Monday, December 30, 2019

Brexit og breyttar átakalínur í stéttabaráttunni

(birtist á Neistar.is 29. des 2019)


Bresku kosningarnar 12. desember snérust um Brexit og niðurstaðan speglaði stéttalínur. Alveg eins og Brexitatkvæðagreiðslan 2016 gerði það, þótt margur tregðaðist við að sjá það þá. Nú blasir þetta við, breskur verkalýður öskrar það svo skýrt að ekki verður misskilið. Verkalýðurinn segist tilbúinn að búa við stéttaróvin sinn Boris Johnson næstu fjögur árin til þess eins að reyna að tryggja að staðið verði við það Brexit sem hann valdi 2016.

Atkvæðagreiðslan 2016 opinberaði mikla gjá á milli valdakerfisins og kjósenda. Ekki bara hafði almenningur á móti sér stjórnmálastéttina, fjármála- og bankavaldið og alla voldugustu fjölmiðla landsins auk ESB-elítunnar heldur líka NATO, Obama forseta og leiðtogafund G7 ríkjanna. Auk þess opinberaði atkvæðagreiðslan regingjá á milli London annars vegar og ensku landsbyggðarinnar hins vegar. Á ensku landsbyggðinni kaus 55-60% útgöngu en 40-45% að vera áfram í ESB. Í London kaus 40% útgöngu en 60% vildi vera kyrr. Sjá hér.

Kosningarnar núna staðfestu þessa útkomu á sinn hátt. Aðalkjörorð útgöngusinna 2016 var „Vote leave – take back control!“. Sem sagt krafan um að taka löggjöfina aftur inn í landið. Og verkalýðurinn vildi störf sín til baka, störf sem hafa horfið fyrir tilstilli þeirrar efnahagslegu frjálshyggju og hnattvæðingarstefnu sem flutt hefur iðnaðarstörfin yfir á láglaunasvæði. Samkvæmt því stóðu átökin milli sigurvegara og tapara í hnattvæðingunni. Fylgjendur ESB og fjórfrelsinsins segja hins vegar að átökin séu fyrst og fremst með og móti „kynþáttahyggju“ eða „þjóðernishyggju“. Sótsvartur almúginn hafi verið afvegaleiddur og þurfi því að kjósa aftur. Þess vegna var krafa Brexitsinna núna krafa sem Boris Johnson tók upp af pólitískum hyggindum: „Get it done!“


Útreið Labour
Nú í desember tapaði Verkamannaflokkurinn víðast hvar stórt, ekki síst á sterku verkalýðssvæðunum í Norður-Englandi og Midlands þar sem hann hefur haft áskrift að meirihlutafylgi allt frá flokksstofnun, svæði sem oft er talað um sem „Rauða múrinn“ (Red Wall). Labour hafði þvælt málið og Brexitstefnu sína í 3½ ár. Fyrst í þá veru að England skyldi vera áfram á innri markaðnum (hugmynd um EES-lausn) og síðan – þegar Teresu May gekk ekkert að semja við ESB – að endurtaka þyrfti Brexit atkvæðagreiðsluna. Þar með settist flokkurinn á ækið með bresku stjórnmálastéttinni og London-elítunni sem jafn lengi hefur þæft málið og reynt á sinn hrokafulla hátt að kollvarpa lýðræðislegri ákvörðun frá 2016. Öskur verkalýðsins núna þýddi: Hættið að þæfa málið! Hlustið á okkur! Sjá nánar.

Útkoman árið 2016 var alveg skýr og afdráttarlaus, með sögulega hárri kosningaþátttöku (72%, alveg óvenjulegt í ESB-samhengi) og átti að vera bindandi. Formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, er a.m.k. hálfvolgur Brexit-sinni sjálfur, en hann fór fyrir flokki sem lengi hefur verið kyrfilega ESB-sinnaður, NATO-sinnaður og inngróinn í markaðsfrelsi evrópumarkaðarins, hina frjálshyggjulegu hnattvæðingu og flest það sem verkalýðurinn hafnaði 2016. Hin loðnu viðbrögð og afstöðuleysi flokksforustunnar við útkomunni upplifðust því sem svik.

Mistök Corbyns voru auðvitað, í ljósi úrslitanna 2016, að virða ekki þá lýðræðislegu niðurstöðu sem fyrir lá og bjóða ekki síðan upp á útgönguprógram á forsendum verkalýðs og alþýðu. Með því að sleppa því lagði Corbyn allt Brexit eins og það lagði sig í hendurnar á refnum Boris Johnson, sem fékk fyrir vikið ótal „atkvæði að láni“.

Það blasir við að Verkamannaflokkurinn er ekki í tengslum við sína gömlu stéttarlegu umbjóðendur. Hann er orðinn miðstéttarflokkur, gegnsýrður af ESB-hagsmunum og viðhorfum hnattvæðingarelítu í London. Það breytir því ekki þótt flokkurinn hafi undir Corbyn haldi á loft ýmsum gömlum vinstri gildum og barist fyrir ýmsum þarflegum stefnumálum. Það breytir ekki heldur mati kjósenda þótt Boris Johnson hafi í kosningabaráttunni lofað ýmsum félagslegum umbótum sem hann er manna ólíklegastur til að efna. Hvernig og hvenær aðskilnaður stéttar og flokks verkamanna varð í Bretlandi er auðvitað lengri saga, talsvert lengri en nemur þessu 3½ ári, eins og enn mun sagt verða.

Niðurstaðan kosninganna speglar stéttarlínur sem áður segir. Í Bretlandi hafa stéttastjórnmál löngum verið skýr og línur hreinar, verkafólk kaus Labour og eignamenn og millistétt kusu Tories. En átökin um Brexit segja mikla sögu um nýjar í átakalínur stéttabaráttunni.

Hliðstæðar átakalínur birtast í Frakklandi í hreyfingu Gulu vestanna sem hefur nú mótmælt á götum borga og bæja um hverja helgi, einkum í minni og dreifðari borgum og bæjum Frakklands í á annað ár að mestu óháð hefðbundinni verkalýðshreyfingu og vinstri flokkum. Kröfur Gulvestunga eru m.a. gegn niðurskurðarstefnu, hækkun lágmarkslauna, bætt þjónusta á landsbyggðinni, aukið beint lýðræði gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur, gegn ESB-aðild.

Ég ætla nú að leyfa mér að vitna í þrjá höfunda sem komið hafa með áhugaverðar greiningar á einmitt „hinum nýju átakalínum stéttabaráttunnar“ í Bretlandi og Evrópu.


Almenn hnignun sósíaldemókrata
Athyglisverð grein eftir Jack Rasmus birtist á Global Research 18. desember sl. Hann stingur því vissulega ekki undir stól að úrslitin séu sigur fyrir þjóðernishyggju, enska jafnt sem skoska, og skrifar: „Í Bretlandi, líkt og í Bandaríkjunum, Evrópu og annars staðar, hefur auðvaldskerfið augljóslega gengið inn í tímabil „þjóðernislegs andsvars“ við minnkandi vaxtarhorfum alþjóðlegs kapítalisma. Þjóðernisstefna er andsvar við þeim samdrætti.“

Rasmus dvelur samt ekki lengi við þetta atriði til að skýra úrslitin í Bretlandi, en heldur áfram:

„Annað langtíma sögulegt hreyfiafl er hér líka að verki... Það er hnignun og hrun hefðbundinna sósíaldemókrataflokka. Sú hnignun er að hluta til vegna áratuga vondrar stjórnar af hálfu krataforustu sem hefur staðið með nýfrjálshyggjustefnu atvinnurekendaflokka í eigin löndum... Þegar verst lætur hefur þessi samvinna sósíaldemókrata við auðvaldssinnaða „andstæðinga“ sína síðustu 40 ár þýtt viðsnúinn fjöldainnflutning, þ.e.a.s. útflutning tugmilljóna af störfum iðnverkalýðs frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Evrópu og Japan til nýmarkaðslanda... Heilar kynslóðir verkalýðs í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu – sem nú eru skikkaðar í hlutastörf, skammtímastörf, ótrygg störf lítilla þjónustufyrirtækja og laus verkefni, án reynslu af að tilheyra stéttarfélögum – finna ekki lengur fyrir neinum skyldleika við hefðbundna sósíaldemókrataflokka... Sósíaldemókrataforingjar hafa á síðustu áratugum tekið þátt í, og haft umsjón með, eyðileggingu á eigin samtökum og fyrrverandi grunni undir eigin fylgi. Um leið og þeir leyfðu tortímingu eigin iðnverkalýðsstéttar þá fylgdi visnun og brotthvarf stéttarfélaga sem skipulagt stuðningsafl í kosningum.“

Greining Jack Rasmus segir heilmikið um stéttarlegt eðli hnattvæðingarinnar, hvernig hún er algjörlega á forsendum auðmagnsins og grefur kerfisbundið undan skipulegri og hefðbundinni verkalýðsbaráttu.


Tvöföld elíta
Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014. Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð og hefur ekki fengið þá dreifingu sem hún á skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri: „Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast...“ Piketty skrifar um „‘tilkomu fjölelítu flokkakerfis’; algera endurskipan flokkakerfisins út frá tvískiptingu á milli ‘hnattvæðingarsinna’ (hámenntun, hátekjur) og ‘heimalninga’ (lágmenntun, lágtekjur).“

[Nánari útfærsla Piketty á breytilegri tvískiptingu:] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.

Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður).“

Menntaelítuna kallar Piketty „brahmína“ og vísar þar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru þar prestar og fræðimenn. Samkvæmt þessu er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar, og vinstri flokkarnir orðnir að flokkum þessarar stéttar. Piketty notar enn fremur tilkomu þessarar tvöföldu elítu (kaupsýsluelítu og menntaelítu) til að skýra vöxt nýrra popúlískra flokka, og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi sósíaldemókrata yfir til þeirra. Sjá hér.

Að þessu sögðu má ekk gleyma að hægripopúlistar hafa gegnt verulegu hlutverki í Bretlandi þar sem popúlískur UKIP-flokkur Nigel Farage var meginafl á bak við sigur Brexitsinna 2016 og Brexitflokkur sama Farage var sigurvegari kosninganna til Evrópuþingsins í maí í vor, en í kosningunum í desember dró hann framboð sitt tilbaka í flestum kjördæmum, studdi þar Íhaldsflokkinn og að kosningum loknum lýsti hann yfir sigri í „stríðinu um Brexit“.


Frakkland – metrópóll og jaðar
Víkjum sögunni til Frakklands. Franskur landafræðingur, Christopher Guilluy, vakti mikla athygli 2014 með bókinni La France périphérique, Jaðarsvæði Frakklands. Hún sýnir hvernig verkalýður Frakklands lifir að mestu utan stærstu borganna og er utangarðs í efnahags-, menningar- og stjórnmálalífi. Hins vegar situr hnattvædd stórborgarelíta í París og örfáum stórborgum (líkt og í London og New York). Nokkru eftir útkomu bókarinnar hefur hreyfing „Gulvestunga“ sýnt að elítan hefur slaka stjórnartauma á þessum umrædda lýð, sérstaklega í minni og dreifðari bæjum Frakklands. Guilluy útlistar greiningu sína frekar í Twilight of the Elites: Prosperity and the Future of France (2019).

Vefritið  spiked  birti viðtal við Guilluy sl. vor og hann ræðir þar niðurstöður sínar. Grípum niður í viðtalið:
„Tæknilega séð virkar hnattvædda efnahagslíkanið vel. Það gefur mikinn auð. En það hefur enga þörf fyrir meirihluta íbúanna til að það virki. Það hefur ekki raunverulega þörf fyrir verkafólk sem vinnur líkamlega vinnu eða annað verkafólk eða sjálfstæða smáatvinnurekendur utan við stærstu bæina, París skapar nægan auð fyrir Frakkland og London gerir það sama fyrir Bretland. En það er ekki hægt að byggja samfélag kringum þetta. Gulvestungar eru uppreisn vinnandi stéttanna á þeim stöðum.
Það er fólk í vinnu en á mjög lágum launum... Sumt er mjög fátækt og atvinnulaust. Sumt var eitt sinn millistétt. Það sem það á sameiginlegt er að þar sem það býr er varla neina vinnu að hafa. Það veit að þótt það hafi vinnu í dag getur það misst hana á morgun og þá ekki fengið aðra.“

Spurður um menningarlegt gildi Gulvestunga svarar Guilluy: „Ekki bara farnast fólki jaðarsvæðanna illa í efnahagskerfi nútímans, það er menningarlega misskilið af elítunni. Hreyfing Gulvestunga er sönn 21. aldar hreyfing að því leyti að hún er menningarleg ekki síður en pólitísk. Menningarleg staðfesting er afar mikilvæg á okkar tímum.

Eitt einkenni á hinni menningarlegu gjá er að flestar nútímalegar framsæknar hreyfingar og mótmæli nú um stundir eru aðlöguð hinum frægu, leikurunum, fjölmiðlunum og menntafólki. En enginn þessara aðila viðurkennir Gulvestunga. Tilkoma Gulvestunga hefur valdið andlegu áfalli hjá ráðandi menningaröflum. Það er sama áfall og breska elítan upplifði með Brexit-atkvæðagreiðslunni og sem þau eru enn í þremur árum síðar. Brexit-kosningin hafði mikið með menningu að gera, fjallaði um fleira en að yfirgefa ESB. Margir kjósendur vildu minna stjórnmálastéttina á tilveru sína. Til þess nota Frakkar gul vesti – til að segja að við erum til. Við sjáum það sama í popúlískum uppreisnum vítt um heim.

Við höfum nýja tegund borgarastéttar... Ekki bara hagnast hún gríðarlega á hnattvædda hagkerfinu en hún hefur einnig framleitt ríkjandi menningarlegt hugarfar sem útilokar verkalýðinn. Hugsið bara um þá „ömurlegu“ (deplorables) sem Hillary Clinton kallaði fram. Svipað er viðhorfið til verkalýðsstéttarinnar í Frakklandi og Bretlandi.“ Sjá hér.

Margar afleiðingar af Brexit
Við munum sjá margs konar afleiðingar af Brexit. Ein afleiðing verður vísast styrking á ensk-amerískri blokk, í aukinni andstöðu við ESB undir þýsk-franskri stjórn þar sem Austur-Evrópa teymist illa til aukins samruna. En kannski verða þó áhrifin meiri inn á við, á stéttabaráttuna. Þær þrjár greiningar sem hér hafa verið lítillega raktar (frá Rasmus, Piketty og Guilluy) hjálpa til að setja Brexit-kosningarnar í Bretlandi í samhengi og gefa innsýn í komandi stéttabaráttu með breyttum átakalínum.

Wednesday, December 11, 2019

OPCW og reykskýið yfir Sýrlandsstríðinu

(birtist á Neistum 30. nóvember 2019)
                                                       Höfuðstöðvar OPCW í Haag               

Það er gott efni um Sýrlandsstríðið í síðustu Stundinni. Birt eru gögn frá Wikileaks sem sýna óheiðarlegar aðferðir Efnavopnastofnunarinnar í Haag, OPCW. Uppljóstrari úr rannsóknarteymi OPCW sem sent var á vettvang meintrar „efnavopnárásar“ í Douma (í útjaðri Damaskus) fordæmir hina opinberu skýrslu OPCW með hagræddum niðurstöðum um atburðinn, en þær hagræddu niðurstöðu voru „nýttar til að réttlæta loftárásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands" á Damaskus eins og Gunnar Hrafns Jónsson skrifar í greinargóðri og afhjúpandi grein um málið.

Það eru mikil og jákvæð tíðindi að áhrifamikill fjölmiðill á Íslandi skuli ganga gegn hinni opinberu mynd af Sýrlandsstríðinu, og virðist það tengjast upptekinni samvinnu Stundarinnar við Wikileaks. Og íaðsendri grein í netútgáfu Stundarinnar 26. nóvember skrifar Berta Finnbogadóttir nánar um það hvernig sannleikurinn um árásina í Douma hafi verið þaggaður niður af Vesturlöndum.

Það var frá upphafi fullkomin rökleysa í því að Sýrlandsher skyldi beita efnavopnum þegar hann var að vinna fullnaðarsigur á þessu svæði (ýmist kennti við Douma eða Ghouta) og kalla með því yfir sig aðgerðir vestrænna ríkja enda hafði Obama lýst yfir að beiting efnavopna væri „rauða strikið“ sem réttlæta myndi íhlutun. Og eftir þessar síðustu afhjúpanir blasir það við öllum sem vilja sjá að það var aldrei gerð nein „efnavopnaárás“ í Douma vorið 2018, umræddur „atburður“ var aðeins hluti af því reykskýi sem stöðugt er framleitt til að viðhalda íhlutun þeirra sem standa á bakvið stríðið gegn Sýrlandi.

Gleymum því ekki að Íslenska ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka á Damaskus 14. apríl. NATO lýsti yfir stuðningi við aðgerðirnar og Jens Stoltenberg sagði hiklaust að hann hefði til þess umboð allra NATO-ríkja.
Viðbrögð Guðlaugs Þórs voru bergmál af viðbrögðum t.d. Noregs og Danmerkur: Hann gaf sér að það væri rétt að a) efnavopnum hefði verið beitt í Douma og b) að Sýrlandsher hefði beitt þeim. Þess vegna væri það „skiljanlegt við þessar aðstæður að Frakkland, Bretland og Bandaríkin hafi ákveðið að hefja afmarkaðar loftárásir og það á staði sem geyma slík vopn og jafnframt senda þau skilaboð að notkun þeirra hafi afleiðingar í för með sér“ Sjá hér.

Allt er þetta mjög afhúpandi. Ferill Douma-efnavopnamálsins afhjúpar samspil meginstraumsmiðla, vestrænna ríkisstjórna og alþjóðastofnana til að viðhalda reykskýinu yfir Sýrlandsstríðinu. Og það afhjúpar sérstaklega OPCW sem eitt tannhjólið í vél ríkjandi afla.


Blekkingahernaður í skrefum
Fyrsta skref: Hvítu hjálmarnir æpa upp um efnavopnaárás í Douma – og hún geti bara hafa komið frá Sýrlandsher (orustan um Douma var þegar útkljáð). Annað skref: Meginstraumsmiðlarnir slá föstum „sannleikanum“ um efnavopnaárás. Þriðja skref: Bandaríkin, Bretland og Frakkland gera loftsekytaárásir á Damaskus áður en möguleg efnavopnaárás er rannsökuð (Guðlaugur Þór segir þá að það þurfi „að senda skýr skilaboð“). Fjórða skref: OPCW sendir rannsóknarteymi á vettvang. Fimmta skref: Tíu dögum síðar senda Rússar annað teymi til höfuðstöðva OPCW með vitnisburð sem styður ekki „sannleikann“ um efnavopnaárás. Sjötta skref: Bandaríkin, Ísland og 14 önnur ríki stimpla framtak Rússa sem „truflanir, áróður og falsfréttir“ og lýsa fullu trausti á OPCW (sjá grein Bertu). Sjöunda skref: Rannsóknarteymið skilar til yfirstjórnar OPCW skýrslu sem styður ekki „sannleikann“ um efnavopnaárás. Áttunda skref: Yfirstjórn OPCW sendir samt út skýrslu, ritskoðaða skýrslu, sem hægt er að túlka sem stuðning við „sannleikann“ um efnavopnaárás – að rannsóknin hafi útvegað „haldgóðar fosendur til að álykta að notkun eiturefna sem vopn hafi átt sér stað“ https://uk.reuters.com/article/uk-mideast-crisis-syria-chemicalweapons/chemical-weapons-agency-toxic-chemical-used-in-attack-on-syrian-rebel-town-last-april-idUKKCN1QI586 – og meginstraumsmiðlar útbásúnuðu þetta. Níunda skref: Uppljóstrari úr rannsóknarteymi OPCW stígur fram og bendir á að ritskoðaða skýrslan hagræði niðurstöðum rannsóknarteymisins og falsi þær þannig. Tíunda skref: Yfirforstjóri OPCW lýsti yfir í fyrradag 25 nóvember, þvert á framkomnar uppljósranir, að hann standi við fyrri yfirlýsingu um notkun eiturefnavopna.

Atburðurinn í Douma var sviðssetning stríðsaðila sem kölluðu eftir vestrænni íhlutun. Þegar engin spor fundust um efnavopn var rannsóknin fölsuð af OPCW. Þegar fölsunin er dregin fram í dagsljósið bregðast meginstraumsmiðlar almennt við með þögn. Einstaka eins og AFP vísa til reykskýsins yfir Sýrlandi og segir að þarna séu Rússar og Sýrlendingar „reyna að grugga vatnið varðandi meintar árásir herja Assads forseta.“ Sjá hér.

Sviðssetning, já. En í kringum hana birtu Hvíthjálmarnir margar myndir af dánum börnum sem áttu að vara „gasfórnarlömb“ frá Douma. Enn á eftir að svara því hvernig þessar myndir af raunverulegum barnalíkum eru til komnar. En það er hætt við að meginstraumsmiðlarnir hafi engan áhuga á því ef það samræmist ekki hinum fyrirframgefna „sannleika“ um Sýrlandsstríðið.