Wednesday, March 27, 2019

Rússarannsókn lokið - engar kærur

(birt á fésbók SHA 26. mars 2019)
                                                       Roberet Mueller sérstakur saksóknari


„Rannsókn undir stjórn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, leiddi ekki í ljós nein sönnunargögn fyrir því að Donald Trump og kosningabarátta hans hefðu haft samráð við rússnesk yfirvöld í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.“ (http://www.ruv.is/frett/trump-hafdi-ekki-samrad-vid-russa )

Ímyndið ykkur, þetta var beiskur kaleikur að tæma fyrir RÚV, enda er þetta stutt frétt og málið ekki endurtekið. Málið hefur verið risavaxið og tröllriðið bandarískum fréttaveitum í tvö ár, þar með öllum helstu vestrænum meginstraumsmiðlum og endurvarpsstöðinni RÚV. Fyrir réttu ári skrapp málið svo allmikið saman þegar Mueller, sérstakur saksóknari, ákærði þrettán vesæl rússnesk nettröll fyrir «upplýsingastríð», að reyna «grafa undan trausti» bandarískra kjósenda. Og nú sem sagt er „Rússarannsókn lokið“ og „engar ákærur lagðar fram“ um tengsl Trumps við Rússa.

Tapari málsins eru meginstraumsmiðlarnir. Mesta samsæri síðari tíma var blaðra sem sprakk. Þeir sitja eftir með flekkaðan blaðamennskufána. Fjölmiðlaveldið sem mest fordæmir samsæriskenningar er einmitt sú pressa sem mest hefur básúnað samsæriskenningu allra samsæriskenninga. Fjölmiðlaveldið sem gerði „fake news“ (falsfréttir) að sínu mikla vísdómsorði (um aðferðir Pútíns) er sama veldi og framleitt hefur í fréttafabrikkum sínum þessa stærstu „fake news“ síðari tíma. Pínlegt.

Bólan er sprungin vonum við, sennilega ekki horfin fyrir því. En hún hefur samt þjónað tilgangi sínum: aukið efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum, girt fyrir það sem virtist stefnumál hjá Trump – að koma á eðlilegu viðskiptasambandi við Rússa – aukið vopnaframleiðsluna og stríðshættuna um nokkur stig. Hlutir eins og tvær herstöðvar Bandaríkjanna og NATO í Noregi hægfara endurkoma stöðvarinnar á Íslandi tengjast þessu nokkuð beint líka og rífandi gangur á hlutunum.

Sunday, March 24, 2019

Launadeilurnar – sundrung og baráttueining

(birtist á Neistum.is 21 mars 2019)

                                                                        Verkvallsmerki Eflingar  
 
Kjaradeilurnar á vinnumarkaðnum harðna, það slitnar upp úr viðræðum – og jafnfram greinist verkalýðshreyfingin skýrar en áður í tvær fylkingar. Í gær, 20. mars, sagði formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV), Guðbrandur Einarsson, af sér formennsku. Hann lét svo um mælt að LÍV hefði verið komið vel á veg með að ná „ágætis kjarasamningi án átaka“, en fulltrúar stærsta félags verslunarmanna, VR, hefðu sett sambandinu stólinn fyrir dyrnar. Ragnar Þór Ingólfsson sagði hins vegar að tilboð SA til verslunarmanna hingað til hefðu falið í sér „kaupmáttarrýrnun handa meginþorra félagsmanna“. Á sama fundi í LÍV var svo Ragnar Þór kjörinn formaður sambandsins sem mun nú gerast aðili að samfloti VR með Eflingu stéttarfélagi, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Samhliða þessu gerðist það 19. mars að fjölmennur fundur Framsýnar stéttarfélags í Þingeyjarsýslu undir forustu Aðalsteins Baldurssonar afturkallaði samningsumboðið frá Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) og gekk til liðs við félögin í áðurnefndu samfloti. Einhugur ríkir augljóslega ekki í launþegahreyfingunni en eining baráttusinna staðfestist og styrkist.

Það hefur komið í ljós að ágreiningurinn bæði innan LÍV og innan SGS snýst annars vegar um baráttuaðferðir og hins vegar um um afstöðuna til styttingar vinnuvikunnar og „gagntilboða“ Samtaka atvinnulífsins (SA) þar að lútandi.

Í kröfugerðinni núna hefur verkalýðshreyfingin ákveðnar en áður krafist styttingar vinnuvikunnar. Það er góð og framsækin krafa. Núgildandi lög um 40 stunda vinnuviku voru sett fyrir hálfri öld, árið 1970. Frá 1970 hefur framleiðni í landinu margfaldast og væri eðlilegt að launafólk nyti þess, en löggilt vinnuvika er áfram óbreytt. Þess má geta að á hálfri öld þar á undan, 1920-70, styttist vinnuvika verkamanna (Dagsbrúnar) úr 66 tímum í 40. Krafa um styttingu vinnuviku er auk þess „græn stefnumörkun“ þar sem slík kjarabót kæmi fram í auknum frítíma frekar en aukinni neyslu.

En SA svara þessari kröfu með alls kyns mótleikjum: kröfum um styttingu eða brottfall kaffihlés starfs-manna, lengingu dagvinnutímabils (sá tími dagsins þegar greitt er dagvinnukaup) og lækkun á yfir-vinnuálagi (jafnvel úr 80% í 40%!). VR, Efling, VLFA og VLFGRV höfnuðu frá upphafi öllum hugmyndum SA í þessa veru. Og nú álykta Þingeyingarnir í Framsýn: „Framsýn hefur ítrekað látið bóka andstöðu sína í samninganefnd SGS og krafist þess að hugmyndum SA um vinnutímabreytingar væri vísað út af borðinu, en án árangurs. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið tilbúin að skoða frekari útfærslur á þessum breytingum með ákveðnum fyrirvörum.“

Draumur sumra verkalýðsforingja um „ágætis kjarasamninga án átaka“ mun naumast ganga eftir. Eftir vel heppnað hótelþernuverkfall 8. mars hefst á morgun, 22. mars, annars vegar verkfall félagsmanna VR í hópbifreiðafyrirtækjum og hins vegar verkfall félagsmanna Eflingar hjá hópbifreiðafyrirtækjum og 40 hótelum á starfssvæði félagsins. Baráttuandinn er góður. Raunveruleg breyting á tekjuskiptingu í landinu kemur ekki átakalaust. Gerum okkur ekki grillur um annað.

Monday, March 11, 2019

Netárás á Venesúela?

 (birtist á fésbók SHA 11. mars 2019)
                                             Caracas myrkvuð - eftir netárás?
                                         
Nicolas Maduro fullyrðir að stórfelld netárás hafi verið gerð á rafkerfið í Venesúela, og bendir á USA sem líklegasta sökudólg. Kanadíski höfundurinn Stephen Gowans færir rök fyrir að ásökunin sé ekki langsótt. Hann vitnar í New York Times frá því fyrr í vetur. Þar kemur fram að USA hefði hernaðaráætlun um netárás á dreifikerfi rafmagns í Íran ef skerast skyldi í odda milli landanna. Ennfremur segir þar „Such a use of cyberweapons is now a key element in war planning by all of the major world powers.“ NYT minnir á að USA og Israel hafi þegar gert stórfelldar netárásir á rannsóknarstöðvar Írans fyrir auðgun úrans. Nú um stundir hefur USA ennþá meiri áhuga á Venesúela en Íran. Er þá ekki netárás þar nærtækt snjallræði?