Wednesday, December 11, 2019

OPCW og reykskýið yfir Sýrlandsstríðinu

(birtist á Neistum 30. nóvember 2019)
                                                       Höfuðstöðvar OPCW í Haag               

Það er gott efni um Sýrlandsstríðið í síðustu Stundinni. Birt eru gögn frá Wikileaks sem sýna óheiðarlegar aðferðir Efnavopnastofnunarinnar í Haag, OPCW. Uppljóstrari úr rannsóknarteymi OPCW sem sent var á vettvang meintrar „efnavopnárásar“ í Douma (í útjaðri Damaskus) fordæmir hina opinberu skýrslu OPCW með hagræddum niðurstöðum um atburðinn, en þær hagræddu niðurstöðu voru „nýttar til að réttlæta loftárásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands" á Damaskus eins og Gunnar Hrafns Jónsson skrifar í greinargóðri og afhjúpandi grein um málið.

Það eru mikil og jákvæð tíðindi að áhrifamikill fjölmiðill á Íslandi skuli ganga gegn hinni opinberu mynd af Sýrlandsstríðinu, og virðist það tengjast upptekinni samvinnu Stundarinnar við Wikileaks. Og íaðsendri grein í netútgáfu Stundarinnar 26. nóvember skrifar Berta Finnbogadóttir nánar um það hvernig sannleikurinn um árásina í Douma hafi verið þaggaður niður af Vesturlöndum.

Það var frá upphafi fullkomin rökleysa í því að Sýrlandsher skyldi beita efnavopnum þegar hann var að vinna fullnaðarsigur á þessu svæði (ýmist kennti við Douma eða Ghouta) og kalla með því yfir sig aðgerðir vestrænna ríkja enda hafði Obama lýst yfir að beiting efnavopna væri „rauða strikið“ sem réttlæta myndi íhlutun. Og eftir þessar síðustu afhjúpanir blasir það við öllum sem vilja sjá að það var aldrei gerð nein „efnavopnaárás“ í Douma vorið 2018, umræddur „atburður“ var aðeins hluti af því reykskýi sem stöðugt er framleitt til að viðhalda íhlutun þeirra sem standa á bakvið stríðið gegn Sýrlandi.

Gleymum því ekki að Íslenska ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Damaskus 14. apríl. NATO lýsti yfir stuðningi við aðgerðirnar og Jens Stoltenberg sagði hiklaust að hann hefði til þess umboð allra NATO-ríkja.
Viðbrögð Guðlaugs Þórs voru bergmál af viðbrögðum t.d. Noregs og Danmerkur: Hann gaf sér að það væri rétt að a) efnavopnum hefði verið beitt í Douma og b) að Sýrlandsher hefði beitt þeim. Þess vegna væri það „skiljanlegt við þessar aðstæður að Frakkland, Bretland og Bandaríkin hafi ákveðið að hefja afmarkaðar loftárásir og það á staði sem geyma slík vopn og jafnframt senda þau skilaboð að notkun þeirra hafi afleiðingar í för með sér“ Sjá hér.

Allt er þetta mjög afhúpandi. Ferill Douma-efnavopnamálsins afhjúpar samspil meginstraumsmiðla, vestrænna ríkisstjórna og alþjóðastofnana til að viðhalda reykskýinu yfir Sýrlandsstríðinu. Og það afhjúpar sérstaklega OPCW sem eitt tannhjólið í vél ríkjandi afla.


Blekkingahernaður í skrefum
Fyrsta skref: Hvítu hjálmarnir æpa upp um efnavopnaárás í Douma – og hún geti bara hafa komið frá Sýrlandsher (orustan um Douma var þegar útkljáð). Annað skref: Meginstraumsmiðlarnir slá föstum „sannleikanum“ um efnavopnaárás. Þriðja skref: Bandaríkin, Bretland og Frakkland gera loftsekytaárásir á Damaskus áður en möguleg efnavopnaárás er rannsökuð (Guðlaugur Þór segir þá að það þurfi „að senda skýr skilaboð“). Fjórða skref: OPCW sendir rannsóknarteymi á vettvang. Fimmta skref: Tíu dögum síðar senda Rússar annað teymi til höfuðstöðva OPCW með vitnisburð sem styður ekki „sannleikann“ um efnavopnaárás. Sjötta skref: Bandaríkin, Ísland og 14 önnur ríki stimpla framtak Rússa sem „truflanir, áróður og falsfréttir“ og lýsa fullu trausti á OPCW (sjá grein Bertu). Sjöunda skref: Rannsóknarteymið skilar til yfirstjórnar OPCW skýrslu sem styður ekki „sannleikann“ um efnavopnaárás. Áttunda skref: Yfirstjórn OPCW sendir samt út skýrslu, ritskoðaða skýrslu, sem hægt er að túlka sem stuðning við „sannleikann“ um efnavopnaárás – að rannsóknin hafi útvegað „haldgóðar fosendur til að álykta að notkun eiturefna sem vopn hafi átt sér stað“ https://uk.reuters.com/article/uk-mideast-crisis-syria-chemicalweapons/chemical-weapons-agency-toxic-chemical-used-in-attack-on-syrian-rebel-town-last-april-idUKKCN1QI586 – og meginstraumsmiðlar útbásúnuðu þetta. Níunda skref: Uppljóstrari úr rannsóknarteymi OPCW stígur fram og bendir á að ritskoðaða skýrslan hagræði niðurstöðum rannsóknarteymisins og falsi þær þannig. Tíunda skref: Yfirforstjóri OPCW lýsti yfir í fyrradag 25 nóvember, þvert á framkomnar uppljósranir, að hann standi við fyrri yfirlýsingu um notkun eiturefnavopna.

Atburðurinn í Douma var sviðssetning stríðsaðila sem kölluðu eftir vestrænni íhlutun. Þegar engin spor fundust um efnavopn var rannsóknin fölsuð af OPCW. Þegar fölsunin er dregin fram í dagsljósið bregðast meginstraumsmiðlar almennt við með þögn. Einstaka eins og AFP vísa til reykskýsins yfir Sýrlandi og segir að þarna séu Rússar og Sýrlendingar „reyna að grugga vatnið varðandi meintar árásir herja Assads forseta.“ Sjá hér.

Sviðssetning, já. En í kringum hana birtu Hvíthjálmarnir margar myndir af dánum börnum sem áttu að vara „gasfórnarlömb“ frá Douma. Enn á eftir að svara því hvernig þessar myndir af raunverulegum barnalíkum eru til komnar. En það er hætt við að meginstraumsmiðlarnir hafi engan áhuga á því ef það samræmist ekki hinum fyrirframgefna „sannleika“ um Sýrlandsstríðið.

No comments:

Post a Comment