrúaða Íslandi eða Skandinavíu eða Vestur-Evrópu. Að því leyti er staðan önnur en hún er t.d. í Bandaríkjunum. En fasisminn/alræðið þarf ekkert að klæðast svo púkalegum fötum, hann getur klæðst fötum frjálslyndis ekkert síður en fötum feðraveldis eða kynþáttahyggju, ef það hentar honum betur.

Alræðisskref tekin í kófinu

Og að mínu mati stafar alræðisógnin nú um stundir einmitt mest frá þriðju megingrein alræðis af þeim þremur sem nefndar voru hér að ofan. Það alræði nálgast okkur í áföngum. Það tók mörg skref fram á við undir yfirvarpi kórónuveirunnar. Aðaláhrif kórónuveirunnar voru ekki heilsufarsleg heldur samfélagsleg. Sóttvarnaraðgerðir voru notaðar sem sjokkmeðferð til að breyta samfélaginu – í allt frá eftirlitssamfélagi til lögregluríkis – í krafti óttastjórnunar. Umræða um hina umdeildu sóttvarnapólitík og tilheyrandi fjarlægingu borgararéttinda var allt annað en opin, gagnrýnisraddir voru miskunnarlaust þaggaðar niður sem „falsfréttir“.

Víða um Vesturlönd var komið á „vegabréfaskyldu“ innanlands, þar sem frelsi og borgararéttindi fólks var skammtað út frá bólusetningarstöðu þess. Um það hefur mátt lesa greinar á Neistum undanfarin 3 ár. Sjá t.d. hér Samfélagslegar takmarkanir voru aflagðar sl. vor, í bili. En frelsisskerðingum er áfram þröngvað á samfélagið ofan frá. Frá því á síðasta ári hefur heilbrigðismálastofnunin WHO haft sem opinbera stefnu að setja á reglur um alþjóðlegan stafrænan bólusetningarpassa, en frumkvæði og kostun þess kemur frá fjármálaelítunni, Bill Gates og Rockefellar. Í framhaldi af því eru bæði í demókrata-stýrðum Bandaríkjunum og á yfirráðasvæði Brusselvaldsins lögleiddar heimildir til að framfylgja skyldubólusetningu. Í ljósi hinna ömurlegu „bóluefna“ – gagnslausra í því að draga úr smiti – getur tilgangur slíkra laga ekki verið heilsufarslegur. En áhrif þeirra eru mikil í því að koma á stafrænu manntali og tvískiptingu samfélagsins í „réttláta og rangláta“ og möguleikum valdsins til að deila og drottna.

Alræðið kemur ekki yfir okkur með snöggri valdatöku í líkingu við Ítalíu 1922 og Þýskaland 1933 (ef menn vilja telja Rússnesku byltinguna hliðstæða valdatöku mega þeir það mín vegna þó hún hafi verið annars eðlis og þjónað annarri stétt). Fjármálaauðvaldið hefur tjáningarfrelsið í hendi sér og þrengir að því með hverju misseri sem líður. Alræðið kemur í áföngum.

Tjáningarfrelsið og stríðið

Sú ofursamþjappaða vestræna fjármálaelíta sem áður var nefnd – kjarnaland hennar er Bandaríkin og hún á m.a. hermálaiðnaðinn – myndar hina efnahagslegu uppistöðu í vestrænni heimsvaldastefnu. Í samhengi við umræðuefni okkar er það afgerandi að sama auðmagn skuli einnig ráða yfir og hafa fulla stjórn á ríkjandi fjölmiðlum. Ekki síst þegar upp eru runnir tímar stríðs. Fjölmiðlavald er úrslitaatriði í sálfræðilegri vídd stríðsins. Eftir fall Sovétríkjanna 1991 tóku Bandaríkin og NATO upp herskáa utanríkisstefnu: að tryggja stöðu Vesturblokkarinnar – með „einpóla heimsskipan“ (miðpunktur hennar er Washington). Lögð var fram Wolfowitz-kenningin um að halda yrði keppinautum niðri: tryggja að ekkert annað veldi yrði til sem ógnað gæti Bandarískum yfirráðum. Það var kaldhæðnislegt en við þessi miklu tímamótum 1991 gerðist tvennt samtímis: Annars vegar tóku vestrænir heimsvaldasinnar stefnu á heimsyfirráð, og hins vegar – einmitt þegar stjarna sósíalisma og marxisma lækkaði á himni – hættu flestir vinstri menn að tala um heimsvaldastefnuna.

Eitt megináhlaup skv. hinni nýju strategíu heimsvaldasinna hófst 11. sept. 2001, og kallaðist „stríð gegn hryðjuverkum”. Því fylgdi annars vegar sería styrjalda í Austurlöndum nær og hins vegar lögin „Patriot Act” í Bandaríkjunum og önnur þróun til lögregluríkis í okkar heimshluta. Annar kafli strategíunnar hófst með stríðinu í Úkraínu og spennuuppbyggingu á Suður-Kínahafi. Sá nýi kafli felur í sér bein átök BNA/NATO við helstu keppinauta sína, Kína og Rússland.

Styrjaldirnar hafa komið eins og perlur á bandi. Eftir 11. september hafa heimsvaldasinnar þróað aðferðirnar til selja stríð sín. Til varð taktíkin „smart power“ sem gengur út á það að samþætta annars vegar hið hernaðarlega og hins vegar áróður fyrir framsæknum og húmanískum gildum. „Smart power“ taktíkin var alveg sérstaklega þróuð í stjórnartíð Obama og Hillary Clinton og felur í sér að tilreiða hernaðinn betur með hjálp fjölmiðla og selja hann sem „mannúðaríhlutanir“. Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland, Úkraína spegla þróunina sem orðið hefur. Matreiðslan í fjölmiðlum verður sífellt vandaðari og útsmognari með hverju nýju stríði. Þetta hefur tekist svo vel að margyfirlýstir friðarsinnar og þekktir fyrrverandi NATO-andstæðingar í stórhópum hafa gerst herskáir og heimta nú meiri vígvæðingu og meira stríð í nafni mannúðar, mannréttinda og lýðræðis. Skýringin liggur annars vegar í hinum slóttuga „smart power“ áróðri og hins vegar í því að vinstrimenn hættu að greina og reikna með heimsvaldastefnu og tóku þar með andheimsvaldabaráttuna af dagskrá (og þá ætti maður líklega að setja gæsalappir á „vinstrimenn“).

Hnattvæðingaröflin ráða för á Vesturlöndum. Þá bregður svo við að hinir frjálslyndu og „alþjóðasinnuðu“ eru jafnvel orðnir herskárri og íhlutunarsamari en hægrið. Þeir fáeinu bandarísku þingmenn sem greitt hafa atkvæði gegn hinum linnulausu vopnasendingum til Úkraínu eru eingöngu repúblikanar, enginn demókrati. Á Íslandi hallast ekki á með hægri og „vinstri“ í stuðningi við stríðið. Og VG er t.d. ekki lengur þögull meðreiðarsveinn meðstjórnarflokka sinna í utanríkismálum heldur er flokkurinn ákafur stuðningsmaður heimsvaldastefnu NATO ekkert síður en Samfylkingin.

Stríðsáróðurinn felst í því að lýsa stríðinu einfaldlega sem frelsisstríði Úkraínu gegn hinni ólöglegu innrás Rússa. Innrásin er útmáluð þannig það veki næga ógn meðal vestrænna áhorfenda til að þeir gefi stuðning sinn við stríðsreksturinn. Myndin af innrásinni getur verið meira sönn eða minna. En lygin felst í því að sleppa skipulega öllum þeim efnivið sem BNA og NATO hafa í aðdragandanum dregið, og halda áfram að draga, til þessa mikla báls – og breytti strax innrás Rússa í staðgengilsstríð milli BNA/NATO og Rússlands. Í öðru lagi er stríðsáróðurinn sá að stríðið við Rússa gangi ljómandi vel og hægt sé að sigra þá með meiri hernaðaraðstoð. Í þriðja lagi felst hann í að stimpla allar aðrar skýringar á stríðinu en bara brjálæði Pútíns sem „pútínisma“.

Stríðsáróðurinn er samt ekki nóg. Það þarf að tryggja að óviðeigandi orðræða komist ekki af stað. Hún verður að vera einhliða. Þess vegna er nauðsynlegt að taka af andmælendum bæði hljóðnemann og ræðustólinn.

Þróun nýs alræðis er runnin undan rifjum heimsvaldasinna, sú þróun er einfaldlega hluti af vígvæðingu heimsvaldastefnunnar. Í þeirri vígvæðingu er opin og lýðræðisleg umræða mjög til trafala, jafnvel ómöguleg.

Alræðið sem nálgast í áföngum felur í sér bein völd hins yfirþjóðlega fjármálaauðvalds, og víðgvæðingu vestrænnar heimsvaldastefnu. Áhlaup þess að undanförnu beinast umfram allt að tjáningarfrelsinu, að afnema opna og lýðræðislega samfélagsumræðu. Þannig halda Vesturlönd upp á umrætt 100 ára afmæli.

 

Vígvæðingin á Íslandi (framhaldssaga)

 (Birtist á Neistum 19. september)

Umsvif Bandaríkjanna og NATO á Íslandi aukast jafnt og þétt. Ekki síður árið 2022. Að nokkru leyti tengist það innrás Rússa í Úkraínu, en fyrst og fremst er það þó hluti af breiðara ferli vestrænnar vígvæðingar sem hófst miklu fyrr.

Áfram með Finnafjörð

Einn þáttur hennar er ósk NATO um aðstöðu í Finnafirði austur. Í fyrra, 2021, lagði Guðlaugur Þór utanríkisráðherra fram frumvarp um breytingu á varnarmálalögum og áttfalda stækkun öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall á Langanesi, niður í Finnafjörð til að tryggja «öryggishagsmuni Íslands á Norðurslóðum» https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/ Núna sumarið 2022 bárust fréttir af óskum NATO um langan viðlegukant þar í Finnafirði. Skömmu síðar komu fréttir af ósk frá Utanríkisráðuneytimu um það sama. Framtak og erindisrekstur Kolbrúnar Reykfjörð í sumar er m.ö.o. beint og hnökralaust framhald af því sem Guðlaugur Þór baukaði í fyrra – að tilhlutan NATO. Þessi mál fara að mestu leyti fram á bak við tjöldin, svo erfitt er að leita heimilda og átta sig á hverslu lagt málið er komið.

B-2 þoturnar, sbr. ályktun Húmanista.

Annar þáttur í auknum umsvifum er notkun bandarískra sprenguþotna á Keflavíkurstöðinni. Ekki síst gildir það um B-2 Spirit, dýrustu sprengjuþotur heims., sem hafa komið hér við og við á undanförnum árum. Skv. Wikipedíu voru þessar þotur «aðallega hannaðar fyrir kjarnorkusprengjur». Þær geta borið allt upp í 16 kjarnorkusprengjur hver. Ekki eru þær hugsaðar til landvarna heldur eru þær svo hreinræktuð árásaratæki sem hugsast getur, hannaðar til að fljúga óséðar inn yfir lönd óvinarins og skjóta á hann sprengjum. Þegar árið 2019 kom það fram hjá Bandaríska flughernum að Keflavíkurstöðin væri skilgreind sem «framvarðarstöð» fyrir þessar flugvélar.

Í fyrra var utanríkisráðherra spurður, bæði af Andrési Inga Jónssyni þingmanni og af SHA hvað fælist í hugtakinu «framvarðarstöð». Kolbrún Reykfjörð sendi spurninguna einfaldlega til bandarískra hermálayfirvalda, lét þau skilgreina málið, og kom tilbaka með þau svör að B-2 þoturnar væru hluti af «varanlegum tilflutningi bandarísks liðsafla» (“rotational presence”). Keflavík er sem sagt liður í «rotational presence» flugflotans (sem væri eðlilegra að þýða sem «hreyfanleg viðvera”).

Keflavíkurstöðin er að verða aftur, eða er þegar orðin, bandarísk herstöð, flestar bandarískar herstöðvar á 21. öld hafa einmitt ekki fastan herafla heldur “hreyfanlegan”. Í svörum sínum báru íslensk stjórnvöld ekki á neinn hátt til baka skilgreiningu bandarískra hermálayfirvalda á Keflavíkurstöðinni sem «framvarðarstöð” fyrir þoturnar B-2 Spirit. Sem felur í sér viðurkenningu á skilgreiningunni, án þess að málið sé nokkurn tíma formlega tekið fyrir í íslensku stjórnkerfi.

Nú skal vakin athygli á ársgamalli ályktun/fréttatilkynningu frá Húmanistaflokki Íslands, gefinni út í tilefni af staðsetningu B-2 sprengiþotnanna á Keflavíkurflugvelli í fyrrasumar. Ályktunin greinir vel málið og setur í samhengi. Þar segir:

“”

„Húmanistaflokkurinn á Íslandi fordæmir harðlega samþykki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þeirri ákvörðun Bandaríkjanna að gera Keflavíkurflugvöll að skilgreindri framvarðarstöð fyrir B-2 þotur til sprengjuárása eins og fram hefur komið m.a. í fréttum Stövar 2 og visir.is að undanförnu. B-2 sprengjuþoturnar eru einhver skæðustu árásarvopn mannkyns, þær eru hannaðar til kjarnorkuárása og geta borið allt að 16 slíkar sprengjur. B-2 þotunum fylgja um tvöhundruð liðsmenn bandaríska hersins. Þess má geta að þotur þessararar tegundar voru meðal annars notaðar þegar Bandaríkin - með stuðningi „hinna viljugu þjóða“ þar á meðal Íslands - sprengdu upp Bagdad í Íraksstríðinu 2003 til 2011. Með samþykki ríkisstjórnarinnar á að gera Keflavíkurflugvöll að framvarðarstöð B 2 sprengjuþotanna er Ísland orðinn beinn og virkur aðili að þeim stríðum smáum og stórum sem Bandaríkin kunna að heyja. Með þessum hætti verður Ísland jafnframt að skilgreindu hernaðarlegu skotmarki andstæðinga Bandaríkjanna í stríði.“

Aðvörunin í lok álykktunarinnar hljómar spámannlega nú ári síðar þegar staðgengilsstríð USA/NATO við Rússa geisar í Úkraínu. Ísland er í reynd orðinn aðili að því stríði, og gerir sig um leið að skotmarki, m.a. með því að hafa hér framvarðarstöð fyrir árásarvopn á borð við B-2.

Norður-Víkingur 2022

Hvað um aðra vígvæðingu á Íslandi þetta árið? “Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022” fór fram í Hvalfirði í apríl í vor. Landganga, og um 700 manns æfði sig á Íslandi en einnig fóru fram æfingar herskipa sunnan við Ísland. «Norður-Víkingur» er fyrst og fremst tvíhliða æfingar Íslands og Bandaríkjanna, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Þær hafa í heild farið vaxandi. Til marks um það var að Annar floti Bandaríkjanna var endurræstur 2018, hafði þá ekki verið virkur frá 2011). Æfingin 2022 skar sig þó ekki úr að umfangi.

Allt er þetta fyrst og fremst beint og hnökralaust framhald á stefnu þeirri sem áður hafði verið tekin. Ekkert rof varð eða kúvending árið 2022, vegna Úkraínustríðs eða af öðrum sökum. Það er samfella í stefnunni, og stefnan varð ekki til með Úkraínustríðinu. Samfellan gengur út á vígvæðingu. Hina nýju vígvæðingu. Sú vígvæðing hófst í raun með lokum kalda stríðsins um 1990, tók stefnu með «alþjóðavæðingu NATO 1999» og fór á flug með yfirlýstu «stríði gegn hryðjuverkum» 2001. Eftir ca. 2007 hefur vígvæðingin snúist æ beinna um «einpóla heimsskipan», að viðhalda henni og berjast gegn rísandi keppinautum, Kína og Rússlandi.

Helsta viðbót: vopnaflutningur til Úkraínu

Vígvæðingar-marsinn herti þó á sér 2022. Það sem helst hefur bæst við á Íslandi með Úkraínustríðinu er þátttaka Íslands í vopnaflutningum. Strax eftir innrás Rússa í 24. febrúar hófu íslensk stjórnvöld að standa fyrir vopnaflutningum tíl Úkraínu. Um miðjan maí höfðu þau lagt fram 125 milljónir til þess arna. Illa hefur þó gengið að fá fram framlög Íslands skjalfest. Annað atriði er stóraukin «loftrýmisgæsla». Æfingar þær sem voru ca 5 sinnum á ári koma nú á fárra vikna fresti. Nú tala ég mest frá eigin tilfinningu fyrir þotuæfingum og herflutningavélum á Akureyrarflugvelli. Ég tel að tíðni æfinganna hafi a.m.k. tvöfaldast frá undangengnum árum.

Ísland er NATO-hjálenda. Í utanríkismálum ganga hlutirnir sjálfkrafa fyrir sig. Við höfum enga sjálfstæða utanríkisstefnu. Gerum það sem NATO segir. Ísland hefur stutt allar aðgerðir NATO síðustu þrjá áratugi. Og allar stórar aðgerðir Bandaríkjahers. Punktur. Sjálfvirknin er óháð stjórnarsamsestningu. Við flækjum okkur rækilegar í net vígvæðingarinnar með hverju árinu. En ekkert af þessu er í raun nýtt. Úkraínustríðið er aðeins eitt skref enn niður á við.

 

Úkraína og rökfræði staðgengilsstríðsins

 

Birtist á Neistum 17. maí 2022

usarussiaÞegar ég staðhæfði, skömmu eftir að innrás Rússa hófst, að Úkraínustríðið væri staðgengilsstríð var allt slíkt tal stimplað sem «Pútínáróður» enda væri stríðið einfaldlega þjóðfrelsisstríð Úkraínu. Slíkir stimplar eru vissulega enn á lofti og mynd þjóðfrelisstríðsins er haldið fast að okkur í fjölmilum. Inn á milli heyrist samt oftar og oftar frá háum stöðum, ekki síst í Washington, að Úkraínustríðið sé einmitt – staðgengilsstríð. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir sambandi “staðgengils» og þeirra sem hann «staðgengur” fyrir.

Panetta: - Þetta er staðgengilsstríð

Leon Panetta, sem var varnarmálaráðherra Obama-stjórnarinnar 2011-2013 og áður æðsti yfirmaður CIA fer ekki í grafgötur með að stríðið sé stríð milli Bandaríkjanna og Rússlands. Í viðtali við David Vestin hjá Bloomberg þann 17. mars orðar hann það á einföldu mannamáli:

«Í fyrsta lagi, einasta aðferðin til að fást við Pútín er að tvöfalda framlag okkar. Sem þýðir að veita eins mikla hernaðaraðstoð til Úkraínumanna og nauðsynlegt er þannig að þeir geti haldið áfram að berjast við Rússana... Við erum þátttakendur í átökum þarna. Það er staðgengilsstríð við Rússland hvort sem við segjum það eða ekki. Það er það sem í reynd á sér stað. Og af þeirri ástæðu verðum við að vera viss um að við veitum eins mikið af vopnum og mögulegt er... Ekki vera í vafa, diplómatík er gagnslaus nema við höfum áhrif. Og aðferðin til að hafa áhrif er að fara inn og drepa Rússa. Það er það sem Úkraínumenn verða að gera. Við verðum að halda áfram hernaðaraðstoðinni... Af því þetta er valdatafl.» https://www.bloomberg.com/news/videos/2022-03-17/u-s-is-in-a-proxy-war-with-russia-panetta-video

Orð Panetta eru beinlínis skilgreiningin á staðgengilsstríði: utanaðkomandi stórveldi veitir veikara ríki efnahags- og vopnahjálp til að heyja stríð gegn stórveldisandstæðingi sem fyrrnefnda stórveldið vill skaða. Minna ríkið þarf hins vegar að vinna sjálft verkið, með lífi sínu og blóði.

Austin – markmiðið er að «veikja Rússland»

Panetta er að vísu ekki lengur varnarmálaráðherra. En núverandi varnarmálaráðherra BNA, Loyd Austin, sagði að Úkraínumenn skyldu fá «allt sem þeir vilja af vopnum». Staddur í Kíev, eftir fund með Zelensky forseta, var hann var spurður um «markmið Bandaríkjanna» í Úkrínustríðinu og hann svaraði líka mjög skýrt: «Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.» https://www.commondreams.org/views/2022/04/26/us-secretary-defense-admits-real-strategic-goal-ukraine-quagmire-russia

lloyd austin
Lloyd Austin varnarmálaráðherra: markmiðið er að “veikja Rússland”

Fyrrum æðsti stjórnandi Bandaríkjahers í Evrópu, Ben Hodges, orðar hin bandarísku stríðsmarkmið með líkum hætti, þau séu að: “hryggbrjóta að lokum getu Rússlands til að ráðgera valdbeitingu utan Rússlands”. https://www.cbsnews.com/news/face-the-nation-full-transcript-04-17-2022/ Strategistarnir í Washington (og hjá NATO) ætla Úkraínu þetta hlutverk, með duglegri hernaðaraðstoð: að veikja Rússland (jafnvel hryggbrjóta). Það er ærið verkefni og þarf mikið til. Það eru ekki heldur neinir vasapeningar sem Bandaríkin beina til Úkraínu. Samkvæmt New York Times 28. apríl bað Bidenstjórnin þingið nú um 33 milljarða dollara (4,4 billjónir ísl. kr) í viðbót til stríðsins í Úkraínu. Síðan gerðist það 10. maí að þingið hækkaði framlagið upp í 40 milljónir, enda eru flokkarnir tveir á þinginu samstíga og nær engin andstaða. https://www.reuters.com/world/us-house-vote-40-billion-ukraine-aid-package-tuesday-pelosi-2022-05-10/

Þegar sú upphæð kemur ofan á fyrri framlög þingsins til stríðsins er upphæðin orðin um 54 miljarðar dollara. Það eru talsvert meira en árleg meðalútgjöld Bandaríkjanna til eigin nýafstaðins stríðsreksturs í Afganistan (um 46 milljarðar). Ennþá meira sláandi: Upphæðin nálgast heildarútgjöld Rússlands til hermála á heilu ári (á árinu 2021 voru þau 65,9 milljarðar) og eru þó bara liðnir þrír mánuðir tæpir af Úkraínustríði.. https://www.sipri.org/media/press-release/2022/world-military-expenditure-passes-2-trillion-first-time Þessi talnahlutföll eru áhugaverð, ekki síst í ljósi hinna síendurteknu fullyrðinga um að áhyggjur Rússa af Úkraínu séu fullkomlega tilefnislausar, þeir hafi ekkert þaðan að óttast (það má þó minna á að Úkraína var tvívegis á 20. öld notuð til innrása í Rússland og kostuðu tugmilljónir mannslífa). Glenn Greenwald fjallar hér um þessar upphæðir: https://greenwald.substack.com/p/biden-wanted-33b-more-for-ukraine?s=r Framantalin bandarísk hernaðaaraðstoð og framantalin ummæli ráðamanna sýna að ráðamenn vestur þar líta á þetta stríð sem sitt stríð, þó svo formlega sé það aðeins á milli Rússlands og Úkraínu. Það er staðgengilsstríð – og það fylgir rökfræði slíkra stríða.

Óbein bandarísk þátttaka

Úkraína skal ein standa í slagsmálunum við Rússa, a.m.k. ennþá, en þátttaka Bandaríkjanna og NATO verður samt smám saman meiri. Ráðmenn í Washington viðurkenna að Bandaríkjaher þjálfi úkraínska hermenn í Póllandi og Þýskalandi. Vestrænar fréttastofur sögðu frá því að bandarískar leyniþjónustuupplýsingar hefðu hjálpað Úkraínu að granda rússneska Svartahafsflaggskipinu «Moskva» þann 14. apríl. https://edition.cnn.com/europe/live-news/russia-ukraine-war-news-05-05-22/h_fa0900ceed55ba329c1f69702537e9e6 Einnig sögðu vestrænar fréttastofur að sams konar leyniþjónustuupplýsingar hefðu hjálpað Úkraínumönnum að drepa allmarga rússneska hershöfðingja í stríðinu. https://www.abcnyheter.no/nyheter/verden/2022/05/05/195843790/new-york-times-russiske-generaler-drept-etter-hjelp-fra-amerikansk-etterretning

Og bandarískar njósnaupplýsingar hafa líka hjálpað Úkraínuher að staðsetja og skjóta niður rússneskar flugvélar. Mark Milley, formaður bandaríska Herforingjaráðsins (Joint Chiefs of Staff) hældist í síðasta mánuði við þingnefnd og House Armed Services Committee yfir leynilegum aðgerðum í Úkraínu: “Þetta stríð hefur án efa verið best heppnaða leyniþjónustuaðgerðin í hernaðarsögunni,” sagði hann. “Hún er rosaleg, og saga hennar verður einhvern tíma sögð.» https://www.washingtonexaminer.com/policy/defense-national-security/mystery-of-early-russian-failures-in-ukraine-explained-with-new-revelations-of-us-intelligence-help

Kviksyndis-strategían frá Washington

Það er dável þekkt í geópólitík, ekki síst eftir styrjaldirnar í Víetnam og Afganistan, að besta aðferðin til að veikja geópólitískan andstæðing, hernaðarlega og pólitískt, er að egna hann til óyndisúrræða og árásarhegðunar, helst etja honum út í dýrt staðgengilsstríð. Það er gjarnan kallað «kviksyndi» og oft bendlað við «víetnam-syndróm».

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Hernaðaráætlunin gagnvart Rússum sem hún gaf út 2019 hét “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands... og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.” Af beinum aðgerðum í áætluninni sem eiga að grafa undan áhrifum Rússlands og veikja það með hjálp álagsþreytu er efst á blaði og mikilvægust sú að “sjá Úkraínu fyrir hernaðaraaðstoð” (lethal aid). Númer tvö er að “auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn.” sjá hér

Samanburður við Sýrland, annað staðgengilsstríð, er gagnlegur. James Jeffrey, sérlegur fulltrúi Bandaríkjastjórnar málefnum Sýrlands sagði í vitali 2020 að verkefni sitt væri einmitt að gera Sýrland að «kviksyndi» fyrir Rússa: „Þetta er ekki Afganistan, þetta er ekki Víetnam“, útskýrði hann – en hins vegar: „Verkefni mitt er að gera það að kviksyndi fyrir Rússa.“ https://sputniknews.com/world/202005121079285040-us-military-presence-could-help-turn-syria-into-quagmire-for-russia---special-envoy/

Fljótlega eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst fóru bandarískir strategistar og hermálatoppar að spá löngu stríði (og óska eftir því). Áðurnefndur Mark Miller, formaður Herforingjaráðsins, sagði í byrjun apríl að þetta stríð myndi að líkindum “vara svo árum skipti frekar” en mánuðum. Þá hafa strategistarnir líka von um að stríðið verði farið að “veikja Rússland”. https://www.voanews.com/a/ukraine-war-likely-to-last-years-top-us-military-officer-says-/6517110.html

Bakmaðurinn í Úkraínudeilunnari

Hið geopólitíska stríð stendur á milli Rússlands og BNA/NATO. Úkraína er staðgengillinn, bakmaðurinn er BNA/NATO. Það að bakmaðurinn ætli stríðinu að «veikja Rússland» í stað þess bara að verja Úkraínu stækkar verkefnið ansi mikið, og gerir pólitískar og diplómatískar lausnir deilunnar fjarlægari. Gallinn er að eigi að láta Rússlandi blæða verulega verður Úkraínu að blæða þeim mun meira. En frá sjónarhóli bakmannsins er það auðvitað aukaatriði.

Stefna Bandaríkjanna og annarra helstu NATO-velda gagnvart Rússlandi (og Úkraínu) er ekki alltaf ein og sú sama, en þó verður að segjast að geópólitík Vesturblokkarinnar á 21. öldinni hefur á þessu sviði algjörlega verið stjórnað frá Washington, og aldrei meira en nú.

Það þarf ekki lengi að stúdera háttarlag bandarískra ráðamanna í Úkraínudeilunni til að sjá að ekki eru þeir þar friðarstillar. Hlutverk þeirra er ekki heldur bara að bregðast við gerðum Rússa. Þeir eru megingerendur í deilunni og verk þeirra sýna að markmið þeirra er ekki að vinna að friði heldur hið gagnstæða. Rekjum þess vegna aðeins framlag Bandaríkjanna – með Vesturblokkina í eftirdragi – á nokkrum stigum Úkraínudeilunnar.

Útþensla NATO í austur

Fyrst skal nefna ytri aðstæður deilunnar sem markast umfram allt af útþenslu NATO í austur. Síðustu Sovétleiðtogunum voru gefin margvísleg loforð um öryggistryggingar. Eldri Bush og James Baker utanríkisráðherra sóru þess eið að NATO færi ekki «eina tommu austar» en Þýskaland. Í febrúar sl. skrifaði hinn virti Der Spiegel um viðræður stórveldanna árið 1990 í aðdraganda þess að Varsjárbandalagið var lagt niður:

«Sem betur fer er nóg af skjölum aðgengilegum frá þeim ríkjum sem tóku þátt í viðræðunum, þ.á.m. greinargerðir frá samtölum, samningsútskriftir og skýrslur. Samkvæmt þessum skjölum gáfu Bandaríkin, Bretland og Þýskaland það til kynna að NATO-aðild landa eins og Póllands, Ungverjalands og Tékkóslóvakíu kæmi ekki til greina.» https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-is-vladimir-putin-right-a-bf318d2c-7aeb-4b59-8d5f-1d8c94e1964d

Loforðin reyndust léttvæg. Þegar árið 1999 gengu einmitt Tékkland og Pólland í NATO. Það var m.a.s. á tíma Jeltsíns, þegar Rússland var að miklu leyti undir forræði Bandaríkjanna og ekki talað um Rússland sem ógn. Enda var þetta engin varnarráðstöfun heldur heimsyfirráðapólitík, BNA að þenja út áhrifasvæði sitt og fyrirbyggja mögulega kappinauta (Wolfowitz-kenningin frá 1992 gekk út á það). Gamalreyndir menn í geópólitík, frá George Kennan til Kissingers, sögðu þó að með því væri gagnvart Rússlandi gengin braut út á mikið hættusvæði. Jeltsín reyndi vissulega að andæfa útþenslunni, en Rússland var enn á hnjánum og varð að láta það yfir sig ganga.

Síðan hélt úþenslustefna NATO áfram í stökkum austur að landamærum Rússlands. Aðeins Hvíta-Rússland og Úkraína voru orðin á milli. Af þeim þótti Úkraína álitlegri til nálgunar vegna sterkra andrússneskra strauma og innbyrðis klofnings landsins, sem heimsvaldasinnar vildu nýta (sjá síðar). Eftir að stórveldið Rússland með tilkomu Pútíns komst aftur á fæturna og hætti að láta að stjórn þeirra í Washington jókst atgangurinn við að vinna Úkraínu frá stóra bróður.

map of europe
Útvíkkun NATO í austur eftir lok Kalda stríðsins

Árið 2008 lýsti leiðtogafundur NATO í Búkarest yfir að einnig Úkraína „mun verða aðili að NATO“. Þá brást Pútín við hart og sagði: “Hingað og ekki lengra, öryggishagsmunir Rússlands leyfa það ekki.” NATO-aðild Úkraínu sagðist hann líta á sem tilvistarógn, “existensial threat” fyrir Rússland. Hann dró «rautt strik” við Úkraínu. Rússar og aðrir hafa gjarnan líkt þessu við Kúbudeiluna 1962. Kennedy er oft þakkað fyrir að hafa bjargað landi sínu og Vesturlöndum úr mikilli kjarnorkustríðshættu með því að fyrirbyggja sovéskar skotflaugar til Kúbu, draga “rautt strik” við Kúbu. Þetta kom honum þó formlega ekkert við, Kúbanir voru í fullveldisrétti að haga öryggismálum sínum að vild (alveg sambærilegt við hinn heilaga fullveldisrétt Úkraínu að ganga í NATO), en þetta var geópólitík sem sögð var trompa þjóðarrétt. Líklega hafa almennir Rússar litið rauða strik Pútíns svipuðum augum og Vesturlandabúar litu strik Kennedys þá. En í Washington og Brussel var ákveðið að hafa rauða strikið að engu.

Maidan 2014

Nú var markmið bakmannanna í Washington valdaskipti í Úkraínu, sem áfanga í baráttunni við Rússland. Aðferðin var litabylting, vörumerki frá CIA. Tvær atlögur voru gerðar í Úkraínu með 10 ára millibili. Appelsínugula byltingin 2004 var stjórnað af bandarískri utanríkis- og leyniþjónustu en fótönguliðið voru heimamenn. Þessum öflum tókst að láta endurkjósa 2004 og koma sínum manni Jútsjenkó að í stað Janúkóvitsj. Þau valdaskipti gengu þó tilbaka og þessi öfl voru felld að nýju í kosningum. https://www.theguardian.com/world/2004/nov/26/ukraine.usa

Þetta var aðeins forleikur að því sem gerðist árið 2014. Þá var miklu meiru kostað til. Og nú tengdi USA sig við miklu harðsnúnari stjórnmálaöfl. Á útmánuðum þess árs sagði Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra að Bandaríkin hefðu á undanförnum árum varið 5 milljörðum dollara til að «koma upp lýðræðislegri getu og stofnunum í Úkraínu» https://www.youtube.com/watch?v=U2fYcHLouXY. Úkraína hafði orðið sjálfstæð 1991, en landið einkenndist af alvarlegum klofningi af sögulegri rót, markaðan ekki síst af sambýlinu langa við Rússland. Klofningurinn liggur eftir landfræðilegum austur-vestur línum sem einkum eru þjóðernis- menningar- og tungumálalegar. Þær línur eru þó líka stjórnmálalegar þar sem hin andrússnesku öfl standa í stórum dráttum hægra megin.

Kortið sýnir hverjir tala hvað. Rauði liturinn sýnir misjafnt hlutfall rússneskumælandi en grænn sýnir nærri hrein úkraínskuhéruð.

Strategistarnir í Washington fundu eðlilega út að gagnlegast væri að tengja sig við hin andrússnesku hægriöfl og þar á meðal öfgahægrið þar sem andrússneska stemningin er allra sterkast. Þau mátti líka nota til brýnna róttækra athafna. Hægrisektor sá um vopnaburðinn. Frjáls félagsamtök (NGO´s) eins og National Endowment for Democracy, George Soros, Freedom House, breska Chatham House o.fl. gegndu burðarhlutverkum. Undirbúningur aðgerða fór mest fram gegnum bandaríska sendiráðið undir stjórn Geoffrey Pyatt sendiherra. Og hann var í reglulegu símasambandi við Victoríu Nuland. Þau ræddu hvaða stjórnmálamenn ættu að mynda næstu ríkisstjórn Úkraínu. «Yats is the guy» (Yats er maðurinn) sagði hún og meinti Arseniy Yatseniuk leiðtoga Föðurlandsflokksins sem komandi forsætisráðherra. Hvað líka varð. Hún talaði um «the big three» og að «Yats» yrði að hafa reglulegt samráð við hina tvo, Klitschko formann Umbótaflokksins og Oleh Tiahnybok, foringja fasistaflokksins Svoboda. Rússar tóku eitt samtalið upp: https://www.youtube.com/watch?v=MSxaa-67yGM

nuland
Victoria Nuland og “the big three”, f.v. Oleh Tiahnybok, foringi fasistaflokksins Svoboda, Klitschko formaður Umbótaflokksins og Arseniy Yatseniuk, leiðtogi Föðurlandsflokksins

Á Maidantorgi reif foringi Hægrisektors, Dimitro Jarosh, í ræðustólnum í sundur nýundirritað samkomulag um þjóðstjórn og nýjar kosningar sem gert hafði verið milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands höfðu ábyrgst. Janukovitsj forseti flýði borgina. Næsta dag samþykkti fámennt þjóðþing í Kiev undir blikandi vopnum Hægrisektors að setja af Janukovitsj, lýðræðislega kjörinn forseta. Sjá stutta útgáfu af atburðarás valdaránsins: https://original.antiwar.com/justin/2014/02/23/coup-in-kiev/

Ofbeldið á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj. Áttatíu manns dóu á torginu og götunum, um 20 lögreglumenn. Traustar heimildir eru þó fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr vopnuðum hópum fasista. Sjá t.d. BBC: https://www.bbc.co.uk/programmes/p02jcrf3/clips Svobodaflokkurinn var með í nýrri ríkisstjórn. Það er enginn vafi á því að velþóknun Nuland og bakmannanna í Washington á m.a. Tiahnybok gaf öfgahægrinu lögmæti og stöðu í komandi Maidan-stjórnkerfi, sem var og er miklu sterkari en fylgi þess meðal almennings segir til um. Öfgahægrið stjórnaði alls ekki valdaráninu en var mjög nytsamlegt voldugri bakmönnum, innlendum og erlendum, til helstu ofbeldisverka og gegndi því lykilhlutverki í valdaráninu, og áfram.

Tíminn 2014-2022

Ný stjórn Maidan-aflanna varð vond stjórn og óvinsæl. Lífskjör í Úkraínu hrundu úr vondum niður í ömurleg. En frá sjónarhóli vestrænu bakmannanna var nýja stjórnin «góð» að einu mikilvægu leyti: Hún var grimmilega andrússnesk. Með valdaskiptunum sköpuðust skilyrði fyrir vestrænu virki á vesturlandamærum Rússlands, reyndar eftir hálfum landamærunum. Villtir draumar heimsvaldasinna rættust.

Nýja stjórnin sagði strax rússneska minnihlutanum stríð á hendur. Í fyrstu vikunni eftir að hún tók völd afnam hún stöðu rússnesku sem eitt opinberra tungumála í landinu, en um þriðjungur þegnanna hafði rússnesku sem fyrsta mál. Afleiðing valdaránsins varð að Úkraína rifnaði í sundur eftir hinum gömlu klofningslínum. Í Moskvu hugsaði Vladimir Pútín fyrst um öryggismál, hann brást við hart og skipulagði þjóðaratkæðagreiðslu á Krím (formlega var hún þó skipulögð af þinginu á Krím) sem leiddi til innlimunar skagans í Rússland. Þarna er Sevastopol, eina flotastöð Rússlands í suðri og hana ætluðu Kremlverjar ekki að missa til Maidanstjórnar og NATO. Og þremur mánuðum síðar var Maidanstjórnin komin í borgarastríð við rússneskumælandi austurhéruðin Donetsk og Lugansk, sem lýstu þá yfir sjálfsstjórn og kölluðu sig síðan «alþýðulýðveldi».

Minsk-samningurinn haustið 2014 (og aftur í febrúar 2015) var alvarlegasta tilraunin til að leysa deiluna um austurhéruðin eftir diplómatískum leiðum: Þar tóku þátt nýi forsetinn Porosjenkó, Pútín, Merkel, og Hollande Frakklandsforseti. Lykilatriði hans voru vopnahlé og stjórnarskrárbreyting í Úkraínu sem tryggði Donetsk og Lugansk ákveðna sjálfsstjórn innan Úkraínu. Samningurinn var viðurkenndur af SÞ og þjóðréttarlega bindandi.

Úkraínska öfgahægrið fordæmdi samninginn frá byrjun. E.t.v. ætlaði Porosjenkó forseti sér aldrei að standa við hann, hann gerði alla vega litlar tilraunir til þess og tók aldrei upp samninga við fulltrúa sjálfsstjórnarhéraðanna. Og hinir vestrænu bakmenn hans þrýstu honum heldur ekki til þess. Borgarastríðið hélt því áfram og drap fólkið þúsundum saman. Þýskaland og Frakkland reyndu að þrýsta á um uppfyllingu samningsins en að litlu marki fyrr en í ársbyrjun 2022. Bandaríkin komu ekkert að Minsk-samningnum og sýndu honum engan áhuga, höfðu væntanlega jafnlítinn áhuga á uppfyllingu hans og úkraínska ofurhægrið. Framlag USA í málinu var á öðru sviði: að vopna og þjálfa Úkraínuher í baráttunni við aðskilnaðarsinna en hernum gekk vonum miður í borgarastríðinu. https://news.antiwar.com/2022/03/16/report-secret-cia-training-program-in-eastern-ukraine-helped-prepare-for-russian-invasion/ Árið 2015 voru herdeildir öfgahægrihópanna Azov og Hægrisektor innlimaðar í úkraínska Heimavarnarliðið, og gegndu lykilhlutverki á «austurvígstöðvunum». Aðskilnaðarhéruðin fengu vopnaaðstoð frá Rússlandi.

Árið 2019 var Zelensky kjörinn forseti, vann yfirburðasigur á Porosjenkó. Stærsta atriðið í stefnu Zelenskys var að lofa friði, hann vildi semja við aðskilnaðarsinna og Rússa og fullnusta Minsk-samninginn. Í innsetningarræðu sinni sagðist Zelensky ekki “hræddur við að tapa eigin vinsældum eða áhorfi… og er viðbúinn að gefa frá mér stöðu mína – ef bara friður kemst á.» En öfgahægrið kom því þá skýrt til skila að friðarsamningar við aðskilnaðarsinna myndu verða nýja forsetanum dýrir. Viku síðar birtist í vefriti einu vital við nasistann Jarosh áðurnefndann, þann sama sem reif sundur samkomulagið við Janukovitsj á Maidantorgi 2014. Jarosh mælti á þessa leið: “Framkvæmd Minsk-samkomulagsins er dauði fyrir lýðveldið okkar... Zelensky sagði í innsetningarræðu sinni að hann væri tilbúinn að tapa vinsældum, áhorfi, stöðu... Nei, han myndi týna lífi sínu. Hann myndi hanga í tré á Khreshchatyk [miðbæjarstræti í Kíev] – ef hann sviki Úkraínu og fólkið sem lét lífið í byltingunni og stríðinu.» https://mate.substack.com/p/siding-with-ukraines-far-right-us?s=r

Zelensky hætti skjótt að tala um að semja við aðskilnaðarsinna og að fullnusta Minsk-samninginn. Það var lífshættulegt. Ef hann hefði fengið stuðning frá hinum væstrænu bakmönnum Maidanaflanna til að framkvæma kosningaloforð sín – og vernd gegn fasistunum – hefði mátt komast hjá miklum djöfulskap og þjáningum. Þann stuðning fékk hann ekki. Að öllum líkindum var það af því í Washington höfðu menn engu meiri áhuga á friði í Donbass en fasistarnir. Samkvæmt tölum SÞ voru 13.000 fallnir í stríðinu gegn sjálfsstjórnarhéruðunum árið 2019. Yfir milljón höfðu fúið yfir til Rússlands.

Innrásin og stríðið – og ábyrgðin

Í desember sl. og aftur í febrúar setti Pútín fram kröfur í Úkraínudeilunni. Kröfunum var beint að Úkraínu en einnig að NATO. Innihaldslega voru kröfurnar einkum þrjár: Úkraína verður að viðurkenna rússnesk yfirráð yfir Krím. Úkraína verður opinberlega að falla frá inngöngu í NATO. Úkraína verður að ná samkomulagi við aðskilnaðarhéruðin. Kröfurnar voru settar fram í formi afarkosta, mótherjar yrðu að taka afleiðingunum að öðrum kosti. Kröfurnar þrjár voru gamalkunnar, þær sömu og Rússar hafa staðið á undanfarin ár. Kröfurnar var ástæða til að ræða, a.m.k. ef friður alls svæðisins væri í mikilli hættu að öðrum kosti. Svarið var þríþætt, nei, nei og nei. Hvorki af hálfu Kiev, Washington né NATO yrðu þessar kröfur ræddar.

Þann 24. febrúar réðist Rússaher inn í Úkraínu. Innrásin kallar hörmungar yfir Úkraínu og hún er þjóðréttarlegur glæpur. Enginn vafi er að mikill meirihluti landsmanna er henni andvígur og vill standa vörð um úkraínskt fullveldi. Rússnesk stjórnvöld frömdu glæpinn, þau gerðu innrásina og bera ábyrgð á henni. Við það verður að bæta að Úkraínustríðið hófst ekki með innrásinni 24. febrúar heldur vorið 2014. Ábyrgðin á því liggur hjá fleirum, m.a. hjá Úkraínustjórn og allra mest hjá bakmönnum hennar, Bandaríkjunum og NATO sem með ögrunarpólitík sinnu stuðluðu að því að glæpurinn yrði framinn.

Með innrás Rússa er sem sagt skollið á útvíkkað stríð. Staðgengilsstríð eins og hér hefur komið fram. Allir aðilar sem til þessa hafa komið að deilunni eru nú ábyrgir fyrir því að leysa hana og stöðva frekari hörmungar. Helstu valkostir stríðsaðila eru þessir: Á að semja eftir diplómatískum leiðum um grundvallarhagsmuni deiluaðila? Á að reyna að vinna stríðið, koma andstæðing sínum á kné? Á að stofna til stórstyrjaldar, t.d. stríði um «lýðræðið í heiminum» gegn «alræðinu í heiminum?

Sigurtónninn að vestan

Á fyrstu vikum stríðsins komu ákveðnir tónar um samningsvilja frá bæði Úkraínu og Rússlandi: «Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu segist vera fús til að ræða framtíðastöðu Krím og Donbassvæðisins við Rússland... – Við við getum rætt og fundið málamiðlun um það hvernig þessi svæði eiga að hafa það framvegis, segir hann.» https://www.nrk.no/nyheter/zelenskyj_-villig-til-a-diskutere-krim-og-donbas-1.15883649 Um sama leyti sagðist hann til viðræðu um það að Úkraína falli frá ósk um NATO-aðild. https://www.france24.com/en/live-news/20220308-in-nod-to-russia-ukraine-says-no-longer-insisting-on-nato-membership

Á þeim tveimur mánuðum sem síðan hafa liðið hefur minna heyrst af slíku samningahljóði hjá Zelensky. Í ræðum sínum yfir þjóðþingum og fjölmiðlum Vesturlanda tekur hann undir boðskap Bidens um að stríðið standi um «framtíð lýðræðisins», og biður um «meiri vopn». Og á sigurdaginn 9. maí sagði hann: “Leiðin er erfið en við erum ekki í neinum vafa um að við munum sigra.” https://www.wsj.com/livecoverage/russia-ukraine-latest-news-2022-05-09/card/zelensky-marks-victory-day-with-a-promise-of-russia-s-defeat-HGUXDPVOw3eyxcCHVVBn Málflutningur hans hefur smám saman færst til samhljóms við þann “sigurtón” sem orðið hefur alveg ríkjandi vestan hafs undanfarnar vikur.

Bretland og Bandaríkin keyra samræmda línu í málinu, hún er sú að Úkraína sé sigursæl og hugrökk, hún eigi að berjast sem ákafast, þiggja vopn og ekki semja við Pútín. “Absolutely they can win” sagði Kirby talsmaður Pentagon 6. apríl. Og Austin varnarmálaráðherra sagði: «Úkraínumenn eru fyrirmynd fyrir hinn frjálsa heim, geta unnið stríðið við Rússland og skulu fá allt það sem þeir biðja um af vopnum.” Úkraínska vefritið Ukrainska Pravda sagði frá heimsókn Boris Johnsn til Kiev 5. maí, og greindi frá fundi hans með Zelensky. Boris Johnson kom með þau skilaboð frá «sameinuðu Vestrinu» til forsetans og Úkraínumanna að «jafnvel þótt Úkraínumenn væru tilbúnir að undirrita eitthvert samkomulag um tryggingar við Pútín værum [við] það ekki... Pútín er stríðsglæpamaður, það þarf að beita hann þrýstingi, ekki samningaviðræðum (he should be pressured, not negotiated with)». https://www.pravda.com.ua/eng/news/2022/05/5/7344206/

Ekki óvænt sendi NATO forstjóri Jens Stoltenberg út sama boðskap: “Úkraína getur unnið þetta stríð” og bætir við að NATO verði að halda áfram að auka hernaðarhjálpina við Kíev”. https://www.stuff.co.nz/world/europe/300588804/ukraine-can-win-this-war-against-russia-says-nato-chief

Vestrið hefur samt ekki allt «sameinað» í afstöðu sinni. Það sést m.a. á því að eftir að Boris Johnson heimsótti Kiev hefur Macron Frakklandsforseti tjáð þá skoðun sína að friður muni aðeins nást gegnum samninga: «Við viljum hafa frið að byggja morgundaginn á... Við verðum að gera það með Rússland og Úkraínu við borðið.” Og hann varaði við því að reyna að «auðmýkja Rússa». https://www.euronews.com/my-europe/2022/05/09/macron-warns-against-humiliating-russia-over-war-in-ukraine Macron er hins vegar einn fárra leiðtoga Vesturlanda sem hefur verið í sambandi við Kremlverja. Anthony Blinken hefur t.d. ekki talað við Lavrov kollega sinn síðan innrásin hófst. Hann telur væntanlega æskilegra að vopnin fái að tala.

Sigurhrópin eru ósk um framlengt stríð

Sigurmálflutningurinn býður fyrst og fremst upp á stigmögnun. Hann dregur á langinn hörmungar Úkraínu (og alþjóðlegu efnahagsafleiðingar sömuleiðis) og með hverri viku sem stríðið fær að þróast eykst hættan á glæfrum, mistökum eða asnaskap sem leiða til beinna átaka NATO og Bandaríkjanna við annað stærsta kjarnorkuveldi heims.

Á hinn bóginn eru litlar líkur til að Rússar játi sig sigraða og bakki út á næstunni, m.a. af því rússneska þjóðin sýnist deila þeirri hugmynd með Vladimír Pútín að Úkraína sem NATO-ríki væri “tilvistarógn” við sjálfstætt Rússland. Það er ekki heldur líklegt að Rússar víki mikið frá kröfunum þremur sem þeir settu fram áður en innrásin hófst. Sá ímyndaði «sigur» sem talað er um í Vestrinu fengist aldrei nema mjög mikið hefði gengið á áður, trúlegast stórstyrjöld sem varla verður «sigur» neins. Hvers konar stigmögnun stríðsins mun væntanlega ekki heldur draga úr tilfinningu Rússa fyrir «tilvistarógn» frá NATO, þvert á móti.

Framlenging stríðsins (í von um «sigur») og höfnun viðræðna um pólitíska lausn deilunnar boðar sem sagt ekkert nema skelfingu fyrir Úkraínu. Þjónar sú framlenging einhverjum tilgangi? Já, frá geópólitíska sjónarhólnum í Washington þjónar hún þeim tilgangi að «veikja Rússland» og þá væri tilgangi staðgengilsstríðsins náð. «Sigur»-málflutningurinn hefur þann eina tilgang. Í þeim tilgangi hvetur Washington Útraínu til að fórna sér sjálfri.

Hver er afstaða Íslands? Ísland hefur enga utanríkisstefnu. Ísland er bara NATO-land, punktur. Hoppar þegar Washington eða Bussel segja «hoppa!» Annað ekki. Ísland getur að vísu ekki veitt Úkraínu hernaðaraðstoð, en tekur eftir megni þátt í þeirri efnahagslegu heimsstyrjöld sem hafin er gegn Rússlandi. Tekur líka fullan þátt í upplýsingastríðinu sem er einn grundvallarhluti hernaðarins. Ástandið í landinu og á samanlögðu Alþingi einkennist af stríðsæsingi til stuðnings við stríðið, við staðgengilshernað Vestursins. Katrín Jakobsdóttir segist auk þess styðja það ef Finnland og Svíþjóð sæki um NATO-aðild og vill stuðla að því að þær umsóknir yrðu afgreiddar með hraði. Það þýðir stuðningur við þá stækkun NATO sem þegar hefur leitt til til stríðs. Þar stendur meginstraumsvinstrið, en lengra út á vinstri kanti er stríðið ekki-þema. En sú dapurlega staðreynd er ekki þema þessarar greinar.